Your site
14. desember, 2024 04:40

Verkfærakista kennarans

Fjölbreytt verkfæri 

Kennari hefur úr fjölda kennsluaðferða að velja þegar hann skipuleggur námsferli fyrir aðra. Kennsluaðferðir hafa ólíkan tilgang og móta samskipti nemenda og kennara á ólíkann hátt. Vilji maður flokka kennsluaðferðir eru til margar leiðir til að raða þeim upp og flokka. Ingvar Sigurgeirsson (2013) flokkar þær í níu flokka eftir tegundum í bók sinni Litróf kennsluaðferðanna: Útlistunarkennsla, Þulunám og þjálfun, Verklegar æfingar, Umræðu- og spurnaraðferðir, Innlifunaraðferðir og tjáning, Þrautalausnir, Leitaraðferðir, Hópvinnubrögð og Sjálfstæð skapandi viðfangsefni. Með þessu lagi flokkast aðferðirnar saman eftir tegund vinnunnar sem nemendur eða kennari inna af hendi. Aðferðir sem flokkast undir „Útlistunarkennslu“ snúast t.d. um það að einhver – oftast kennarinn – útlisti námsefni fyrir nemendum. Aðferðir sem flokkast með „Hópvinnubrögðum“ einkennast af því að nemendur vinna að verkefnum saman í misstórum hópum, o.s.frv. Hér ætlum við aftur á móti að skoða kennsluaðferðir út frá því hvenær við notum þær og til hvers. Því er ekki úr vegi að fara einfaldlega línulega yfir það sem gæti gerst í venjulegu námsferli eða kennslustund:  

  • Byrjun: Kennslan byrjar alltaf einhvern vegin. Skoðum hvað er í gangi og hvaða aðferðir gagnast vel í upphafi, til hvers við beitum þeim og hvers vegna. 
  • Miðlun námsefnis og stuðningur við nám: Námi fylgja alltaf einhverjar nýjar upplýsingar, hugmyndir eða aðferðir sem er miðlað á einhvern hátt til nemenda og í tengslum við miðlunina gerir kennari ýmislegt til að styðja við nám nemenda sinna. 
  • Úrvinnsla námsefnis: Þegar nemendur hafa kynnst námsefninu er nauðsynlegt fyrir þá að vinna sjálfir með námsefnið á einhvern hátt, með það fyrir augum að þeir öðlist einhverja leikni í meðhöndlun námsefnisins og geti beitt því sem þeir eru að læra í lífi og starfi. 
  • Endir: Námsferlinu lýkur einhvern tímann og á sama hátt og það er gagnlegt og nauðsynlegt að taka tíma til byrja námsferlið, er nauðsynlegt að taka tíma til að enda námskeiðið á góðum nótum. Skoðum aðferðir sem henta við endi námskeiðs. 

Hér fyrir ofan var námsferli: Námskeiði, morgunverðarfundi eða kennslustund skipt upp í fjóra hluta. Robert Gagné skipti kennsluferlinu upp í níu „atburði“ (Sjá hér að framan: Níu hlutar kennslu). Með því að skeyta þeim inn í fjórskipta mynd mína hér fyrir ofan fáum við 11 hluta sem við skulum skoða nánar hvern fyrir sig. 

Efnisyfirlit

Skildu eftir svar