Your site
21. desember, 2024 14:41

Nám fullorðinna í nútímanum

 

Nýlegar kenningar og nálganir, sem hafa mikil áhrif á umræðu um nám fullorðinna um þessar mundir, eru ekki alveg nýjar á nálinni, þær komu fyrst fram í kring um 1990 og hafa verið að þróast, breiðast út og ná fótfestu undanfarin 30 ár. 

Þær nálgast nám fullorðinna á út frá samfélagslegu sjónarhorni frekar en sjónarhorni einstaklingsins sem var svo áberandi í þeim hugmyndum sem komu fram hér að framan. Þær verða til á grundvelli þess að fullorðnir þurfa í nútima samfélagi æ oftar að breyta viðhorfum sínum, nálgunum sínum eða aðferðum á lífsleiðinni og að það er oftar en ekki þannig að það eru heilu vinnustaðirnir, samtökin eða fagstéttir sem þurfa að breytast í einu. Í ljósi þessara kenninga mætti segja að stærsti munur á námi fullorðinna og barna, er að börn eru að byggja upp þekkingu á heiminum og sjálfum sér, móta sér viðhorf og þjálfa leikni sem þau þurfa til að takast á við lífið á meðan fullorðnir þurfa oftar en ekki að breyta viðhorfum, aflæra gamlar aðferðir og skipta gamalli þekkingu út fyrir nýja, sem þeir jafnvel skapa nýja þekkingu í samvinnu með öðrum í gegnum námsferlin sem þeir taka þátt í. Þannig að jafnvel þegar við álítum okkur vera að bæta nýju efni við þekkingu þeirra, þá getur allt eins verið að það sem þátttakendur taki með séu hugmyndir sem kvikna þegar nýju upplýsingarnar sem við kynnum komast í snertingu við reynslu þeirra og þarfir og þau fái nýja hugmynd sem gæti leyst vanda sem þau standa frammi fyrir. Lausnin byggir ekki endilega á innihaldi þess sem við erum að reyna að miðla, heldur á hugmyndinni sem þau fá þegar nýjar upplýsingar frá okkur og fyrri þekking þeirra mætist. Í slíkum tilfellum eru árangur þeirra og þau verðmæti sem þau taka með sér eftir námsferlið ekki fólgin í því að þau geti endurtekið það sem við sögðum, heldur að þau fengu hugmynd sem þau gátu jafnvel viðrað og unnið með í félagi við annað fullorðið fólk sem er í svipuðum aðstæðum. Fullorðnir taka nefnilega oft þátt í námsferlum (námskeiðum, málstofum, ráðstefnum, morgunverðafundum) til þess að fá aðgang að fólki sem er á sama róli og það og fá þannig tækifæri til að læra með því: Fólk sækir í nám jafnvel til að heyra reynslu annarra og viðra sína og spegla hana í reynslu hinna. Stór hluti gæðanna sem margt fullorðið fólk fær þannig út úr þátttöku í skipulögðu námi getur verið fólgin í samskiptum við jafningja og öllu því sem gerist í gegnum þau. 

Þannig að það sem við sjáum æ meira er að fullorðið fólk lærir saman í alls konar formlegum og óformlegum aðstæðum þar sem fólk hittist á sama tíma og í sama rými eða samtímis í gegnum samskiptaleiðir internetsins og jafnvel mistímis á umræðuþráðum óformlegra „starfssamfélaga“ (e. Communities of practice). Slík samfélög spretta upp í tengslum við starf, áhugamál eða persónuleg viðfangsefni fólks á áþreifanlegum stöðum eða ólíkum félagsmiðlum á netinu. Okkar hlutverk sem fullorðinsfræðara í slíku samhengi gæti stundum verið fólgið í því að styðja við slík starfssamfélög með innihaldi eða með stjórnun atburða eða með því að halda úti eða taka þátt í að leiða umræðuvettvang á netinu. En líka að skipuleggja námskeið okkar þannig að þátttakendur þjálfist í því að stýra námi sínu sjálfir og taka þátt í opnum og heiðarlegum, gagnrýnum umræðum, munnlega og skriflega. 

Hvaða áhrif gæti þetta haft á kennsluna þína? 

Nú höfum við skoðað mikilvægustu atriðin sem við vitum um fullorðna námsmenn, sérstöðu þeirra og þarfir þegar þeir eru í námssamhengi. Þá vaknar spurning um það hvað þú gerir með þessar upplýsingar. Hvaða áhrif ætli hugmyndir þínar um fullorðna námsmenn hafi á það hvernig þú skipuleggur nám fyrir aðra, kennir, hvaða hlutverk þú tekur þér sem kennari og hvernig þú kemur fram við nemendur þína. 

Svörin við þessum spurningum gera þig að þeim kennara sem þú ert og verður. Þau hafa líka áhrif á nám þátttakenda, árangur þeirra í náminu og þann ávinning sem þeir taka með sér heim eftir að námsferlinu lýkur. 

Áskorun 
Viljir þú láta þessar hugmyndir hafa áhrif á þína kennslu er kjörið að setjast niður og skrifa hjá sér hvað þú tekur með þér eftir þennan lestur og spá í það hvaða áhrif það sem þú veist núna um fullorðna námsmenn gæti haft á kennsluna þína og skipulagningu hennar. Hvað getur þú gert með þessar upplýsingar. Ef fullorðnir eru eins og þeim hefur verið lýst hér fyrir ofan, hvað þýðir það fyrir kennslu þína?  

Efnisyfirlit:

  1. Um það að kenna fullorðnum
  2. Það eru forréttindi að kenna fullorðnum
  3. Í sporum nemenda þinna
  4. Hvað vitum við um fullorðna námsmenn?
  5. Andragogy: Þekkt „kenning“ um sérstöðu fullorðinna námsmanna
  6. Þrjú sjónarhorn á sérstöðu fullorðinna námsmanna
  7. Hvað geta rannsóknir á þátttöku fólks í námi sagt okkur um fullorðna námsmenn?
  8. Nám fullorðinna í nútímanum
  9. Málið er að stuðla að NÁMI
  10. Fjórar tegundir náms
  11. Hvað læra fullorðnir?
  12. Hvernig lærir fólk?
  13. Út fyrir þægindarammann
  14. Sjálfsmyndin og þú

Skildu eftir svar