Your site
22. janúar, 2025 15:45

Kenningar Kenningar Kenningar…

Þegar ég var í námi við háskólann í Bamberg fannst mér við læra um kenningar á ákaflega hagnýtan hátt. Og ég er enn viss um að kennarar mínir þar hafi haft gott lag á að hjalpa okkur að læra kenningarnar þannig að þær nýtast okkur. Aftur á móti hef ég orðið að endurskoða þessa tilfinningu mína að einhverju leiti, eftir að ég kenndi sjálfur námskeið við skólann mörgum árum síðar. Því þá sagði mér nýútskrifaður „Andraóg“ …fullorðinsfræðari 🙂  …. að hún hafi bara lært kenningarnar utanað fyrir próf!!!

Svo eitthvað meira var í gangi, og trúlega var það a.m.k. tvent:

  1. Ég vann við kennslu fullorðinna á meðan á náminu stóð
  2. Ég notaði hugarkort við nám mitt
Bæði atriðin stuðla að því að maður tengi betur það sem maður er að læra við eigin reynslu. En hvort sem maður lærir þannig eða án þess að geta kennt og prófað kenningarnar álít ég að það sé hægt að læra kenningar þannig að þær gagnist manni raunverulega í lífi og starfi!

Kanski þurfum við fyrst að átta okkur á því hvað vísindaleg kenning er.

Að vissu leiti er hægt að segja að kenning sé niðurstaða einhvers á reynslu sinni (því sem hann/hún hefur séð, heyrt og reynt) um það hvernig ákveðnum hlutum í lífinu sé háttað. Vísindaleg kenning er þá sams konar ályktun byggð á niðursöðum vísindalegra rannsókna.
Þannig túlkaði Jost Reischmann – þýskur kennari minn – gamla þrepaskpta framsetningu á kenningum þannig:
Fyrsta stigs kenningar, eru kenningar sem allir mynda sér um lífið og tilveruna til þess að skýra það sem þeir sjá og upplifa og skipuleggja athafnir sínar. Þannig að ef ég hef þá reynslu að ef ég sleppi hlut þá dettur hann til jarðar. Fyrr á öldum skýrðu menn þetta þannig að hlutir leituðu á sinn eðlilega stað, fyrir jörðina er það miðjan, þannig að steinn dettur til jarðar, eðlilegi staður vatnsins er að umlykja jörðina þá liggur vatnið umhverfis hana, loftið og eldurinn leitar svo upp. (Sjá nánar um eðlisfræði Aristótelesar) Sömuleiðis gæti það verið reynsla mín að ef ég lem börn fyrir óhlýðni þá hlýða þau að lokum, þannig að þá hljóta barsmíðar að vera góð leið til að ala börn upp og kenna þeim…. Fyrsta stigs kenningar, eru sem sagt skýringar sem allir búa sér til um það hvernig heimurinn sé og byggt á þeim geta þeir skilið lífið og ákveðið hvernig þeir takast á við það.

Annars stigs kenningar eru samkvæmt þessu svo kallaðar „Gúrú kenningar“, kenningar sem koma frá einum manni, einum skóla og ná utan um heilt svið. Gjarnan er það þannig að hópur fólks aðhyllist slíkar kenningar og láta þær stýra starfsemi sinni á ákveðnu sviði lífsins. Dæmi um þetta innan menntavísindanna eru kenningar eða stefnur kennda við einn mann / skóla, t.d. Anþropósófismi sem er runninn undan rifjum Rudolf Steiner, eða Montessory stefnan, og Summerhill skólinn

Þriðja stigs kenningar eru svo kenningastraumar þar sem margir hafa rannsakað, skrifað og tekist á um afmarkaða hluta kenningarinnar. Þar má nefna Behaviourisma, Humanisma, Hugsmíðahyggju o.s.frv.

Það sem mér fannst gagnlegt við þessa framsetningu var að hún gerir deginum ljósara að kenningar eru eitthvað hversdagslegt sem við mannfólkið notum til þess að komast í gegnum lífið. Það liggur bara mis mikil vinna á bak við hverja kenningu fyrir sig. Hver kenning er þar að auki mótuð og jafnvel bundin af því hvaðan hún kemur.

Engin ein kenning getur gert kröfu um að skýra allt, en hún getur verið mjög gagnleg þegar við viljum horfa á tilveruna frá tilteknu sjónarhorni. Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig þrár „leiðir“/kenningar til að skoða „heiminn“ sýna hver fyrir sig aðeins brot af „veruleikanum“.

Þrjú ólík sjónarhorn, gefa þrjár ólíkar myndir af „tilverunni“
Sagan um sex blinda menn og fílinn gæti líka hjálpað sem dæmisaga um það sama:

 

Ekki er úr vegi að kafa dýpra og skoða nokkrar greinar úr Wikipedia

Það má segja að kenningar…

  • …gefi okkur orðaforða og hugmyndakerfi til þess að túlka dæmi um nám sem við sjáum og upplifum í kring um okkur.  Þess vegna eru þær gagnlegar hverjum þeim sem er með opin augu í heiminum.
  • … bendi okkur á hvar við getum leitað til að finna lausnir á áþreifanlegum vandamálum sem við glímum við.
  • … gefi okkur ekki svörin, heldur beina athygli okkar að þeim breytum sem eru mikilvægar til þess að finna lausn.

(Byggt lauslega á: Hill, Learning: A Survey of Psychological Interpretations (3. útg.)1977)

Horst Siebert – Þýskur prófessor í kennslufræði fullorðinna orðaði þetta svona:

  • Kenningin þarf að vera þannig að það sé hægt að sanna hana.
  • Framkvæmdin þarf að vera þannig að hún sé árangursrík. (Horst Siebert)
Þegar við hugsum um kenningar um nam fullorðinna erum við að tala um ALLT nám fullorðinna. Meiri hluti rannsókna snýst vissulega um skipulagt nám fullorðinna en sviðið er stórt og það hangir allt saman:

Sjá nánar um þetta

Ykkar verkefni er svo að kynna ykkur ýmsa ólíka kenningastrauma, flokka þá í huganum og geta síðan nýtt kenningarnar til að túlka rannsóknargögn en einnig til að skipuleggja nám fyrir fullorðna og kenna þeim. Þá getur verið gott að bera saman þær helstu kenningar sem þið eruð að stúdera hvaða afleiðingar þær hafa fyrir nám og kennslu:
Flokkun og yfirlit yfir helstu kenningar

Í bók Merriam og Caffarella er gagnlegt yfirlit yfir helstu kenningastrauma:

Meira efni um kenningar

Frá mínu sjónarhóli eru kenningar um nám fullorðinna gagnleg verkfæri sem hjálpa okkur að skýra það sem við sjáum í samskiptum okkar við fullorðna námsmenn. Þær hjálpa okkur að ákveða leiðir þegar við skipuleggjum námsferli fyrir fullorðna. Kenningar um nám fullorðinna hjálpa okkur að velja aðferðir og hjálpa okkur að sjá fyrir hvað gerist ef við beitum tilteknum aðferðum.

Málið er að þekkja til margra kenninga, láta þær upplýsa hugsun okkar og prófa að nota þær til að rökstyðja það sem við gerum þegar við vinnum með fullorðnu fólki í tenglum við alls konar breytingar, nám og þroska.

3 responses to Kenningar Kenningar Kenningar…

  1. Takk fyrir þessar mjög svo ágætu ábendingar. Gott vegarnesti í lestrinum sem og við úrvinnslu viðtalanna.
    Kveðja,
    Auður

  2. Mjög fróðlegt og gagnlegt Hróbjartur og þessi tafla er algjör snilld. Rifjar upp ýmislegt frá Kennóárunum ;(

  3. Átti að vera broskarl 😉

Skildu eftir svar