Your site
28. maí, 2024 17:48

Byrjun námsferlis

Upphaf námsferils er sérstakur tími, og það er kennarinn einn sem er í aðstöðu til að móta og leiða það ferli. Í upphafi námskeiðs þarf að svara nokkrum knýjandi spurningum eins og „Hvað mun gerast?“ „Af hverju ættum við að læra þetta?“ „Hverju verð ég nær þegar námsferlið er búið?“ „Hvernig fer námið fram?“ „Með hverjum er ég að læra?“ o.s.frv. Kennarinn þarf að velja aðferðir sem leiða þátttakendur í gegnum upphafið, þannig að þeir nái að verða virkir þátttakendur í námsferlinu sjálfu. 

1. Upphaf námskeiðs 

Sérhvert upphaf er alltaf sérstakur tími, orðatiltækin gefa okkur það skýrt til kynna:  

„Lengi lifir af fyrstu gerð“.  

„Gott upphaf fær góðan endi“.  

„Í upphafi skyldi endann skoða“.  

Sumir segja enn fremur að upphafið ákvarði framhaldið. Ef svo er skiptir miklu máli að vanda til verka þegar upphafið er skipulagt. Ef við skoðum huga okkar heiðarlega og ef við tökum mið af mörgu því sem hefur verið skrifað um upphaf náms og kennslu (sjá t.d. Geißler, 2005) hefur reynslan sýnt að upphaf námsferlis í fullorðinsfræðslu er iðulega erfiður og viðkvæmur tími fyrir þátttakendur og fyrir kennara.  

Það virðist engin leið fram hjá þessu, en leiðbeinandi getur notað ýmsar leiðir til þess að gera sér og þátttakendum þennan hluta námsferlisins auðveldari og tryggja að þátttakendur geti sem fyrst einbeitt sér að náminu sjálfu. Aðferðirnar leysa ekki vandann en eru nauðsynlegar til þess að þátttakendur komist vel í gegnum upphafsaðstæðurnar. 

Athafnir leiðbeinandans í fyrsta hluta námsferlis ættu að hafa eftirtalin markmið: 

 • Að stuðla að öryggi þátttakenda. 
 • Hjálpa þátttakendum að kynnast innbyrðis. 
 • Skapa með þátttakendum yfirlit yfir markmið, innihald og kennsluaðferðir. 
 • Gera þátttakendum grein fyrir því til hvers verður ætlast af þeim í námsþættinum (samvinnu, frumkvæði, sjálfsábyrgð í námi, heimavinnu o.s.frv.) 

Aðferðir sem gjarnan eru notaðar til að hjálpa þátttakendum að kynnast eru stundum kallaðar „ísbrjótar“. Nokkrar aðferðir sem hafa nýst mér vel má finna í sérstöku hefti með aðferðum fullorðinsfræðslunnar. Sömuleiðis má finna margar slíkar aðferðir með leit á netinu, t.d. með leitarorðunum: Icebreaker og Adult  

Sumir ísbrjótar eru leikir og verður kennari að meta hversu vel leikur passar við þátttakendahópinn, markmið- og innihald námskeiðsins, samhengið sem námskeiðið fer fram í og smekk kennarans. Það er oft skynsamlegt að byrja námskeið með aðferðum sem krefja nemendur ekki um að taka mikla áhættu strax í upphafi og ef það passar við innihald námskeiðsins að bjóða frekar upp á aðferðir sem geta reynst félagslega krefjandi þegar traust hefur skapast í hópnum. Það er margt sem mælir með notkun leikja í fullorðinsfræðslu, en þeir þurfa þó að stuðla að námi á námskeiðinu og mega ekki draga athyglina frá innihaldi þess og markmiðum. 

Ólíkar aðferðir kalla á ákveðna hegðun þátttakenda og geta dregið athygli að þeim sjálfum. Það reynist sumum erfitt. Sumir þátttakendur hafa til dæmis látið í ljós mikinn ótta tengdan hefðbundnum kynningarhring, þar sem hver þátttakandi á fætur öðrum segir nafn sitt, eitthvað um vinnu sína og markmið með því að sækja námskeiðið. Þegar verst lætur heyra þeir ekkert í öðrum þátttakendum og tilgangur aðferðarinnar: Að þátttakendur kynnist, næst ekki, því streitan og spennan tengd því að tala fyrir framan hóp ókunnugra tekur alla athygli, uns komið er að þeim. Slíkir „ísbrjótar“ hafa þann tilgang að auðvelda þátttakendum að kynnast, en ef sumir þátttakendur eru frosnir í stressi, nær aðferðin ekki tilgangi sínum. Það getur reynst mörgum auðveldara og skemmtilegra að kynna frekar sessunaut sinn, eftir að hafa tekið stutt viðtal við hann. Þá er athyglin á þeim á allt annan hátt. 

Aðrar aðferðir sem henta í upphafi eru meðal annars: 

 1. Nágrannaviðtal 
 2. Nafnaslanga 
 3. Kynningartafla 
 4. Kanna væntingar í upphafi 
 5. Kynna dagskrá 

Þú finnur þessar aðferðir og fleiri í sérstöku hefti með aðferðum: Aðferðir Fullorðinsfræðslunnar.  

2. Ná athygli 

Gagné setur fremst í lista sinn yfir 9 hluta kennslu, atburðinn: Að ná athygli. Hér erum við að tala um að hjálpa þátttakendum að „koma á staðinn“ (hvort sem hann er á netinu eða í kennslustofu), að verða andlega til staðar og byrja að einbeita sér að viðfangsefni námskeiðsins. Þetta á við um fyrsta skipti sem hópurinn hittist og upphaf allra annara skipta, ef þau eru mörg. Þessi atburður á líka við í hvert sinn sem við byrjum á nýju þema eða nýju viðfangsefni á námskeiðinu. Við þurfum að ná athygli nemendanna og vekja áhuga þeirra á því sem gerist næst. Sumir kalla þessar aðferðir „kveikjur“.  

Eins og áður hefur komið fram er það grundvallaratriði varðandi það að ná athygli almennt er að breyta eða skipta um skynáreiti. Þannig að í hvert sinn sem þú skiptir um umhverfi, kennslumiðil eða kennsluaðferð máttu búast við að athygli þátttakenda aukist. 

Aðferðir: 

 • Kveikjur alls konar (myndskeið, saga, dæmi, sýnishorn… sem vekur áhuga á innihaldinu) 
 • Spurnaraðferðir (Spyrja um þekkingu og / eða reynslu af efninu) 
 • 1-2 og allir  
 • Hóphugarkort (Þankahríð um innihaldið) 
 • Myndskeið (Stutt myndefni sem tengist viðfangsefninu á sláandi hátt) 
 • Saga: Tengist um viðfangsefni námskeiðsins  
 • „Ekki-dæmi“: Dæmi um það hvernig ætti ekki að gera 
 • Sýna áþreifanlegt dæmi: Þú getur kynnt slík dæmi með þessum orðum: „Þegar þessi tími er búin munið þið geta: Bakað svona köku…“ „…breytt myndum á þennan hátt í Photoshop…“ „…búið til svona leirker…“ 

3. Skýra markmið 

Markmið námsferlis eru lýsingar á því sem þátttakendur munu geta gert í lok ferlisins. Önnur heiti á markmiðum eru: Hæfniviðmið, lærdómsviðmið, niðurstaða, viðmið (e. Learning Outcomes). Kennari skipuleggur námsferli alltaf á grundvelli ákveðinna markmiða eða hæfniviðmiða. Flestir sem vinna með fullorðnum námsmönnum hvetja kennara til að byrja námskeið á því að gefa þátttakendum sjálfum tækifæri til að koma að ákvörðun markmiða námskeiðsins. Yfirleitt koma þátttakendur á námskeið vegna þeirra markmiða sem lágu til grundvallar skipulagi námskeiðsins og stóðu jafnvel í námskeiðslýsingu, en það munar miklu þegar þátttakendur fá tækifæri til að skoða, ræða og semja um markmið námskeiðsins líka. Kennarinn getur boðið upp á samningaviðræður sem gefa námskeiðinu skemmtilegt upphaf og hjálpa þátttakendum til að stilla sig inn á það sem koma skal. Iðulega eru þeir þakklátir fyrir að kennari sé tilbúinn að taka tillit til óska sinna og bæta við eða laga kennsluna að þeirra þörfum. Það er mín reynsla að kennari sem hefur undirbúið sig þokkalega vel fyrir námskeið lendir aldrei í vandræðum þótt þátttakendur komi fram með einhverjar óskir um markmið, yfirleitt eru óskirnar í takti við lýsingu á námskeiðinu og innan þess sviðs sem kennarinn ræður við. 

Aðferðir: 

 • Stuttur fyrirlestur 
 • Flettitafla með markmiðum 
 • Hópvinna um markmið 
 • Aðferðin: Kanna væntingar í upphafi 

4. Rifja upp forþekkingu 

Það er gömul meginregla í fullorðinsfræðslunni að byrja þar sem þátttakendur eru staddir og vinna þaðan. Sömuleiðis hefur námssálarfræðin sýnt fram á það að það auðveldar fólki að læra nýtt ef það getur tengt hið nýja við það sem það þekkir og kann fyrir. Þess vegna er gagnlegt að hjálpa þátttakendum að rifja upp það sem þeir vita um efnið áður en maður kynnir þeim nýjar upplýsingar. Það eru vissulega margar leiðir til þess að fá þátttakendur til að rifja forþekkingu sína upp. Málið er að spyrja góðra opinna spurninga sem fær þátttakendur til að leita í reynslusarpinn og kalla fram allt sem þeir vita um efnið.  

Aðferðir 

Allar tegundir spurninga og aðferðir við þankahríð virka hér ljómandi vel: 

 • Kall spurning 
 • Kortaspurning 
 • Hópavinna 
 • Hóphugarkort 
 • 1,2 og allir 
 • … 

Efnisyfirlit

Skildu eftir svar