Your site
28. janúar, 2025 22:03

Það eru forréttindi að kenna fullorðnum

Þú og ég sem kennarar

Í mörg ár hef ég kennt fólki sem kennir fullorðnum. Mér hefur fundist það heiður og það hefur veitt mér mikla ánægju. Það sem ég tek eftir þegar ég kenni slíku fólki – fólki eins og þér! – er að fólkið sem velst til að kenna í fyrirtækjum, stofnunum og hjá fræðsluaðilum er yfirleitt fólk sem býr yfir góðum samskiptahæfileikum, er ábyrgt, áhugasamt um margt, hefur góða þekkingu á fagi sínu og starfi og það er tilbúið að miðla af þekkingu sinni og hjálpa öðrum. Sem sagt: Frábært fólk!

Nemendur þessa fólks geta verið samstarfsfólk, þátttakendur á námskeiðum hjá fræðslumiðstöð eða endurmenntun háskóla, meðlimir stéttarfélags eða í fólk sem tekur þátt sjálfboðastarfi eins og hjá Rauða krossinum eða björgunarsveitunum landsins.

Í mörgum tilfellum snýst kennslan um að hjálpa fullorðnu fólki að taka næstu skref í lifinu. Sumir hafa nýlega tekið ákvarðanir um að breyta lífinu og búa sér og sínum betra líf, aðrir hafa tekið á sig ný hlutverk og verkefni og þurfa nýja þekkingu og hæfni til að ráða við þau og enn aðrir vinna jafnt og þétt að því að njóta lífsins og dýpka skilning sinn með því að læra æ meira… En allir eiga þeir það sameiginlegt að vilja nýta það sem þeir læra til að geta eitthvað nýtt og breyta möguleikum sínum í lífinu.

…og hugsaðu þér: Við, þú og ég, fáum tækifæri til að verða samferða þeim á þessari nýju vegferð og jafnvel að leggja eitthvað gott til!

Áskorun: Hvers vegna kenna? Skrifaðu hjá þér nokkra punkta um það hvers vegna þú kennir fullorðnu fólki, eða stefnir á það að kenna fullorðnum. Þú gætir spáð í það, af hverju þú tókst að þér þetta verkefni, hvað þér finnst um það og hverju þú reiknar með. Kvíðir þú einhverju? Hlakkar þú til einhvers? Hvernig sérðu sjálfa/n þig fyrir þig í þessu hlutverki?

Frábært hlutverk / Frábært tækifæri

Það sem ég er að reyna að segja er, að mér finnst við hafa fengið ábyrgðarmikið og spennandi hlutverk og verkefni: Við fáum tækifæri til að leiða annað fólk í gegnum mikilvæg námsferli, sem stundum geta skipt það sköpum í lífi sínu.

Annað sem gerir hlutverk fullorðinsfræðarans spennandi er að það gefur okkur tækifæri til að vera alltaf að læra eitthvað nýtt sjálf og að ná stöðugt betra valdi á því sem við höfum áhuga á.

Ætli besta leiðin til að læra eitthvað sé ekki einmitt að kenna það? Þannig að þú græðir alltaf að minnsta kosti það á því að kenna öðrum það sem þú kannt: Þú lærir stöðugt meira og dýpra sjálf/ur um fagið þitt. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja að besta leiðin til að öðlast eitthvað í lífinu sé að gefa, þannig að með því að gefa af tíma þínum, athygli, stuðningi, hvatningu, þekkingu og hæfni færð þú margfalt til baka.

Kennsla og þjálfun eru þannig frábær tækifæri til að styðja við og hjálpa samstarfsfólki og öðru fullorðnu fólki að halda áfram að þroska sig, ná markmiðum sínum og verða betri manneskjur.

En málið er að þeir sem hafa spáð mest í nám og kennslu segja líka að þegar allt kemur til alls geti maður aldrei kennt neinum neitt. Það eina sem við getum gert sé að skapa aðstæður svo aðrir geti lært. Þekktastur þeirra sem skrifa á þessum nótum var Carl Rogers, m.a. í bók sinni „Freedom to learn“.  Nám er nefnilega alltaf vinna þátttakandans eða námsmannsins sjálfs og enginn getur tekið hana frá honum eða henni og ef einhver vill ekki læra eitthvað nýtt, getum við reynt allt sem við viljum án árangurs.

Hlutverk þitt

Paul Louis Serusier (1864-1927). „La Tapisserie“, 1924. Musée des Beaux-Arts de la Ville de Paris, Petit-Palais.

Þá komum við að hlutverki þínu sem kennara, leiðbeinanda eða þjálfara, lóðs

Ég veit ekki hvort þú tókst eftir því áðan, en ég sagði að ég hafi tekið eftir því að það fólk sem fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök velja iðulega til að kenna, er fólk sem er hjálpsamt, hefur góða samskiptahæfileika, er ábyrgt, sér jafnvel „stóru myndina“ og svo kann það að sjálfsögðu sitt fag.

Þetta segir mér að fólk sem velur aðra til kennslu áttar sig (kannski ómeðvitað) á því að það er ekki nóg að kunna fagið til að geta kennt, heldur þarf kennarinn að setja sig í spor nemenda sinna, búa til aðstæður sem stuðla að námi og svo bjóða upp á einhverja upplifun, einhverja reynslu, sem styður við nám og bjóða upp á tækifæri til að vinna með þá reynslu.

Það getur verið að kennarinn útskýri námsefni og bjóði upp á verkefni þannig að þátttakendur í námsferlinu vinni með námsefnið á einhvern hátt, en hann gæti líka fengið nemendur til að lesa námsefnið sjálfa, útskýra það hver fyrir öðrum (manstu: „Besta leiðin til að læra er trúlega að kenna sjálfur…“) og spá svo saman í það hvernig þeir geti nýtt þessar hugmyndir i lífi sínu, starfi, í sínum aðstæðum. Sömuleiðis er það þannig í dag að sú þekking sem fólk þarf til að ráða við verkefnin sín er kannski hvergi til. Það gæti verið að „bókin“ um viðfangsefnið sé annað hvort úrelt eða ekki til. Þannig að stundum getur nám fullorðinna verið fólgið í því að fara í gegnum einhverja reynslu, hugsa um hana og finna sjálfur – reyndar oftast með öðrum – svör við spurningum eða nýjar leiðir til að takast á við aðsteðjandi áskoranir.

Ég frétti nýlega af námskeiði í öryggismálum sem var þannig skipulagt að starfsfólk safnaðist saman á verkstæði og gekk um vinnustað sinn og merkti staði, ferla, aðgerðir, tæki og tól sem geta skapað öryggisógn. Síðan vann starfsfólkið saman að því að búa til leiðir, ferla og úrbætur sem auka öryggi á vinnustaðnum, í þessu tilfelli var kennslubókin ekki til og enginn nema fólkið á viðkomandi vinnustað gat fundið hvaða leiðir passa.
Í bæjarfélaginu þar sem þetta fór fram, eru þátttakendur enn að tala um námskeiðið við kennarann og skipuleggjendur námskeiðsins, nokkrum árum eftir að það var haldið.

Hlutverk kennara er því fjölbreytt og margþætt. Þrátt fyrir að við séum vön því að miðlun þekkingar á námskeiði sé í höndum kennarans, getur það allt eins lent í höndum gesta, þátttakenda sjálfra og þátttakendur gætu jafnvel lent í því að búa þekkinguna til á námskeiðinu.

Áskorun: Hvert er hlutverk þitt?
Spáðu í það hvernig þú sérð þitt hlutverk á þeim námskeiðum eða námsferlum sem þú kemur að? Skrifaðu nokkra punkta hjá þér og veltu fyrir þér hvaðan þú færð hugmyndirnar um hlutverk þitt. Hvers vegna ætli þú sjáir hlutverk þitt svona fyrir þér?

Kennari, þjálfari, leiðbeinandi…

Það vill brenna við í fullorðinsfræðslunni að við eigum erfitt með að velja nafn á þá sem hanna og leiða skipulagt nám með fullorðnum. Sumum finnst hlutverkið vera svo mikið öðru vísi en hlutverk grunn– og framhaldskólakennara að það verðskuldi annað nafn. Aðrir eru hræddir við að nota titilinn kennari, vegna löggildu starfsheitanna: Leikskólakennari, Grunnskólakennari og Framhaldskólakennari. En starfsheitið „kennari“ er ekki löggilt. Í sumum tilfellum má rekja viljann til að nota annað heiti á þetta hlutverk til slæmrar reynslu sumra þátttakenda úr formlega skólakerfinu, þar sem kennarar miðluðu efni án þess að taka mið af því hverjum þeir væru að kenna, þeir stjórnuðu ferlinu og leiddu stranglega eftir sínum dutlungum. Stjórn þessara kennara leiddi jafnvel til niðurlægingar þátttakenda á einhvern hátt. Í öðrum tilfellum kemur þörfin fyrir annað heiti frá nýrri eða annarri sýn á það sem er í gangi þegar fullorðnir koma saman til að læra. Þá má líka rekja óskina eftir nýju nafni á hlutverk fullorðinsfræðarans til þess veruleika að allir þátttakendur í námsferli standa jafnfætis í valda og virðingastöðu og í því samhengi sem þeir vinna í.

Þess vegna sjáum við heiti eins og: Leiðbeinandi, þjálfari, starfsþjálfi, lóðs (e. facilitator), fullorðinsfræðari… (e. Instructor, Trainer, Workplace coach, Facilitator, Mentor, Adult Educator…). Í öllum tilfellum er um að ræða manneskju sem tekur að sér að leiða eitthvert ferli sem hefur þann tilgang að þátttakendur viti, kunni, geti og finnist eitthvað nýtt eða geti það betur en áður og/eða að viðhorf þeirra breytist á einhvern hátt. Þetta er í sjálfu sér sama starfslýsing og hjá kennurum almennt.

Þess vegna sting ég uppá því að amk. hér á þessu námskeiði notum við nafnið „kennari“ yfir einhvern sem hefur þetta hlutverk því það er gamalt og gott heiti yfir fólk sem skipuleggur og leiðir alls konar námsferla fyrir aðra.

Fullorðnir námsmenn

Þegar við þurfum að gera eitthvað sem við höfum aldrei lært sérstaklega, er líklegast að við nýtum reynsluna okkar til að leita að fyrirmyndum. Þannig gerum við flest þegar við eigum að fara að kenna eða búa til einhvers konar námsferli fyrir aðra: Við miðum við fyrri reynslu okkar af slíkum aðstæðum, reynslu okkar af SKÓLA! Vandinn við það er að í okkar tilfelli á það ekki sérlega vel við!

Mesta reynslu af því að taka þátt í námsferlum sem aðrir hafa skipulagt höfum við úr skóla: Leikskóla, barnaskóla, framhaldskóla og jafnvel háskóla… Við vorum börn, unglingar eða ungt fullorðið fólk, sem bjó jafnvel enn heima hjá foreldrum okkar og alla leið okkar í gegnum skólakerfið var það kerfið og kennararnir sem settu reglurnar og réðu ferðinni.

Það kemur í ljós að um leið og fólk flytur að heiman, stofnar sitt eigið heimili, stjórnar peningamálum sínum algjörlega sjálft, þá verður það fullorðið og fer smám saman að hugsa og hegða sér öðru vísi en áður. Þetta hefur áhrif á fólk þegar það ætlar svo að taka þátt í skipulögðum námsferlum eins og námskeiðum, fræðslufundum, eða ráðstefnum. 

Ég hef tekið eftir því í kennslu minni og hlutverkum sem kennari í fullorðinsfræðslu, sem kennslustjóri í fræðslustofnun, háskólakennari og formaður námsbrauta og námsleiða að það skiptir verulegu máli að hafa skýra hugmynd um fólkið sem maður vinnur með, hvað það er að glíma við og hvað skiptir það máli, ætli maður að ná árangri og ekki gera mistök sem eyðileggja jafnvel námsupplifunina fyrir þátttakendum.

Þess vegna er skynsamlegt að velta fyrir sér því sem við vitum og getum vitað um óskir, þarfir, aðstæður þess fólks sem við ætlum að kenna.

Um það að læra

Ein skýring á stöðu mannkyns á plánetunni er hæfileiki okkar til að læra og bregðast á skapandi hátt við nýjum aðstæðum og áskorunum. Þannig að námshæfileiki okkar er trúlega sá hæfileiki manna sem hefur haft mest áhrif á velgengni okkar (og – eins og við sjáum í dag stærstu áskoranir líka).

Nám mætti skilgreina sem þá vinnu okkar sem leiðir til þess að við gerum varanlegar breytingar á þekkingu, leikni og viðhorfum okkar. 

Allir geta lært af því að fylgjast með öðrum og herma eftir því hvernig þeir gera. Fólk lærir líka af reynslunni, með því að ígrunda reynslu sína draga ályktanir og breyta hegðun sinni í kjölfar niðurstöðu ígrundunarinnar. En stundum fáum við beina handleiðslu annarra og leiðbeiningu til að læra flóknari hluti.

Þegar við erum í hlutverki fólks sem á að stuðla að og styðja við slíkt nám annarra, þurfum við að hafa skýrar hugmyndir um það hvað nám er, í hverju það felst og hvað getur stutt við nám fullorðinna og hvað gæti latt það eða hindrað.

Einhver sem tekur að sér að leiða slík námsferli fyrir og með öðrum gerði því vel í að fylgjast með því hvernig fólk lærir og leggja sig fram um að læra sjálf/ur allt sem hann getur um það hvernig fólk lærir.

Samantekt og fram á veginn

Ef þú hefur tekið að þér hlutverk kennara, þá vil ég byrja á að óska þér til hamingju, því eins og ég sagði áðan þá sé ég það sem heiður að fá tækifæri til að vinna á slíkan hátt með fólki og fá að fylgjast með því taka næstu skref í þroska og að ná valdi á einhverjum mikilvægum þáttum í lifi sínu og auka hæfni sína.

Þetta er hlutverk og viðfangsefni sem mun veita þér mikla ánægju og gleði. Þetta hlutverk býður þér upp á ótal tækifæri til að þroskast sjálf/ur, til að takast á við spennandi verkefni og eiga í jákvæðum og uppbyggjandi samskiptum við alls konar fólk.

Ég vil hvetja þig til að….

  • spá reglulega í þitt hlutverk sem kennara og hvað það þýðir fyrir það hvað þú gerir og hvernig þú leiðir aðra í gegnum alls skonar námsferli.
  • Til að geta gert það vel er mikilvægt að hafa skýra sýn á sérstöðu fullorðinna þegar þeir eru í hlutverki námsmanns. Þar er sérlega mikilvægt að átta sig á hvað það gæti verið í skipulagningu námsferlisins og í framkomu okkar sem gæti stutt við og hindrað nám þeirra.
  • Sömuleiðis að kynna þér vel hvernig fólk lærir og hvað maður getur gert til að styðja við nám þess og lærdóm.

Áskorun: Væntingar
Skrifaðu hjá þér nokkra punkta um hvað þú vonast til að fá út úr þessu námskeiði.
Það væri áhugavert að sjá hvað þú skrifar,bæði fyrir okkur og fyrir aðra þátttakendur á námskeiðinu. Póstaðu svarinu þínu með því að setja þrjú atriði sem þú skrifaðir hjá þér í reitinn hér fyrir neðan og smella á senda. Þannig færð þú að sjá væntingar annarra sem tóku námskeiðið á undan þér og við fáum að sjá hvaða væntingar þátttakendur hafa í upphafi. Kannski breytum við námskeiðinu…
Smelltu hér til að skrá væntingar þínar

Efnisyfirlit:

  1. Um það að kenna fullorðnum
  2. Það eru forréttindi að kenna fullorðnum
  3. Í sporum nemenda þinna
  4. Hvað vitum við um fullorðna námsmenn?
  5. Andragogy: Þekkt „kenning“ um sérstöðu fullorðinna námsmanna
  6. Þrjú sjónarhorn á sérstöðu fullorðinna námsmanna
  7. Hvað geta rannsóknir á þátttöku fólks í námi sagt okkur um fullorðna námsmenn?
  8. Nám fullorðinna í nútímanum
  9. Málið er að stuðla að NÁMI
  10. Fjórar tegundir náms
  11. Hvað læra fullorðnir?
  12. Hvernig lærir fólk?
  13. Út fyrir þægindarammann
  14. Sjálfsmyndin og þú


					

Skildu eftir svar