Your site
26. apríl, 2024 23:27

Um val á aðferðum

Kennsluaðferðir eru verkfæri kennarans og val kennarans á aðferðum mótar atburðina sem hann leiðir, hvort sem það er námskeið, kennslustund, ráðstefna, fræðslufundur eða vefstofa. 

Val aðferða stýrir því hvernig námsferli virkar á nemendur. Þátttakendur upplifa námsferlið í gegnum aðferðirnar. Nemendur upplifa námskeið sem samanstendur af einum löngum fyrirlestri á allt annan hátt en námskeið sem byggir á lausnarleit þeirra sjálfra og skapandi verkefnum í litlum hópum. Það má því reikna með því að námið sem fram fer verði allt annað og annars konar. Það er annað sem lærist og öðru vísi með því að hlusta á fyrirlestur, en að taka sjálfur virkan þátt, þrátt fyrir sama eða svipað innihald.  

Þær leiðir sem flestir kennarar í fullorðinsfræðslunni velja í kennslu sinni byggja sennilega oftast á því að þeir herma eftir kennurum sem þeir hafa sjálfir séð og upplifað. Sumir prófa sig áfram og lesa jafnvel leiðbeiningar í í bókum eða greinum sem þeir finna á netinu. Þannig fá þeir svör við knýjandi spurningu eins og: „Hvernig ætti ég að kenna?“ Sjaldan gefst þó tækifæri til að kafa dýpra og spyrja spurninga eins og: „Hvers vegna?“ eða „Hvaða afleiðingar ætli það hafi?“, Slíkar spurningar geta þó reynst hjálplegar þegar við viljum geta rökstutt kennsluna, axlað ábyrgð á henni og einkum og sér í lagi ef við viljum geta endurskoðað það sem við gerum og gera enn betur. Þá vaknar skiljanlega spurning um það hvernig kennari velur kennsluaðferðir og að hverju sé að hyggja. Ein leið til að nálgast þessa spurningu er að skoða val aðferða frá nokkrum ólíkum sjónarhornum. Þekkt leið er að velja fjögur aðgreind sjónarhorn: Sjónarhorn kennarans, nemandans, efnisins og sjónarhorn aðstæðna (sbr. Conti & Kolody, 2004; ég styðst hér líka við Müller, 1990). Við tökum þau fyrir hvert og eitt hér fyrir neðan. 

Sjónarhorn efnisins 

Mynd: Susan Yin á Unsplash 

Með því að byrja á sjónarhorni efnisins, verða fyrst á vegi okkar spurningar um tilgang og markmið námsferilsins: Af hverju er námskeiðið haldið og hverju á það að ná fram hjá nemendum? Námskeið sem snýst um íslenska matargerðarlist til dæmis, verður allt öðru vísi ef markmið þess er að nemendur geti útlistað þróun matargerðarlistar á Íslandi í 1100 ár, en ef þátttakendur eiga að kunna að matreiða helstu rétti af matseðli hefðbundins íslensks heimilis um miðja 20 öld. Á öðru námskeiðinu snýst málið um að nemendur afli sér upplýsinga um hráefni, matreiðsluhætti og matarmenningu og geti jafnvel endursagt eitthvað af þeim upplýsingum, á meðan síðar nefnda námskeiðið snýst um að þátttakendur afli sér þekkingar um úrval hráefna á Íslandi og þjálfist í því að matreiða þau eins og venjan var á ákveðnum tíma í Íslandssögunni. Á fyrra námskeiðinu veljast aðferðir til að miðla upplýsingum á skýran og eftirminnilegan hátt, meðan á því síðara bætist við þjálfunarþáttur, þar sem þátttakendur prófa sig áfram með matreiðslu. Þannig móta markmið og innihald námsferlis val á aðferðum. Á námskeiði sem snýst fyrst og fremst um að þátttakendur afli þekkingar, verður verkefni kennarans fólgið í því að velja úr aðferðum sem gagnast þátttakendum til að fá upplýsingar og tengja þær saman í merkingarbært samhengi og muna þær. Þar koma aðferðir sem tengjast miðlun, öflun og úrvinnslu upplýsinga til greina. Þar eru fyrirlestrar og sýnikennsla gjarnan áberandi. En það er líka hægt að fá nemendur sjálfa til að lesa texta, læra námsefnið saman og kenna hver öðrum. Slíkar leiðir eru sérlega áhugaverðar þegar umræður um námsefnið og tenging þess við aðstæður þátttakenda skipta máli. 

Þá verður það ekki umflúið að aðferðir hafa áhrif á innihald og jafnvel endanleg markmið námskeiðs. Þannig getur val kennara á aðferðum breytt innihaldi þess, enda getur nýtt innihald komið upp á yfirborðið í gegnum samtöl og spurningar þátttakenda. Umræður um námsefnið geta hæglega leitt námskeiðið á nýjar og óvæntar slóðir, bæði innihaldslega og aðferðalega. Hér kemur til kasta sköpunarhæfileika þátttakenda, sem tengja innihald námskeiðsins við eigin reynslu, þarfir og áhuga og þeir fá jafnvel nýjar hugmyndir, sem geta leitt umræður og þar með innihald námskeiðsins á nýjar og ókannaðar slóðir. 

Áskorun 
Spáðu í innihald einhvers námskeiða þinna, skrifaðu niður nokkur markmið og innihaldsatriði, og veltu fyrir þér hvaða afleiðingar markmið og innihald námskeiðsins gætu haft áhrif á val aðferða, hvers konar aðferðir ætli skipti máli að velja til að ná markmiðunum og gefa þátttakendum tækifæri til að ná valdi á innihaldinu? 

Sjónarhorn kennara 

Mynd: Fred Kloet á Unsplash 

Frá sjónarhorni kennara er það sjálfsmynd hans og þar með hugmyndir hans um hlutverk sitt sem hafa mest áhrif á val aðferða. Kennari sem lítur á það sem sitt helsta hlutverk að miðla upplýsingum, velur útlistunaraðferðir, eins og fyrirlestra og sýnikennslu, á meðan kennari sem sér sig sem verkstjóra í námi nemenda sinna velur líka og jafnvel frekar, aðferðir sem stuðla að virkni þátttakenda og vinnu þeirra með námsefnið. Þess vegna er nauðsynlegt að skoða reglulega og á gagnrýninn hátt, sínar eigin hugmyndir um nám, nám fullorðinna og sitt eigið hlutverk sem fullorðinsfræðara og að skýra hugmyndir sínar um eigin sjálfsmynd og þar af leiðandi hlutverk í kennslu. Conti og Kolody (2004) sjá þetta sem tvær hliðar á sama peningnum, annars vegar að ákvarða sína fræðslu- eða menntasýn sem inniheldur viðhorf til þekkingar, tilgangs námskrár, hlutverka námsmanna og hlutverka kennara. Slík heimspekileg sýn er huglæg, en hún verður áþreifanleg í því að viðhorfin leiða til ákveðinnar hegðunar og ákveðinna athafna. Endurteknar athafnir mynda svo gjarnan mynstur, þetta mynstur getum við nefnt kennslustíl kennara, sem er hin hlið peningsins. Menntasýn þín og kennslustíll ákvarða að miklu leyti alla kennslu þína og þar með hvaða aðferðir þú velur í kennslu. 

Áskorun 
Taktu nokkrar mínútur til að hugsa um þig og sjálfsmynd þína sem kennari í fullorðins-fræðslunni: Skoðaðu sjálfa/n þig og afstöðu þína til kennslu þinnar. Hvernig sérð þú sjálfa/n þig í þessu samhengi? Hvernig skilur þú hlutverk þitt? Hverju viltu ná fram hjá nemendum þínum?  

  

Sjónarhorn námsmanna 

Þriðja sjónarhornið sem skiptir máli þegar við veljum kennsluaðferðir er sjónarhorn námsmanna. Það þykir t.d. góð venja að kanna hverjir séu væntanlegir þátttakendur á námskeiði og láta upplýsingar um þá hafa áhrif á lokaskipulagningu kennslunnar. Þekking okkar á sérstöðu fullorðinna námsmanna gagnast líka vel þegar við undirbúum kennslu og er full ástæða til að nýta hana þegar við hönnum og undirbúum kennslu. Rannsóknir á áhugahvöt fullorðinna til náms og þátttöku þeirra í skipulagðri fræðslu meðal annarra gefa almennar hugmyndir sem er gagnlegt að styðjast við þegar nám er skipulagt fyrir fullorðna (Sjá m.a. sérstakt hefti og námskeið um það að kenna fullorðnum). 

Fullorðnir námsmenn eru skiljanlega jafn ólíkir og þeir eru margir og margt bendir til þess að hópar fólks verði innbyrðis ólíkari með aldrinum, þannig að það má reikna með því að hver einstaklingur í hópi þátttakenda læri á sinn hátt sem er ólíkur því hvernig sessunautur hans lærir. Eins og kom fram hér að framan, komu fram á sjöunda og áttunda áratug seinustu aldar fyrstu kenningar um að fólk hefði ólíkar „námsnálganir“ (e. learning styles) þær voru vinsælar um skeið en það fer minna fyrir þeim um þessar mundir. Þær ganga út á það að fólk tileinki sér ólíkar aðferðir eða nálganir við nám og að með því að fá upplýsingar um námsnálganir nemenda geti kennarar lagað kennslu sína að einstaklingum í hópnum og þannig aukið árangur þeirra. Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á leiðir til að tengja upplýsingar um námsnálganir við áhrifaríkar leiðir til að mæta þeim í kennslu. En vilji kennara til að mæta fjölbreytilegum þörfum ólíkra nemenda hefur trúlega fengið skýrustu og hagnýtustu framsetningu sína í skrifum um „einstaklingsmiðaða kennslu“ eða „differienciated teaching“ þar sem kennarar mæta ólíkum nemendum í hópnum með því að skipuleggja kennsluna þannig að þeir bjóða iðulega upp á nokkrar leiðir til þess að miðla upplýsingum eða afla þeirra, nokkrar til þess að vinna með námsefnið og nokkrar til þess að skila af sér námsafurðum. Þannig benda kennarar gjarnan á ólíka miðla sem nemendur geta notað til að kynna sér námsefnið, eins og t.d. rannsóknargreinar, kennslubækur, blogg, myndskeið, hlaðvörp eða hljóðbækur. Sömuleiðis bjóða þeir upp á fjölbreytilegar leiðir fyrir nemendur til að vinna með námsefnið. Verkefni geta þannig verið margs konar, allt frá krossaprófum yfir í ritgerðaskrif, leikritagerð og myndræn tjáning. Hagnýtasta leiðin til að mæta fjölbreytileika í nemendahópnum virðist sem sagt vera að skipuleggja kennsluna með það í huga að þátttakendur séu ólíkir, þeir hafi mismunandi áhuga, ólíka hæfni og vilji vinna með námsefnið hver með sínu móti. Þannig verður val aðferða undir áhrifum af því sem við vitum um væntanlega þátttakendur, af því sem við vitum um fullorðna námsmenn almennt, og fullvissunni um að þátttakendur séu ólíkir a margan hátt: Menningarlega, út frá áhugasviðum, út frá námsnálgunum og forþekkingu eða reynslu af námsefninu.  

Áskorun 
Hefur þú tekið eftir því að nemendur þínir í fullorðinsfræðslunni – eða samnemendur í námi annarsstaðar (ef þú hefur ekki enn kennt í fullorðinsfræðslunni) – eru ólíkir þegar kemur að námi?
Hvernig hefur það birst þér? 

Sjónarhorn aðstæðna 

Mynd: Miguel Henriques hjá Unsplash 

Fjórða sjónarhornið er sjónarhorn aðstæðna. Öll kennsla fer fram við tilteknar aðstæður. Hún fer fram á ákveðnum stað eða í gegnum tiltekið vefumhverfi. Kennslan fer fram undir forsvari einhverra stofnana: Fræðslumiðstöðva, skóla, vinnustaða, félagasamtaka, sem hafa hver sína menningu og aðstæður sem setja kennslunni ákveðna ramma. Fyrirkomulag kennslurýmis, möguleikar vefumhverfis og stofnanalegir rammar hafa áhrif á það hvaða kennsluaðferðir kennari velur og því hvernig hann beitir þeim. Kennslustofur sem kennari fær úthlutað geta takmarkað möguleika eða aukið þá. Því er um að gera að vera opinn, sveigjanlegur og skapandi í vali og notkun kennsluumhverfis enda er það eitt af verkefnum kennara að velja kennslurými og laga það að þörfum þess námsferlis sem hann hefur skipulagt.  

Öll þessi fjögur sjónarhorn á val kennsluaðferða nýtast okkur þegar við veljum aðferðir og þau hjálpa okkur að taka rökstuddar ákvarðanir um skipulag námsferla sem við skipuleggjum og um þær aðferðir sem við veljum og beitum: 

  • Sjónarhorn efnisins: Tilgangur og innihald námsferlisins segir til um hvaða aðferðir koma til greina. 
  • Sjónarhorn kennarans: Persónuleiki og sjálfsmynd kennarans ásamt hugmyndum hans um hlutverk sitt stýra vali hans á aðferðum. 
  • Sjónarhorn nemandans: Staðreyndin að nemendur á námskeiði eru ólíkir og nálgast nám sitt af ólíkum hvötum og á ólíkan hátt, leiðir til þess að kennarinn undirbýr sig gjarnan með fleiri en eina leið til að miðla efninu og vinna með það.  
  • Frá sjónarhorni aðstæðna koma í ljós þau áhrif sem stofnunin sem býður námskeiðið, kennslurýmið, menning og aðrar aðstæður þátttakenda hafa á val aðferða. 

Áskorun 
Það gæti verið gagnlegt fyrir þig að taka núna nokkrar mínútur til að spá í eitt af þeim námskeiðum sem þú hefur kennt, og/eða munt kenna í framtíðinni og greina námskeiðið út frá þessum fjórum sjónarhornum. Draga t.d. saman þættina sem þú hefur skrifað áður saman í eina heild.  

Efnisyfirlit

Skildu eftir svar