Your site
14. júlí, 2024 06:50

Ráðstefna um tækni í námi og kennslu

iPad on Tanmay's jeans

Upplýsingatæknin er allt í kringum okkur. Við höfum hana í vasanum, við eyrað, og mörg sitjum við skjái stóran hluta dagsins og með iPaddinn í fanginu á kvöldin…. Samt vantar enn dálítið uppá að við getum nýtt hana til fulls í kennslu og við skipulagningu náms fyrir fullorðna.

Á ráðstefnu um notkun upplýsingatækni í fullorðinsfræðslu er hugmyndin:

  • að miðla góðum hugmyndum og sögum af velheppnuðum dæmum um notkun upplýsingatækni til að styðja við nám fullorðinna og
  • að gefa þátttakendum tækifæri til að læra nýjar aðferðir eða tileinka sér nýja tækni með því að prófa sjálfir og
  • að miðla nýjustu þekkingu og kenningum varðandi notkun upplýsingatækni við nám og kennslu.
Ráðstefnan hefst með dæmum um
  • notkun spjaldtölva við nám og kennslu og
  • félagslegt nám í óformlegum námshópum á netinu
Á ráðstefnunni verða þrír alþjóðlega viðurkenndir fræðimenn á þessu sviði:
  • Alastair Creelman (sem kennir við háskólann í Linnaeus í Svíþjóð) er einn aðalræðumanna ráðstefnunnar. Hann svarar spurningum eins og: Hvers vegna nýta upplýsingatækni til að styðja við nám og eru til raunveruleg dæmi um að notkun hennar hafi breytt einhverju… og ef svo, þá hverju?

  • Etienne og Beverly Wenger-Trayner munu halda sameiginlega hitt aðalerindi ráðstefnunnar. Það verður á aðeins fræðilegri nótum, þar sem þau ræða  hvernig kennari mótar félagsleg samskipti í hópi nemenda og getur nýtt upplýsingatækni eins og félagsmiðla til þess að nemendur fái enn meira út úr sameiginlegri vinnu sinni á námskeiði en ella.

Hádegisverður verður snæddur á Hótel Sögu og að honum loknum er boðið upp á vinnustofur á hótelinu.
Seinni hluta ráðstefnunnar skipta ráðstefnugestir sér niður á hagnýt verkstæði þar sem þeir geta lært meðal annars: að búa til kennslumyndbönd, nota spjaldtölvur í kennslunni eða farsíma. Þeir fá góð ráð og tækifæri til að ræða leiðir til að að snúa kennslustofunni á hvolf (Flipped Classroom) og nýta þannig tímann sem nemendur eru í skólanum í verkefnavinnu og heimavinnutímann í miðlunn nýrra upplýsinga og hugmynda. Þar að auki leiða Wenger – Trayner hjónin sérstakt verkstæði þar sem þau taka innihald og boðskap erindis síns, kafa dýpra og gefa þátttakendum tækifæri til að ræða frekari útfærslu hugmynda þeirra.

ATH!!!

Fyrir þá sem ekki sjá sér fært að mæta á staðinn bjóðum við upp á aðalfyrirlestrana í vefstofu sem hefst kl. 10:20. Þátttaka í henni er ókeypis, en þeir sem hafa hug á að vera með er beðnir um að skrá sig hér og fá senda slóð á vefstofuna miðvikudaginn 3. október.

Sjá dagskrá og skráningu  hér

Skildu eftir svar