Your site
19. mars, 2024 09:02

Unnið með nemendum á vefnum

Þátttakendur ræða hópvinnu sína á fjarfundi

Þegar við vinnum með nemendum okkar á línunni spyrjum við okkur gjarnan hvernig við getum útbúið áhugaverð námsferli þar sem þátttakendur geta tekist á við námsefnið á áhugaverðan og merkingarbæran hátt. Flest viljum við gjarnan virkja nemendur okkar á einhvern hátt. Einföld leið er að varpa fram spurningum og vonast eftir svörum og umræðum. Vandinn er að margir þátttakendur í fjarfundum veigra sér við að opinbera sig í gegnum fjarfundakerfi, sumir eru jafnvel tregir að sýna sig í mynd. Þá er einnig líklegt að sumir séu vanir því að það sem gerist á skjá tengist því að vera óvirkur áhorfandi en ekki virkur gerandi. En ef við viljum búa til námsatburði sem gagnast þátttakendum í námi sínu er full ástæða til að finna leiðir til að „draga þá út úr skelinni“ og bjóða þeim að verða virkir þátttakendur í atburðinum.

Ætli besta leiðin til þess að stuðla að virkni sé ekki að bjóða þátttakendum fyrst upp á einfaldar leiðir þar sem þeir verða smám saman sýnilegir og virkir. Þannig að við leyfum þeim að verða sýnilegir og virkir í nokkrum litlum öruggum skrefum jafnframt sem þeir verða öruggir í námsumhverfinu og í hópnum.

Ein þekktasta framsetning á hegðun kennara í fjarkennslu er framsetning Gilly Salmon í bók hennar eModerating þar sem hún setur þróun námskeiðs í fjarkennslu fram í fimm skrefum.

Fyrir nokkrum árum byggðum við nokkur á þessari hugmynd og þróuðum aðferð fyrir fjarfundi í fjórum skrefum byggðum m.a á hugmyndum Salmon.

  • Þar er fyrsta skrefið fólgið í því að hjálpa þátttakendum að læra á tæknilegt umhverfi námsins
  • Annað skrefið snýst um að kynnast og byrja að vinna með öðrum þátttakendum
  • Þriðja skrefið snýst svo um að byrja að vinna saman með innihald námsatburðarins
  • Fjórða skrefið opnar svo sviðið fyrir meira sjálfstæði og frumkvæði nemenda.

Lýsingu á þessu ferli má sjá hér

Ein einfaldasta leiðin til að koma þátttakendum af stað er trúlega að byrja með því að biðja þátttakendur að svara einfaldri spurningu í spjallþráðum fjarfundakerfisins. Kennarar bregðast svo við þátttakendum, nefna nöfn svarenda upphátt og gera hvert svar stuttlega að umræðuefni.

Aðferð sem margir þekkja og má nýta á þennan hátt er stundum kölluð 1, 2, og fleiri/allir, þátttakendur svara spurningu kennara fyrst einir skriflega á blað, bera síðan svör sín saman við svör „sessunauts“ eða nokkurra sessunauta áður en umræðan er tekin fyrir í öllum hópnum. Á netinu verða menn sessu nautar t.d. þegar við skiptum þeim í hópa í útskotsrýmum (Breakout rooms).

Gjarnan má nota þessa aðferð til að byrja námskeið og kanna væntingar þátttakenda til námskeiðsins. Þannig koma þeir á þægilegan og öruggan hátt inn í almenna umræðu í hópnum. Þessa aðferð má auðveldlega færa yfir í fjarfundaumhverfið.

Til þess að hjálpa þátttakendum að vinna með innihald námskeiðsins og tryggja að allir fái tækifæri til að viðra hugmyndir sínar, eða æfa sig í að vinna munnlega með námsefnið er tilvalið að skipta þeim í vinnuhópa. Núorðið bjóða allflest fjarfundakerfi upp á hópaskiptingar, s.k. „Break-out Rooms“. En hvernig getum við boðið fólki sem situr hvert við sína tölvu að vinna saman umfram það að tala saman?

Unnið með stórar „töflur“ eða „veggi“

Þátttakendur vinna með stóran vegg á verkstæði um kennslu

Það koma alls konar aðferðir til greina sem tengjast þankahríð (e.Brainstorm) til greina þegar maður vill virkja þátttakendur. Þeir rifja t. d. upp það sem þeir vita/muna um tiltekið efni eða safna hugmyndum að útfærslu þess sem þeir eru að læra. Einfaldast er að hvetja þátttakendur til að nota spjallþræði kerfisins til að skrá eins margar hugmyndir og þeim dettur í hug og ræða þær svo.

Sum kerfin hafa innbyggðar „Tússtöflur“ (e. Whiteboard) sem þátttakendur geta allir skrifað á í einu, þær má líka nota til að safna hugmyndum.

Aðeins þróaðri aðferðir eru svo kallaðar „Stýrðar umræður“ þar sem við bjóðum þátttakendum upp á nokkrar spurningar sem við biðjum þá um að ræða og gera grein fyrir í lok umræðnanna.

Dæmi:

  • Hvaða kostir eru í stöðunni?
  • Hvaða vandamál blasa við?
  • Hvað gæti áhugavert gerst
  • Hvernig lítur æskileg lausn út

Umræðuspurningar eins og þessar eru oft settar fram „myndrænt“ t.d. í nokkurs konar töflur með sínum reit fyrir hvert svar:

Kostir      

Vandamál

Áhugavert    

   
Æskilegt

Dæmi um töflu fyrir stýrðar umræður í hópum

Aðrar þekktar útgáfur af stýrðum umræðum eins og þessum eru SVÓT greiningar, 5 spurningar, 6 thinking hats o.s.frv. Hér má finna leiðbeiningar fyrir slíkar spurningar

Á vefnum má finna nokkrar sjálfstæðar þjónustur þar sem þátttakendur geta einir eða í hópum safnað svörum við spurningunum í reiti í slíkum töflum. Nokkrar slíkar þjónustur eru t.d. Microsoft Whiteboard , Mural , Miro, Padlet. Það má annað hvort útbúa sérstaka töflu fyrir hvern hóp að vinna á, eða útbúa svæði á stórri töflu þar sem hver hópur hefur sitt vinnusvæði.

Ræðum saman um fjarkennsluna by hrobjartur

Hér er dæmi úr fundi þar sem þessi verkfæri voru kynnt

You will be able to edit this mural.

Sömuleiðis hentar stundum að láta alla þátttakendur vinna á sama tíma, hver fyrir sig, á stórri töflu. Margar aðferðir sem þekktar eru úr skapandi vinnu með hópum eins og þankahríð, miðlunaraðferðin og gulu miða aðferðin henta vel þegar maður notar þjónustur eins og þessar.

Myndskeið sem útskýrir hvernig má nota þjónustuna Mural

Þegar hópar hafa unnið saman í tilskilinn tíma má kalla alla saman aftur í aðalrými fundarins og fá þátttakendur til að gera grein fyrir niðurstöðum sínum. Ef hópurinn er stór getur verið gagnlegt að fá niðurstöður frá takmörkuðum fjölda hópa. Það má spyrja annan hvern hóp um eitt atriði sem kom út úr hópavinnunni. Sömuleiðis má fara hratt á milli hópa og fara frekar nokkra hringi í stað þess að hver hópur kynni niðurstöður sinar löngu mali og hópar sem eru aftar í röðinni fá minni tima eða finnst þeir engu hafa að bæta við! Ef hópar eru margir og fulltrúar hópanna halda löng erindi um sína vinnu er hætt við að aðrir þátttakendur missi þráðinn og jafnvel áhugann. Þess vegna getur verið gott að fara hratt í gegnum hópana og fá eitt atriði frá hverjum og fara svo annan hring og fá ný atriði. Þannig heldur maður aðeins betur áhuga og athygli flestra þátttakenda.

Hópurinn skapar hugarkort saman

Hugarkort er myndræn framsetning á því sem við höfum í huga. Hugarkort er þaning uppbyggt að út frá miðjumynd (eða texta) sem tjáir aðalhugmynd hugarkortsins „geisla“ greinar sem innihalda aðalhugmyndir og tengdar undirhumyndir þeirra. Þannig gæti hugarkort um dýr á Íslandi geislað út frá korti af íslandi með orðinu “ Dýr“ skrifað yfir landið. Aðalgreinar tjá helstu flokka dýra, undirgreinar flokka dýrin enn frekar:

Slík hugarkort má gera í tölvum og sum forrit og þjónustur bjóða upp á samvinnumöguleika, þannig að ólíkir einstaklingar geta unnið hver á sinni tölvu í sama hugarkorti á sama tíma

Hér er dæmi um slíkt kort sem hver sem er getur breytt:

Hugarkort nýtast vel í þankahríð þegar fólk safnar hugmyndum og flokkar þær síðar. Góð leið til að fá hugmyndir allra í hópnum upp á borð og minnka neikvæð áhrif einstaklinga á hópinn eru s.k. hóphugarkort. Það byggir á sama grunni og aðferðin 1-2&allir: Fyrst býr hver þátttakandi fyrir sig til sitt hugarkort. Þá sameinast þátttakendur í litla hópa og í hverjum hópi sameina þeir kortin sín. Þegar allar hugmyndir allra í hópnunum eru komnar á sameiginleg kort má búa til nýtt þar sem hópmeðlimir flokka hugmyndirnar sinar betur og þróa þær. Það er fyrst á þessu stigi málsins að þátttakendur stroka út hugmyndir sem komu frá einhverjum hópmeðlimi. Þannig passar maður uppá að þátttakendur eru ekki sérstaklega tengdir hugmyndunum og áherslan verður á hugmyndirnar en ekki hver bar þær fram. Þegar hópurinn getur einbeitt sér að sameiginlegri mynd verða umræður oft skarpar og djúpar.

Kennari fylgist með nemendum sínum vinna í hópum.

Næsta skref er að sameina kort allra hópanna. Fljótleg leið til að gera það er þegar kennarinn býr til tómt hugarkort og biður þátttakendur að nefna aðalgreinar sem koma fyrir á kortunum þeirra svo reynir hann að sameina svipuð heiti á aðalgreinum frá öllum hópum. Þá biður hann hópana að nefna undirgreinar sem komu á tiltekna aðalgrein og bætir þeim við. Kennarinn leiðir almenna umræðu um innihald greinanna jafnóðum og eftir aðstæðum.

Við höfum nefnt tvær tegundir skjala sem nemendur geta unnið í saman og samtímis þrátt fyrir að sitja hver við sína tölvu langt frá hver öðrum: Töflur og hugarkort. Það er til fjöldi annara þjónusta á netinu sem nýtast í sama tilgangi. Kostur við þessar tvær er að báðar bjóða uppá að kennari búi til slóð í skjalið og sendi hana til þátttakenda sem þurfa svo ekki að skrá sig inn með notendanöfnum og lykilorðum. Galli við MindMeister er að með ókeypis aðgangi getur maður aðeins átt þrjú kort í safninu sínu. Það má leysa með því að stroka innihald kortana út við næstu notkun.

Eins og sjá má er hér á ferðinni yfirborðskennd lýsing á öflugum leiðum til að vinna með þátttakendum i fjarfundum en hér er hugmyndin fyrst og fremst að ýta folki sem kann til verka og getur sjálft rökstutt svona vinnubrögð í áttina að gjöfulum miðum.

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir þær þjónustur sem nefndar eru í textanum og nokkrar aðrar svipaðar með slóðum í leiðbeiningar og dæmi.

Gangi þér vel

Efnissafn: Hópavinna á vefnum

Það eru tenglar við flestar línur, tenglar eru gjarnan ósýnilegir þar til maður bendir á þá!

Hér eru dæmi um leiðir til að vinna með hópum á fjarfundum. Hugmyndin er að hópurinn vinni saman að sameiginlegri afurð á sjálfstæðri þjónustu eða tengdri þjónustu jafnframt því að vera í sambandi í gegnum fjarfundaþjónustu.

Nokkrar leiðir til að fá viðbrögð frá þátttakendum

Sendu þátttakendum slóð í spurningaform eða app þar sem þeir geta svarað spurningum frá kennara eða spurt kennara spurninga:

Stýrðar umræður

Unnið á striga / vegg

Þátttakendur skrifa, teikna á risastóran stafrænan vegg, skrifa á gula miða, vista skjöl, hlaða upp myndum o.s.frv. Þjónusturnar bjóða hver upp á sína kosti en virka á svipaðan hátt.

Hugarkort

Þátttakendur búa til sameignleg hugarkort á vefnum:

  • MindMeister (Hægt að tengja við Teams)
  • MindManager (Verður aðgengilegt í gegnum Teams með útgáfu 2021)
  • Lýsing á aðferðinni Hóphugarkort: Þátttakendur búa til sameiginlega mynd þekkingu sinni, hugmyndum eða úrvinnslu. Í kennslu má t.d. bjóða uppá að þátttakendir búi til mynd af því sem þeir vita þegar um viðfangsefni dagsins eða ákveðna þætti þess: Það mætti spyrja „Hvaða reynslu hafið þið af X“ eða „Hvað finnst ykkur skipta máli þegar…“ 

Sameginleg skjöl

Þátttakendur skrifa saman í hefðbundin ritvinnsluskjöl. Hver situr við sína tölvu en allir skrifa á sama skjal.

  • Word online
  • OneNote
  • Google Docs

Skildu eftir svar