Your site
21. janúar, 2025 12:12

Hvað vitum við um fullorðna námsmenn?

Hugmyndir okkar um það fólk sem við ætlum að vinna með hafa, skiljanlega, afgerandi áhrif á það hvernig við vinnum með því. Sömuleiðis hugmyndir okkar um okkur sjálf og hlutverk okkar sem kennara. 

Alla 20 öldina hefur gífurlegur fjöldi fólks rannsakað nám, en það var ekki fyrr en á sjötta áratug aldarinnar að það fór að verða til sérstakt svið rannsókna sem snéri að námi fullorðinna sérstaklega og nálgaðist það nám sem eitthvað annað en nám barna og unglinga (eða dýra: Hunda og rotta á tilraunastofum) 

Þegar ég var barn, bjó ég í Englandi, þar sem faðir minn var í námi. Ég man ljóslega eftir því að hann hvatti mig einn daginn til þess að læra allt sem ég gæti fyrir 26 ára aldur, því eftir það tækju heilafrumur að deyja og það yrði erfiðara og erfiðara að læra eitthvað nýtt. Kannski var hann upptekinn af þessu því hann hafði einmitt tekið stúdentspróf og farið í háskóla eftir 25 ára aldur og fundist það erfitt. Síðar fann ég líka út að þessi hugmynd var lengi mjög útbreidd í hinum engilsaxneska heimi. Hugmyndin reyndist mjög lífsseig, þrátt fyrir að rannsóknir Edward Thorndike frá 1928 hafi kollvarpað henni. 

Í mörg ár hef ég spurt fólk eins og þig, fólk sem kennir eða ætlar að kenna fullorðnu fólki, sömu spurningarinnar: „Hvað einkennir fullorðna námsmenn, samkvæmt þinni reynslu?“ ég á myndir af svörum þeirra sem ná aftur um 20 ár:  Smelltu hér til að sjá dæmi
Fyrir nokkru síðan skrifaði ég grein sem byggði á samantekt á nokkrum svona töflum. 
Greinin heitir „Hvað er svona merkilegt… við það að vera fullorðinn?“ þar má lesa nánar um sumt það sem við tökum fyrir hér á eftir. 
Svörin hafa ekki breyst mikið í gegnum árin – þú getur borið þín svör saman við svör þeirra sem hafa farið í gegnum þetta námskeið á undan þér og þau sem hafa komið fram á námskeiðunum mínum í gegnum árin og spáð í hvað þau gætu þýtt fyrir þig og kennsluna þína. 
Ef margir sem kenna fullorðnum hafa t.d. þá reynslu af fullorðnum námsmönnum að þeir mæti óöruggir til leiks… hvaða afleiðingar finnst þér að það ætti að hafa fyrir skipulag námskeiðsins eða framkomu þína við þátttakendur? 

Nýlegar rannsóknir – meðal annars taugafræðirannsóknir – og að sjálfsögðu okkar eigin reynsla staðfesta niðurstöður Thorndike frá upphafi síðustu aldar: Fullorðnir viðhalda hæfileikanum til að læra nýtt alla ævi, og það sem meira er nýlegar taugafræðirannsóknir hafa sýnt að heilinn breytist og er „sveigjanlegur“ þannig nú er það almennt viðurkennt að fullorðnir geta lært og breytt sér og svo mörgu í lífinu ef þeir þurfa og vilja. 

Nýleg reynsla heimsbyggðarinnar af COVID19 faraldrinum sýndi okkur t.d. svart á hvítu, að fjöldinn allur sem áður hafði sneitt hjá því, var nú meira en tilbúinn að læra að nota tækni sem gerir þeim kleift að eiga í samstarfi við fólk sem er annarsstaðar, eins og að taka þátt í og/eða stýra fjarfundum, taka þátt í sameiginlegum skrifum með kollegum sem sitja víðsfjarri og eru samtímis að vinna í sömu skjölum!  

Allt í einu sat samstarfsfólk saman á fundum og „sýndarkaffitímum“ í gegnum Skype, Teams og Zoom, vann í sameiginlegum skjölum samtímis yfir vefinn og átti jafnvel í meiri samskiptum við samstarfsfólk, núna þegar það sat eitt heima við tölvuna, en það hafði gert áður á skrifstofunni. Fjöldinn allur tók að nota tækni sem hann hafði forðast í fjölda ára á undan. En nú sá fólk og upplifði þörf og þá var það ekki spurning hvort það ætti að læra að nota hugbúnaðinn, það lá í augum uppi. 

Þannig að við getum hvílt örugg í þeirri vissu að fullorðnir hafa hæfileikann til að læra nýja hluti og breyta venjum og viðhorfum, bæta við þekkingu eða breyta fram á síðasta dag ævinnar, að því gefnu að heilinn sé  heilbrigður. 

Aftur á móti geta alls konar aðrir hlutir hindrað nám þeirra. Þar vega viðhorf þeirra þyngst. Það efast enginn um að afi geti lært nöfn barnabarna sinna, eða að gömul kona geti lært að rata heim til sín á nýja heimilið. En þegar fullorðnir sjá ekki tilgang í því að læra nýtt, hafa slæma reynslu af skóla, eða að það nýja stangast á við fyrri þekkingu, viðhorf eða hugsanavenjur, þá getur reynst erfitt að læra nýtt eða breyta viðhorfum sínum, en það skoðum við aðeins síðar. 

Spurning mín um sérstöðu fullorðinna námsmanna 

Eins og ég sagði frá áðan, þá hef ég spurt fólk sem kennir fullorðnum um reynslu þess af fullorðnum námsmönnum og hvað einkenni þá sem námsmenn. Niðurstöðunni lýsti ég í grein sem ég skrifaði fyrir um 15 árum, en þegar ég skoða myndir af svörum nemenda minna við þessari sömu spurningu síðastliðin 15 ár kemur í ljós mjög svipuð niðurstaða. 

Umfjöllun mín í greininni hefst á þessum orðum: 

Fullorðnir námsmenn nálgast nám sitt yfirleitt af áhuga og þurfa að nýta reynslu sína til að læra en eru oft óöruggir. Þroskaferli fullorðinna hefur áhrif á nám þeirra og þeir hafa yfirleitt mörg hlutverk sem geta stundum haft truflandi áhrif á námskeiðin fyrir þá sjálfa og jafnvel aðra þátttakendur.

(Hróbjartur Árnason, 2005) 

Það sem stendur uppúr í þessari óformlegu könnun minni og samtölum við reynda kennara og sem vantar oft í framsetningu annarra um sérstöðu fullorðinna námsmanna, er upplifun kennaranna af óöryggi fullorðinna þátttakenda á námskeiðum. Óöryggið tengist oft því að vera í nýjum aðstæðum og því að vita ekki hvað er framundan. Einmitt það er eitthvað sem kennari getur unnið með, með því að taka passlegan tíma í að byrja námskeið og hjálpa þátttakendum að kynnist og að vita að hverju þeir ganga. Erfiðara er það þegar þátttakendurnir sjálfir hafa slæma reynslu af skóla og / eða annarri skipulagðri fræðslustarfsemi. Í þeim kringumstæðum getur tekið lengri tíma að hjálpa þeim að finna sig í hópnum, en það er samt eitt mikilvægasta verkefni kennarans, því áður en nemandinn finnur sig öruggan í námssamhenginu, fer lítið fyrir námi hjá honum eða henni. 

Annað sem kennararnir tóku fram um sérstöðu fullorðinna námsmanna eru aðstæður þeirra, einkum og sér í lagi sú staðreynd að flest fullorðið fólk hefur mikið að gera umfram námið sem það stundar. Ummönnun barna, atvinna, skyldur í tengslum við fjölskylduna og félagastarf og margt fleira gerir kröfu um tíma og athygli fullorðins fólks. Það hefur áhrif á möguleika þess og getu til að stunda nám. Margt bendir þar að auki til þess að undanfarin 20 ár hafi fjöldi viðfangsefna sem fullorðiið fólk þarf að halda gangandi á einum tíma aukist. Þá er og spurning hvort þeir hafi í æsku og á unglingsárum fengið þjálfun i hæfni og mótað sér viðhorf sem nýtast þegar þarf að „halda mörgum boltum á lofti í einu“. 

Margir velja fjarnám einmitt vegna þess að dagskrá þeirra er svo til full en þeir vilja samt sem áður læra nýtt, mennta sig til ákveðinna starfa eða bæta við réttindum til að komast áfram í lífi og starfi. Þannig að með því að velja sveigjanleikan sem fjarnám býður uppá vonast þeir til að geta „haldið öllum sínum boltum á lofti“ í einu. 

Það að þátttakendur séu uppteknir, hlýtur þá að hafa áhrif á það hvernig maður skipuleggur námsferli og hvernig maður hannar sveigjanleika og aðhald inn í ferlið. Það hefur meðal annars áhrif á það hvað gerist í sameiginlegum tíma þar sem nemendur og kennarar eru að vinna saman á sama tíma og (jafnvel) sama stað. Stundum er til dæmis ekki mögulegt að reikna með að þátttakendur taki tíma til úrvinnslu námsefnisins í frítíma eða í vinnunni. Stundum snýst námið um að breyta vinnulegi á vinnustað, þannig að þá má skiljanlega reikna með úrvinnslu verkefna á vinnutíma, en það er ekki alltaf hægt. Slíkra hluta þarf að taka tillit til við skipulagningu námsferlisins. 

Efnisyfirlit:

  1. Um það að kenna fullorðnum
  2. Það eru forréttindi að kenna fullorðnum
  3. Í sporum nemenda þinna
  4. Hvað vitum við um fullorðna námsmenn?
  5. Andragogy: Þekkt „kenning“ um sérstöðu fullorðinna námsmanna
  6. Þrjú sjónarhorn á sérstöðu fullorðinna námsmanna
  7. Hvað geta rannsóknir á þátttöku fólks í námi sagt okkur um fullorðna námsmenn?
  8. Nám fullorðinna í nútímanum
  9. Málið er að stuðla að NÁMI
  10. Fjórar tegundir náms
  11. Hvað læra fullorðnir?
  12. Hvernig lærir fólk?
  13. Út fyrir þægindarammann
  14. Sjálfsmyndin og þú

Skildu eftir svar