Your site
28. janúar, 2025 22:03

Nokkrar hugmyndir um röð- eða hvað þarf til og hvernig

Fallegt blóm kemur okkur fyrst fyrir sjónir sem litríkt form sem er í senn einfalt og margbrotið. Úr fjarlægð blasa við litir krónublaðanna og við nánari athugun koma fræfur og fræflar i ljós. Hver hluti blómsins hefur sinn tilgang. Krónublöðin höfða til tiltekinna skordýra, sem laðast að þeim og þegar þau eru sest á blómin lokkar ilmur og sætur blómavökvinn. Allt er samstillt til að fá skordýrið til að dreifa frjókornum plöntunnar. Þannig getur það einnig verið með kennslu. Við tökum e.t.v. helst eftir áberandi þáttum eins og miðlun innihalds og úrvinnslu, en þegar nánar er litið koma gjarnan í ljós aðrir þættir, sem allir hafa sinn tilgang og stuðla að námi þátttakenda í námsferli sem við skipuleggjum og leiðum. 

Níu hlutar kennslu 

Robert Gagné var bandarískur kennslufræðingur sem hafði mikil áhrif á það hvernig fólk talar um kennslu og skipuleggur hana. Hann skipti því helsta sem gerist í kennslu niður í níu aðgreinda hluta eða þætti; hann kallaði þá „atburði“(e. events). Það er að segja níu ólík augnablik í kennsluferlinu sem hvert hefur sinn tilgang og áhrif á ferlið. (Sjá: Gagne ofl., 2005) 

Listi hans yfir þessa níu hluta kennslunnar getur hjálpað okkur að sjá ólíka hluti sem gerast í kennslunni og skerpt okkur sýn þegar við skipuleggjum kennslu og veljum kennsluaðferðir.  

Hér fyrir neðan kemur stutt útlistun á þessum hugmyndum Gagné og hvernig þessir níu hlutar kennslu tengjast saman og kalla hver á sínar ólíku kennsluaðferðir. Vissulega eru þetta frekar margir þættir sem gætu komið fyrir í einni kennslueiningu en það er alls ekki þannig að maður noti þá alla alltaf, heldur er oftast rétt að velja úr listanum eftir þörfum og aðstæðum. 

1) Fanga athygli 

Fyrsta skrefið við upphaf námsferlis er að fanga athygli þátttakenda. Það eru litlar líkur á því að fólk skilji og muni það sem fram fer ef það veitir því ekki athygli. Þannig verður fyrsta verkefni þitt að ná athygli þátttakenda. Athygli nærð þú fyrst og fremst með því að breyta skynáreiti, það er, með því að breyta hljóðum, myndum, eða athöfnum. Sömuleiðis virkar vel að höfða á einhvern hátt til áhuga þátttakenda. Það sem við vitum um fullorðna og áhugahvöt þeirra til náms, er fyrst og fremst að fullorðnir leita eftir gagnsemi þess sem þeir eru að læra. Reiknaðu því með spurningum frá þátttakendum eins og „Hvernig get ég notað þetta?“ eða „Hvernig tengist þetta mér?“ Þannig að með því að kynna námsefnið og höfða til einhverra slíkra spurninga eru líkur á því að þú náir eyrum þátttakenda og fáir þá til að hlusta og reyna að læra það sem þú ert að kenna. 

2) Útskýra markmið 

Öll námskeið snúast um það – á einhvern hátt – að auka þekkingu og leikni þátttakenda og jafnvel breyta viðhorfum þeirra. Það hefur sýnt sig að það að hafa fyrir augum skýr markmið sem snerta þátttakendur gerir kennara auðveldara fyrir að skipuleggja og útfæra námsferla og þátttakendum gengur betur að læra. Þess vegna er ætíð gagnlegt að stuðla að því að markmið námskeiðsins og markmið þátttakenda virðist gagnleg, séu sýnileg og hluti af umræðunni. Í sumum tilfellum er meira að segja viðeigandi að fá þátttakendur með sér í lið við að ákveða markmið námskeiðsins. Þessi hluti kennslunnar snýst þá um að vinna með markmið námskeiðsins eða námseiningarinnar, þannig að það nýtist nemendum til að vekja og viðhalda áhuga og gefa náminu skýra stefnu. Hér erum við að tala um allt frá því að miðla lista yfir markmið námsins til þátttakenda yfir í standa fyrir þankahríð og samvinnu um það, hvaða markmiðum þátttakendur vilja ná þegar námsferlinu er lokið. Það að gefa markmiðum þátttakenda rými í námskeiðinu er líka þáttur í því að virða sjálfstæði þeirra og stöðu í lífinu sem fullorðið fólk sem hefur takmarkaðan tíma og þarf að velja hvernig það notar hann. 

3) Kanna forþekkingu 

Mynd: Þátttakendur á námskeiði skrá á blað allt sem þeim dettur í hug varðandi viðfangsefni námskeiðs 

Í flestum tilfellum hefur fullorðið fólk sínar hugmyndir um námsefnið sem stendur til að læra. Með því að hjálpa því að rifja upp, það sem það veit þegar um efnið, verður auðveldara fyrir það og fyrir okkur sem kennara að finna leiðir og innihald sem geta bætt þekkingu þess og leikni. Ef við gerum þessa könnun á opinn hátt þannig að allir sjá niðurstöðuna (hún þarf þó ekki endilega að vera nafngreinanleg) átta nemendur sig fljótt á breiddinni í þekkingu og reynslu á viðkomandi efni sem er til staðar í hópi nemenda og geta þá stillt sig inn á að vera í námi með fólki sem veit bæði meira og minna en það sjálft. Slíkt má oft gera sýnilegt þannig að nemendur átta sig fljótt á hvernig landið liggur (Sjá t.d. aðferðina „punktaspurning“). Önnur ástæða fyrir því að kanna þekkingu og væntingar þátttakenda á efninu í upphafi er að það þykir góður siður í fullorðinsfræðslunni að byrja að vinna með innihald námskeiðs á því stigi þekkingar sem þátttakendur eru staddir og vinna síðan þaðan. Þannig að þegar leiðbeinandi í fullorðinsfræðslu hefur kannað forþekkingu þátttakenda veit hann betur hvar hann ætti að byrja að vinna með námsefnið. 

4. Kynna innihald 

Þá er komið að því sem við tengjum trúlega helst við kennslu, en það er miðlun námsefnis. Það fellur jú oftast í hlut kennarans að miðla upplýsingum og útskýra innihald námskeiðsins. En kennarinn þarf ekki alltaf að vera i því hlutverki sjálfur, stundum kallar maður til gesti eða bendir nemendum á myndskeið, fyrirlestra eða lesefni sem aðrir hafa útbúið. Sömuleiðis er oft viðeigandi að láta nemendum það eftir sjálfum, að kynna sér efni og útskýra það hver fyrir öðrum. Ein besta leiðin til að læra eitthvað er jú að kenna öðrum. 

5. Stuðningur við námið 

Kennsla snýst um meira en að miðla námsefni. Ef markmið okkar með kennslunni er að þátttakendur læri; að þekking þeirra aukist, leikni taki framförum og viðhorf þeirra þróist, er ekki nóg að miðla námsefninu. Það er ekki endilega víst að nemendur skilji námsefnið strax eða tengi við það, þannig að úr verði lærdómur. Í vinnu okkar með nemendum gætum við þurft að finna dæmi sem tengjast veruleika þeirra, til að hjálpa þeim að skilja efnið sem er til umfjöllunar. Þá er oft gott að nota samlíkingar, reynslusögur eða myndir. Við þurfum líka að vísa þátttakendum á leiðir til að tengja námsefnið við eigin reynslu og þekkingu og bjóða þeim upp á að finna aðstæður þar sem námsefnið gæti nýst þeim. Þetta er vinna sem við gerum með nemendum, en við þurfum að eiga frumkvæðið og búa til samtöl, verkefni og önnur tækifæri til þess að þessi vinna eigi sér stað. Stuðningur við námið kemur í mörgu formi og því er vert að hugsa um allt það sem getur stutt við nám þátttakenda: Rýmið, kennslustofan, kennslugögn, hlutir og myndir í kennslurýminu, útskýringar okkar, umgengni í kennslurýminu, skipulag pása, kaffiaðstaða allt þetta getur stutt við – eða hindrað – nám þátttakenda. Og svo megum við ekki gleyma trúlega mikilvægasta þættinum í jöfnunni sem eru: Aðrir þátttakendur á námskeiðinu. Trúlega vanmetum við allt of oft jákvæð áhrif samferðafólks á hvert annað í námi. Góð uppbyggileg samskipti við samferðafólk á námskeiðum er oft það sem þátttakendur þakka sérstaklega fyrir í lok námskeiðs. Samskipti þátttakenda á milli á námskeiði geta bæði verið hluti af innihaldi þess og verið hluti úrvinnslunnar að ógleymdum áhrifum samnemenda til stuðnings og hvatningar. Með góðu skipulagi getum við skapað aðstæður fyrir þátttakendur á námskeiðum til að styðja við nám hvers annars á fjölmargan hátt. 

6. Laða fram frammistöðu 

Það má með sanni segja að það sem fólk lærir á námskeiði nýtist ekki raunverulega fyrr en það leiðir til breytinga í hæfni þátttakenda. Ef kennsla okkar á námskeiði einskorðast við það fyrst og fremst að útskýra námsefni, lendir öll vinnan við það að breyta hegðun sinni á tíma nemenda; annað hvort í vinnunni eða heima. Í fullorðinsfræðslunni er ekki víst að það sé fýsilegt né árangursríkt að setja alla þá vinnu yfir á tíma þátttakenda. Á vinnustað bíða yfirleitt fjölmörg verkefni og heima bíða enn önnur. Þar að auki eru færri tækifæri til að æfa sig og fá viðbrögð frá kennara eða kollegum þegar fólk ætlar að byrja að æfa nýja hegðun að eigin frumkvæði í amstri hversdagsins. Þannig gerum við vel í því að vega ávallt og meta hvar vinnan við úrvinnslu, aðlögun og þjálfun ætti að fara fram. Í fullorðinsfræðslunni er það oft þannig að fólk hefur tekið frá tíma til að læra ákveðna hæfni, tekur sér frí frá vinnu og sækir námskeið. Þess vegna heyrir það til gæða námskeiðsins að nýta tímann á námskeiðinu til þess að gefa þátttakendum tækifæri til að byrja, að minnsta kosti, að æfa hæfnina sem kennd er. Það er alltaf eftirsóknarvert að byrja þá vinnu í þeim tíma sem þú átt með þátttakendum. Hver og einn þátttakandi þarf að finna leiðir til að sjá merkingu námsefnisins fyrir sig í sínum aðstæðum og sjá fyrir sér hvernig hægt sé að breyta vinnulagi, annarri hegðun eða venjum í samræmi við það sem hann lærir á námskeiðinu. Þess vegna er nauðsynlegt að verja passlega miklum tíma í að koma þátttakendum a.m.k. svo langt í að beita nýrri þekkingu og aðferðum að þeim finnist þeir vera „komnir yfir þröskuldinn“ og geti tekið fyrstu skrefin í að beita hinu nýja þegar námskeiðinu lýkur. Því meira öryggi sem þátttakendur hafa við það að beita nýjum hugmyndum, hugtökum eða aðferðum, þeim mun meiri líkur eru á að þeir beiti þeim í lífi og starfi. 

7. Veita endurgjöf 

Þegar þátttakendur prófa sig áfram með það sem þeir eru að læra, hvort sem það er að bera fram ný orð í tungumálanámi, reikna með nýjum aðferðum eða að bregðast á nýjan hátt við erfiðum samskiptum, þá þurfa þeir viðbrögð við tilraunum sínum til þess að þeir geti gert sér grein fyrir því hvernig þeim gengur að tileinka sér námsefnið. Þegar við viljum ná valdi á ákveðnu námsefni, aðferð eða tækni þurfum við yfirleitt að prófa okkur áfram uns við náum þeirri leikni sem við sækjumst eftir. Í sumum tilfellum fáum við endurgjöf skjálfkrafa úr verkefninu sjálfu: Brauðdeigið hefast ekki, súpan er of sölt, ég dett þegar ég er að læra að hjóla. Þannig að ég stend upp og prófa aftur, nota minna salt næst þegar ég bý til súpu og hnoða nýtt deig. Sundum er málið flóknara og þá er gott að fá viðbrögð frá einhverjum sem þekkir til. Í kennslu geta kennari og aðrir þátttakendur veitt nemendum viðbrögð við verkefnum og æfingum á meðan á námsferlinu stendur, sérstaklega ef þátttakendur fá tækifæri til að æfa hegðunina jafn óðum. 

Endurgjöf í námi snýst um að gefa nemendum nákvæma lýsingu á því sem þeir gera, án þess að dæma eða leysa vandann fyrir þá. Í stað þess að segja „Þú þarft að bæta við salti í sósuna“ væri gagnlegra að segja: „Mér finnst sósan frekar dauf á bragðið.“ Í staðinn fyrir að segja „Það þarf að pússa þetta betur“ að segja „Yfirborðið er enn nokkuð hrjúft og ójafnt.“ Þannig eru minni líkur á því að þátttakendur upplifi sig dæmda og þeir þurfa sjálfir að finna út hverju þeir ættu að breyta. 

Kafaðu dýpra: 
* Smelltu hér til að sjá skemmtilegt myndskeið um endurgjöf, vissulega með börnum í grunnskóla, en það sýnir og kennir endurgjöf mjög vel. 
* Þetta myndskeið vekur líka áhugaverðar spurningar um endurgjöf 
* Hér bregst Paul Hollywood við beyglum í bökunarkeppn. Takið eftir nákvæmri endurgjöf 

8. Meta frammistöðu 

Næsti „atburður“ í námsferli snýst um að nemandinn fái upplýsingar um það hvernig gangi að ná markmiðum námsferlisins. Við erum að tala um námsmat. Kennarar útbúa gjarnan verkefni þar sem nemendur vinna með námsefnið og útbúa afurð – námsafurð – sem hefur iðulega að minnsta kosti tvíþættan tilgang: verkefnið er bæði tækifæri fyrir nemendur að þjálfa leikni sína og til að sýna hversu mikilli leiki þeir hafa náð. Í framhaldsfræðslu, þar sem margir þátttakendur hafa slæma reynslu af skóla velja kennarar gjarnan að nota verkefni og aðrar óformlegar leiðir til að meta frammistöðu þátttakenda frekar en formlegar aðferðir eins og próf. Hins vegar sjá margir kennarar og nemendur próf og þá sérstaklega prófaundirbúning sem gott tækifæri til að rifja námsefnið upp og mynda sér heildstæða mynd yfir það. Við mat á prófum og verkefnum getur kennari séð að hve miklu leiti þátttakendi hefur náð markmiðum námsferlisins og gefið viðbrögð sem gefa þátttakendum og öðrum svör við spurningunni: „Að hve miklu leyti hafa þátttakendur náð markmiðum námskeiðsins?“ Svörin eru upplýsingar sem gagnast nemanda, kennara og einnig þeim aðilum sem standa að náminu. 

9. Stuðla að yfirfærslu hins lærða  

Nýliðar fá kennslu á vinnustað: Við búðarborðið. 

Við höfum tamið okkur að kenna svo margt á sérstökum stöðum, fjarri þeim stöðum þar sem hegðunin, sem námið á að stuðla að, fer raunverulega fram. Við kennum t.d. í skólum, fræðslusetrum eða kennslustofum innan veggja fyrirtækja og stofnana. Þetta gerum við þrátt fyrir að það sé vitað að fólki reynist auðveldast að læra nýja hegðun í því samhengi sem það á að sýna hegðunina sem það er að læra. Það er t.d. auðveldara og áhrifaríkara að læra að sýna sjúklingi samkennd við sjúkrarúm en í kennslustofu. Stundum er þó skiljanlegt að nám fari ekki fram þar sem hegðunin á að eiga sér stað. Það á sérstaklega við, þegar það er betra að æfa sig á öruggum stað þar sem maður fær næði til að þróa leikni sína smám saman, án þess að eiga á hættu að slasa sig eða verða fyrir aðkasti. En reglan er samt yfirleitt sú að fólk á auðveldara með að læra, muna og nýta það sem það lærir ef það lærir það í sömu aðstæðum og hegðunin á að fara fram í. Þegar það er ekki hægt tölum við gjarnan um að „yfirfæra“ þekkinguna eða leiknina sem verður til á námsstað, t.d. kennslustofu, yfir á staðinn þar sem hegðunin á að koma fram. Í slíkum aðstæðum er alltaf rétt að huga að því við skipulagningu og hönnun námsferilsins, hvernig við viljum stuðla að því að þátttakendur beiti nýrri þekkingu og leikni og sýni breytt viðhorf í því samhengi sem við reiknum með að lærdómurinn skili sér. Hvernig stuðlum við til dæmis að því að þjónustufulltrúar brosi blítt til viðskiptavina eftir brosnámskeiðið? Hvernig tryggjum við að starfsfólk nýti, í hita leiksins, nýju aðferðirnar sem það lærði á tölvunámskeiði? Hvernig aukum við líkurnar á því að það verði oftar kínverskur matur á boðstólum eftir að heimilisfaðirinn fór á slíkt matreiðslunámskeið? Hér koma nokkrar leiðir: 

  • Í fyrsta lagi er gagnlegt að gera það að umræðuefni reglulega í gegnum námsferlið, hvað þátttakendur geti og ætli að gera til að beita því sem þeir eru að læra þegar námskeiði lýkur. Hér erum við að tala um ásetning, sem er jú fyrsta skrefið að breytingum.  
  • Í öðru lagi er rétt að bjóða upp á nægileg tækifæri til að æfa og þjálfa nýja hegðun, þannig að þátttakendur treysti sér til að beita henni þegar námsferlinu lýkur. Við gætum til dæmis útbúið verkefni sem snúast um að æfa hegðunina eða að laga innihaldið, aðferðirnar eða námsefnið að aðstæðum á vinnustað eða heima. 
  • Þriðja leiðin gæti verið að afhenda gátlista og annað efni sem getur hjálpað þátttakendum að útfæra það sem þeir eru að læra í raunverulegum aðstæðum. Á tölvunámskeiðum er það t.d. þekkt að nemendur fái allar aðgerðirnar sem þeir lærðu á námskeiðinu á einu blaði (jafnvel plöstuðu) sem þeir geta haft við hlið tölvunnar til að rifja hratt upp það sem þeir lærðu þegar þeir þurfa að nota það. 
  • Í fjórða lagi má skipuleggja námskeiðið þannig að það innihaldi stuðning í ákveðinn tíma meðfram vinnu. Stuðningurinn getur verið í formi verkefna með skiladagsetningum eða einhverju formi skuldbindingar þátttakenda hver gagnvart öðrum eða samvinnu við starfsfélaga eða yfirmenn. Það mætti setja upp umræðuþræði á neti eða bjóða fjarfundi þar sem fólk ræðir hvernig gengur að nýta lærdóminn, rifjar upp það sem það lærði eða heldur samráðsfundi eftir að þátttakendur hafa haft passlegan tíma til að prófa sig áfram og þróa hegðunina. 

Leiðir til að stuðla að yfirfærslu fara að sjálfsögðu eftir samhengi og aðstæðum hverju sinni. Þegar námskeið fer fram í samvinnu við fyrirtæki er algengt að hafa samráð við yfirmenn þátttakenda og fá þá með sér í lið til að auka á líkurnar á því að þátttakendur noti það sem þeir lærðu við störf sín. Í öllu falli er gott og rétt að byggja inn fjölda leiða og tækifæra til að undirbúa það að þátttakendur noti nýju færnina að námi loknu. 

Samantekt 

Ef þú fylgist vel með á námskeiði eða einhverju námsferli tekur þú örugglega eftir einhverjum þessara níu atburða einhversstaðar í ferlinu. Í lengri námferlum, eins og námskeiði sem nær yfir heilan dag eða nokkra þá endurtaka sum atriðin sig mörgum sinnum yfir daginn á meðan önnur koma sjaldnar fyrir. Með því að hafa þessa atburði skýra í huga þínum mun það reynast þér auðveldara að skipuleggja námsferli og velja aðferðir fyrir þína næstu nemendur. 

Efnisyfirlit

Skildu eftir svar