Hlutverkaleikur
Markmið
Markmið með hlutverkaleikjum eru margvísleg. Nemandinn þarf að setja sig í spor annarra og lærir því að skilja ólík sjónarmið, viðhorf og tilfinningar. Auk þess felst í þessu markviss þjálfun í að kanna, ræða og meta ólíkar lausnir og skoða vandamál frá ólíkum sjónarhornum. Einnig reyna hlutverkaleikir á ímyndunarafl og frjóa hugsun, fela í sér þjálfun á samvinnu og samskiptum og reyna á tjáningu og talað mál.
Hægt er að nota hlutverkaleiki í margvíslegum tilgangi og í ýmsum námsgreinum. Það er hægt að nota hann á ýmsum stigum náms. Þá má nota sem kveikjur, sem lið í upplýsingaöflun eða á lokastigi viðfangsefna.
Lýsing
1. Kynning á viðfangsefninu. Gott er að tengja viðfansefnið við reynslu nemenda til þess að sýna þeim fram á að efnið á erindi við þá og skiptir mái.
2. Val á leikurum. Yfirleitt er óskað eftir sjálfboðaliðum til að taka þátt. En hægt er að velja leikara með ýmsum aðferðum.
3. Undirbúningur leikara. Leikararnir fá smá stund til að undirbúa sig. Ákveðið er í meginatriðum hvernig leiða á leikinn en ekki er ákveðið hvað hver og einn á að segja. Það er mikilvægt að leikið sé af fingrum fram.
4. Undirbúningur áhorfenda. Á meðan leikarar undirbúa sig býr kennarinn áhorfendur undir það að fylgist með. Það má til dæmis biðja nemendur að fylgjast með viðbrögðum tiltekinna persóna eða að meta hversu raunhæfar lausnir koma fram.
5. Hlutverkaleikur. Nemendur flytja leikþáttinn. Aðalmálið er hvernig nemendur kljást við og leika það vandamál sem þeir fengu til úrlausnar. Það á ekki að meta leikinn eftir því hvernig leikararnir léku heldur eftir efninu sem þeir höfðu.
6. Umræður. Umræðurnar sem myndast í lok leiks er það sem skiptir máli í þessari aðferð. Þá fer fram greining á efninu. Nemendur eiga að skiptast á skoðunum og meta þær lausnir sem fram komu. Hér þarf kennarinn að passa sig að beita opnum spurningum.
7. Endurtekning. Ef umræðan gefur tilefni til þess kallar kennarinn til nýjan hóp til að leiða söguna með öðrum hætti. Síðan eru lausnirnar bornar saman. Þetta er hægt að gera eins oft og þarf.
8. Umræður- niðurstöður. Þegar kennarinn metur að nóg sé komið er verkefninu lokið með umræðum. Nemendur eru hvattir til að nefna dæmi um svipuð atvik og segja frá eigin reynslu. Einnig eru nemendur hvattir til að draga eigin ályktanir.
Athugasemdir
Ef það á að ná árangri með þessari aðferð þá þarf kennari að skapa andrúmsloft sem er óþvingað. Einnig þurfa kennarar að vera umburðalyndir gagnvart þeim lausnum sem koma fram í leiknum. Kennarar eiga ekki að gefa fyrirmæli um úrlausnir.
Shaftel og Shaftel segja að hlutverkaleikir er góð æfing við að kljást við raunveruleg vandamál. Því mætti líkja þessu við tilraunastofu í mannlegum samskiptum. Það er hægt að taka áhættur, kanna afleiðingar og prófa mismunandi leiðir.
Heimildir
Ingvar Sigurgeirsson (1999). Litróf kennsluaðferðanna. Æskan.
Shaftel, F., og Shaftel, G. (1982). Role playing in the curriculum. Englewood Cliffs, N.J.: Prentice- Hall.
Skildu eftir svar
Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.