Your site
21. janúar, 2025 12:29

Innihaldsþáttur námsferlis

4. Miðlun námsefnis 

Hér komum við að þeim hluta kennslunnar sem við tengjum flest við kennslu, útlistun eða miðlun innihalds. Það er ekki þar með sagt að kennarinn þurfi endilega að vera miðpunktur þess sem er að gerast. Það eru til margar leiðir til þess að miðla námsefni, má þar nefna: Fyrirlestra, samtalsfyrirlestra, viðtöl, myndskeið, sýnikennslu og texta, llt eftir eðli innihaldsins, markmiðum kennslunnar og aðstæðum. Nemendur, jafnt sem kennarar, geta tekið að sér að miðla innihaldi í hópum eða einir. Hér, eins og í fyrsta atburði Gagné: Að ná athygli, er einfaldasta leiðin að skipta um miðil. Þegar þú kynnir nýtt innihald, og vilt nota nýsigögn (sýnilega framsetningu) er úr fjölda miðla að velja og um að gera að nota margar aðferðir og alla þá miðla sem þú hefur undir höndum eða aðgang að:  

Kennslumiðlar…  

  • Tússtafla 
  • Flettitafla 
  • Skjávarpi 
    • PowerPoint  
    • Prezi 
    • Hugarkort 
    • Sway 
    • OneNote 
  • Myndvarpi 

Það er um að gera að skipta reglulega um miðil, það hjálpar þátttakendum að halda athygli. Þannig getur þú skipulagt að hafa hluta af kynningu með PowerPoint og annan hluta á tússtöflu eða flettitöflu og svo framvegis. 

Það getur verið gagnlegt að færa ábyrgðina á að miðla innihaldi stundum yfir á nemendur. Kennsla nemenda getur komið í stað fyrirlestur kennarans, t.d. í fyrsta lagi með því að nota svo kallaða Púslaðferð (e. the Jigsaw classroom), í örðu lagi geta nemendur kynnt niðurstöður sínar í tengslum við verkefnaskil eða þú getur skipulagt námskeiðið allt sem „seminar“ / málstofu, þar sem nemendur skipta þemum námskeiðsins á milli sín og kynna sjálfir innihald þess og kennarinn styður við umræður og bætir við upplýsingum þar sem þurfa þykir. 

Aðferðir 

  • Fyrirlestrar 
  • Samtals- / þátttökufyrirlestrar 
  • Sýnikennsla 
  • Myndskeið 
  • Púsl aðferðin (Þátttakendur kenna hver öðrum) 
  • Seminar/Málstofa (Þátttakendur skipta á milli sín ábyrgð á þemum námskeiðsins) 
  • Viðtöl 
  • Pallborð 
  • Textar 
  • Áþreifanleg dæmi 

5. Stuðningur við námið 

Í þessum fimmta atburði samkvæmt Gagné er aðalspurningin:  

„Hvað getur þú gert í þinni framsetningu til þess að hjálpa nemendum að skilja námsefnið, muna það og gera það að sínu?“ 

Þegar námsefnið hefur einhvers konar rökrænt samhengi getur verið gagnlegt, að í staðinn fyrir að þú segir frá og útskýrir, að þú laðir fram innihaldið með því að spyrja nemendur út úr. Þar gagnast t.d. aðferð sem gjarnan er kennd við Sókrates: „Sókratískt samtal“ eða „Ljósmóður aðferðin“, þar sem maður gengur út frá því að nemandinn viti svarið eða geti leitt það fram með rökhugsun. Gott dæmi úr tölvukennslunni er að spyrja nemendur hvar nýja aðgerðin sem þú ætlar að kenna gæti verið staðsett á áhaldastiku forritsins sem þú ert að kenna á. Í stærðfræðinni þegar maður ætlar t.d. að kenna um prímtölur mætti láta nemendur skrifa út margfeldi allra talna frá 1 – 30 svo þeir taki eftir að sumar tölur (2, 3, 5, 7, 11, 13, 17, 19, 23, 29) margfaldast aðeins með sjálfum sér 7=7*1 meðan aðrar eru margfeldi margra talna: 8=2*4=2*2*2=8*1. Þegar nýja þekkingin byggir á þekkingu sem nemendur hafa fyrir og/eða má leiða af því sem þeir vita þegar getur hún stuðlað að því að nemendur læri efnið betur og muni það frekar.  

Fleiri leiðir til að styðja við námið eru t.d.: 

  • dæmi 
  • reynslusögur 
  • „ekki“ dæmi 
  • sögur 
  • myndir 
  • samlíkingar 
  • módel 

Efnisyfirlit

Skildu eftir svar