Your site
16. september, 2024 03:04

Hvernig lærir fólk?

Nám snýst um að fólk vinni með alls konar áreiti breyti því í nýja þekkingu, leikni eða viðhorf. Þessi áreiti mætti líka kalla upplýsingar, og þær geta verið textar, hljóð, myndir eða ferli (t.d. aðferðir).  

Vinnan getur og þarf, að fara fram á mismunandi hátt, allt eftir tilgangi, þörfum og samhengi. Ef ég ætla til dæmis að læra að skrifa á einhverju tungumáli sem notar aðra rithætti eða stafróf en við erum vön, þarf ég fyrst upplýsingar um útlit bókstafanna, merkingu þeirra (hljóð) og lýsingu á því hvernig maður dregur til stafs. Með þessar upplýsingar að vopni get ég svo snúið mér að því að æfa skriftina. Með því að draga aftur og aftur til stafs get ég smám saman náð því að skrifa snyrtilega bókstafi og gera það með viðeigandi hraða. 

Sumt getum við og viljum jafnvel gjarnan læra ein og með því að spá í það sjálf, æfa okkur og prófa okkur áfram með hið nýja. Þannig getur því verið farið með nýjar aðferðir í stærðfræði, eða þegar við lesum bókmennta­verk, þar erum við oftast að bæta nýju ofan á það sem við vitum fyrir.  

En þegar við förum að læra aðferðir sem tengjast vinnu okkar, eða túlkun okkar á textum eða að æfa okkur í því að nota ný orð eða beygingar í tungumálanámi, þá munar mikið um að gera það með öðrum. Það er æði margt sem við lærum betur með öðrum. Það er jú einmitt þess vegna sem við söfnum fólki saman í kennslustofur, fyrirlestrasali eða í námskeið fyrir hópa sem fara nokkuð samtímis í gegnum námsefni á vefnum eða í kennslustofum. Það er vegna þess að það er svo margt sem gerist í hinu félagslega sem styður við námið, gerir það breiðara, dýpra og eftirminnilegra. Við sjáum aðra læra og getum hermt eftir því sem þeir gera vel eða forðast þeirra mistök. Við getum borið okkur saman við aðra, speglað túlkun okkar á upplýsingum eða viðhorfum í viðbrögðum annara í samtölum, eða fengið uppbyggilega endurgjöf frá nemendum og kennurum við frammistöðu okkar og svo mætti lengi telja. Þannig að í dag, þar sem það eru til ótal leiðir til að miðla upplýsingum á nákvæman og ódýran hátt eða ókeypis hátt í gegnum internetið, þurfum við að réttlæta það fyrir okkur sjálfum og nemendum okkar þegar við söfnum þeim saman í tilteknu húsnæði á tilteknum stað og tíma. Ef það er ekkert annað í boði á staðnum en miðlun upplýsinga er erfitt að réttlæta ferðakostnað, tíma í ferðir og notkun á húsnæði. En um leið og við erum farin að bjóða upp á fleiri leiðir til að vinna með námsefnið í hópi erum við farin að nýta þá staðreynd að hópur ólíks fólks með mismunandi reynslu og sjónarmið bætir við eða jafnvel býr til gæði námsferlisins sem við skipuleggjum og leiðum.   

Efnisyfirlit:

  1. Um það að kenna fullorðnum
  2. Það eru forréttindi að kenna fullorðnum
  3. Í sporum nemenda þinna
  4. Hvað vitum við um fullorðna námsmenn?
  5. Andragogy: Þekkt „kenning“ um sérstöðu fullorðinna námsmanna
  6. Þrjú sjónarhorn á sérstöðu fullorðinna námsmanna
  7. Hvað geta rannsóknir á þátttöku fólks í námi sagt okkur um fullorðna námsmenn?
  8. Nám fullorðinna í nútímanum
  9. Málið er að stuðla að NÁMI
  10. Fjórar tegundir náms
  11. Hvað læra fullorðnir?
  12. Hvernig lærir fólk?
  13. Út fyrir þægindarammann
  14. Sjálfsmyndin og þú

Skildu eftir svar