Your site
30. desember, 2024 16:48

3. Málið er að stuðla að NÁMI

Áskorun: Nám 
Áður en þú lest áfram skrifaðu hjá þér þína skilgreiningu á námi:
Hvað er nám í þínum huga?  Hvernig gætir þú lýst því sem nám ER í nokkrum orðum? 

Við sem erum að kenna fullorðnum erum í forréttinda stöðu! Við fáum að skipuleggja og leiða nám fullorðins fólks; samstarfsfólks, kollega, fólks sem er að snúa við blaði í lífi sínu á einhvern hátt. Það kemur iðulega með opnum huga til að taka þátt í ferli sem það reiknar með að skilji það eftir ríkara á einhvern hátt. Við fáum að leiða það ferli, en oftast eru þátttakendur sér ekki sérlega meðvitaðir um sitt hlutverk í ferlinu, og það hversu stóran þátt þeir sjálfir munu eiga í jákvæðri niðurstöðu námsferlisins sem þau eru að hefja. Íslenskir skólar hafa í mörgum tilfellum vanið marga við að vera frekar passífir, eða óvirkir í skipulögðu námi. Vandinn er að námskeið og aðrir námsferlar ganga best og skilja mest eftir sig þegar þátttakendur eru virkir í ferlinu og vinna sjálfir með námsefnið. Þannig að það lendir í okkar verkahring að skipuleggja námið og leiða það þannig að þátttakendur laðist til virkrar þátttöku. 

Því skýrari hugmynd sem við sjálf höfum um fyrirbærið eða ferlið sem við köllum nám; hvað það er, hvernig það fer fram, hvað gerist og hvernig má styðja við það og leiða, þeim mun auðveldara reynist okkur verkefnið að skipuleggja kennslu og að kenna. 

Hvað er nám? 

Hvað ER þá nám? Út á hvað gengur það og hvað get ég gert til að styðja við það? 

Ætli einfaldasta og skýrasta skilgreiningin á námi sé ekki:  

Nám er sérhvert ferli sem leiðir til varanlegra breytinga í þekkingu, hegðun, viðhorfum og leikni. Breytingar sem er ekki hægt að tengja beint við aukinn aldur og þroska.  

(Hér styðst ég við skilgreiningu Knud Illeris, 2017 bls. 3) 

 „any process that in living organisms leads to permanent capacity change and which is not solely due to biological maturation or ageing.“  

(Illeris, Knud. 2017 How We Learn (p. 3). Taylor and Francis. Kindle Edition.) 

Þessi skilgreining Illeris er mjög almenn en hún setur á oddinn þá hlið náms að það snýst um breytingar sem einstaklingur kemur til leiðar í lífi sínu og er ekki hægt að skýra með eðlilegum þroska, breytingum sem hann vinnur markvisst að eða verða til vegna þess að hann bregst meðvitað eða ómeðvitað við breytingum í umhverfi sínu. 

Nám er vinna 

Í flestum tilfellum kallar nám á vinnu, því í yfirleitt snýst nám um meðvituð viðbrögð einstaklings við áreiti, þar sem hann eða hún þarf að ákveða hvort, hvar og hvernig hann ætlar að muna nýjar upplýsingar eða breyta hegðun og ákveða hvaða merkingu hið nýja hafi fyrir sig og svo hverju það muni breyta í lífi og starfi. 

Fólk lærir vissulega ýmislegt ómeðvitað í vanagangi lífsins í gegnum samskipti við annað fólk, við erum ekki að tala um þá tegund náms eða lærdóms hér. Við erum hér að skoða nám sem fer fram meðvitað með þeim tilgangi að auka hæfni þátttakenda, það er gefa þeim tækifæri til að að bæta við þekkingu sína, breyta viðhorfum og eða auka leikni sína. 

Nám, eins og það sem fer fram á námskeiðum og öðrum skipulögðum námsferlum, kallar á að þátttakendur fái tækifæri til að vinna með efnið sem þeir eru að læra, þannig að þeir geti ákvarðað hvaða merkingu nýja efnið, nýju hugmyndirnar, upplýsingarnar eða aðferðirnar, hafi fyrir þá, hvernig það nýtist þeim og þá hvernig þeir ætla að muna og nýta sér hið nýja. 

Hér komum við að stórum mun í námi barna og fullorðinna. Börn spyrja vissulega um gagnsemi þess sem þau eru að læra, en fullorðnir geta oft ekki lært hluti nema þeir sjái tilgang í námsefninu fyrir sig – stundum er það jafnvel ómeðvitað. Grunnskólakennarar þekkja vel spurningar eins og „tilhvers þurfum við að læra þetta?“ og vissulega ber þeim að útskýra það og hjálpa nemendum sínum til að sjá tilgang í því að læra námsefnið. Það hjálpar þeim að fá áhuga á að læra það sem liggur fyrir. Fullorðnir mæta líka til leiks með þessar spurningar, þeir eru oft kurteisir, eða hlédrægir, og bera þær jafnvel ekki fram. En, ef þeim gengur illa að fá eða búa til svar við þessum spurningum er allt eins liklegt að þeir læri ekki neitt. Það getur verið alveg ómeðvitað. Ég hef haft nemendur á námskeiðum sem hafa sýnt efninu – eða námskeiðinu – áhuga en ekki getað lært innihaldið vegna þess að innst inni vissu þau að þau myndu aldrei nýta það! Vinnan við að finna út úr þessu getur verið flókin því það eru margar spurningar sem gætu truflað námsmanninn, eins og: „Eru nýju upplýsingarnar sannar?“ „Eru þær í samræmi við það sem ég veit?“ „Eru þær gagnlegar?“ „Hvernig nýtast þær mér?“ „Hvað ætli gerist ef ég myndi nýta mér þær og þær hefðu áhrif á líf mitt?“. Mig grunar að svona spurningar séu færri hjá börnum sem eru að læra eitthvað nýtt og þeim reynist jafnvel ekki eins erfitt að svara þeim. 

Hverju sem því líður er ljóst að til þess að læra eitthvað nýtt þarf fólk tækifæri til að vinna með nýjar upplýsingar og hugmyndir, prófa og æfa nýjar aðferðir, tengja efnið við eigið líf og taka ákvarðanir um það hvort og hvernig námsefnið muni nýtast sér. Þessi vinna þarf að vera hluti af námsferlinu sem við skipuleggjum. Við meigum og getum ekki ýtt henni alfarið á frítíma þátttakenda. Í fyrsta lagi meigum við það ekki vegna gæða námsins: Mikilvægur hluti námsins er úrvinnsla námsmanna á námsefninu og samskipti jafningja um námsefnið eru miðlægur hluti gæðanna sem felast í því að vera í hópi fólks að læra eitthvað, hvort sem hann tengist í kennslustofu eða á netinu.  Í öðru lagi getum við það ekki vegna þess að við getum ekki treyst á að þátttakendur finni tíma til að vinna úr námsefninu á vinnustað eða í frítíma sínum. Námskeiðið nær þá ekki að koma náminu hjá hverjum þátttakanda nægilega langt að það geti breytt einhverju fyrir hann. Vissulega má ýta hluta vinnunnar yfir á tíma þátttakenda þegar ferlið er langt og gert er ráð fyrir heimavinnu og verkefnavinnu, en á námskeiðum sem tengjast starfsþróun þátttakenda, er oft vafasamt að reikna með því að þátttakendur finni tíma í önnum vinnudagsins til að bæta við úrvinnslu á því námsefni sem við bjóðum þeim uppá. Við þurfum því að útbúa tækifæri fyrir þátttakendur að vinna með efnið í samskiptum sínum við aðra þátttakendur og okkur. Þannig fá þau næði til að vinna á áhugaverðan og merkingarbæran hátt með nýjar hugmyndir og aðferðir og þannig að laga lærdóminn sem verður til í gegnum námsferlið að sínum veruleika.  

Efnisyfirlit:

  1. Um það að kenna fullorðnum
  2. Það eru forréttindi að kenna fullorðnum
  3. Í sporum nemenda þinna
  4. Hvað vitum við um fullorðna námsmenn?
  5. Andragogy: Þekkt „kenning“ um sérstöðu fullorðinna námsmanna
  6. Þrjú sjónarhorn á sérstöðu fullorðinna námsmanna
  7. Hvað geta rannsóknir á þátttöku fólks í námi sagt okkur um fullorðna námsmenn?
  8. Nám fullorðinna í nútímanum
  9. Málið er að stuðla að NÁMI
  10. Fjórar tegundir náms
  11. Hvað læra fullorðnir?
  12. Hvernig lærir fólk?
  13. Út fyrir þægindarammann
  14. Sjálfsmyndin og þú

Skildu eftir svar