Your site
16. september, 2024 02:31

Þrjú sjónarhorn á sérstöðu fullorðinna námsmanna

„30 hlutir sem við vitum um fullorðna námsmenn“ 

Ef við köstum netinu vítt má skoða sérstöðu fullorðinna námsmanna út frá nokkrum ólíkum sjónarhornum. Þá er ekki úr vegi að nýta sér greinar sem hjónin Susan og Ron Zemke birtu árið 1995. Hún er samantekt á fjölda rannsókna um fullorðna námsmenn, sérkenni þeirra og einkenni áratugina á undan. Þetta var í amk. þriðja sinn sem þau birtu slíka samantekt og þótti þeim lítið hafa bæst við á undangengnum árum. Niðurstöður sínar settu þau fram undir þremur fyrirsögnum, ég vel að styðjast við þeirra framsetningu hér því hún er hagnýt og og einföld: 

  • Hvað vitum við um áhugahvöt fullorðinna námsmanna? 
  • Hvað vitum við um skipulagningu náms fyrir fullorðna? 
  • Hvað vitum við um það að vinna með fullorðnum? 

1. Hvers vegna læra fullorðnir? 

Skiljanlega eru margar ástæður fyrir því að fólk tekur sér fyrir hendur að læra. Zemke hjónin draga fyrst fram rannsóknir á tveimur aðgreindum rannsóknarsviðum innan fullorðinsfræðslunnar. Í fyrsta lagi rannsóknir á því hverjir taka þátt í skipulögðu námi og hvers vegna (ekki) og í öðru lagi rannsóknir á svo kölluðu „sjálfstýrðu námi“ þ.e. á því þegar fólk tekur upp á því að læra eitthvað á eigin spýtur, og þau sýna hvernig þær hafa leitt ýmislegt í ljós um það sem hvetur fullorðna til náms. Það helsta sem hefur komið í ljós er að fullorðnir nota gjarnan nám og lærdóm til þess að takast á við breytingar. Rannsóknir á þátttöku hafa einmitt leitt í ljós að tiltölulega stórt hlutfall þeirra sem sækja námskeið eiga von á breytingum, standa í breytingum eða eru ný gengnir í gegnum þær. Fólk virðist fá aukinn áhuga á að læra í tengslum við atburði eins og barnseignir, skilnað, andlát nákominna, atvinnumissi, nýtt starf eða stöðuhækkun. Þá er margt sem bendir til þess að námsferli þar sem er ljóst hvaða gagn megi hafa af lærdóminum séu í augum fullorðinna áhugaverðari og á miðju námskeiði er hugur þeirra oft að leita að hagnýtri útfærslu þess innihalds sem er verið að vinna með. Tilgangur náms fullorðinna er þannig oftar en ekki hagnýtur, þó margir taki þátt í námi til að styrkja sjálfmyndina og/eða auka þroska sinn og víðsýni (Zemke & Zemke, 1995). Þekkt er dæmið um bókhaldsnámskeið hjá símenntunarmiðstöð úti á landi sem hét „Bókhald 1“ og var við það að detta út af dagskrá vegna þess hve fáir  þátttakendur skráðu sig á námskeiðið. Þá hugnaðist starfsmanni að breyta nafni námskeiðsins og nálgun lítillega og gaf því nafnið „Bókhald fyrir bændur“. Námskeiðið náði fullri skráningu næst þegar það var í boði og reyndist mjög vinsælt um nokkurt skeið. Þetta sýnir að bæði í lýsingu á námi og í framsetningu efnis og vali á verkefnum þurfa þeir sem skipuleggja og leiða nám fyrir fullorðna að sjá námið í ljósi þess sem þátttakendur fá út úr því að taka þátt, hverju þeir verða nær að námi loknu. 

2. Hvað vitum við um skipulagningu náms fyrir fullorðna? 

Zemke hjónin fundu í samantekt sinni nokkur atriði sem eru ólík því sem við eigum að venjast í skólastofum skyldunámsins:  

Fyrst nefna þau að fullorðnir sæki frekar námskeið sem snúist um að leysa vanda, eða nálgist viðfangsefnið út frá afmörkuðu hagnýtu sjónarmiði frekar en námskeið sem gefa sögulegt eða þematíst yfirlit yfir efnið, eins og við þekkjum t.d. í inngangskúrsum í háskólum. Þau draga fram sömu hugmynd og Knowles um að fullorðnir læri til þess að finna lausnir á hagnýtum viðfangsefnum sem hvíla á þeim og eru áríðandi einmitt á þeim tíma sem þeir stunda námið. Það hefur t.d. lítið uppá sig að kenna fólki á nýja tölvukerfið 6 mánuðum áður en það er sett upp og er tilbúið til notkunar, sömuleiðis græða nýjir stjórnendur lítið á stjórnunarnámskeiðum ári eftir að þeir tóku við stjórnunarstarfinu, þá eru þeir þegar búnir að finna sér leiðir til að takast á við starfið og það verður erfitt að fá þá til að breyta hegðun sinni.  

Í þessum anda heyrir það til undirbúnings kennarans að skipuleggja leiðir – sem má nota fyrir, eftir og á meðan námskeiðinu stendur – til að stuðla að því að þátttakendur á námskeiði fái viðhlýtandi stuðning til að byrja að nota þær upplýsingar og aðferðir sem þeir læra á námskeiðinu. Þau ganga svo langt að halda því fram að geri maður það ekki sé það brot á þegjandi samkomulagi milli kennara og þátttakanda.  (Zemke og Zemke 1995) 

Zemke hjónin fundu líka nokkrar hliðar á miðlægri stöðu reynslunnar í námi fullorðinna. Eins og Knowles, nefna þau líka jákvæð og neikvæð áhrif fyrri reynslu og nauðsyn þess að vinna með hana í öllu námi fullorðinna. Reynslan er hluti af sjálfsmynd fullorðinna, þannig að upplýsingar sem stangast á við hana reynist þeim erfitt að samþykkja og því læra. Þá reynist þeim alltaf nauðsynlegt að vinna með nýja innihaldið og reynsluna, annað hvort að finna leiðir til að bæta nýju upplýsingunum við reynslu sína, eða aflæra gamlar hugmyndir til að geta lært þær nýju, allt eftir aðstæðum. Þess vegna er ávalt gagnlegt að búa til nægilega mörg og ólík tækifæri fyrir þátttakendur að setja reynslu sína á borðið og vinna með hana einir, í litlum hópum og jafnvel stundum í öllum hópnum. Þá er oft gagnlegt og nauðsynlegt að útbúa verkefni sem eru trúverðug og hafa skýr og skiljanleg tengsl við raunveruleika þátttakenda. 

Að lokum draga þau fram nauðsyn þess að hanna og skipuleggja námsferli þannig að þau passi fyrir blandaða hópa. Flestir hópar fullorðinna námsmanna innihalda fólk sem er ólíkt á margan hátt: Í aldri, reynslu (bæði magni og gæðum), sjónarhorni, gildum og námsnálgunum. Þess vegna er ávalt rétt að vera tilbúinn til að taka ólík dæmi í kynningum ásamt því að bjóða upp á fjölbreyttar leiðir til að verða sér úti um upplýsingarnar og til að vinna með námsefnið. 

3) Hvað vitum við um það að vinna með fullorðnum? 

Við höfum séð að fullorðnir mæta ólíkir til leiks í skipulögðum námsferlum. Sumir koma hikandi m.a. vegna slæmrar reynslu af skóla, aðrir eru vanir og mæta fullir eftirvæntingar. En eitt er víst að hjá öllum ríkir eitthvert óöryggi í upphafi. Við þurfum því að taka tíma til að byrja og skapa öruggt námsumhverfi, þannig að þátttakendur treysti sér til að fara út í þá vinnu sem þeir þurfa til að ná valdi á námsefninu. Um leið og fólk finnur að það er ekki virt sem fullorðið sjálfstætt fólk og jafnvel lítillækkað þegar það gerir tilraunir þess til að prófa sig áfram með námsefnið – þá erum við að hindra það í námi. Fjöldi rannsókna undanfarna hálfa öld –  

að minnsta kosti, og nýlega, undir hatti jákvæðrar sálfræði og taugafræði, hafa leitt í ljós miðlægt hlutverk tilfinninga í námi. Þannig hafa jákvæðar tilfinningar styðjandi og eflandi áhrif á nám á sama hátt og neikvæðar og slæmar tilfinningar hindra það. Þess vegna þurfum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að skapa öruggt, jákvætt og styðjandi námsumhverfi meðal þátttakenda. 

Við höfum talað mikið um það að gefa reynslu þátttakenda tilhlýðilegt rými. Það leiðir meðal annars til þess að það er áhrifaríkara fyrir okkur að taka okkur hlutverk verkstjóra eða lóðs (e. facilitator) en fyrirlesara. 

Hér er listi um það sem Zemke hjónin tóku eftir að flestir höfundar sem þau könnuðu væru sammála um að heyrði til hlutverka eða verkefna kennara í fullorðinsfræðslunni eða lóðs: 

  • Ákvarðar markmið vinnunnar með þátttakendum og gerir væntingar þeirra sýnilegar. 
  • Skapar viðeigandi rými fyrir þátttakendur að hafa áhrif á námsferlið. 
  • Notar spurnartækni sem stuðlar að gagnrýninni hugsun, upprifjun og skapandi vinnu með innihaldið. 
  • Ögrar og laðar þátttakendur út fyrir þægindarammann. 
  • Tekur tillit til þess að fullorðnir hafa ýmsu að tapa – og að þeir óttast að afhjúpa sig fyrir framan aðra. 
  • Heldur jafnvægi milli ólíkra atburða námsferlisins: Samtala, kynninga á innihaldi, æfingum og verkefnum og gerir það innan tímamarka. 
  • Skapar námsumhverfi þar sem reynsla þátttakenda fær að njóta sín, ólík viðhorf eru leyfileg og gerir greinilegt að oft eru margar lausnir á viðfangsefninu. 
  • Beitir lýsandi endurgjöf og styrkir þátttakendur í framlagi sínu til námskeiðsins og í árangri þeirra. (Zemke & Zemke, 1995) 

Ofangreind verkefni leiðbeinenda í fullorðinsfræðslunni gefa góða mynd af því sem er virkilega þess virði að stefna að. Eins og glöggt má sjá eru þeir sem starfa í fullorðinsfræðslunni og sem skrifa um hana sammála um að andrúmsloft á námskeiðum þarf að vera þannig að þátttakendur hafa eitthvað um ferlið að segja og þeir finna að það er sniðið að þeirra þörfum og þeirra nám er í öndvegi. 

Áskorun 
Kíktu á það sem þú skrifaðir út frá fullyrðingum Knowles um fullorðna námsmenn, er eitthvað sem þú myndir vilja bæta við í skipulagningu þína eftir þennan lestur. Bættu við hugsunum þínum þar sem það á við. 

Efnisyfirlit:

  1. Um það að kenna fullorðnum
  2. Það eru forréttindi að kenna fullorðnum
  3. Í sporum nemenda þinna
  4. Hvað vitum við um fullorðna námsmenn?
  5. Andragogy: Þekkt „kenning“ um sérstöðu fullorðinna námsmanna
  6. Þrjú sjónarhorn á sérstöðu fullorðinna námsmanna
  7. Hvað geta rannsóknir á þátttöku fólks í námi sagt okkur um fullorðna námsmenn?
  8. Nám fullorðinna í nútímanum
  9. Málið er að stuðla að NÁMI
  10. Fjórar tegundir náms
  11. Hvað læra fullorðnir?
  12. Hvernig lærir fólk?
  13. Út fyrir þægindarammann
  14. Sjálfsmyndin og þú

Skildu eftir svar