Your site
21. desember, 2024 14:39

Sjálfsmyndin og þú

Nú erum við búin að skoða stuttlega hvað við vitum um fullorðna námsmenn og hvernig það sem við vitum hefur áhrif á nám þeirra og kennslu þína. Við köfuðum dýpra í það hvað nám er og hvað það gæti þýtt fyrir kennsluna. Núna, til að draga saman er ekki úr vegi að líta í eigin barm og spá í hvað það sem við höfum séð þýðir fyrir okkur, fyrir mig og fyrir þig í hultverki þínu sem kennari fullorðins fólks. 

Sjálfsmynd okkar hefur gífurleg áhrif á það hvað við gerum og hvernig. Þannig hlýtur sjalfsmynd þín að móta það hvernig þú skipuleggur nám og kennir. Þess vegna er ekki úr vegi að spá í það hvert hlutverk þitt sé sem fullorðinsfræðara, sem kennara. Þú gætir verið bókmenntafræðingur, verkfræðingur, rafvirki, eða hjúkrunarfræðingur og sú menntun ásamt starfinu sem þú sinnir jafnvel á grunni hennar hefur örugglega haft mikil áhrif á það hvernig þú sérð sjálfa/n þig í samskiputum við aðra. En nú hefur þú tekið að þér annað hlutverk líka, og það er hlutverkið að skipuleggja og leiða nám fullorðins fólks, samstarfsfólks þíns, kollega, eða nemenda á námskeiði hjá fræðslumiðstöð eða félagasamtökum.  

Áskorun  
Hér væri ekki úr vegi að leita í reynslubrunninn – áður en lengra er haldið – og rifja upp minningu um kennara sem höfðu góð áhrif á þig á lífsleiðinni – alveg óháð skólastigi. Mannstu eftir kennara sem átti þátt í einhverju góðu í þínu lífi? Skrifaðu hjá þér nokkur atriði sem þú gætir sagt um viðkomandi kennara. Þú gætir rifjað upp hvernig framkoma hans/hennar var, hvert viðmótið var og hvaða afstaða til nemendanna kom fram í samskiptum. Sömuleiðis samband kennarans við fagið sitt og innihald kennslunnar. 

Hvert er þá þitt hlutverk? 

Þegar hópur fólks kemur saman til að læra þá er einhver ástæða fyrir því að fólkið ætlar að læra eitthvað í hóp, en ekki eitt og útaf fyrir sig. Í dag eru svo ótal margar leiðir til þess að verða sér úti um upplysingar að maður verður að ganga út frá því að fólk sem mætir á námskeið, hvort sem það er á netinu eða í kennslustofu, sé að leita að einhverju öðru og meira en bara upplýsingum. Það er á hreinu að það er minnsta mál fyrir fólk að verða sér uti um upplýsingar og jafnvel leiðsögn um öll þau viðfangsefni sem mann gæti dottið í hug, þannig að það ættu að vera einhver önnur gæði sem hjótast við það að læra í hóp og með leiðsögn kennara umfram upplýsingarnar sem við miðlum á námskeiðinu. 

Nemendur okkar eru fullorðnir og við vitum að það þýðir að væntingar þeirra þarfir – meðvitaðar eða ómeðvitaðar – eru aðrar en þarfir barna og unglinga á skólabekk.  

Við vitum líka að nám er vinna sem fólk vinnur eitt og sér en ekki síst í samfélagi við aðra. Nám er vinna sem flestir þurfa að inna af hendi einmitt í samhengi námskeiðsins og ekki í sínum frítíma, því þar koma aðrar skyldur og verkefni sem kalla. 

Byggt á því sem við vitum um þarfir  fullorðinna í námi, gætum við sagt að hlutverk okkar sem kennara séu í aðalatriðum þessi 7 (Byggt á Andragogy módeli Malkolm Knowles) 

  1. Skapa námsumhverfi með nemendum, sem styður við nám.  
  2. Að virkja þátttakendur í því að greina námsþarfir sínar. 
  3. Fá þátttakendur til að orða námsmarkmið sín og taka þátt í að skipuleggja námsferlið með þér, að svo miklu leiti sem aðstæður leyfa. 
  4. Að útvega, finna og benda á námsefni, námsgögn og aðferðir til að vinna með það.  
  5. Þá kemur að því að miðla innihaldi og reynast nemendum námsgagn sjálfur, þannig að þeir geti spurt og horft til þín sem fyrirmyndar líka. 
  6. Móta námsupplifunina, þannig að hún myndi áhugavert ferli sem stuðlar að árangri þátttakendanna. 
  7. Og að lokum að stuðla að mati á námsárangri og námsferlinu sjálfu. 

Samkvæmt þessu er það hlutverk okkar, sem kennara í fullorðinsfræðslunni, að móta námsupplifunina, þannig að ferlið sem slíkt styðji við markmið námskeiðsins og stuðli að námi. Þar erum við að tala um að raða t.d.  viðfangsefnum þannig að við byrjum á þekkingarstigi þátttakenda og vinnum þaðan. Þetta má gera með því t.d. að útbúa verkefni sem gefa þátttakendum tækfæri til að sigrast smám saman á efninu þannig að sjálfstraust þeirra eflist jafn óðum.  

Þessar hugmyndir fela líka í sér að finna leiðir til að gefa þátttakendum eins mikið rými til að koma að sköpun og útfærslu námsferlisins og innihaldi námsins, allt eftir því sem hæfni þáttakenda og ytri forsendur leyfa. Vissulega muntu finna fyrir óöryggi og jafnvel mótþróa þátttakenda, því þeir eru enn vanir því að kennarinn ráði öllu og leiði nemendur einfaldlega í gegnum sitt ferli. Í fullorðinsfræðslunni er aftur a móti nauðsynlegt, til að tryggja sem mestan árangur og gæði í námskeiðinu, að þátttakendur hafi eins mikið um námið að segja og mögulegt er við þínar aðstæður. 

Hvernig getur þú undirbúið þig? 

Það að vera kennari er verkefni sem felur það í sér að vera sjálf/ur alltaf að læra. Með því að fylgjast vel með í þínu fagi viðheldur þú áhuga þínum á því innihaldi sem þú ert að kenna, en tryggir líka að kennsla þín sé viðeigandi (e. relevant) og tali þá inn í aðstæður þátttakenda.  

Með því að setja þig stöðugt í spor nemenda þinna, læra um þá – bæði af rannsóknum um fullorðna námsmenn – en ekki síst með því að hafa raunverulegan áhuga á nemendum þínum, spyrja þá og læra af og með þeim. 

Og að lokum heldur það uppi gæðunum í kennslunni þegar þú ert stöðugt að læra meira um það hvernig má styðja við nám fullorðinna. 

Vertu frábær kennari! 

Þú hefur tekið að þér frábært hlutverk, þar sem þú hefur tækifæri til að hafa góð og varanleg áhrif á líf fólks sem opnar sig og gefur þér tækifæri til að hafa áhrif á sig. Þetta er tækifæri fyrir þig að kynnast áhugaverðu og góðu fólki og til að þroskast sjálf/ur og læra af þátttakendum þínum. 

Ég hvet þig til að grípa þetta [nýja] hlutverk þitt báðum höndum og gera þitt til að verða frábær kennari – hvers vegna stefna á annað en að verða frábær í þessu? 

Áskorun 
Skrifaðu hjá þér nokkur atriði sem þú tekur með þér þar sem þú ert búinn að fara í gegnum þetta stutta námskeið um það að kenna fullorðnu fólki.  Hvað stendur uppúr, hvað hefur þú lært, heyrt eða lesið sem einhverra hluta vegna situr eftir og þú heldur áfram að pæla í? Hvaða hugmyndir hefur þú fengið í tengslum við kennslu þína sem þú stefnir á að breyta eða hluti sem þú ætlar að byrja að gera sem þú gerðir ekki áður. Hvaða spurningar hafa vaknað…? 

Efnisyfirlit:

  1. Um það að kenna fullorðnum
  2. Það eru forréttindi að kenna fullorðnum
  3. Í sporum nemenda þinna
  4. Hvað vitum við um fullorðna námsmenn?
  5. Andragogy: Þekkt „kenning“ um sérstöðu fullorðinna námsmanna
  6. Þrjú sjónarhorn á sérstöðu fullorðinna námsmanna
  7. Hvað geta rannsóknir á þátttöku fólks í námi sagt okkur um fullorðna námsmenn?
  8. Nám fullorðinna í nútímanum
  9. Málið er að stuðla að NÁMI
  10. Fjórar tegundir náms
  11. Hvað læra fullorðnir?
  12. Hvernig lærir fólk?
  13. Út fyrir þægindarammann
  14. Sjálfsmyndin og þú

Skildu eftir svar