Í sporum nemenda þinna

okt 8 2020 in by Hróbjartur Árnason

„Fullorðnir læra öðruvísi“… Þetta er fullyrðing sem að vissu leiti setti fullorðinsfræðslu og rannsóknir á námi fullorðinna á kortið. Sá sem er þekktastur fyrir að halda þessu fram hét Malcolm Knowles og hann hélt þessu fyrst fram í tímaritsgrein árið 1968 en hugmyndin er þekktust úr bók hans frá 1973: „Fullorðnir námsmenn, vanrækt tegund“. Með því að teygja veruleikann aðeins til mætti fullyrða að þessi bók og innihald hennar hafi átt sinn þátt í að koma pælingum um nám fullorðinna á kortið sem viðfangsefni rannsókna og skapa sérstakt fag við háskóla vesturlanda.

Hvers vegna skiptir máli að spá í sérstöðu fullorðinna námsmanna?

Fyrir okkur skiptir þessi fullyrðing máli vegna þess að þegar flest okkar byrja, eða byrjuðum að kenna höfðum við ekki annað að miða kennslu okkar við en fyrirmyndir sem við höfðum úr skóla. Ég reikna með að þú, eins og ég, hugsaðir: „Fullorðinsfræðsla hlýtur að vera eitthvað lík annarri fræðslu: Kennarinn talar, nemendur hlusta og glósa og svo læra þeir…!“

Reynslan kennir okkur aftur á móti að svona einfalt er það ekki. Við höfum séð að það eru alls konar hlutir sem valda því að nemendur okkar í fullorðinsfræðslunni hegða sér alls ekki eins og við áttum von á, alls ekki eins og okkur minnir að hlutirnir hafi verið þegar við vorum í skóla.

Louis-André-Gabriel Bouchet. „Jean-Antoine Chaptal (1756-1832), chimiste et homme politique“. Huile sur toile. Paris, musée Carnavalet.
 • Við kynnumst fólki sem er hrætt við skóla! Það kemur í ljós við nánari kynni að viðkomandi varð fyrir aðkasti, og jafnvel einelti í skóla vegna námsörðugleika.
 • Við tökum jafnvel eftir mótþróa þátttakenda við skipulagi eða innihaldi námskeiðsins – þannig að við lendum í vandræðum með að halda skipulagi okkar til streitu eða að réttlæta kennsluna.
 • Eða við lendum í því að þátttakandi virðist lítið eða ekkert hafa lært á námskeiðinu, þrátt fyrir að við höfum útskýrt allt vel og viðkomandi virtist ánægður og tæki þátt.

Rannsóknir á þátttöku fullorðinna í skipulögðu námi og rannsóknir á sérstöðu fullorðinna námsmanna samanborið við unga námsmenn gefa okkur verkfæri til að túlka það sem við sjáum í kennslustofunni eða á vefnum í gegnum það námsferli sem við erum að stýra. Ef við höfum pælt í því hvað sé sérstakt við það að vera fullorðinn og „sitja á skólabekk“ eða vera á einhvern hátt þátttakandi í námsferli á fullorðinsárum, þá eru mun meiri líkur á því að við getum ályktað og fundið ásættanleg og jafnvel jákvæð viðbrögð við óvæntum uppákomum. Annað sem er víst er að ef við nýtum okkur það sem við vitum um fullorðna námsmenn, getum við komið í veg fyrir mörg vandamál sem gætu komið upp og koma gjarnan upp. Sömuleiðis eru meiri líkur á því að okkur lánist að skipuleggja námsferli sem stuðla að námi og breytingum hjá þátttakendum.

Við getum því ályktað að þegar fullorðið fólk tekur þátt í skipulögðu námsferli, er ýmislegt annað í gangi en þegar við kennum hópi barna eða unglinga. Það hefur áhrif á skipulag námsferlisins, viðmót okkar og afstöðu til nemenda okkar og þess sem gæti komið uppá í hópnum. Hvort sem við kennum í kennslustofu eða á vefnum þá skiptir það máli að við gerum okkur grein fyrir aðstæðum og þörfum nemenda okkar og hvernig við getum mætt þeim. Það er einmitt það sem við ætlum að skoða hér. Við munum skoða hvernig við afmörkum  fullorðna námsmenn frá öðrum, hvað við vitum um þá og hvaða afleiðingar það getur haft fyrir kennsluna. Við munum líka skoða hvað við vitum um þátttöku fullorðinna í skipulögðum námsferlum og hvaða áhrif samfélagslegrar þróunar í nútímanum hefur á hugmyndir okkar um það hvernig sé skynsamlegt að skipuleggja nám fyrir fullorðna.

Hverjir eru þessir fullorðnu námsmenn?

Þegar við ákveðum að tala um fólk sem tekur þátt í námskeiði eða ráðstefnu sem „fullorðna námsmenn“ er það vegna þess að við viljum greina þá frá unglingum sem eru í grunnskóla eða framhaldskóla. Fullorðið fólk sem einhverra vegna tekur þátt í skipulögðu námi, þ.e. námi sem einhver annar hefur skipulagt fyrir það, má kalla fullorðna námsmenn. Það er í hlutverki námsmanns á meðan það tekur þátt í viðkomandi námsferli. Það er hluti af lífinu að læra, þannig að vissulega getum við alltaf verið að læra, en það er ýmislegt sem breytist þegar við förum á fund, tökum þátt í ráðstefnu, förum á námskeið í vinnunni eða hjá fræðslumiðstöð… að ég tali nú ekki um ef við „setjumst aftur á skólabekk“! Þannig að þegar við erum að tala um fólk í þessum aðstæðum þá köllum við það gjarnan „fullorðna námsmenn“ til að setja verkefni þeirra, nám, á oddinn.

Hlutverk, væntingar, tilfinningar, viðhorf og hegðun þátttakenda verða sérstök í þessum kringumstæðum. Ef þátttakendurnir eru fullorðið fólk, má búast við að málin snúi öðru vísi en ef um unglinga í skyldunámi er að ræða.

En hverjir eru þá þessir fullorðnu námsmenn? Hvenær verður maður t.d. nógu gamall til að teljast fullorðinn í þessari umræðu? Svarið við seinni spurningunni fer eftir því hvern þú spyrð og í hvaða samhengi umræðan fer fram. Ef umræðan snýst um peninga, til dæmis um það hvaða menntunarúrræði ríkið er tilbúið að borga, þá lítur málið öðru vísi út en ef við erum að spá í það sem einkennir viðhorf, væntingar og hegðun fólks á námskeiði.

Margir hafa skrifað um þetta, en hér læt ég duga að vitna í Malcolm Knowles, sem kynnir til sögunnar 4 sjónarhorn: Líffræðileg skilgreining: Við verðum fullorðin þegar við getum eignast börn. Lagaleg skilgreining: Þegar lög segja einstakling verða sjálfráða. Félagsleg: Þegar við tökum að okkur hlutverk fullorðinna eins og að vinna í fullu starfi, stofnum heimili, eignumst maka og eða börn o.s.frv. Andleg: Þegar við öðlumst þá sjálfsmynd að við séum ábyrg fyrir okkar eigin lifi og stýrum því sjálf (Knowles o.fl. 2005 bls 46).

Það er þessi síðastnefnda skilgreining sem passar best við okkar umræðu, eða hefur mest að segja þegar við skoðum sérstöðu fullorðinna þegar kemur að námi. Fullorðnir námsmenn eru fólk sem sér sig sjálft sem sjálfstætt og ábyrgt fyrir lífi sínu. Það stýrir tíma sínum, fjármunum og öðrum gæðum og ber jafnvel ábyrgð á fleirum, eins og maka og börnum.

Áskorun: Hvað veistu um fullorðna námsmenn?
Áður en við förum lengra ættir þú að spá aðeins í hvað þú veist, eða telur þig vita um fullorðna þegar þeir eru í hlutverki námsmanna.
Byggt á þeirri reynslu sem þú hefur af fullorðnum í hlutverki námsmanna, eða af eigin reynslu sem fullorðinn þátttakandi í námskeiðum, fundum eða ráðstefnum… Hvað sýnist þér einkenna fullorðna námsmenn? – Sérstaklega ef við berum þá saman við unglinga í skyldunámi.
Skrifaðu svörin hjá þér og settu svo þrjú einkenni, eitt í hvern reit hér:

Þegar þú ert búin/n að senda svarið inn munt þú geta séð þitt svar ásamt svörum allra hinna sem hafa tekið þátt í þessu námskeiði á undan þér: Smelltu á See previous responses til að sjá svör allra.
ATH þessi svör eru nafnlaus.

Efnisyfirlit:

 1. Um það að kenna fullorðnum
 2. Það eru forréttindi að kenna fullorðnum
 3. Í sporum nemenda þinna
 4. Hvað vitum við um fullorðna námsmenn?
 5. Andragogy: Þekkt „kenning“ um sérstöðu fullorðinna námsmanna
 6. Þrjú sjónarhorn á sérstöðu fullorðinna námsmanna
 7. Hvað geta rannsóknir á þátttöku fólks í námi sagt okkur um fullorðna námsmenn?
 8. Nám fullorðinna í nútímanum
 9. Málið er að stuðla að NÁMI
 10. Fjórar tegundir náms
 11. Hvað læra fullorðnir?
 12. Hvernig lærir fólk?
 13. Út fyrir þægindarammann
 14. Sjálfsmyndin og þú