Your site
11. september, 2024 14:26

Myndskeið skapa samfélag!

Erindi og umræður umefni þessarar færslu frá Fjarmenntabúðum 26. mars 2020

Fyrir nokkru heyrði ég norska kollega greina frá rannsókn sem þær höfðu framkvæmt við háskólann. Hún fólst í því að fá kennara til að taka upp og senda nemendum sínum vikulega stutt myndskeið í tengslum við kennsluna og það sem væri í gangi á námskeiði sem þeir voru að kenna þá stundina. Kennararnir spjölluðu léttilega við nemendur sína í myndskeiðunum ræddu um námsefnið, næstu kennslustund og verkefnin. Rannsakendur áttu von á því að slík myndskeið myndu hafa áhrif á hversu vel undirbúnir nemendur kæmu í kennslustundir, eða héldu sig við lestur og verkefnavinnu, en það sem kom í ljós var að þessi iðja átti fyrst og fremst þátt í því að skapa þá tilfinningu hjá nemendum að þeir upplifðu sig sem hluta af heild, þeim fannst þeir vera í samfélagi nemenda á þessu námskeiði, þátttakendur í hópi sem kennarinn leiddi.

Þessu uppgötvun hefur búið lengi með mér og ég hef sagt mörgum kollegum mínum við Menntavísindasvið þessa sögu. Sumir tóku hugmyndina og nýttu strax kennslu sinni og tjáðu mér fljótt að þessi iðja hefði einmitt umrædd áhrif á hópinn. Það tók mig aftur á móti nokkur ár að gera þessa iðju að venju sem ég stundaði reglulega, en í vetur hef ég sent öllum mínum nemendum vikulega pistla sem eru 2-4 mínútna langir og tengjast einmitt einhverju sem gerist næst á námskeiðinu.

Áhrifin hafa ekki látið á sér standa. Nemendur tala um að það muni mikið um að fá slík skilaboð reglulega frá kennurum sínum. Og einmitt að þau hjálpi til að þeim finnist þeir vera hluti af hópnum.

Corona virus og samkomubann

Nú eru málin þannig að næsta mánuðinn þurfum við sem kennum við háskóla og framhaldskóla að kenna nemendum okkar í gegnum vefinn. Flest okkar við Menntavísindasvið gerum það hvort sem er – að minnsta kosti að einhverju leiti – en aðrir munu þurfa að breyta kennsluháttum sínum verulega.

Þess vegna dettur mér í hug að þessi hugmynd muni nýtast mörgum. Ekki sakar að það er lítið mál að koma þessu í kring.

dæmi um stutt hvatningarmyndband frá mér

Ég geri þetta svona:

  • ég tek upp stutt myndskeiðið upp á símann minn, oft þegar ég er úti að ganga með hundinn, eða á skrifstofunni
  • svo hleð ég myndskeiðinu upp á YouTube eða MS Stream
  • þá tek ég slóðina í myndskeiðið og skeyti því (paste) inn í færslu á námsumsjónarkerfinu sem ég er að nota. Það gæti verið: Canvas, Facebook, Teams, Moodle, Inna eða bloggið mitt.
  • ég geri það líka gjarnan að flokka myndskeiðin saman þannig að nemendur mínir geti fundið þau öll á einum stað. YouTube býður t.d uppá möguleikann að búa til s.k. „Playlist“ eða spilunarlista…

Hvaða þjónustu áttu að nota til að vista myndskeiðið?

Þegar þú velur hvar þú vistar myndskeiðin þín er í öllum tilfellum er sniðugt að nota þjónustu sem er sérstaklega útbúin til að streyma myndefni og er þannig gerð að það er auðvelt að deila efninu og stýra hver getur fundið og / eða spilað það. Þekktar slíkar þjónustur eru YouTube og Vimeo. Microsoft býður upp á slíka þjónustu sem heitir „Stream“. Flestir skólar nota Office365 og hluti af þeirri þjónustu er mynd- og hljóðstreymið „Stream“ – kostur og galli þeirrar þjónustu að það er bara fólk innan viðkomandi stofnunar sem getur séð og hlustað á efni sem er vistað þar, á meðan á YouTube og Vimeo geta allir sem hafa slóðina í efnið séð og heyrt það. Þannig að þú hefur meiri sveigjanleika varðandi dreifingu efnisins ef þú notar YouTube eða Vimeo, en getur verið viss um að bara nemendur þínir sjá pistlana þína ef þú notar StreamÞannig að kjánahrollurinn við að birta óformleg myndskeið með sjálfum/sjálfri þér getur verið örlítið minni… 😉

Viljir þú nánari leiðbeiningar um það hvernig þú hleður myndskeiði upp í YouTube og kemur því svo á framfæri við nemendur í námsumsjónarkerfinu sem þú notar þá get ég boðið leiðbeiningar sem ég skrifaði í OneNote fyrir nemendur mína þegar þeir áttu að setja myndskeið í OneNote síðu:

Skildu eftir svar