Your site
19. apríl, 2024 14:50

Raunfærnimat á háskólastigi

Hróbjartur Árnason – Leiðir málstofuna

Önnur málstofan á Menntakviku 2020 sem kjörsviðið Nám Fullorðinna kemur að snýst um raunfærnimat á háskólastigi. Fyrir nokkrum árum sendi evrópusambandið frá sér tilmæli til allra aðildarlanda – og EES landanna, um að vinna að því að koma á raunfærnimati við inntöku í nám og einnig til styttingar náms. Á þessari málstofu fáum við að heyra um stöðu mála í þessu verkefni. Annars vegar um hvernig hefur verið unnið að þessum málum á Íslandi og síðan tilviksrannsókn sem er í gangi þar sem námsráðgjafi fylgir einum nemanda eftir í tilraun í raunfærnimati til styttingar náms

Smelltu hér til að taka þátt á málstofunni
fimmtudaginn 1. október kl. 10:45 – 12:15

Ina Dögg Eyþórsdóttir

Raunfærnimat á háskólastigi, næstu skref

Samkvæmt tilmælum frá Ráðherraráði Evrópusambandsins frá 2012 er mælt með því að öll lönd Evrópusambandsins innleiði raunfærnimat á öllum skólastigum fyrir árið 2018.

En þrátt fyrir að skipulagt og formlegt raunfærnimat hafi verið i boði við bandaríska háskóla frá áttunda áratug síðustu aldar, hefur þekking sem fólk aflar sér í gegnum reynslu t.d. í starfi óvíða verið metin til styttingar námi í Evrópu hingað til. Raunfærnimat er aftur á moti vel grundvallað á framhaldskólastigi, víða en ekki síst á Íslandi . Undanfarið hafa um 500 manns farið í gegnum raunfærnimat hérlendis hvert ár, flestir til styttingar náms í framhaldskólum. Árið 2015 vann nefnd. að frumkvæði Matsskrifstofu HÍ, skýrslu þar sem skoðað var annars vegar hvort og  hvernig  háskólastigið  gæti  nýtt  sér  raunfærnimat  við  inntöku  í  háskóla  og  hins  vegar hvernig mætti innleiða raunfærnimat á háskólastigi til styttingar náms. Í þessu erindi verða niðurstöður skýrslunnar skoðaðar stuttlega, þróun umræðunnar rakin innan háskólasamfélagsins og fyrstu tilraunir við HÍ kynntar.

Soffía Gísladóttir

Stytting háskólanáms með raunfærnimati

Er raunhæft að meta hæfni sem áunnist hefur á vinnumarkaði, til ECTS háskólaeininga, með það í huga að stytta nám til grunn háskólagráðu?

Þessari spurningu mun ég reyna að svara í erindi mínu og byggir það á niðurstöðu raunfærnimats sem fór fram í tilraunaskyni við Háskólann á Akureyri sl. vetur þegar reyndur blaðamaður, til rúmlega 30 ára, var raunfærnimetinn við Fjölmiðlafræði Háskólans á Akureyri.

Á íslenska vinnumarkaðinum fyrirfinnst mikill mannauður og í honum búa verðmæti sem oftar en ekki eru vanmetin þegar ráða skal fólk til starfa. Þessir einstaklingar, með sérhæfingu af vinnumarkaði, hafa öðlast þekkingu sem er ekki síður metin til aukins hagvaxtar en sú þekking sem einstaklingar hafa öðlast í hinu formlega skólakerfi. Allt að 30% fólks með starfs- og framhaldsmenntun á Íslandi, þar með talið stúdentspróf, er í störfum umfram menntunarstig þ.e. störfum sem krefjast háskólamenntunar. Þessir einstaklingar hafa alla tíð eflt sig í starfi með ýmsum námskeiðum og nýjungum á vinnumarkaði, ekki síst tæknilega og hafa verið eftirsóttir sem starfskraftar. Margir þessara einstaklinga hafa gert tilraun til þess að hefja háskólanám, en hafa hrökklast frá námi vegna þess að þeim finnst þeir ekki eiga heima á skólabekk, í grunn háskólanámi, við hlið nemenda sem hafa nýlokið stúdentsprófi og hafa ekki til að bera neina starfsreynslu, að ráði, af vinnumarkaði. Þeir upplifa sig á röngum stað.

Ég mun fjalla um ferlið við raunfærnimatið, niðurstöðuna sem og tækifærin sem bjóðast, fari háskólar á Íslandi þá leið að bjóða upp á raunfærnimat til styttingar háskólanáms.

Soffía Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra og Austurlandi, MA nemi í menntunarfræðum við Háskólann á Akureyri.

Hvernig tekur þú þátt?

Smelltu á slóðinni til að taka þátt í tölvu eða snjalltæki. Ef þú notar snjallsíma eða spjaldtölvu þarftu að setja fyrst upp Zoom appið í app store eða Play store. Hægt er að taka þátt með virkum hætti í textaspjalli og einnig með hljóð/myndspjalli – við reiknum með líflegum umræðum. Best er að koma inn á fund (í upphafi) með slökkt á hljóði og myndavél. Neðst í glugga fundarherbergisins eru svo myndtákn fyrir myndavél og hljóðnema. Vinsamlega kveikið þar á myndavél og hlóðnema þegar við á. Góð regla að endurræsa tölvu fyrir þátttöku.

Nánari tækniupplýsingar

Smelltu hér til að taka þátt á málstofunni fimmtudaginn 1. október kl. 10:45-12:15

Þetta er ein af þremur málstofum sem Kjörsviðið Nám fullorðinna kemur að á Menntakviku 2020.

Málstofurnar sem kjörsviðið Nám fullorðinna kemur að eru:

Smelltu hér til að taka þátt á málstofunni fimmtudaginn 1. október kl. 10:45 – 12:15

Skildu eftir svar