Your site
25. apríl, 2024 07:02

Af hverju ættir þú að nota fjölbreyttar aðferðir í kennslu?

Kennsluaðferðir eru trúlega mikilvægustu verkfæri kennarans. Segja má að kennsluaðferðir leiði námskeið að markmiðum sínum, styðji við innihald námskeiðsins og gæði það lífi. Kennsluaðferðirnar sem kennari velur búa til upplifun þátttakenda af því námsferli sem þeir taka þátt í og stuðla að námi þeirra. 

Kennsluaðferðir eru leiðir til að skipuleggja og stýra samskiptum milli kennara og nemenda og nemenda innbyrðis. Þessar aðferðir nýtast á alls konar námsferlum: Námskeiðum, málstofum, fræðsluerindum, ráðstefnum, vefstofum og námskeiðum á netinu – svo einhver séu nefnd. Val kennara á kennsluaðferðum hefur bein áhrif á samskipti á námskeiði og í öllum tegundum námsferla. Þannig leggur val þitt línurnar fyrir það hvers konar félagsform verður í námsferlinu. Kennsluaðferðir gefa til kynna og móta valdastrúktúr í hópnum. Þannig að val á aðferðum leiðir í ljós viðhorf kennarans til sjálfs sín og til nemenda sinna og um sýn hans á hlutverk sitt og hlutverk og hegðun þátttakenda. Aðferðirnar leiða í ljós hver stjórnar, hverju og hvernig. Þær stýra því hvaða hlutverk þátttakendur geta tekið sér og hvernig fólk vinnur saman. Þess vegna er nauðsynlegt að vanda valið og haga því þannig að aðferðirnar styðji við markmið námskeiðsins og áform kennarans með námskeiðið og mannskilning hans. 

Kennsluaðferðir hafa hver fyrir sig sinn tilgang í kennsluferlinu sjálfu og þær lúta ákveðnum reglum eða lögmálum eftir eðli þeirra. Þannig að eitt af því sem kennari þarf að tileinka sér í tengslum við beitingu kennsluaðferða er leikni í því að framkvæma og útfæra hverja kennsluaðferð fyrir sig. Þetta er nánast eins og þegar málari lærir að beita pensli og rúllu eða þegar smiður lærir að meðhöndla sporjárn og sög. Það er sem sagt ekki nóg að vita af verkfærinu í verkfærakistunni, heldur skiptir máli að vita hvenær passar að nota það og hvernig maður beitir því og síðan að þjálfa með sér leikni í að beita aðferðinni. Meðal iðnaðarmanna er gjarnan rætt um það að þegar iðnaðarmaður hefur náð góðu valdi á verkfæri þá renni saman verkfærið og höndin. Fagmanneskja finnur að hún og verkfærið verða eitt, það gleymist hvar hönd fagmanneskjunnar endar og verkfærið tekur við. Í kennslunni stefnir kennarinn að því að nota sínar aðferðir af sama öryggi.  

Mynd: Lachlan Donald á Unsplash 

Eins og smiðurinn, þarf kennarinn að hafa fjölmörg verkfæri í sinni verkfærakistu. Ástæður þess að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir eru margar. Við skulum skoða nokkrar þeirra: 

Í fyrsta lagi liggur í augum uppi að maður notar ólík verkfæri til að framkvæma ólíka hluti, vinna ólík verk. Það sama á við í kennslustofunni eða í hópi námsmanna, hvar sem þeir koma saman. Það þarf aðra aðferð til að byrja námskeið en til að enda það. Leiðbeinandi í fullorðinsfræðslunni beitir öðrum aðferðum til að miðla innihaldi en til að kanna námsárangur og svo framvegis. Þannig eru til ólíkar aðferðir fyrir ólík verk. Sumar kennsluaðferðir henta vel til að hefja kennslu, meðan aðrar nýtast vel til að fá nemendur til að vinna með innihald og túlka það inn í sínar eigin aðstæður. 

Í öðru lagi eru nemendur ólíkir innbyrðis, þeir hafa, hver fyrir sig, vanið sig á ólíkar leiðir til að læra og vinna. Þeir eru jafnvel þannig gerðir að ákveðnar leiðir við nám henta einum betur en öðrum. Þegar þú vinnur með hópum og vilt mæta sem flestum þátttakenda og þörfum þeirra í námi, getur verið ráðlegt að beita fjölbreyttum aðferðum. Sumir hlusta gjarnan og muna það sem þeir heyra, aðrir glíma við að halda athygli og gleyma því sem er sagt en muna því betur það sem þeir lesa og sjá og þannig mætti lengi telja. Þannig að með því að nota ólíkar aðferðir aukast líkurnar á að hitta á aðferðir sem henta öllum eða flestum þátttakendum. 

Fjölbreytileiki mannfólksins hefur leitt til fjölda kenninga um afleiðingar fjölbreytileikans á nám og kennslu. Þar má til dæmis nefna fjölgreindakenningu Howards Gardner (henni er td. vel lýst í bók Armstrong, Fjölgreindir í kennslustofunni, 2001) sem gengur út á það fyrst og fremst að opna huga kennara fyrir því að greindarprófin hefðbundnu gefa mun minni upplýsingar en margir hafa talið. Greindarpróf voru upphaflega hönnuð til að spá fyrir um gengi barna í gegnum skólakerfið, þannig að þau mældu og mæla enn, ákveðna afmarkaða færni eða hæfni fólks, t.d. hæfileika þess til að skilja texta, leysa þrautir og vinna með tölur. Gardner flokkaði hæfileika fólks í 8 flokka sem hann kallaði „greindir“ og fyrir kennara þýðir það að ólíkir einstaklingar velja gjarnan ólíkar leiðir til þess að vinna með flókin úrlausnarefni.  

Sumir hafa metið það sem svo að fólk hafi ákveðnar tilhneigingar frá fæðingu og temji sér síðan ólíkar leiðir til þess að læra flókna hluti og kalla það námsnálganir (e. learning styles). Í takt við þessa hugmynd komu fram nokkrar ólíkar kenningar um námsnálganir. Þekktastar eru trúlega kenningar David A, Kolbs (2005) annars vegar og Kenneth og Rita Dunn (Dunn, 1984) hins vegar. Hugmyndirnar að baki þeim ganga í aðalatriðum út á það að vegna þess að fólk sé misjafnlega „innréttað“ fari best á því að kennarar mæti fjölbreytileika í nemendahópnum með því að kynna sér fyrst námsnálganir hvers nemenda fyrir sig og ákveða síðan leiðir til að mæta ólíkum námsnálgunum þeirra með því að bjóða aðferðir og verkefni sem henta hverjum og einum. Þessi nálgun hefur þó undanfarið verið gagnrýnd alvarlega, sérstaklega vegna þess að rannsóknir hafa ekki sýnt fram á nægilega skýr tengsl milli þeirra „námsnálgana“ sem nemendur greindust með og aukins árangurs í námi ef kennarar laga kennslu að nemendum í samræmi við námsnálganir þeirra (sjá t.d. Coffield et al., 2004).  

Enn önnur leið til að skoða og mæta fjölbreytileikanum í nemendahópnum er á Íslandi kölluð „einstaklingsmiðuð kennsla“. Heitið er þýðing á enska hugtakinu „differenciated teaching“ sem Carol Ann Tomlinson kynnti um aldamótin síðustu (Tomlinson, 2014). Á grundvelli þeirrar nálgunar má mæta fjölbreytileika í nemendahópnum með því að skipuleggja kennsluna þannig að það séu ávallt nokkrar leiðir í boði til þess að tileinka sér námsefni og nokkrar leiðir til að vinna með það og nokkrar til að sýna og meta hæfni. Þannig geti kennari til dæmis boðið nemendum sínum upp á myndskeið, texta til að lesa sem eru til bæði á auðskildu máli og flóknara máli og hann getur haldið fyrirlestra til að miðla námsefninu. Sömuleiðis bjóðist nemendum nokkrar ólíkar leiðir til að vinna með námsefnið, til dæmis að skrifa texta útbúa leikþætti, teikna eða forma áþreifanleg efni, vinna eina eða í hópi o.s.frv. Þessi nálgun hefur orðið ofan á þegar horft er til þess að mæta fjölbreytileika í nemendahópnum, þar sem hún er hagkvæm og framkvæmanleg. Í dag gera margir kennarar ráð fyrir fjölbreytileikanum í nemendahópnum án þess að fara í þá miklu vinnu að hanna námsferli og velja leiðir fyrir hvern einstakan nemanda.  

Kafaðu dýpra
Til að ná betur utan um hugtakið einstaklingsmiðun í námi er vel þess virði að lesa grein Ingvars Sigurgeirssonar frá 2005, Um einstaklingsmiðað nám, opinn skóla og enn fleiri hugtök… Uppeldi Og Menntun, 14(2), 9–31.

Í fullorðinsfræðslu mætum við fjölbreytileika í nemendahópnum líka á grundvelli áhugahvatar nemenda. En áhugi fullorðinna á námsefni er oft tengd hugmyndum þeirra um gagnsemi þess sem þeir eru að læra. Það er því iðulega nauðsynlegt og gagnlegt að gefa nægilegt rými umræðum um gagnsemi námsefnisins og mögulegri nýtingu þess í lífi þátttakenda. Það samtal gæti alveg leitt til þess að kennari velji aðrar kennsluaðferðir en eru fyrirséðar í skipulaginu eða hann gæti jafnvel valið annað námsefni fyrir suma í hópnum.  

Að lokum má nefna atriði sem eru undir áhrifum niðurstaðna rannsókna í vitsmunasálfræði, sem hvetja til notkunar fjölbreytilegra kennsluaðferða. Þessi grein sálfræðinnar skoðar virkni hugans: Athyglisgáfu, áhuga, minni og almennt það hvernig heilinn vinnur úr áreiti eins og kennslu. Á grundvelli slíkra rannsókna má rökstyðja að það eitt að skipta reglulega um kennsluaðferðir hjálpi fólki að einbeita sér að námi, að halda athygli og viðhalda áhuga á námsefninu. Þetta hef ég sjálfur oft séð þegar ég fylgist með kennslu annarra: Þegar kennari skiptir um kennslumiðil eða kennsluaðferð er oft eins og nemendahópurinn lyftist upp og fái nýjan kraft til að vinna áfram með efnið. 

Það eru sem sagt margar ástæður fyrir því að koma sér upp góðu safni kennsluaðferða og halda stöðugt áfram að þróa aðferðasafnið og hæfni sína til að beita aðferðunum sem í safninu eru:  

  • Í fyrsta lagi liggur það í hlutarins eðli að við þurfum ólíkar aðferðir til að koma ólíku til leiðar í námsferlinu. Við notum þannig ólíkar aðferðir til að hefja námsferlið, til að byggja upp námssamfélag, til að miðla námsefni til að fá nemendur til að vinna sjálfir með efnið og svo beitum við enn öðrum aðferðum til að enda ferlið.  
  • Önnur ástæða fyrir því að velja og beita fjölbreytilegum kennsluaðferðum á námskeiði er að þannig getum við mætt þörfum fjölbreytilegs hóps þátttakenda. Nemendur finna að það koma alltaf einhverjar aðferðir sem henta þeim sérlega vel, þótt þær geri það ekki endilega allar.  
  • Þriðja ástæðan liggur í því sem við vitum um athygli, úrvinnslu og minni: Með því að skipta reglulega um aðferðir og kennslumiðla hjálpum við nemendum að halda athygli og vera virkir í kennslunni. 

Þannig má ljóst vera að þegar kennari undirbýr kennslu fyrir fullorðna er gott að finna fjölbreytilegar leiðir til að vinna með þátttakendum. Kennsluaðferðir sem standa til boða eru fjölmargar og hafa þær hver fyrir sig sinn tilgang í sérhverju náms- og kennsluferli. Þegar maður skipuleggur námskeið er því vert að horfa til þess hvernig slíkur námsatburður getur skipst niður í einingar og hvaða kennsluaðferðir henta til að framkvæma hverja ólíka einingu í kennslunni. 

Efnisyfirlit

Skildu eftir svar