Your site
16. apríl, 2024 20:40

Samvinnunám

Samvinnunám

Aðferð: Samvinnunám (e. cooperative learning).

Flokkur: Hópvinnubrögð (Ingvar Sigurgeirsson, 2013).

Tilgangur við kennslu:

  • Vekja áhuga
  • Miðla upplýsingum
  • Úrvinnsla námsefnis
  • Upprifjun og minnisþjálfun
  • Efla leikni
  • Tilbreyting – losa upp
  • Heimfæra að þekktum aðstæðum og laga að raunaðstæðum, að hluta til
  • Æfa samvinnu
  • Æfa lýðræðisleg vinnubrögð
  • Æfa rökræður
  • Þátttakendur eflast í að kenna öðrum
  • Þátttakendur eflast í að útksýra það sem þeir eru að segja

 

Virkni nemenda

 

Nauðsynleg hjálpargögn og tæki

 

Nemendur þurfa að geta setið í hóp, skráð hjá sér á tölvu eða blað
X Sjálfstæðir og virkir
X Virkir
Gagnvirkni milli kennara og nemenda Tími

 

20-40 mín
X Nemendur taka við Fjöldi þátttakenda Lágmark Hámark
Nemendur óvirkir 2 8

 

Markmið aðferðarinnar

Þjálfa þátttakendur í sjálfstæðum vinnubrögðum, samvinnu úrvinnslu, miðlun og verkaskiptingu. Að auki við venjulegt hópastarf er talið að sú samkennd sem skapist í vinnuhópunum leiði til þess að þátttakendur verði áhugasamari um námið heldur en ef þeir væru að vinna einir eða í samkeppni við hvorn annan. Þeir læri meira en ella, því þeir tala saman og leiðbeina hver öðrum og fái stöðuga og markvissa þjálfun í að gera sig skiljanlega, útskýra, rökræða og kenna. Aðferðin er einnig talin stuðla að jákvæðum viðhorfum til annarra og auka skilning og næmni fyrir skoðunum annarra. Þó er vert að hafa í huga að margir kunna ekki að vinna í hóp og margt getur því farið úrskeiðis (Ingvar Sigurgeirsson, 2013).

Lýsing

Í grein Karge, Phillips, Jessee og McCabe frá 2011 kemur meðal annars fram að þegar fullorðnir eru virkir í námsferli þrói þeir með sér færni í gagnrýnni hugsun og öðlist þekkingu á skilvirkan máta.

Í mjög grófum dráttum gengur samvinnunám út á að þátttakendum er skipt í námshópa og eru samábyrgir fyrir náminu sem á sér stað innan hópsins (Ingvar Sigurgeirsson, 2013).

Ein af þeim aðferðum sem hægt er að nota er aðferð sem kallast 3 og 3 og 3, en talið er að hún henti fullorðnum vel. Eftir að kennari hefur kynnt efni er þátttakendum skipt upp í þriggja manna hópa og þeir fá þrjár mínútur til að setja fram þrjú atriði, svör eða úrlausnir (Ingvar Sigurgeirsson, 2013).

Önnur aðferð er kölluð hugsa – ræða – miðla (e. think – pair – share) eða einn, tveir og allir (sjá https://namfullordinna.is/adferdir/einn-tveir-og-allir-think-pair-share/ ), en hún gengur út á að fá þátttakendur til að vera virkir og vekja þá til umhugsunar. Þeir fá eitthvað vandamál sem þarf að leysa úr eða spurningu sem þarf að svara og gera það skriflega ef þeir vilja. Þegar því er lokið koma þátttakendur saman í pörum eða litlum hópum, bera saman svör sín (Ingvar Sigurgeirsson, 2013; Karge, Phillips, Jessee og McCabe, 2011) og skoða hvað þau eiga sameiginlegt og hvað sé ólíkt. Á endanum kynna þeir niðurstöðurnar fyrir öllum. Þessi persónulegu samskipti eru talin vera hvetjandi fyrir þátttakendur og sjá einnig til þess að allur hópurinn tekur þátt. Því er hún talin einkar heppileg til að fá feimna þátttakendur til að leggja eitthvað af mörkum (Karge, Phillips, Jessee og McCabe, 2011).

 

Afbrigði

Til er útgáfa af hugsa – ræða – miðla sem kallast hugsa – skrifa – ræða – miðla, en þar eru þátttakendur beðnir um að skrifa niður lausnir sínar eða svör áður en þeir fara að ræða við aðra nemendur.

Þá er einnig til útgáfa sem heitir lesa – skrifa – ræða – miðla, en þá lesa þátttakendur einhverjar upplýsingar hver í sínu lagi, skrifa svo niður lausnir sínar eða svör, ræða þau næst við annan þátttakanda og kynna svo svörin fyrir hópnum.

 

Heimildir

Ingvar Sigurgeirsson. (2013). Litróf kennsluaðferðanna. Reykjavík: Iðnú.

Karge, B. D., Phillips, K. M., Jessee T. og McCabe, M. (2011). Effective strategies for engaging adult learners. Journal of College Teaching & Learning, 8(12), 53–56.

 

Skildu eftir svar