Your site
21. janúar, 2025 12:21

Gæðanám. Eða hvað skiptir máli til þess að skipuleggja og útfæra frábær námstilboð fyrir fullorðna?

quality

Gæði eru í mörgu samhengi stóra málið í dag. Neytendur, viðskiptavinir eða skjólstæðingar vilja að vörurnar sem þeir kaupa séu góðar, það er að þær uppfylli tilgang sinn, endist og helst meira en það. Fyrirtæki og stofnanir vilja tryggja gæði vara sinna og þjónustu til þess að standast í samkeppni, eða til þess að standa sig gagnvart umbjóðendum sínum. Það hefur lengi tíðkast í viðskiptaheiminum að segja að viðskiptavinurinn hafi ávalt rétt fyrir sér. Vissulega hefur sú fullyrðing verið skilyrt í umræðunni undanfarin ár. En þó er ljóst að flestir sem eiga allt sitt undir viðskiptavinum sínum þurfa að finna leiðir til að umgangast viðskiptavin sína af virðingu og finna leiðir til að mæta óskum þeirra.
Þegar umræðan snýst svo að námi, fræðslu, skólum og kennslu verður samband stofnunar og kennara annars vegar við nemendur hins vegar flóknara. Í fyrsta lagi vegna þess að stundum vita skipuleggjendur og kennarar betur hvað þarf að gera til að ná árangri og í öðru lagi – og það er það sem ég er að leggja áherslu á með þessum pósti, að nemendurnir leggja sjálfir gífurlega mikið til gæða námsins, bæði fyrir sjálfa sig og fyrir alla samferðamenn sína á námskeiðinu. Þess vegna verður það á ábyrgð kennara að finna leiðir til að virkja nemendur í eigin námi OG í því að „læra upphátt“ þannig að hinir á námskeiðinu græði á því að vera samferða í gegnum námið. EN það tekur ekki ábyrgðina frá nemendum sjálfum að vera virkir og uppfinningasamir í viðleitni sinni til að leggja sitt að mörkum til að námskeiðið verði gott, bæði fyrir þá OG fyrir samferðafólk sitt. Því miður hafa margir vanist því í gegnum hefðbundið skólakerfi að hlutverk þeirra sé að hlýða kennaranum og gera það sem þeim er sagt, en a.m.k. í háskólanámi og fullorðinsfræðslu (helst fyrr) þarf hver nemandi að axla ábyrgð á eigin námi og láta muna um sig – í samræmi við persónu sína – þegar hann/hún tekur þátt í námi.
Ég skrifaði grein um þetta með nemendum mínum á námskeiðinu Gæðastjórnun í Símenntun fyrir nokkrum árum. Sæktu greinina hér: Hróbjartur Árnason et al. – 2014 – Gæðanám

Skildu eftir svar