Your site
10. október, 2024 08:35

Sykurpúðaáskorunin (The Marshmallow Challenge)

Markmið aðferðarinnar

Markmið þessarar aðferðar er að hrista nemendahópinn saman, þjálfa nemendur í samvinnu, vekja þá til umhugsunar og að hugsa út fyrir rammann.

Aðferðin virkar vel til að hrista hópinn saman, t.d. í upphafi námskeiðs en einnig til að búa til skemmtilega tilbreytingu á námskeiði. Með aðferðinni upplifa nemendur einfalda en áhrifaríka kennslu í samvinnu og lausnaleit sem byggir á nýsköpun og sköpun. Nemendur þurfa þannig að takast á við eitt ákveðið úrlausnarefni og leiða það til lykta með markvissum hætti í samvinnu við aðra en útkomurnar geta verið af ólíkum toga.

Lýsing

1. Kennari skiptir nemendum í fjögurra manna hópa.

2. Kennari útskýrir fyrir nemendum í hverju sykurpúðaáskorunin felst og sýnir mynd á skjávarpa með efniviðnum sem hver hópur fær. Myndina má nálgast hér.

4. Hver hópur fær úthlutað 20 spaghettí-stöngum, 0,9 m af málningarlímbandi, 0,9 m af þunnu bandi og einum sykurpúða. Leyfilegt er að brjóta spaghettí-stangirnar, rífa límbandið og slíta bandið eftir þörfum. Ekki þarf að nota allan efniviðinn í smíðina.

5. Hver hópur fær 18 mínútur til að nota efniviðinn sem hann hefur fengið í hendurnar til þess að útbúa sjálfstandandi smíði þar sem sykurpúðinn í heilu lagi trónir á toppnum. Kennari lætur skeiðklukku með niðurtalningu á tímanum vera í gangi á skjávarpa á meðan (sjá slíka skeiðklukku hér).

6. Þegar 18 mínúturnar eru liðnar eru smíðarnar (afraksturinn) skoðaðar. Sá hópur sigrar áskorunina sem á hæstu smíðina sem stendur af sjálfsdáðum þegar tímatökunni lýkur.

7. Kennari ræðir við nemendur um það sem vel gekk og það sem miður gekk. Ef nægur tími er og þátttakendur á námskeiðinu skilja ensku má sýna myndband frá höfundi aðferðarinnar í lokin en myndbandið er tæpar 7 mínútur að lengd.

Athugasemdir

Höfundur þessarar aðferðar er Tom Wujec. Hún er upphaflega hönnuð til að fá hópa til að koma hratt fram með nýjar hugmyndir, mynda tengsl og nálgast verkefni með nýjum hætti en allt tilheyrir þetta áhrifaríkri nýsköpun.

Þessi aðferð virkar mjög vel til að brjóta ísinn í hópi og til að hrista hóp vel saman. Hún getur líka virkað vel sem skemmtilegt uppbrot á námskeiði. Aðferðin er verkleg, í henni þarf ekki að lesa né skrifa, og hún reynir því á aðra færni nemenda og hentar því vel bæði ungum og eldri nemendum. Aðferðin sem slík tengist ekki beint neinu námsefni, nema þá kannski helst námsefni í nýsköpun, og því hentugt að nota hana í tengslum við alls konar efni en hún hvetur til skapandi hugsunar og eflir samvinnu meðal nemenda. Hóparnir eru ekki stórir og því reynir á virka þátttöku hvers og eins til að takist að klára verkefnið á tilsettum tíma.

Aðferðin er einföld í framkvæmd. Hún krefst ákveðins undirbúnings en hún er ekki plássfrek. Með aðferðinni fær kennarinn gott yfirlit yfir samvinnu í hópunum og hvernig leitað er að lausnum í útfærslu á verkefninu.

Dæmi um afrakstur sykurpúðaáskorana má sjá hér.

Heimildir

Þessari aðferð kynntist ég haustið 2013 í heimsókn á Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem var hluti af námskeiðinu Fræðslustarf, nýsköpun og atvinnulíf við Háskóla Íslands.

Marsmallowchallenge.com (e.d.).

The Marshmallow Challange (e.d.).

Skildu eftir svar