Your site
16. september, 2024 03:39

Allt að fara í gang…

20140905_084043_Android (2)

Það er frábært að byrja haustið á svona fallegum dögum eins og við fáum um þessar mundir! Einhvern veginn draga sólríkir haustdagar fram í huga mér bjarsýni og eftirvæntingu. Á námsbrautinni fara í gang tvö spennandi námskeið: Fullorðnir námsmenn og aðstæður þeirra og Greining fræðsluþarfa í símenntun. Í nokkur ár höfum við boðið fólki úr atvinnulífinu að taka þátt í námskeiðum brautarinnar hvort sem er til eininga eða ekki. Innlegg fólks sem vinnur við fræðslu samstarfsfólks, skipulagningu náms í símenntunarmiðstöðvum eða á öðrum vettvangi er alltaf velkomin og nauðsynleg „raunveruleikatenging“ inn í fræðilegar umræður. Verkefnin verða gjarnan raunhæf verkefni sem nýtast þátttakendum beint við vinnu sína, og háskólastúdentar sem enn hafa ekki haft tækifæri til að spreyta sig á vettvangi fá kærkomið tækifæri til að kíkja inn í þann veruleika sem þau eru að mennta sig til. Nú í haust eru þátttakendur sem koma í gegnum Endurmenntun HÍ fleirri en nokkru sinni og er það jákvætt fyrir námsbrautina og nemendur á henni. Hlakka ég mikið til að vinna með ykkur öllum.

Bæði námskeiðin byrja með stuttum fundi í Stakkahlíð kl. 16 (Fullorðnir…) og 17 (Greining…). Fundirnir verða í beinni útsendingu fyrir þá sem komast ekki á staðinn (Vinsamlega lesið þessar leiðbeiningar um þátttöku).

Það er um að gera að byrja að kynna sér aðeins námskeiðsvefina, skrá sig á vefinn og í Facebook hópa námskeiðanna. Ég er að leggja síðustu hönd á námskeiðslýsingar, en þess ber að geta að á fyrstu staðlotu fara fram samningaviðræður um fyrirkomulag námskeiðsins. Því þarfir þátttakenda eru ólíkar á hverju ári, og námskeiðin eru til þess að þátttakendur læri eitthvað sem gagnast þeim.

Skildu eftir svar