Andragogy: Þekkt „kenning“ um sérstöðu fullorðinna námsmanna
Þegar talið berst að sérstöðu fullorðinna námsmanna kemst maður ekki framhjá bandarískum fræðimanni og kennara sem hét Malcolm Knowles (1913– 1997) hann er trúlega sá fræðimaður sem flestir vitna í þegar þeir vilja skoða sérstöðu fullorðinna námsmanna. Trúlega er það fyrst og fremst vegna þess að framsetning hans á sérstöðu fullorðinna sem námsmanna er skýr og eftirminnileg.
Hann birti hugmyndir sínar fyrst á sjöunda áratugnum og þar ber hæst bók hans „Adult learners: a neglected species“ (1973).
Þar birti hann fjórar fullyrðingar um sérstöðu fullorðinna námsmanna. Kennarar og aðrir sem lásu bókina brugðust við með gagnrýni og ábendingum, þannig að framsetning hans hefur þróast og breyst og hefur bókin komið út reglulega síðan, nýunda útgáfan árið 2020. Það sem skiptir okkur mestu máli úr framsetningu Knowles eru 6 fullyrðingar eða forhugmyndir um fullorðna námsmenn og í kjölfar þeirra hvaða afleiðingar þær ættu að hafa fyrir skipulagningu náms fyrir fullorðna.
Hér fyrir neðan munum við skoða þessar fullyrðingar og sjá stuttlega hvaða afleiðingar þær geta haft fyrir skipulagningu náms og kennslu fyrir og með fullorðnum.
1) Þörfin að vita
Fullorðnir vilja vita út í hvað þeir eru að fara… Þegar þeir eru að læra séu þeir ekki spenntir fyrir óvissuferðum. Reiknaðu með að þátttakendur á nýju námskeiði sitji með spurningar eins og: Hvernig verður þetta? Hvað ætlum við að læra? Hvers vegna ætti ég að læra þetta? Hvað þarf ég að vita til að komast í gegnum námskeiðið? Við þurfum að svara þessum spurningum strax í upphafi og hjálpa þátttakendum að svara sumum þeirra fyrir sjálfa sig ef við viljum hafa þá með í ferlinu og stuðla að raunverulegum áhuga þeirra á að læra með okkur.
2) Sjalfsmynd námsmannsins
Ætli sjálfsmynd okkar móti ekki stóran – eða stærstan – hluta af því sem við gerum og gerum ekki. Þannig að í námssamhengi hlýtur hún að hafa veruleg áhrif. Þar liggur beinast við að spá í hugmyndir þátttakenda um sjálfa sig sem námsmenn. Hvernig þeir svara spurningunni hvort þeir geti lært eða ekki. Í framhaldsfræðslunni (sjá lög um framhaldsfræðslu 2010, sem lýsir fræðslu fyrir fullorðna fyrst og fremst á framhaldskólastigi og ríkið styrkir að einhverju leiti) á Íslandi eru t.d. margir þátttakendur sem flosnuðu upp úr námi sem unglingar og hafa lengi lifað með þá hugmyndir um sjálfa sig að þeir geti ekki lært. Flest koma þau svo sjálfum sér skemmtilega á óvart, þau geta lært – og það er þitt hlutverk sem kennara að hjálpa þeim að fá slíka upplifun. Þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem hefur áhrif á alla, óháð aldri. En það sem Knowles var sérstaklega upptekinn af var að fullorðnir líta gjarnan á sjálfa sig sem sjálfstæða, þeir eru vanir að taka sínar eigin ákvarðanir um hvað þeir gera, hvernig þeir nota tíma sinn, peninga og annað sem þeir hafa til ráðstöfunar. Í skólasamhengi erum við vön því að kennarinn ráðstafi tíma okkar og athygli. Knowles benti á að ef fullorðnir námsmenn upplifa spennu milli sjálfsmyndarinnar um að vera sjálfstæðir og þess hvernig kennarinn stjórnar kennslunni og nemendum, geti það leitt til þess að þau finni fyrir óþægindum vegna ósamræmisins milli sjálfsmyndarinnar og framkomu kennarans. Það getur leitt til þess að þau nái ekki að einbeita sér að náminu, spennan tengd ósamræminu taki of mikla orku. Ég kannast við þetta meðal annars í gegnum kvartanir nemenda þegar ég var í stjórnunarstöðum í fræðslusamhengi: Helsta umkvörtunarefni fólks snérist um að því fannst kennarinn ekki sýna því [tilhlýðilega] virðingu. Ein leið til að nálgast þetta er að finna leiðir til að láta þátttakendur hafa eins mikil áhrif á námskeiðið og hægt er innan þeirra ramma sem innihald og samhengi leyfa. Ég legg til dæmis alltaf mikið upp úr því að fá að heyra væntingar þátttakenda til námskeiðsins og að semja við þá um fyrirkomulag og innihald námskeiðsins. (Smelltu hér til að sjá eina aðferð sem má nota í þessu samhengi)
3) Hlutverk reynslu námsmannsins
Knowles bendir á að reynsla námsmanna spili mun stærra hlutverk í fullorðinsfræðslunni en í öðru námi. Allar kenningar um nám og rannsóknir á taugafræði náms sýna að reynsla spilar lykilhlutverk í öllu námi. Með aukinni reynslu spilar hún stærra hlutverk í náminu. Það þýðir að í fullorðinsfræðslunni er nauðsynlegt að gefa henni viðhlýtandi rými og að taka tillit til þess að reynslan getur bæði stutt við og auðveldað nám, eins og þegar við bætum nýrri þekkingu við þá sem fyrir er, en hún getur hindrað nám ef fyrri reynsla stangast t.d. á við það nýja sem við ætlum að læra eða hún truflar á annan hátt. Þegar við skipuleggjum nám með hópum bætist við að á sama námskeiðinu má búast við að samanlagt hafi þátttakendur mjög mikla og fjölbreytta reynslu. Það heyrir til gæða námskeiða að nýta þessa miklu reynslu og gera hana hluta af námsefninu til að dýpka og breikka upplifun þátttakenda af náminu.
4) Tilbúinn að læra
Eitt af því sem skiptir miklu máli fyrir nám er viljinn til að læra. Börn gera sér gjarnan grein fyrir því að þeirra helsta verkefni sé að læra og jafnvel að læra hluti sem þau sjá ekki tilgang í að læra þá stundina. Vissulega gengur þeim mun betur að læra hluti sem þau hafa áhuga á að læra, en þau virðast almennt vera tilbúnari að læra það sem fyrir þau er lagt, meðal annars vegna ytri hvata eins og þeirra að fá góðar einkunnir eða komast upp á næsta stig í náminu. Þessir hlutir hafa minni áhrif á fullorðna, meðal annars vegna þess að þeir spila sjaldnar hlutverk í þeirra aðstæðum. Þess vegna leggur Knowles áherslu á að viljinn til að læra tengist gjarnan þeim aðstæðum sem fullorðnir finni sig í. Það gæti verið næsta eðlilega skref í þroska þeirra: Það eru, til dæmis, varla til námsfúsari fullorðnir námsmenn en verðandi foreldrar. Sömuleiðis hafa rannsóknir leitt í ljós að stórt hlutfall þeirra sem stunda nám á fullorðinsárum stendur í breytingum eða sjá þær fyrir: Þau eru að skipta um starf, standa í skilnaði, hafa misst nákominn aðila eða vilja komast á nýja staði í lifinu. Fólk notar gjarnan nám til þess að takast á við slíkar breytingar. Þannig má líka segja að það sé erfitt að vekja viljann til náms hjá fólki sem sér ekki fram á að þurfa að nota það sem stendur til að kenna því.
5) Stefna námsins
Það er vel þekkt í skólakerfinu að nám sé skipulagt í kringum fög og að markmið og innihald sé skipulagt á grundvelli „lógískrar“ uppbyggingar fagsins. Ein þekkt leið er að fara frá hinu einfalda til hins flókna. Þannig að líffræði hefur oft verið kennd með því að byrja að kenna um einfrumunga og færa sig svo yfir í flóknari lífverur byggt á flóknari lífræðilegri uppbyggingu þeirra. Þessi nálgun er ekki eins algeng í dag og hún var, nú orðið byrja skólakennarar gjarnan á reynsluheimi barnanna og færa sig þaðan yfir í flóknari og / eða óhlutstæðari (abstract) viðfangsefni. Þessi nálgun verður mun mikilvægari eftir því sem árin færast yfir. Þekkt eru stór „inngangsnámskeið“ að ólíkum fögum þar sem nemendur „fara yfir“ megin viðfangsefni tiltekins fags í einhverri röð sem höfundar námsbóka telja „skynsamlega“. Stefnan í námi fullorðinna er aftur á móti oftar en ekki hagnýt og lausnarmiðuð. Það er hefur tíðkast lengi að byggja kennslu í fullorðinsfræðslu á aðstæðum þátttakenda frekar en á innbyggðu skipulagi tilgreindra námsgreina. Það geta verið hagnýtar spurningar úr lífi fullorðinna sem leggja línuarnar, t.d.: Hvernig virkar síminn minn? Hvernig tekst ég á við það að sinna foreldri með alsheimer sjúkdóm? Hvernig nota ég nýja tölvukerfið sem ég kemst ekki lengur hjá því að nota? Hvernig tryggi ég öryggi viðskiptavina minna? Hvernig nýtast kenningar félagsfræðinnar í kennslustofu? Við skipulag kennslu er því gagnlegt að finna út hvaða spurningar væntanlegir þátttakendur eru að glíma við og í upphafi að gefa þeim rými og hjálpa þeim að sjá hvernig það innihald sem við bjóðum uppá hjálpi þeim að fá svör við spurningum sínum.
6) Áhugahvöt
Það getur verið þrautinni þyngra að læra og hvað þá kenna eitthvað sem námsmaðurinn hefur ekki áhuga á að læra. Áhugi getur vaknað af ýmsum hvötum. Sumir flokka þá í ytri og innri hvata. Ytri hvatar koma utanfrá og væru t.d. einkunnir, launahækkanir, skylda, þú þarft að ljúka þessu námskeiði til að ná öðrum markmiðum. Á meðan innri hvatar tengjast námsmanninum sjálfum: Námsefnið tengist áhugamálum, eða hann vill læra efnið til að ná betra valdi á viðfangsefnum sínum í lífi og starfi. Það kemur í ljós að það verður erfiðara og erfiðara að nota ytri hvata, eins og t.d. einkunnir eða launahækkanir til að hvetja fólk til að læra. (Sumir reyna ennþá að nota slíka ytri hvata til að tæla fullorðið fólk í nám, eða til að taka þátt í námskeiðum, en hversu mikið lærir það?) Fullorðnir læra mun frekar af innri hvötum, eins og að ná valdi á viðfangsefni sem stendur fyrir dyrum eða leit að auknum þroska og lífsgæðum. Það lendir gjarnan í höndum kennarans að hjálpa þátttakendum að finna innri áhuga þátttakenda sem opnar huga þeirra fyrir námsefninu. Heiðarleg umræða um tilgang, samhengi og gagn námsins hjálpar mikið. Upplýsingar um mögulegt gagn af innihaldi námskeiðs mega gjarnan koma fram í námskeiðslýsingum og í kynningu kennarans á hverju þema fyrir sig, bæði í upphafi og jafnóðum og þau koma fyrir. Sömuleiðis er kjörið að útbúa verkefni þar sem þátttakendur fá tækifæri til að tengja námsefnið við eigin aðstæður og markmið. Það hefur komið í ljós að í fjarnámi er sérstaklega mikilvægt að búa til verkefni sem fá nemendur til að tengja námsefnið við eigin aðstæður.
Þessar sex fullyrðingar um það sem einkenni nám fullorðinna hafa haft mikil áhrif á hugmyndir fólks sem vinnur við fullorðinsfræðslu enda ríma þær vel við reynslu þess og viðhorf sem verða til af sjálfu sér þegar fólk vinnur að fræðslumálum með fullorðnu fólki. Þær eru þó engan vegin endanleg lýsing á öllum fullorðnum námsmönnum, einstaklingsmunur er mikill, aðstæður eru ólíkar og innihald námsins er ólíkt.
Áskorun: Andragogy Knowles Spáðu í það hvað þessar sex fullyrðingar Knowles geta gefið þér í tengslum við þína eigin kennslu. Prófaðu t.d. að skrifa fyrir hverja fullyrðingu hvernig hún gæti haft áhrif á það þegar þú undirbýrð næsta námskeið sem þú heldur.
Efnisyfirlit:
- Um það að kenna fullorðnum
- Það eru forréttindi að kenna fullorðnum
- Í sporum nemenda þinna
- Hvað vitum við um fullorðna námsmenn?
- Andragogy: Þekkt „kenning“ um sérstöðu fullorðinna námsmanna
- Þrjú sjónarhorn á sérstöðu fullorðinna námsmanna
- Hvað geta rannsóknir á þátttöku fólks í námi sagt okkur um fullorðna námsmenn?
- Nám fullorðinna í nútímanum
- Málið er að stuðla að NÁMI
- Fjórar tegundir náms
- Hvað læra fullorðnir?
- Hvernig lærir fólk?
- Út fyrir þægindarammann
- Sjálfsmyndin og þú
Skildu eftir svar
Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.