Your site
30. desember, 2024 16:56

Fjórar tegundir náms

Hugarkort mitt til að tjá framsetningu Illeris á fjórum tegundum náms. 

Einn helsti menntunarfræðingur síðustu aldar, Jean Piaget, skrifaði mikið um nám og þroska og hann byggði skrif sín á nákvæmum athugunum á börnum sínum. Sumar niðurstöður hans eiga vissulega við fullorðna líka, en þar með er þó ekki öll sagan sögð. Hann skipti námi niður í þrjár tegundir náms og við ætlum að skoða fjórar. Danski menntunarfræðingurinn Knud Illeris sem hefur skrifað mikið um nám fullorðinna túlkar hugmyndir Piagets í bók sinni, How We Learn: Learning and Non-Learning in School and Beyond (Illeris, 2016), túlkun hans á Piaget getur gefið okkur skýrari sýn á nám og hvað er í gangi þegar nemendur okkar eru að læra. Ég styðst við hans framsetningu hér: 

1) Fyrsta tegund náms samkvæmt flokkun Piaget er nám sem snýst um að safna nýjum upplýsingum og reynslu. Nám í formi uppsöfnunar (e. cumulative learning) á sér stað þegar við lærum eitthvað nýtt, það verður til nýtt hugsanamynstur (sálfræðin kallar þau skemu). Stundum eru það nýjar upplýsingar um eitthvað sem við þekkjum ekki.  Stundum snýst það um aðferðir til að vinna verk sem við höfum aldrei unnið áður. Þegar fullorðnir læra á þennan hátt verða þeir oft óöruggir, einkum þegar þeir læra margt nýtt á stuttum tíma. En fullorðnir eru jú vanir að hafa margt í lífinu nokkurn vegin á hreinu vegna fyrri reynslu sinnar og að hafa þokkalega gott vald á umhverfi sínu. Þess vegna truflar það þá gjarnan og gerir þá óörugga og jafnvel óþolinmóða þegar þeir eru að læra mikið nýtt í einu. Ég sé þetta oft á fyrstu vikum nemenda minna í háskólanum: Fólk sem kemur beint af vinnumarkaði í nám, þarf að læra á nokkur ný tölvukerfi, átta sig á skipulagi nokkurra námskeiða, finna út hvernig þeir ætla að læra og svo þurfa þeir að innbirða og vinna með upplýsingar og fræði sem þeir hafa jafnvel aldrei pælt í áður! Í þessum aðstæðum eru flestir týndir, óöruggir og óþolinmóðir. Við getum hjálpað fólki að læra nýja hluti með því að bera saman nýju upplýsingarnar við hluti sem þátttakendur þekkja fyrir, gefa dæmi, og byggja námið skipulega upp, t.d. frá hinu einfalda til hins flókna, frá reynslu til rannsókna og kenninga, og með því að hjálpa þeim að tengja innihaldið við eigin lífsreynslu eða starfssamhengi. 

2) Annað form náms er nám þegar maður bætir upplýsingum og reynslu við fyrri þekkingu og reynsluforða – Þetta er örugglega sú tegund náms sem fullorðnir eru hrifnastir af, og reynist þeim auðveldust. Við notum hér hugtakið samlögun (e. Assimilative learning) um nám þegar áreiti úr umhverfinu er tekið og því bætt við hugsanamynstur sem við búum þegar yfir. Einhver sem hefur lært höfuðborgir landanna í Evrópu lærir nöfn tveggja til þriggja borga í hverju landi til viðbótar. Eða einhver sem kann að leggja saman tölur, lærir nú að draga frá, hann bætir nýrri aðferð við þá fyrri. Bifvélavirki sem er flinkur að gera við eina tegund bíla, lærir inn á sérstöðu annarar bílategundar o.s.frv. Þetta er trúlega algengasta myndin sem nám tekur á sig. Við þekkjum örugglega mörg fullyrðingu Ausubel frá 1968: „Það sem hefur mest áhrif á nám og námsárangur er það sem nemandinn veit fyrir.“ (Ausubel, 1968, bls. iv) Þannig að fólk sem hefur einhverja forþekkingu á efninu sem við erum að kenna, það lærir viðbótina oftast vel og hratt. Þess vegna er ávallt gagnlegt að byrja kennslu eða framsetningu nýs efnis á því sem nemendur vita og kunna þegar um efnið og vinna þaðan. Við getum líka stutt við nám nemenda okkar með því að búa til eða benda á tengingar við svipaða hluti sem þeir þekkja fyrir og fá þátttakendur til að tengja nýja efnið við reynslu sína, í umræðum, hópverkefnum eða einstaklingsverkefnum. 

3) Þriðja tegund náms samkvæmt framsetningu Piaget snýst um aðlögun eða aðhæfingu (e. accommodative learning): Aðhæfing í námi á sér stað þegar einstaklingur (eða hópur) þarf að endurvinna hugsanamynstur sem eru til staðar í huganum, við nýjar aðstæður eða þegar nýjar upplýsingar koma fram. Slíkt getur gerst t.d. þegar maður verður var við eitthvað í umhverfi sínu sem er ekki í samræmi við það sem maður átti von á. Þú horfir á hlut og það tekur þig nokkurn tíma að sjá formið og ákveða hver hluturinn er.  

Aðhæfing getur þannig falið í sér að maður þurfi að brjóta hugsanamynstur – eða það sem maður upplifir – niður í minni einingar og raða upp á nýtt og búa til ný hugsanamynstur. Aðhæfung getur átt sér stað á svipstundu, eða hún getur verið langt og strangt ferli þar sem einstaklingur fær smám saman skilning eða nær smám saman valdi á nýjum kringumstæðum. Illeris segir að aðhæfing sé nátengd hugtökum eins og ígrundun og gagnýnni hugsun og að aðhæfing sé sú tegund náms sem liggur til grundvallar hugtökum eins og hæfni. 

Þess vegna verða væntalega þeir flinkari að kasta bolta í körfu sem æfa það alltaf úr mismunandi fjarlægð og úr mismunandi stellingum en þeir sem æva köstin aðeins frá vítalínunni. Í fullorðinsfræðslunni þarf að bjóða fólki upp á tækifæri til að bera saman reynslu sína og nýju upplýsingarnar, og jafnvel kenna fólki gagnlegar aðferðir við gagnrýna hugsun þannig að það hafi fleiri leiðir til að takast á við verkefnið.  

Sumir kalla jafnvel það sem fólk gæti þurft að fara í gegnum „að aflæra“, því stundum eru gömlu upplýsingarnar rangar, hugsanamynstrin fyrnt og aðferðirnar úteltar. Það á t.d. oft við þegar fólk þarf að læra á nýjar uppfærslur af hugbúnaði, eða þegar það skiptir um hugbúnað og fer frá einu lagerstjórnunarkerfi yfir í nýtt, kerfi sem gerir nákvæmlega sömu hluti, en á allt annan hátt. Sömuleiðis geta nemendur haft alls konar viðhorf og reynslu sem hindrar þá í að breyta viðhorfum sínum til eigin frammistöðu og neiti að breyta háttum sínum – bæði meðvitað og ómeðvitað. Þannig að aðhæfing í námi getur reynst erfið. Þegar námið felur í sér þessa vídd, getur reynst gagnlegt að bjóða upp á umræður, hópaverkefni og jafnvel dagbókarskrif. Verkefnin þurfa þá að bjóða þátttakendum uppá að skoða viðhorf sín og aðferðir á gagnrýninn hátt og nýta nýjar upplýsingar til að skapa sér ný viðhorf og aðferðir. Það gerist best i námsumhverfi þar sem ríkir traust og samvinna (sjá t.d. Hashweh, 2003). 

4) Illeris bætir fjórðu tegundinni við þessa upptalningu: Tegund náms sem á sérstaklega við fullorðna og er orðin mun algengari í seinni tíð. Hann á sem sagt við tegund náms sem við tökum enn oftar eftir í nútímanum en áður. Við gætum kallað hana: Umbreytandi nám (e. transformative learning), nám sem veldur umbreytingu í viðhorfum, þekkingu og hæfni námsmannsins. Nám sem ristir enn dýpra en tegundirnar þrjár að framan. 

Umbreyting og svo kallað „umbreytingarnám“ (Tranformative learning) er hugtak sem Illeris velur að nota sem samheiti yfir form eða tegundir náms, sem hafa verið nokkuð mikið í umræðunni undanfarin 30 ár, og gengur skrefinu lengra eða dýpra en aðhæfing. Umbreytingarnám á sér þá stað þegar einstaklingur þarf að breyta mörgum hugsanamynstrum á sama tíma.  

Illeris tengir umbreytingarnám við það sem Carl Rogers skrifaði um fyrst um miðja síðustu öld og kallaði „significant learning„, merkingarbært nám og lýsir námi sem á sér stað þegar einstaklingur þarf að takast á við það að hugmyndir hans um lífið og tilveruna duga ekki til að takast á við þann veruleika sem hann upplifir (Rogers 1994). Rogers talaði gjarnan um að slíkt nám væri sársaukafult og að fólk sneiddi hjá því í lengstu lög. Illeris bendir á tímarnir hafi breyst síðan Rogers var að skrifa, nú breytist samfélagið mun hraðar en áður og því lendi fólk í því mun oftar en áður í því að þurfa að læra að bregðast við umhverfi sínu á nýjan hátt. Þetta hefur verið mjög áberandi í allri umræðu um nám og menntun undanfarin 20 ár. COVID– 19 faraldurinn sýndi okkur á áþreifanlegan hátt hvernig hnattvæðing nútímans getur leitt til hraðra breytinga í lífi okkar. Það eru ótal hlutir sem við sem einstaklingar og sem samfélag höfum þurft að takast á við, laga okkur að og læra. Það eru viðhorf, upplýsingar og leikni sem liggja undir. Við höfum t.d. þurft að vinna með viðhorf okkar til þess að yfirvöld gangi lengra í því að ráðskast með hversdagslif okkar og hreyfingar en nokkru sinni áður. Svo hafa margir lært að nota upplýsingatækni til hluta sem þeir notuðu hana aldrei áður o.s.frv.  

Það getur verið gott að átta sig á því að nemendur okkar geta verið að fást við nám á mörgum þessara stiga á sama tíma, og í sama hópnum geta sumir verið að læra alveg nýja hluti, meðan aðrir eru að bæta við og enn aðrir þurfa jafnvel að aflæra, vegna þess að þeir höfðu lært eða tamið sér viðhorf, aðferðir eða nálganir sem eiga ekki lengur við í þeirra samhengi. Þetta er jú eitt einkenni hópa með fullorðnum námsmönnum; fjölbreytileikinn er mikill og á mörgum plönum. Margir sem snúa til náms eftir langt hlé upplifa miklar breytingar í gegnum námið og í kjölfar þess, þannig að þá ganga margir þeirra í gegnum umbreytingu á viðhorfum, leikni og sjálfsmynd. Það er að sjálfsögðu forréttindi að fá að leiða fólk í gegnum ferli sem bjóða upp á slík tækifæri og spennandi að læra sjálfur að verða nemendum sínum gagnlegur samferðamaður. 

Áskorun: Fjórar tegundir náms 
Spáðu aðeins í þína kennslu og þessar fjórar tegundir náms. Veldu tiltekið námskeið eða námsferli sem þú verður ábyrg/ur fyrir fljótlega. Veltu fyrir þér hvers konar nám þú reiknar með að nemendur þínir fari í gegnum á þessu tilteknu námskeiði. Eru þeir að læra eitthvað alveg nýtt og þurfa að safna saman upplýsingum eða stangast það sem þau munu læra á við það sem þau telja sig vita fyrir o.s.frv. Skrifaðu svörin í glósubókina þína, þau nýast þér þegar þú ferð að undirbúa framsetningu námsefnis og verkefni. 

Efnisyfirlit:

  1. Um það að kenna fullorðnum
  2. Það eru forréttindi að kenna fullorðnum
  3. Í sporum nemenda þinna
  4. Hvað vitum við um fullorðna námsmenn?
  5. Andragogy: Þekkt „kenning“ um sérstöðu fullorðinna námsmanna
  6. Þrjú sjónarhorn á sérstöðu fullorðinna námsmanna
  7. Hvað geta rannsóknir á þátttöku fólks í námi sagt okkur um fullorðna námsmenn?
  8. Nám fullorðinna í nútímanum
  9. Málið er að stuðla að NÁMI
  10. Fjórar tegundir náms
  11. Hvað læra fullorðnir?
  12. Hvernig lærir fólk?
  13. Út fyrir þægindarammann
  14. Sjálfsmyndin og þú

Skildu eftir svar