Your site
16. september, 2024 01:37

Skipulagning náms… að púsla saman „verkfærum“

Verkfæri Verkfæri

Kennari, eða hver sá sem skipuleggur nám fyrir aða hefur ótal „verkfæri“ (eða kennsluaðferðir, miðlar, kennsluefni, samveruform o.s.frv.) úr að velja til að hjálpa nemendum að ná markmiðum námsferlis sem hann eða hún er að skipuleggja. Verkefni folks sem skipuleggur nám fyrir aðra er meðal annars að velja saman slík „verkfæri“ þannig að þau stuðli að námi í samræmi við markmið viðkomandi námsferlis. Þar að auki er það verkefni sem blasir við mörgum kennurum  í dag e.t.v. eilítið ógnvekjandi, því okkur finnst mörgum við ekki hafa skýra mynd af nemendum okkar, aðstæðum þeirra og þörfum. Við erum að velta fyrir okkur hvernig við getum og viljum mæta breyttum og ólíkum þörfum þeirra. Við veltum jafnvel fyrir okkur hvort það sé eitthvað i eðli markmiða eða innihaldi þess náms sem við ætlum að skipuleggja sem hefur áhrif á skipulagið sjálft og hvaða leiðir við veljum!  Við stöndum allt í einu frammi fyrir ákvörðunum sem við þurftum ekki að taka áður. Við virðumst þurfa að ákveða hluti eins og: Hversu oft og lengi nemendur hittast á sama stað og hversu mikill hluti og hvaða hluti námsins geti farið fram yfir vefinn. Hvað máli skiptir það fyrir nám nemendanna að hitta kennarann eða aðra nemendur reglulega og hvað er skynsamlegast að gera með nemendum þegar við hittum þá?
Námskenningar sem eru almennt viðurkenndar í dag byggja allar á því að nám snúist ekki um að nemendur innbyrði passift eitthvert magn upplýsinga, heldur vinni með nýjar upplýsingar, lagi þær að þeirri þekkingu, kunnáttu og hæfni sem fyrir er og þá gjarnan í samtali og samstarfi við aðra. Sumir segja að námið eigi sér stað þar sem innihald, einstaklingur og hópur námsmanna mætist. Það hjálpi fólki að læra þegar það sér aðra læra, spurningar samnemenda hjálpi fólki að skilja betur, umræður og samvinna hjálpi nemendum að tileinka sér efnið og það að „tala sig í gegnum það“ leiði til dýpri skilnings og aukinnar hæfni. Sumt þurfa nemendur að prófa og gera til að læra það og ef þeir prófa það með öðrum læri þeir hraðar og dýpra. En vegna aðstæðna í samfélagi nútímans þurfum við sem kennarar að finna út hvar og hvernig við sköpum námssamfélag sem býður upp á þetta. Nemendur háskóla nota t.d. skólana ekki lengur bara sem „grunn-mennta-stofnanir“ þar sem þeir læra til tiltekinna starfa, heldur eru æ fleiri sem nota háskóla sem staði til að skipta um starfsvettvang, eða til að auka hæfni sína á vettvangi sem þeir hafa starfað við um lengri tíma. Þannig að nemendahópurinn getur verið mjög blandaður og þörf (eða ósk) einstaklinga t.d. fyrir sveigjanleika í námi mis mikil. Hið sama er uppi á teningnum þegar fólk á vinnustað þarf að sækja námskeið til að læra á ný kerfi eða nýjaar aðferðir… Sumir eru það uppteknir að þeir komast varla frá, en þurfa samt að læra…
Námsamfélag, eins og það sem nefnt er hér að ofan, getur skapast í kennslustofum, gripahúsum, vettvangsferðum en líka í gegnum samskipti á vefnum, umræðuþræði, Facebook hópa og vefstofur – þar sem allir sitja við tölvuna á sama tíma og ræða saman yfir vefinn með mynd og hljóð. Hvernig við röðum þessum „verkfærum“ saman til að styðja við nám nemenda okkar er glíman. Við spyrjum okkur: Þurfa nemendur að vera á heimavist í 1 misseri eða 6 til að ná markmiðunum? Eða dugar að þau séu saman í 1-2 vikur í upphafi náms, og svo reglulega inn á milli? Er skynsamlegt að hafa vikulotur þar sem tekist er á við afmörkuð viðfangsefni? Geta þau lært allt á netinu án þess að hittast nokkurn tíma? …o.s.frv.
Innihaldi þarf ekki alltaf að miðla með fyrirlestrum í kennslustund, þá má taka upp fyrirfram… Umræður þurfa ekki alltaf að fara fram á sama tíma. Skriflegar umræður sem eiga sér stað yfir lengi tíma, og nemendur hafa tíma til að hugsa sig um geta rist dýpra og leitt til meira náms, þær geta líka laðað fram áhugaverð sjónarhorn frá nemendum sem venjulega þegja í munnlegum umræðum í kennslustofum…

Það er spennandi verkefni að pússla saman öllum þeim óliku „verkfærum“ sem standa til boða, en kanski líka svolítið yfirþyrmandi. Það hvenig við gerum það byggir á hugmyndum okkar um þátttakendur um það hvernig þeir vilji læra og um markmið námsins og hvað þurfi til að ná þeim.

Skildu eftir svar