Your site
21. desember, 2024 15:14

Hvað læra fullorðnir?

Það er ekki nóg með að nám risti misjafnlega djúpt og hafi því mis mikil áhrif og ólíkar afleiðingar fyrir okkur, við erum líka að læra ólíka hluti. Ein leið til að flokka það sem við lærum er að nota flokkun sem við þekkjum úr námskrám: ÞekkingViðhorf og Leikni. Hér erum við að tala um ólíkar skepnur sem lærast á ólíkan hátt.  

Þekking er það sem verður til þegar nemandi hefur unnið með upplýsingar, flokkað þær og raðað í huganum þannig að úr verða möguleikar til að skilja eða gera hluti á nýjan eða ólíkan hátt. Þannig að það er ekki nóg fyrir kennara að miðla upplýsingum á áhugaverðan hátt til þess að þátttakendur læri, þeir þurfa – ef upplýsingarnar eiga að breytast í þekkingu – að fá tækifæri til að vinna með þær í samræmi við eðli þeirra og þeirrar dýptar þekkingar og hugsunar sem stefnt er að. Það er munur á því að stefna að því að nemendur geti endurtekið upptalningu á einhverjum staðreyndum eins hráefni í köku, geti útskýrt fyrirbærin eða útskýrt hvers vegna það sé nauðsynlegt eða bannað að hnoða deig kökunnar og á enn æðra stigi dæmt um gæði köku eða skapað uppskrift að nýrri köku. Þegar við kennum þurfum við að hafa gert okkur grein fyrir því á hvaða stigi þekkingin sem við stefnum að verði staðsett. (Þú getur kafað dýpra í þetta með því að kynna þér flokkunarkerfi Bloom

Leikni er gjarnan skýrð sem „getan til að vinna verk og leysa verkefni“ (Cedefop, 2010). Til þess að vinna tiltekið verk lærum aðferðir, handbrögð, verklag, eins og að hnoða brauð, saga fjöl, pólera silfur o.s.frv. og æfum það gjarnan með endurtekningum uns við höfum náð eftirsóknarverðri leikni. Þess vegna þurfum við í fullorðins­fræðslunni að meta hversu mikilli leikni þátttakandi þarf að ná á námskeiðinu hjá okkur til þess að hann geti haldið áfram að þjálfa leiknina á eigin spýtur og ná þannig þeirri leikni sem sóst er eftir. Leikni fæst með því að endurtaka aðferðir sem við höfum áður lært eftir að hafa áður fengið upplýsingar um það hvernig aðferðin er framkvæmd. Taugarannsóknir hafa leitt í ljós að með aukinni endurtekningu þarf heilinn sífellt minni orku til að framkvæma athöfnina (Huang et al., 2012), og aðrar rannsóknir sýndu að með því að hafa fjölbreytni í endurtekningunum nær nemandin hraðar meiri leikni, þ.e.a.s. getur framkvæmt athöfnina betur og betur (Gopher, 1993). 

Viðhorf okkar til lífsins, sjalfra okkar og tiltekinna viðfangsefna geta og ættu örugglega, í mörgum tilfellum, að breytast með tímanum. Nám snýst oft og iðulega um að breyta viðhorfum til viðfangsefnis eða til sjálfra okkar. Í fullorðinsfræðslunni snýst slíkt nám iðulega um að bjóða þátttakendum upp á tækifæri til að skoða eigin viðhorf á gagnrýninn hátt og bera þau saman við önnur möguleg viðhorf, þannig að þeir geti síðan á eigin forsendum lagað viðhorf sín að breyttum aðstæðum og nýrri túlkun þeirra á aðstæðum og samhengi. Viðhorf koma líka inn sem hluti af jöfnunni þegar við tölum um hæfni, það er ekki nóg að kunna uppskrift að köku utanað, og hafa leikni til að blanda efnunum vel saman, maður bakar ekki köku fyrr en maður er reiðubúinn að gera það. Neikvætt viðhorf til kökuáts gæti því valdið því að maður baki ekki kökur og þá kemur hæfni hans í kökubakstri aldrei í ljós. 

Hér höfum við skoðað nám sérstaklega í samhengi þess að skipuleggja námsferla fyrir fullorðna. Ákvarðanir okkar við skipulagninguna hafa áhrif á magn upplýsinga sem við miðlum og ætlumst til að nemendur geri að sínu, tíma sem við tökum frá til að bjóða þátttakendum að þjálfa hegðun eða hugsun og tíma til að vinna með, íhuga og ígrunda hugmyndir sem gætu haft áhrif á viðhorf þeirra. Allt smellur þetta þrennt þó saman til að búa til það sem við sækjumst eftir með náminu: Aukin hæfni. 

Efnisyfirlit:

  1. Um það að kenna fullorðnum
  2. Það eru forréttindi að kenna fullorðnum
  3. Í sporum nemenda þinna
  4. Hvað vitum við um fullorðna námsmenn?
  5. Andragogy: Þekkt „kenning“ um sérstöðu fullorðinna námsmanna
  6. Þrjú sjónarhorn á sérstöðu fullorðinna námsmanna
  7. Hvað geta rannsóknir á þátttöku fólks í námi sagt okkur um fullorðna námsmenn?
  8. Nám fullorðinna í nútímanum
  9. Málið er að stuðla að NÁMI
  10. Fjórar tegundir náms
  11. Hvað læra fullorðnir?
  12. Hvernig lærir fólk?
  13. Út fyrir þægindarammann
  14. Sjálfsmyndin og þú

Skildu eftir svar