Your site
11. nóvember, 2024 12:56

Endir ferlisins

„Allt er gott sem endar vel“ segjum við gjarnan. Það á líka við um námskeið og aðra námsferla. Það er alltaf gott og nauðsynlegt að taka tíma til að enda námskeið eða aðrar tegundir námssamvera. Ástæður fyrir því eru nokkrar. Fyrst kemur í huga grundvallarhugmynd úr Gestalt sálfræðinni sem hefur sýnt fram á að manneskjur vilja gjarnan „loka hringnum“, klára það sem þær byrjuðu á og vilja síður skilja eftir bil eða gloppur í myndinni, þannig að með því að taka tíma til að ljúka námskeiði, fundi, ráðstefnu eða kennslustund á áþreifanlegan hátt eru meiri líkur til að þátttakendur fari heim sáttir og að þeim finnist þeir hafi áorkað einhverju. 

Í öðru lagi ferðu í gegnum nauðsynleg skref sem stuðla að auknum námsárangri. Með því að rifja upp það sem gerðist, aukast líkurnar á því að þátttakendur muni innihald námskeiðsins. Með því að ræða um framhaldið kveikna gjarnan hugmyndir um hvernig þátttakendur geta aukið og viðhaldið leikni sinni. Með því að hvetja þau og með því að gefa þeim hugmyndir og verkfæri til að nýta það sem þeir lærðu.  

Og að lokum með því að taka tíma til að enda á góðum nótum aukast líkurnar á því að þátttakendur gangi sáttir út af námskeiðinu. 

Nákvæmari útfærslu á lokafasa námskeiðs má finna í aðferðaheftinu: Aðferðir fullorðinsfræðslunnar 

  

Lokaorð 

Við fórum af stað með fyrirsögnina „Fjölbreyttar kennsluaðferðir“ og ég hélt því fram í upphafi að kennsluaðferðir væru verkfæri kennarans og að eðli málsins samkvæmt þyrfti kennarinn að nota margar ólíkar kennsluaðferðir til þess að framkvæma alla þá ólíku hluti eða leiða alla þá ólíku „atburði“ sem koma fyrir i einu kennsluferli eins og námskeiði, málstofu eða ráðstefnu. Önnur rök fyrir því að kennarinn ætti að pakka verkfærakistuna sína fulla af aðferðum lágu í því að nemendur væru ólíkir og að ólíkar aðferðir höfðuðu til ólíkra nemenda og að lokum að tilbreyting viðheldur athygli og áhuga. 

Þá fórum við í gegnum níu mögulega „atburði“ eða þætti í námsferli – í boði Robert Gagné – og þræddum okkur í gegnum það helsta sem gæti verið að gerast í kennslustund, námskeiði eða öðru námsferli. Þannig vonaðist ég til að gefa yfirlit yfir allar þær ólíku aðstæður sem kalla á ólíkar og fjölbreyttar aðferðir. Í lokin kynnti ég hugmyndina um Samloku, þar sem maður pakkar kennslunni inn í nokkrar girnilegar samlokur þar sem ólíkar aðferðir þjóna ólíkum tilgangi og búa til „bragðgóða“ einingu sem stuðlar að námi og gefur þátttakendum tækifæri til að takast á við námsefnið á áhugaverðan hátt. 

Að því sögðu vandast málið aðeins, því þá kemur höfuðverkur kennarans: „Hvernig vel ég svo hvaða aðferðir ég ætla að nota?“ Við leituðum í smiðju Conti og Kalodi (2004) sem leggja til fjögur sjónarhorn sem sé vert að taka tillit til. Þau nefna sjónarhorn efnisins, kennarans, nemandans og aðstæðnanna. Öll sjónarhornin fjögur hafa áhrif. Þá sé vert að hafa í huga áhrif aðferðanna á valdastrúktúr á námskeiðinu og það hvernig aðferðirnar geti haft áhrif á markmið námskeiðs (Hér sæki ég í smiðju Kurt Müller, 1990), því um leið og maður hleypir að þáttum sem kennarinn hefur ekki fulla stjórn á geta nemendur komið með nýtt innihald inn í umræðuna sem getur breytt umræðu, innihaldi og þar af leiðandi – þegar allt kemur til alls – endanlegum markmiðum námskeiðsins. Þetta þarf þó ekki að vera slæmt, því gæði náms eru jú búin til með innihaldi námskeiðsins, framlagi kennara og framlagi nemenda, allt myndar þetta eina heild. Námskeið eru haldin til þess að þátttakendur sjálfir verði einhverju nær og þegar þeir hafa áhrif á námsferlið hefur það sýnt sig að áhugi eykst og þar með það sem þátttakendum finnst þeir fá út úr námferlinu sjálfu. 

Að lokum fórum við enn einu sinni yfir mögulegt kennsluferli og skoðuðum hvernig maður velur aðferðir fyrir hvern þeirra ellefu atburða sem ég lagði til að skoða. Þeir innihalda það helsta sem ég þekki og stuðlar að góðu ferli í kennslu…. 

Gangi þér vel að velja aðferðir og beita þeim. 

  

.

Efnisyfirlit

Skildu eftir svar