Your site
18. apríl, 2024 05:50

Samloka

Ein útfærsla á hugmyndinni um röð ólíkra þátta eða „atburða“ í námsferli lærði ég í Þýskalandi og er hún kölluð „samlokan“. Þá sér kennari kennsluferlið fyrir sér í formi nokkurra samloka (lota, „módúla“, eða eininga) sem koma hver á eftir annarri.  

Myndlíkingin „samloka“ felur í sér að hver kennslueining eigi að vera eins og ein girnileg heild, þar sem ólíkir hlutir (brauð, salat, kjötálegg, grænmeti og sósur) koma saman og mynda gómsæta samfellu. Þannig mætti sjá fyrir sér að afmörkuð námseining, t.d. kennslueining um súrdeigsbrauð, á námskeiði um brauðgerð, hafi byrjun, miðju og endi:  

  • Byrjum á því að vekja áhuga, með því að fá þátttakendur til að ræða saman um það hvað þeim þyki eftirsóknarvert við súrdeigsbrauð. (Hér passa t.d. aðferðirnar Kallspurning eða 1, 2 og allir) Þannig fær maður að heyra ýmislegt um forþekkingu þátttakenda, viðhorf og reynslu og jafnvel hvers vegna þeir vilja læra að búa til súrdeigsbrauð og hvað skipti þá máli að læra. 
  • Þá er hægt að ganga lengra með því að spyrja hvað þeir viti UM súrdeig og súrdeigsbrauð. (Hér mætti nota hópavinnu alls konar; hóphugarkort eða kortaspurningu). Með upplýsingar forþekkingu þátttakenda í farteskinu getur kennarinn lagað fyrirlestur um gerð súrdeigs að þekkingu nemenda og tengt hann við það sem kom fram í umræðunum á undan. 
  • Þegar útskýringum, fyrirlestri eða sýnikennslu er lokið styður kennarinn við námið með því að stuðla að umræðum um námsefnið og jafnvel fá nemendur til að endurtaka það sem þeir muna eða spyrja um það sem er óljóst. 
  • Til að laða fram frammistöðu (eins og sjötti þátturinn hjá Gagné heitir) útbúa þátttakendur súr og setja í krukku. 
  • Þegar súrinn er tilbúinn og kominn í krukku setjast þátttakendur saman og ljúka kennslueiningunni með því að fara yfir það sem þeir lærðu og velta fyrir sér hvernig þetta gæti gengið fyrir sig heima. 

Svona gæti ein samloka litið út: 

  1. Byrjun: Vekja áhuga og kanna forþekkingu 
  2. Miðja 1: Miðla innihaldi með dæmum til að stuðla að skilningi 
  3. Miðja 2: Kanna skilning og laða fram frammistöðu 
  4. Endir: Draga saman lærdóm og huga að yfirfærslu hins lærða.  

Næsta námseining, nokkrum dögum síðar myndi þá snúast um að búa til brauð með súrnum sem var búinn til um daginn. Á námskeiði þar sem tekin eru fyrir fleiri innihaldsatriði í röð, má sjá fyrir sér að það komi nokkrar „samlokur“ í röð, hver hefur sitt upphaf, miðju og endi. 

Áskorun 
Rifjaðu upp eitthvert innihaldsatriði sem þú kennir oft, kannski gerir þú hlutina oft á svipaðan hátt án þess að hafa spáð í það áður. Prófaðu að búa til svona „samloku“ í kring um eitthvert innihald sem þú hefur kennt áður – eða stefnir á að kenna. Skrifaðu upp röð atburða þannig að þú vekir áhuga, miðlir innihaldi, bjóðir upp á úrvinnslu og dragir svo saman… veldu jafnframt aðferð fyrir hvern þátt fyrir sig. 

Efnisyfirlit

Skildu eftir svar