Your site
21. janúar, 2025 12:13

Vefstofa um íslenskar stefnur haldin 11. október 2022

Menntavísindasvið – Jón Torfi

Jón Torfi Jónasson (JTJ) var viðmælandi á vefstofu um stefnumótun í fullorðinsfræðslu á Íslandi þann 11. október síðastliðinn. Vefstofan var sú þriðja í röð fjögurra vefstofa með yfirskriftinni „Hvert stefnir fullorðinsfræðsla?“ en fyrir henni standa Háskóli Íslands, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Félags- og vinnumálaráðuneytið.
Í upphafi ræddi JTJ um helstu hugtök fullorðinsfræðslunnar. Hann nefndi að undan farin ár hafi fólk notað mörg nöfn um það sem kalla mætti nám fullorðinna svo sem Fullorðinsfræðsla, framhaldsfræðsla, símenntun, endurmenntun, ævimenntun og fleira. Það kom fram að nauðsynlegt sé að hugtakanotkun sé skýr einkum þegar hugað er að veitingu fjármagns úr opinberum sjóðum í verkefni.
Umræða um fjármagn var því nokkuð fyrirferðarmikil á vefstofunni og spurningar um það hvað samneyslan ætti að vera að greiða fyrir. JTJ vitnaði í frumvarp frá 1980 frá Vilmundi Gilfasyni þar sem fram kom að það yrði að teljast eðlilegt að það nám sem þjóðfélagið ætlar hverjum einstaklingi sé greitt á sama hátt hvort sem námið fer fram í hinu almenna skólakerfi eða í fullorðinsfræðslu.
JTJ ræddi um hugtök sem notuð væru um fullorðinsfræðslu erlendis og að noktun þeirra væri mjög misjöfn milli landa. Sums staðar væri búið að víkka hugtökin út til að ná utan um alla fræðslu fyrir fullorðna. Við gerð síðustu laga um nám fullorðinna á Íslandi árið 2010 varð hugtakið framhaldsfræðsla á endanum fyrir valinu. Þannig náðu lögin og þar með fjármögnun ríkisins eingöngu yfir nám einstaklinga sem ekki hefðu lokið námi á framhaldskólastigi.
Hugtök eins og ævimenntun voru rædd á vefstofunni og að mati JTJ er það besta orðið í þessu samhengi. Það er í sjálfu sér auðvelt að vera sammála þeirri fullyrðingu því fólk er jú að læra svo lengi sem það lifir. Ef þörf er á að skilgreina hugtök um nám fullorðinna meðal annars til að auðvelda fjármögnun verkefna mætti að okkar mati hugsa sér að skipta námi fullorðinna í þrjá flokka:

  • Fræðsla þeirra sem hafa enga ramhaldsskólamenntun: Framhaldsfræðsla (grunnmenntun í ákveðnum þáttum/greinum)
  • Fullorðinir nemendur í iðnnámi: Iðnnám
  • Fullorðinir nemendur sem eru að bæta við sig námi: Fullorðinfræðsla

JTJ sagði að þróun í námi fullorðinna hér á landi hafi leitt til þess að reglubundin starfsþjálfun starfsfólks í fyrirtækjum væri orðin algeng og er stundum talað um fræðsludeildir stærri fyrirtækja sem „skóla“. Þjálfun og kennsla starfsfólks í þessum fyrirtækjum væri aftur á móti ekki sérlega sýnileg eða áberandi í almennri umræðu um fræðslu fullorðinna. Margir taki þátt í símenntun í okkar þjóðfélagi og nú standi til að breyta lögum um fullorðinsfræðslu og forvitnilegt að sjá hvernig til muni takast.
Rætt var um stöðuna sem komin er upp í verk- og starfnámi nú um stundir þegar ungt fólk streymir loksins í námið en haldi á sama tíma eldri aldurshópum fyrir utan vegna forgangs yngri nemendanna að náminu. Fullorðið fólk hafi verið hvatt til að láta meta áunna hæfni sína á vinnumarkaði með raunfærnimati til að stytta nám til dæmis til sveinsprófs en svo komist það ekki að í iðnskólum til að ljúka náminu, þar sem yngra fólk á forgang að skólunum. Samt sem áður þótti rétt að halda því til haga að einn helsti kostur íslenska skólakerfisins hafi verið sveigjanleiki og það að nemendur hafi komist nokkuð greiðlega aftur í nám eftir námshlé. Hætta sé á að sú staða sé að breytast.
JTJ og aðrir á málstofunni ræddu um þá úreltu hugsun að ungt fólk finni sér starf sem það muni starfa við alla tíð. Margir skipti oft um starfsvettvang á starfsferli sínum. Fólk 30, 40 eða jafnvel 50 ára og eldri er eru í þessum hópi og í umræðum á vefstofunni kom fram að þeirættu að hafa greiðan aðgang að námi hvenær sem er.
Fjörug umræða skapaðist á vefstofunni um skiptingu fjármagns og að skiptingin væri ekki alltaf sanngjörn. Þeim sem gangi vel í námi og ljúki stúdentsprófi fái mikinn stuðning til náms á meðan minna menntaðir og minnihlutahópar fái minni stuðning. Til dæmis var rætt um skort á fjármagni til menntunar fólks með þroskahömlun eftir 20 ára aldur. Það var einnig rætt að það væri fyrirséð að ekki verði hægt að greiða með almannafé fyrir alla þá sem vilja fara í háskólanám þó það sé samfélaginu mikilvægt.
Á vefstofunni var komið inn á starfsmenntun á vinnustöðum og var það skoðun JTJ að stærri hluti starfsnáms ætti að fara fram á vinnustöðum eins og var áður fyrr. Þetta er forvitnilegt sjónarhorn því slíkt fyrirkomulag gæti hugsanlega komið í veg fyrir það, að okkar mati, að brothættar greinar yrðu lagðar niður, einkum ef það væri hægt að kenna þær með örðum hætti en gert er nú.
Það kom líka upp spurning um hverjir mættu reka skóla því þegar stjórnvöld leyfa þróun þá þarf að fylgja því fjármagn. Nú eru margar fræðslustofnarnir um allt land og hafa þær verið að vinna mjög gott starf á mörgum mismunandi sviðum. Það hefur sýnt sig að hægt er að treysta þessum aðilum fyrir aðkomu að fræðslu að hluta til og eða í heild í ákveðnum tilfellum. Til dæmis hafa þessir aðilar verið að bjóða upp á raunfærnimat fyrir einstaklinga bæði í verk- og starfsnámi og hefur það gengið vel. Víða vinna fræðslumiðstöðvar náið með framhaldsskólum að þessum málum og að mati fundargesta mætti stórauka samstarfið fullorðnum nemendum til hagsbóta. Var í þessu sambandi talað um að nauðsynlegt væri að umræðan færi fram bæði innan landsfjórðunga og einnig í þrengri hópum og er ástæða til að taka undir það.
Það þarf að taka af skarið í þessum verkefnum og við undirritaðir erum fylgjandi því að þessi mál verið skoðuð betur jafnvel af frumkvæði sí- og endurmenntunarmiðstöðva þar sem það á við. Í lokin viljum við taka undir þau orð sem sögð voru að þekking úreldist fljótt í hraða heimsins í dag en manneskjan úreldist ekki.

Bloggfærsla eftir Sæberg Sigurðsson og Baldur Sæmundsson

Þessi vefstofa var þriðja í röð vefstofa um stefnu í fullorðinsfræðslu

Smelltu hér til að lesa nánar um Jón Torfa Jónasson og vefstofuna

Hér má finna flokkaðan lista yfir algeng og miðlæg stefnuplögg

Sjá yfirlit yfir vefstofurnar fjórar: Vefstofuröð um stefnu í fullorðinsfræðslu 2022

Skildu eftir svar