Your site
21. nóvember, 2024 09:03

EQM-Gæðastjórnunarkerfi

 

Gæðastjórnun fræðslustofnanna

Þegar kafað er niður í efnið gæðastjórnun opnar sig heilt haf af mismunandi módelum og stöðlum. Hönnuð til að mæla og auka gæði. Þrátt fyrir að módelin og aðferðirnar séu margar þá eru markmiðin að mestu þau sömu. Að bæta kennslu og menntun með það að markmiði að styðja við og ná sem bestum árangri fyrir nemendur. Gæðakerfi ná utanum innra og ytra mat stofnanna. Ytra mat getur verið mat á gæðum kennslunnar í stærra samhengi t.d. á landsvísu. Innra mat fjallar til dæmis um sjálfsmat stofnunarinnar, mat starfsfólks og nemenda á gæðum kennslunnar. Innra og ytra mat stofnunarinnar eru hluti af heildstæðu, samþættu kerfi með mismunandi ferlum sem styðja og styrkja hvern annan. Ef vel til tekst skapa ferlarnir skýrt og árangursríkt samspil um þróun skólans og veitir upplýsingar um árangursríka kennslu og nám.

Gæðastjórnun er mikilvæg fyrir ábyrgð stofnunarinnar sem og stuðningur við áframhaldandi þróun skóla, kennslu og náms.  Öflugt gæðakerfi er með til styðja og viðhalda jafnvægi innan stofnunarinnar. Gott gæðakerfi tryggir áherslu á þróun og styður skóla til að laga sig að breyttum þörfum nemenda. (Quality assurance for school development, 2017)

Í sömu samantekt eru birtir átta þættir sem stofnanir ættu að hafa að leiðarljósi:

  1.  Gæðastjórnunarkerfi ættu að leitast við að ná jafnvægi og samhengi yfir mismunandi aðferðir sem hafa verið þróaðar til að mæta kröfum og væntingum hlutaðeigandi hagsmunaaðila sem starfa innan skóla og í menntakerfinu.
  2.   Stefna gæðastjórnunarkerfa ætti að styðja við faglegt umhverfi stofnunarinnar til að nýta upplýsingar sem best fyrir skólann og kerfisþróun með það að markmiði að tryggja sem besta námsmöguleika fyrir alla nemendur.
  3.   Að skapa traust og virðingu á milli og meðal hlutaðeigandi aðila er grundvallaratriði í árangursríku mati og skólaþróun.
  4.   Stjórnendur og kennarar (starfsmenn) þurfa tækifæri til að taka ákveðna áhættu til þróunar og nýsköpunar. Mikilvægt er að leggja áherslur á þær upplýsingar sem safnast undir áhrifa frá nýsköpun, jafnvel þó að niðurstöðurnar séu óvæntar.
  5.   Gæðastjórnunarkerfi ættu að styðja við þróun sameiginlegs tungumáls og sameiginlegs skilnings meðal hlutaðeigandi aðila, þannig að skýrt sé að meginmarkmið matsins sé að styðja skólaþróun.
  6.  Samstarf milli skóla og samfélags geta stuðlað að sameiginlegri þátttöku, byggt upp félagslegt og vitsmunalegt umhverfi og skapað samvirkni í og með skólakerfinu.
  7.   Fjárfestingar í uppbyggingu helstu þátta til að búa til, túlka og nota gögn eru mikilvæg.
  8.   Söfnun mismunandi gagna, bæði megindlegra og eigindlegra, safnað yfir ákveðin  tíma, eru nauðsynleg til þess að fá skilning á skólaþróun og framvindu nemenda. Þessar upplýsingar ættu að miðla raunverulegum frásögnum skóla og veita þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að styðja við ákvarðanatöku bæði innan skóla og breytt í skólakerfinu

 

EQM

EQM stendur fyrir European Quality Mark eða Evrópska gæðamerkið og er samstarfsverkefni á milli Eistlands, Noregs, Litháen og Íslands núna en byrjaði fyrst sem samstarfsverkefni átta Evrópuþjóða og hét verkefnið þá RECALL-Recognition of Quality in Lifelong Learning. Verkefnið byrjaði hjá Mennt – samstarfsvettvangi atvinnulífs og skóla en þegar það var lagt niður tók Fræðslumiðstöð atvinnulífsins við verkefninu. EQM byggist á sjálfsmati sem er yfirfarið af EQM viðurkenndum úttektaraðila sem kemur einnig með ábendingar um gæðamál og umbætur meðan á úttektarferlinu stendur. Úttekt fer fram á þriggja ára fresti.

 

EQM er matskerfi til þess að meta gæði út frá viðurkenndum gæðaviðmiðum til þess að mæta kröfum um að nám sé gagnlegt og hefur það að markmiði að endurspegla ólíkar námsþarfir og menningarheima. Á Íslandi á það einnig að mynda samfellu á milli allra þeirra aðila sem sjá um fullorðinsfræðslu á landinu.

“EQM tekur mið af:

  • gæðum þjónustunnar sem fræðsluaðili veitir,
  • innri gæðastjórnun og verklagsreglum fræðsluaðila,
  • hvernig núverandi starfshættir samræmast viðurkenndum gæðaviðmiðum.” (Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. e.d.)

EQM  gæðakerfið hentar allri fræðslu sem ekki er innan formlega skólakerfis og er hannað með starfsemi og þá verklagsferla sem fræðsluaðilar notast við. Með EQM getur fræðsluaðili séð hvort hann fari eftir viðurkenndum gæðaviðmiðum og einnig getur hann notað það til þess að þróa og efla starfsemi sína. EQM styður viðleitni fræðsluaðila til að koma á sjálfbæru gæðakerfi.

EQM er skipt í þrjú þrep og ef fræðsluaðilar uppfylla þau öll fá þeir EQM+ vottun en uppfylli þeir einungis fræðsluhlutann fá þeir EQM vottun. Hinir hlutarnir eru vottun vegna raunfærnimats og náms- og starfsráðgjafar. Uppbygging gæðakerfisins fyrir þessa þrjá hluta er nokkuð svipuð en hér verður gert grein fyrir uppbyggingu fræðsluhlutans.

Fræðsluhlutanum er skipt upp í fjóra hluta en margar spurningar eru svo undir hverjum hluta sem ekki verður farið nánar út í hér.

  • Fyrsti hlutinn eru spurningar um Fræðsluaðila og stjórnun fræðslustarfsemi. Hann inniheldur viðmið um fræðsluaðilann, stjórnskipulagsferli og hönnun fræðsluferlisins.
  • Annar hluti er um Þarfir námsmanna og þróun námsframboðs og fjallar um allt í sambandi við námsmanninn. Það eru til dæmis viðmið um námsumhverfið, námskeiðin og innihald þeirra en einnig um þarfir námsmannsins og markmið.
  • Þriðji hlutinn er Mat á námsárangri og heldur utan um viðmið um árangur námsmanna og endurgjöf til þeirra.
  • Fjórði hluti fjallar um Gæðastjórnun en þar eru viðmiðin um gæðamál stofnunarinna. Þar er líka sjálfsmatsferli hennar og hvernig gæðunum er viðhaldið innan hennar.(Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, e.d.)

En hvernig er EQM að nýtast þeim fræðsluaðilum sem hafa innleitt kerfið?

Innleiðing EQM hefur mótað ramma í kringum fræðslustarf þeirra fræðsluaðila sem innleitt hafa kerfið og stuðlað að auknum gæðum og faglegri vinnubrögðum. EQM hefur gefið af sér skýrari verferla og innleiðingu gátlista og annars stuðningsefnis fyrir starfsfólk og verktaka. Það að hafa vel unna og ítarlega gæðahandbók, eins og fylgir vinnu við innleiðingu gæðakerfis eins og EQM, hjálpar til við móttöku nýs starfsfólks. Í gæðahandbókinni er stærstum hluta starfseminnar gerð skil og gefur bókin heildarsýn yfir þau verkefni sem þarf að sinna og kröfur sem gerðar eru til starfsmanna. Allt á einum stað sem auðveldar nýju starfsfólki að ná yfirsýn. Þannig er tryggt að allir fari eftir sömu viðmiðum og gangi í takt og að vinnubrögð séu samræmd og líkurnar á mistökum lágmarkaðar.

Með öflugu gæðateymi þvert á starfsemi fræðslumiðstöðvar er unnið markvisst að gæðamálunum og reynt að tryggja að enginn hluti starfseminnar verði út undan. Þannig dreifist ábyrgð gæðamálanna um fyrirtækið en er ekki einungis á hendi eins aðila, gæðastjórans. Því nauðsynlegt er að tryggja að allir starfsmenn geri sér grein fyrir mikilvægi þess að vinna eftir gæðakerfinu og hvað slíkt kerfi gefur skipulagsheildinni. Mikil gæðavakning hefur verið samhliða ferlinu við upptöku EQM og nú í kjölfar endurvottunarinnar með EQM+. Með faglegu gæðastarfi má sífellt bæta starfsemina og auka þannig fagmennsku og gæði innan greinarinnar.

 

Kostir EQM eru að kerfið er sérsniðið fyrir fræðslustofnanir og er nokkuð þægilegt í innleiðingu og leiðir þá sem svara sjálfsmatslistum nokkuð vel áfram. Það er alls ekki eins stórt í vöfum og íþyngjandi og mörg önnur gæðakerfi. Þessi kostur getur svo einnig verið túlkaður sem galli við kerfið því spurningarnar á sjálfsmatslistunum eru mjög fast mótaðar sem ekki er víst að henti starfsemi allra fræðslustöðva. Einnig er hætta á að ferlið leiði aðila of mikið áfram og komi í veg fyrir að umræða og vinna við gæðaferilinn eigi sér stað, sem er einmitt einn af mikilvægustu þáttunum í ferlinu.

 

Heimildir:

European Comission (2017). Quality assurance for school development: guiding principles for policy assurance in school education. Sótt af https://ec.europa.eu/education/sites/education/files/2017-school-development-quality-assurance_en.pdf

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (e.d.). Evrópska gæðamerkið EQM: Leiðbeiningar og eyðublöð fyrir sjálfsmat. Sótt af http://frae.is/gaedavottun/

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (e.d.). Evrópska gæðamerkið EQM+: Leiðbeiningar og eyðublöð fyrir sjálfsmat – Raunfærnimat. Sótt af http://frae.is/gaedavottun/

Fræðslumiðstöðatvinnulífsins (2017). Evrópska gæðamerkið EQM+: Leiðbeiningar og eyðublöð fyrir sjálfsmat – Náms- og starfsráðgjöf. Sótt af http://frae.is/gaedavottun/

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (e.d.). Gæðavottun. Sótt af http://frae.is/gaedavottun/

Skildu eftir svar