Your site
21. nóvember, 2024 10:23

Gildi menntunar í lífi fullorðins fólks

Jóhanna Rósa Arnardóttir og Jón Torfi Jónasson. (2004). Gildi menntunar í lífi fullorðins fólks. Tímarit um menntarannsóknir, 1, 129-143.

Inngangur

Rannsóknargreinin sem varð fyrir valinu hjá mér heitir Gildi menntunar í lífi fullorðins fólks. Greinin birtist í Tímariti um menntarannsóknir árið 2004 og er að finna í 1. árgangi á bls. 129-143. Höfundar hennar eru þau Jóhanna Rósa Arnardóttir félags- og menntunarfræðingur sem starfar við frumkvöðla- og nýsköpunarsetrið Hugheimar í Borgarnesi og Jón Torfi Jónasson prófessor við Menntavísindadeild Háskóla Íslands.  (Linkur á grein)

Jóhanna Rósa er félags- og menntunarfræðingur að mennt og varði doktorsritgerð sína árið 2014 sem fjallaði um leið ungmenna frá skóla til vinnu á Íslandi.  Hún hefur skrifað fjölda rita og greina, t.d. skrifaði hún á þessu ári í Tímarit félagsráðgjafa grein sem bar heitið „Leið ungmenna frá skóla til vinnu“  Nálgast má ritaskrá Jóhönnu hér.

Jón Torfi er með B.Sc próf í eðlisfræði og M.Sc. og doktorspróf í tilraunasálfræði.  Doktorsritgerð hans fjallaði um orðskynjun og lestur.  Hann hefur einnig skrifað fjölda rita og greina t.d. skrifaði hann mjög áhugaverða grein árið 2013 í Gátt sem bar heitið Fortíð og framtíð fullorðinsfræðslu.  Nálgast má ritaskrá Jóns Torfa hér.

Rannsóknargreinin

Rannsóknin sem um ræðir tekur á gildi menntunar fyrir fullorðna bæði í atvinnulífi og einkalífi, og hvaða þættir það eru sem hvetja fullorðið fólk til náms.  Einnig eru metin áhrif menntunar á launaþróun innan atvinnugreina. Menntun í augum fullorðinna virðist tengjast möguleikum þeirra á launahækkunum, betri atvinnu, auknu atvinnuöryggi, betra og heilsusamlegri vinnuumhverfi, aukinni virðingu í starfi og möguleikanum á að bera aukna ábyrgð.

Rannsóknin er hluti af meistaraprófsritgerð Jóhönnu Rósu Arnardóttur, og beitir hún bæði megindlegum og eigindlegum aðferðum í rannsókn sinni ásamt því að notast við fyrri rannsóknir á tengingu menntunar og fjárhagslegri afkomu annars vegar og fyrri rannsóknir er sýna fram á að menntað vinnuafl auki samfélagslega velferð hins vegar.  Höfundar leggja grunninn að umræðu um gildi menntunar með því að notast við mannauðskenninguna, merkjakenningu og hugmyndfræði Pallas um fjölþættan afrakstur menntunar.   Að lokum benda þeir á margar rannsóknir og fræðimenn sem taka á þáttum er hvetja fullorðið fólk til náms.

Markmið rannsóknar og rannsóknarspurningar

Markmið rannsóknarinnar er tvíþætt.  Annars vegar að komast að því hverju nám á háskólastigi skilar fólki sem hefur reynslu af vinnumarkaði en býr eingöngu að grunnskólaprófi.  Þar eru skoðaðir áhrifaþættir bæði í einkalífi og atvinnulífi.  Hins vegar er rannsókninni ætlað að komast að því hvað veldur því að fullorðið fólk fer í nám.

Rannsóknarspurningarnar eru:

  1. Hverju skilar nám á háskólastigi fólki í atvinnulífi og einkalífi sem hefur áður reynslu af því að starfa með grunnskólapróf sem síðasta lokapróf úr skóla?
  2. Hvers vegna fer fullorðið fólk í nám?

Aðferðafræðin

Aðferðafræði rannsóknarinnar byggir á bæði megindlegum og eigindlegum aðferðum.  Í eigindlega hlutanum notuðust rannsakendur við aðferðafræði er kallast grunduð kenning (e. grounded theory) þar sem stuðst var við opin viðtöl.  Með slíkri aðferð byrja höfundar á að safna gögnum, út frá þeim þróa þeir tilgátur sem að lokum mótar kenningu höfunda.  Þátttakendur í þessum hluta voru 16 talsins, 11 konur og 5 karlar á aldrinum 32-68 ára.

Höfundar fundu þátttakendur með því að spyrjast fyrir í nærumhverfi sínu þar sem þeim var bent á slíka aðila.  Viðtölin voru framkvæmd annað hvort á heimili eða vinnustað viðmælenda og tók hvert viðtal um 1-3 klukkustundir. Spurt var um gildi menntunar, hverju hún hefði skilað þeim, helstu námshvata, fyrri störf og stöðuna í dag.  Í lok viðtala var orðið ávallt gefið laust.

Gagnagreining fór fram með samanburði og mismunandi kóðunaraðferðum. Lágu þar til grundvallar 546 blaðsíður af gögnum þar sem viðtölin voru skráð orðrétt.

Í megindlegum hluta rannsóknarinnar er byggt á niðurstöðum könnunar um símenntun á Íslandi.  Höfundar settu fram tvær tilgátur út frá niðurstöðum eigindlegu rannsóknarinnar.  Önnur tilgátan var að laun geti verið mishá eftir atvinnugreinum og hin tilgátan var að fólk gæti bæði hækkað og lækkað í launum eftir að hafa aflað sér meiri menntunar. Virtust gögnin styðja þessar tilgátur.

Í könnun þeirra um símenntun var notast við 1.800 manna tilviljunarúrtak úr þjóðskrá með fólki á aldrinum 18-75 ára og var svarhlutfall 75% eða 1.350 manns.

Notast var við spurningalista í símakönnun og þær spurningar sem notaðar voru í þessari rannsókn voru eftirfarandi:

  1. Hefur þú lokið einhverju námi eftir 12 ára aldur?
  2. Í hvaða atvinnugrein starfarðu?
  3. Heildarlaun á mánuði?
  4. Hversu löng er vinnuvika þín?

 

Við úrvinnslu voru notaðar fanóvu- og fjölbreytuaðhvarfsgreiningar.  Sérstaklega var leitað eftir því hvort laun normaldreifðust.

Niðurstöður

Í niðurstöðum setja höfundar fram drög að líkani sem á að sýna gildi menntunar fyrir fullorðið fólk. Líkanið dregur fram þær niðurstöður sem fengnar voru með viðtölunum annars vegar og símakönnuninni hins vegar.

1

Meirihluti viðmælenda töldu stöðu sína sterkari á vinnumarkaði eftir háskólanám, og helmingur þeirra sagðist vera sáttur við núverandi stöðu. Helmingur kvenna taldi sig þó hafa lækkað í launum eftir að námi lauk, en þessu var öfugt farið hjá körlunum.  Konur sem höfðu áður starfað við skrifstofustörf en sinntu síðan umönnunarstörfum eftir nám lækkuðu allar í launum. Það var því að mati höfunda áhugavert að skoða nánar hvort launaþróun sé almennt neikvæð þegar færsla á milli atvinnugreina verður eftir háskólanám og var það gert.  Svarendur sem störfuðu við sjávarútveg, t.d. fiskvinnslu og fiskveiðar voru að meðaltali með hærri heildarlaun en aðrar starfstéttir innan viðmælendahópsins, næst komu viðmælendur í iðngreinum en ekki var teljandi munur í öðrum starfsgreinum.

Fram kemur að samvirkniáhrif menntunar og launa eru mismikil eftir atvinnugreinum.  Áhrifin eru ekki einu sinni marktæk í störfum í opinberu menntakerfi og hafa starfsmenn með grunnskólapróf í fiskvinnslu og fiskveiðum marktækt hærri laun en þeir með háskólapróf og starfa í opinberu menntakerfi, sem bendir til þess að fiskvinnslufólk sem lýkur háskólaprófi hækkar ekki endilega í launum. Viðmælendur með grunnskólapróf og störfuðu í iðngreinum virtust vera lægst sett launalega.

Þegar tekið er tillit til atvinnugreina, kyns, aldurs og vinnutíma benda niðurstöður til þess að háskólapróf skili viðmælendum hærri launum að jafnaði en þeirra sem eingöngu höfðu grunnskólapróf.  Störf við menntun eru þar marktækt lægst, laun hækka að jafnaði með hærri aldri, meiri vinnutíma og karlar eru með hærri laun en konur.

Greinileg fylgni er á milli þess að ef háskólanám viðkomandi tengist beint því starfi sem sinnt er að námi loknu hækka laun viðkomandi, en eftir því sem námsmaðurinn er eldri því mun minni er þessi fylgni.

Hvað varðar niðurstöður í starfstengdu þáttunum töldu viðmælendur sig vera í betra starfi en áður, t.d. meira krefjandi og meiri ábyrgð, ásamt því að upplifa meira starfsöryggi.  Viðhorf til vinnuaðstæðna var mun jákvæðara, enda mun minna um erfiðisstörf og meira um betri vinnuaðbúnað t.d. eigin skrifstofu.  Þau upplifðu einnig meiri virðingu utan frá hvað varðar starfið, sjálfstæð ákvarðanataka  og þar með aukin ábyrgð og sérhæfni þeirra skapar þeim ákveðinn sess í skipulagsheildinni að þeirra mati. Innri þættir eins og sjálfsöryggi, betri líðan í einkalífi og aðrir sálrænir þættir aukast hjá báðum kynjum en er öllu víðtækari upplifun hjá konum en körlum.

Niðurstöður er varða það hvers vegna fullorðið fólk fer í nám eru ansi víðtækar.  Höfundar flokka þær niðurstöður í þrennt:

  1. Einstaklingsbundnir þættir
  2. Þættir sem tengjast fjölskyldunni
  3. Þættir sem tengjast skólakerfinu

Höfundar setja upp mjög lýsandi líkan sem sýna þessa þrjá þætti og undir- og áhrifaþætti hvers og eins.

2

Viðmælendur svöruðu flestir á sama veg, út frá einstaklingsbundnum þáttum, að áhugi og þörf fyrir þekkingu væri helsti hvatinn, þeir voru með ákveðna framtíðarsýn í huga hvað varðar störf eftir nám og jafnvel í lífinu sjálfu.  Margir töldu sig hafa orðið undir í almennum samskiptum og vildu hækka í áliti.  Afstaða til fyrri starfa skipti einnig máli bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt, og von um bætta fjárhagsstöðu skipti einnig máli hjá meirihluta viðmælenda.

Út frá fjölskylduþáttum má lesa úr niðurstöðunum að fjölskyldan sem slík getur verið hvati til náms og hvatning frá maka vó þyngra hjá konum en körlum. Hjá körlum var á móti algengara að menntun maka var þeim hvati til náms, þá einna helst til að standa þeim jafnfætis að loknu sínu námi.

Skólakerfið hafði einnig áhrif á hvata til náms, og þá einna helst með auknu aðgengi að námi,  námsframboði, öldungadeildum og sveigjanlegu námsfyrirkomulagi.

Höfundar bera í lokin saman niðurstöður sínar við aðrar rannsóknir t.d Knowles sem heldur því fram að lífsgæði og starfsánægja séu sterkari hvatar en staða á vinnumarkaði og hærri laun. Þeir nefna þó að flokkun þessarar rannsóknar séu nokkuð frábrugðin öðrum sambærilegum rannsóknum og því ekki einfalt að bera saman niðurstöður þeirra.

Í lokaorðum segja höfundar að rannsóknin sýni fram á hversu margbreytilegur afrakstur af menntun getur verið, þó að hann komi ekki endilega alltaf fram í launaumslaginu.  Þeim er umhugað um aðstöðu fólks til náms og sérstaklega þeirra sem hvorki eru í aðstæðum eða fá þá hvatningu sem þarf til að stunda nám við hæfi.

Skildu eftir svar