Your site
19. apríl, 2024 16:22

LQW gæðamódelið

eftir Dagnýju Sveinbjörnsdóttur, Eyjólf Sturlaugsson og Steinunni Guðnýju Ágústsdóttur.

Það er rík krafa um að menntastofnanir vinni samkvæmt gæðaviðmiðum og á það jafnt við í fullorðinsfræðslu sem og á öðrum skólastigum. Ýmis módel hafa verið notuð til þess að vinna að gæðastarfi í símenntun. Eitt þeirra er gengur undir heitinu Lernerorientierte Qualitätstestierung eða LQW. Módelið var þróað í Þýskalandi að beiðni þýska menntamálaráðuneytisins og héraðsstjórnar neðra Saxlands á árunum 2000-2005 og er undir stofnun sem heitir Artset.  Þetta er eitt útbreiddasta gæðamódel í fullorðinsfræðslu í Þýskalandi og Austurríki það er lítið sem ekkert þekkt hérlendis.

Það sem einkennir LQW og skilur það frá ýmsum öðrum gæðastjórnunarmódelum er sú grunnhugsun að nemandinn, reynsla hans og upplifun er kjarninn í allir gæðavinnunni og öll viðmið skulu skoðast út frá því. Hver stofnun fyrir sig setur sín eigin gæðaviðmið og ákvarðar hvernig og hvenær þeim er náð. Gert er ráð fyrir víðtækri þátttöku starfsmanna í öllu ferlinu og í stærri stofnunum er gæðastarfið mikið byggt á hópavinnu. Módelið felur bæði í sér innra og ytra mat. Unnið er að sjálfsmati en síðan eru utanaðkomandi aðilar sem yfirfara, staðfesta og votta. Í LQW er lögð rík áhersla á að gæðastjórnun sé hringferill sem sífellt er endurtekinn en þá lagt upp í næstu umferð með ný markmið. Þannig er módelið hannað til þess að viðhalda stöðugri þróun gæða hjá stofnuninni.

Vinnan við gæðaferlið er skilgreind í 11 þrepum eins og sýnt er á mynd 1 og lýst hér fyrir neðan.


Mynd 1. 11 þrep LQW.

 1. þrep – Lýsing á starfsemi og skilgreining á árangursríku námi: Í upphafi þarf stofnunin að skilgreina hlutverk sitt (mission statement) og skilgreina hvaða merking er lögð í árangursríkt nám (successful learning). Þetta tvennt er nokkuð sem taka þarf tillit til á öllum þrepunum sem á eftir koma.
 2. þrep – Þarfagreining: Hverjar eru þær þarfir sem stofnunin á að sinna? Skoðaðar eru fræðsluþarfir samfélagsins sem og fræðsluþarfir einstaklinga.
 3. þrep – Meginferlar: Kastljósinu er beint að þeim meginferlum sem eru altækir fyrir stofnunina og ganga þvert á ýmis svið hennar.
 4. þrep – Kennara-nemanda ferill: Skoðaðir eru ferlar sem snúa að kennurum og nemendum.
 5. þrep – Mat á kennsluferlum: Kastljósinu er beint að mati á kennsluferlum.
 6. þrep – Umhverfi/innviðir: Hér er sjónum beint að starfsumhverfi kennara og nemenda, aðbúnaði, kennslu- og námsgögnum og öðru slíku.
 7. þrep – Stjórnun: Kastljósinu er beint að stjórnunarlegum þáttum stofnunarinnar.
 8. þrep – Mannauður: Hvernig er samsetning, uppbygging og viðhald mannauðs innan stofnunarinnar? Meðal annars er litið til þess hvort hæfniuppbygging starfmanna er í takti við þarfir stofnunarinnar í síbreytilegu samfélagi.
 9. þrep – Eftirlit: Kastljósinu er beint að innra eftirliti stofnunarinnar á hinum ýmsu þáttum starfseminnar, t.d. eftirlit með fjármunum, mannauði o.fl.
 10. þrep – Viðskiptatengsl: Kastljósinu er beint að samskiptum við viðskiptavini stofnunarinnar sem eru t.d. nemendur, samstarfsaðila o.fl. Hér er „orðspori” stofnunarinnar velt upp.
 11. þrep – Stefnumótandi markmiðasetning. Þetta þrep er aðskilið frá hinum og fer fram eftir að heimsókn hefur átt sér stað frá úttektaraðila. Hér eru stefnumótandi markmið sett í kjölfar allrar gæðavinnunnar á hinum þrepunum, markmiðin sem á að vinna að í næstu umferð.

Vinnan við innleiðingu LQW á þessum 11 þrepum er sýnd á mynd 2 og byggð á 7 skilgreindum þáttum.


Mynd 2. Innleiðing LQW.

 1. Vinnan hefst á kynningavinnustofu sem er yfirlýst byrjun á gæðavinnu hjá stofnunni. Þar er lagður grunnurinn að því sem koma skal, sammælst um hlutverk stofnunarinnar og skilgreint hvað átt er við með árangursríku námi.
 2. Stofnunin skoðar svo innri mataðferðir sínar og lýsir starfseminni.
 3. Því næst hefst vinna við skipulagningu og innleiðingu á þeim viðmiðum sem stofnunin vill setja sér.
 4. Þá fer í hönd vinna við skráningu matsferla og að útbúa svokallaða sjálfsmatskýrslu. Sjálfsmatskýrslan lýsir öllum þeim ferlum eða vinnu sem stofnunin framkvæmir í gæðavinnunni. Fyrsti hlutinn er lýsing á stofnuninni, einskonar stöðumat, hlutverk og uppbygging. Annar hluti lýsir ferlinu við vinnuna á módelinu en þriðji hlutinn er skráning á því innihaldi, niðurstöðum og gögnum sem komu út úr vinnunni við módelið. Þegar skrifum á sjálfsmatsskýrslunni er lokið er hún send til utanaðkomandi matsaðila sem fær hana til umfjöllunar.
 5. Úttektaraðilar fara yfir sjálfsmatsskýrsluna og meta gæðavinnu stofnunarinnar í heild sinni. Þeir útbúa skýrslu um niðurstöður sínar og senda til stofnunarinnar.
 6. Matsaðilar koma í heimsókn. Heimsóknin er nauðsynlegur hluti í vottunarferlinu því með henni eru færðar sönnur á gæðavinnu stofnunarinnar. Heimsóknin felur í sér skoðunarferð um stofnunina sem hugsuð er til þess að úttektaraðilarnir fái betri mynd af starfseminni og tilgangi hennar, gagnastaðfesting þar sem gengið er úr skugga um að allar skyldur stofnunarinnar og gögn hafi verið eftir þeim kröfum sem LQW leggur á herðar fræðsluaðilans og svo umræður um skýrslu matsaðilanna sem innheldur viðbrögð þeirra við sjálfsmatsskýrslu stofnunarinnar.
 7. Hringferlinu lýkur með lokavinnustofu. Á vinnustofunni eru markmið í gæðastarfinu endurskoðuð og endurskilgreind (ef þarf). Jafnframt er birt markmiðssett umbótaáætlun byggð á niðurstöðum úr undanförnu gæðaferli. Þrátt fyrir nafnið felur þessi hluti gæðastjórnunarferlisins ekki í sér nein lok. Frekar má segja að einum hring í ferlinu sé að ljúka og nýr að hefjast. Við þessi skil er vottun til fjögurra ára afhent stofnuninni. Það þarf síðan að ljúka öðrum hring til að fá næstu vottun.

Artset stofnunin sem er á bak við LQW módelið býður fram stuðning í gegnum allt ferlið og útvegar tengilið (matsaðila) sem fylgir fræðsluaðilanum eftir í vinnu sinni frá upphafi til enda. Yfirlýst markmið tengiliða er að hvetja fræðslustofnunina til að vinna að sífellt bættum gæðum. Á heimasíðu Artset (artset.de) má finna ýmisleg nytsamleg hjálpartæki og tól (á þýsku).

Eftir að hafa kynnt okkur LQW módelið og þá sérstaklega með tilliti til EQM módelsins sem flestar símenntunarmiðstöðvar á Íslandi vinna eftir, þá eru ýmsar hugsanir sem skjóta upp kollinum. Okkur finnst góður kostur að í LQW er gengið út frá því að stofnunin setji sín eigin viðmið um gæði – það gefur ákveðið frelsi og sveigjanleika án þess þó að gefa einhvern afslátt af gæðum. Það er jákvætt að alla þætti eigi að skoða út frá nemandanum og hvernig hann er að upplifa tilveruna eftir námsreynslu sína. LQW tryggir stöðuga framþróun stofnunarinnar þar sem það fer hring eftir hring og hver nýr hringur byggir á nýjum markmiðum skilgreindum út frá niðurstöðum síðustu umferðar. Þetta er módel sem stuðlar að síðfellt auknum gæðum en ekki bara að tikka í sama boxið við hverja úttekt.

Heimildir:

Zech, Reiner (2007).  Lerner-Oriented Quality Certification for Further Education Organisations. Version 3. Artset, Hannover. Sótt á: https://ec.europa.eu/epale/sites/epale/files/lqw_3_guidelines_english_2_0.pdf

Savaneviciene, Asta & Stankeviciute, Zivile (2010).  Learner-oriented quality management in continuing learning. Economcks and Management: 2010:15. Sótt á: https://www.researchgate.net/publication/228832242_LEARNER-ORIENTED_QUALITY_MANAGEMENT_IN_CONTINUING_LEARNING

Hér fyrir neðan má sjá glærukynninguna okkar á LQW gæðamódelinu:

Skildu eftir svar