Your site
19. mars, 2024 09:59

Hvað geta rannsóknir á þátttöku fólks í námi sagt okkur um fullorðna námsmenn?

Önnur leið til að skoða hvað við vitum um sérstöðu fullorðinna námsmanna er að kafa ofan í rannsóknir á þátttöku fullorðinna í skipulögðu námi. Fyrir okkur er gagnlegt að gera það í okkar íslenska samhengi. Í samvinnu við nemendur mína, Höllu Valgeirsdóttur og Svövu Guðrúnu Sigurðardóttur gerði ég stuttlega grein fyrir þessum rannsóknum í grein með titilinum „Hvers vegna koma þau ekki“ (Hróbjartur Árnason o.fl., 2010). 

Þar var sjónum beint að því fólki sem tekur ekki þátt í skipulögðum námstilboðum fyrir fullorðna. Ástæðan fyrir þessari spurningu var sú að síðastliðin 30 ár og sérstaklega 20, hafa stjórnmálamenn, leiðtogar í atvinnulífi og menntun lagt æ meiri áherslu á að hækka menntunarstig þjóða og stuðla að námstækifærum fyrir fullorðið fólk undir fyrirsögninni „Lifelong Learning“ eða ævinám. (Sumir muna þó að á 10 áratug síðustu aldar gekk fyrirbærið undir nafninu símenntun.) Á Íslandi hefur þessi hreyfing verið sérlega áberandi í tengslum við kjarasamninga. Við hverja kjarasamningana á fætur öðrum hafa atvinnurekendur og launþegar verið sammála um að aukin menntun starfandi fólks myndi bæta kjör viðsemjenda. Þess vegna hefur það fé sem rennur í endurmenntunarsjóði tengda kjarasamningum margfaldast undanfarin 30 ár. 

Verkalýðshreyfingin og fullorðinsfræðsla 
Halldór Grönvold  hefur skrifað hefti sem gerir grein fyrir þátttöku verkalýðshreyfingarinnar í fullorðinsfræðslu og starfsmenntun. 

Þegar fjöldi opinberra stofnana, stjórnmálamenn og stéttarfélög sjá ævinám sem leið samfélagsins til að tryggja samkeppnisstöðu einstaklinga á vinnumarkaði, fyrirtækja í samkeppni og Íslendinga í alþjóðlegu samhengi verða áhugaleysi eða andstaða sumra við þátttöku í skipulögðu námi áhugaverð og geta kennt okkur heilmikið um það hvernig fólk hugsar um sjálft sig og nám.  

Eins og margir vita hefur sú staðreynd vakið áhyggjur stjórnvalda, að stærra hlutfall vinnandi fólks á Íslandi hefur ekki lokið framhaldskólaprófi en í þeim löndum sem við berum okkur  saman við. Hlutfallið hefur þó lækkað úr tæplega 40% um aldamótin í um 25% í kring um 2020. (Ríkistjórnin 2012 stefndi reyndar að því að sú tala yrði 10% árið 2020!) 

Rannsóknir á þátttöku í skipulagðri fræðslu sýna að það er helst fólk með meiri menntun sem sækir námskeið á fullorðinsárum, meðan þeir sem minnstu menntunina hafa, sækja síst í nám. 

Þegar við rýnum dýpra kemur í ljós að þeir sem velja síður að taka þátt í alls konar námskeiðum sjá námskeið ekki sem bestu leiðina til að læra það sem þeir þurfi að læra heldur læri maður bara best í vinnunni og af reynslunni  svaraði einn viðmælandi í viðtalsrannsókn (Paldanius, 2002). Aðrir vildu gjarnan mennta sig, en treystu sér ekki í þá vegferð vegna slæmrar reynslu af skólum og námi. Námsörðugleikar, jaðarsetning og einelti voru oftar en ekki nefnd sem ástæður fyrir óöryggi eða neikvæðu viðhorfi til fræðslu (Þóra Ásgeirsdóttir, 2009). 

Þegar sálfræðirannsóknir undanfarinna ára sýna okkur að vellíðan í skóla eða annarri fræðslustofnun sé lykilatriði til að fólk nái að læra eitthvað af viti, verður ljóst að það er nauðsynlegt fyrir okkur sem kennum að átta okkur á því að slæmar minningar úr skóla geti gert nemendur okkar óörugga og geta truflað nám þeirra. Þannig að eitt mikilvægasta verkefni okkar við skipulagningu náms og kennslu verður að stuðla að jákvæðu og styðjandi námsumhverfi á þeim námskeiðum sem við komum að. 

Efnisyfirlit:

  1. Um það að kenna fullorðnum
  2. Það eru forréttindi að kenna fullorðnum
  3. Í sporum nemenda þinna
  4. Hvað vitum við um fullorðna námsmenn?
  5. Andragogy: Þekkt „kenning“ um sérstöðu fullorðinna námsmanna
  6. Þrjú sjónarhorn á sérstöðu fullorðinna námsmanna
  7. Hvað geta rannsóknir á þátttöku fólks í námi sagt okkur um fullorðna námsmenn?
  8. Nám fullorðinna í nútímanum
  9. Málið er að stuðla að NÁMI
  10. Fjórar tegundir náms
  11. Hvað læra fullorðnir?
  12. Hvernig lærir fólk?
  13. Út fyrir þægindarammann
  14. Sjálfsmyndin og þú

Skildu eftir svar