Your site
20. febrúar, 2024 21:55

Út fyrir þægindarammann

„Teach Yourself How to Dance“ eftir Sanshōsai 

Ef nám snýst um breytingar, þá felur það í sér einhverja nýjung. Nýjar upplýsingar geta leitt til nýrrar þekkingar eða þróun á þekkingu. Þegar við breytum hegðun þá tekur við  hegðun. Við skiptum nýjum venjum út fyrir gamlar. Þannig að til þess að fólk læri, þarf það að fara út fyrir þægindaramma sinn, máta nýjar upplýsingar við þekkingu sína, gera eitthvað sem er öðru vísi en það er vant. Þannig að þar sem við erum að kenna fullorðnum þýðir það að þeir þurfa að færa sig yfir á ókannaðar slóðir. Af mörgum ástæðum getur það leitt til mótþróa við náminu sem getur bæði verið meðvitaður og ómeðvitaður. Ætli við þekkjum ekki öll dæmi um það að við sjálf eða aðrir hafa ekki lært hluti sem ættu í sjálfu sér að vera auðvelt að læra, en einhverra vegna gerðist það ekki. Námsefnið stangaðist á við fyrri þekkingu okkar, það virtist ekki gagnlegt eða passa inn i okkar aðstæður eða það ögraði viðhorfum okkar eða krafðist hegðunar sem við treystum okkur ekki til, eða trúðum ekki að við myndum ráða við á einhvern hátt.  

Óöryggi er tilfinning sem hefur mikil áhrif á nám. Fullorðnir eru vanir að hafa nokkuð gott vald á sjálfum sér og umhverfi sínu. En ef námið krefst þess að námsmenn færi sig yfir á óvissar slóðir á einhvern hátt er eins víst að þeir láti það vera. Það sem við sem kennarar getum gert til að auka líkurnar á því að nemendur okkar prófi nýju hugmyndirnar eða hegðunina er fyrst og fremst að skapa öruggt námsumhverfi þar sem er í lagi að spyrja, og prófa sig áfram og það er í lagi að mistakast og prófa aftur. Með því að skapa umhverfi þar sem allir eru meðvitaðir um að viðfangsefni hópsins er að læra og þroskast saman, prófa ný hugtök, nýjar aðferðir og breytta hegðun, eru meiri líkur á því að þátttakendur taki stökkið og prófi. Með skipulagi og góðu fordæmi getum við skapað öruggt umhverfi sem einkennist af hvatningu, stuðningi og vilja og með því að útbúa spennandi verkefni má skapa tækifæri fyrir fólk að fara út fyrir þægindaramman og prófa nýtt. 

Að lokum 

Nám er ferli sem við mannfólkið notum til að breyta lifi okkar til hins betra. Í gegnum nám getum við gert hluti sem okkur dreymdi aðeins um að gera áður. Við getum ekið bíl, bakað brauð, breytt ljósmyndum okkar, sótt um ábyrgðarmeiri störf o.s.frv. Nám er það sem við grípum til þegar við viljum breytingar í lífi okkar. Við höfum séð að það eru ólíkar tegundir náms sem rista misjafnleg djúpt í mannsandann og geta því reynst fólki miserfiðar. Sömuleiðis er ekki sama hvað fólk er að læra. Það kallar á aðra vinnu að læra staðreyndir, hugtök og  

hugmyndir en að læra líkamlegar hreyfingar, aðferðir og enn aðrar þegar við bjóðum fólki tækifæri til að vinna með viðhorf sín. Hverju sem því líður þá er nám ávalt stökk út fyrir þægindarramman og það gerir fólk helst í öruggu umhverfi. 

Áskorun 
Staldraðu aðeins við núna til að spá í þína eigin kennslu og það hvers konar nám fer fram í einhverju tilteknu námsferli sem þú hannar og/eða leiðir. Hvernig ætli samspili þekkingar, leikni og viðhorfa sé háttað? Hvað gætir þú þurft að bjóða uppá til þess að þátttakendur taki af skarið, fari út fyrir þægindarammann, taki áhættu og komist að minnsta kosti nokkrum skrefum nær því að ná valdi á því sem þeir eru að læra?

Efnisyfirlit:

 1. Um það að kenna fullorðnum
 2. Það eru forréttindi að kenna fullorðnum
 3. Í sporum nemenda þinna
 4. Hvað vitum við um fullorðna námsmenn?
 5. Andragogy: Þekkt „kenning“ um sérstöðu fullorðinna námsmanna
 6. Þrjú sjónarhorn á sérstöðu fullorðinna námsmanna
 7. Hvað geta rannsóknir á þátttöku fólks í námi sagt okkur um fullorðna námsmenn?
 8. Nám fullorðinna í nútímanum
 9. Málið er að stuðla að NÁMI
 10. Fjórar tegundir náms
 11. Hvað læra fullorðnir?
 12. Hvernig lærir fólk?
 13. Út fyrir þægindarammann
 14. Sjálfsmyndin og þú

Skildu eftir svar