Your site
21. desember, 2024 12:13

Knud Illeris

Wikis > Fræðimenn > Knud Illeris

Knud-Illeris

Inngangur
Knud Illeris er danskur fræðimaður sem hefur verið mjög virkur á sviði rannsókna á námi fullorðinna. Hann er fæddur árið 1939 og hefur lengst af starfað við háskólann í Roskilde í Danmörku. Háskólinn í Roskilde stofnsetti deild í kennslufræðilegum rannsóknum árið 1972, sem róttækari valkost við meiri hefðbundna/íhaldssama deild við Háskólann í Kaupmannahöfn. Hann tók við stöðu rannsóknarstjóra við “The learning Lab – Denmark’s consortium for research in Workplace learning árið 2001 og í grein frá árinu 2015 er hann titlaður sem fræðimaður við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Í nýlegri grein bendir Illeris (2015) á, fyrir hversu miklum vonbrigðum hann varð þegar hann sjálfur hóf háskólanám, þá orðinn 27 ára gamall. Nemendur voru óvirkir og námið mjög kennaramiðað. Hann upplifði að hann væri að sóa tíma sínum með því að afla sér menntunar. Erfitt er að gera grein fyrir jafn afkastamilklum og áhrifamiklum fræðimanni og Knud Illeris í svo stuttu verkefni en ég mun leggja áherslu á að gera grein fyrir kenningu hans um hinar þrjár víddir náms, skoða skrif hans um þær hindranir sem mæta fullorðnum námsmönnum og tengsl kenninga hans við rannsóknir á þátttöku ungmenna í námi. Að lokum mun ég fjalla stuttlega um framlag hans til kenninga um nám fullorðinna.

Hinar þrjár víddir náms (The Three Dimensions of Learning):

Kenning Illeris (2004, 2007) um hinar þrjár víddir náms gerir ráð fyrir því að allt nám samanstandi af þremur víddum eða sviðum sem hver hefur áhrif á hvert annað. Nám, þroski, félagsmótun og þróun hæfni eru samhangandi fyrirbæri í kenningu hans, eitt getur ekki þróast án annars. Þessvegna telur Illeris ómögulegt að vinna með þessa hluti í sitthvoru lagi. Við verðum að vinna með alla þessa þætti í einu á heildstæðan hátt.

Fyrsta víddin snýst um hina hugrænu hlið náms (cognitive process). Önnur víddin snýst um tilfinningalega ferla (emotioanal processes), um tilfinningar og innri hvata til náms. Þriðja víddin er hin samfélagslegi þáttur náms (social process) en það er víddin sem ég hef mestan áhuga á enda mikil áhugamanneskja um nám og samfélag. Illeris heldur því fram grunnurinn að kenningu hans um hinar þrjár víddir náms sé að allir þessir þættir tengist órjúfanlegum böndum og að ekki sé hægt að rannsaka nám án þess að taka alla þessa þætti til skoðunar (Illeris, 2004, bls. 19).

Hinar þrjár víddir náms:

Illeris.2

  1. Cognitive process / hin hugræna vídd náms

Þetta er sú vídd náms sem hefðbundin námssálfræði hefur einblínt á í fjölda ára. Hún fjallar um hina innri ferla og hugrænu þætti sem gera öflun þekkingar mögulega. Hefðbundin námssálfræði hefur rannsakað öflun þekkingar sem einangrað fyrirbæri, sem á sér stað með taugaboðum og tengingum í heilanum. Hér nefnir Illeris (2004,2007,2015) áhrifamikla fræðimenn á borð við Piaget, Vygotsky, Furth og Rogers.

  1. Emotional process / hin tilfinningalega vídd náms

Hér leggur Illeris (2004, 2007) áherslu á hina sálfræðilegu vídd náms, hvaða hvatar virkja okkur til þátttöku eða ekki og hvaða þætti megi þroska með námi. Þessi vídd er undir áhrifum frá kenningum Freud og Frankfurtarskólans. Hann telur að þessi vídd hafi oft verið á jaðri hefðbundinnar námssálfræðinnar en hafi mikil áhrif á hvernig við þroskumst í gegnum nám. Þar hafi tilfinningar, viðhorf og hvatning námsmanna mikil áhrif á hvernig nám á sér stað.

  1. Social process / hin samfélagslega vídd náms

Hér er Illeris undir áhrifum frá kenningum Marx og Paolo Freire. Illeris vill meina að nám eigi sér ávallt stað í félagslegu samhengi og sé hluti af stærra samfélagslegu ferli. Allt nám eigi sér stað í samfélagslegu samhengi. Þessi vídd hefur síðan tvö lög eða tvær hliðar. Í fyrsta lagi er um að ræða samskipti milli einstaklinga innan hópa, t.d. í kennslustofunni. Í öðru lagi eru um að ræða stærra samfélagslegt samhengi sem hefur áhrif á samskipti og þátttöku einstaklinga. Hin félagslega vídd náms tengist uppbyggingu samfélagsgerðarinnar. Samfélög nútímans búa við kapítalíska samfélagsgerð. Í því samhengi bendir Illeris á gagnsemi kenninga Karl Marx og greiningu hans á valdakerfum.

Illeris bendir á mikilvægi þess að líta á kenningu hans um hinar þrjár víddir náms sem eina órjúfanlega heild. Kenningin fæst bæði við nám út frá einstaklingnum (vídd 1 og 2) og samspil þeirra við samfélagið (vídd 3). Þó svo að kenning Illeris um hinar þrjár víddir náms hafi komið honum á kortið þá hefur hann stundað ýmsar rannsóknir og skrifað fjölda greina. Hér næst mun ég gera grein fyrir skrifum hans um hvernig við náum til fullorðinna námsmanna með stutta skólagöngu að baki.

Þátttaka í fullorðinsfræðslu, hvernig náum við til þeirra?

Illeris spurði eftirfarandi spurnignar í grein frá árinu 2005; Hvernig náum við til fullorðinna námsmanna sem hafa stutta skóalgöngu að baki? (Illeris, 2005). Þegar Illeris hafði stundað rannsóknir um tíma var hann fenginn til að leiða vinnu við að hanna starfsmenntun fyrir fullorðna einstaklinga með stutta skólagöngu að baki. Hann komst að því að fleiri rannsóknir höfðu sýnt að fullorðnir einstaklingar með stutta skólagöngu að baki þurftu ekki einungis starfstengda þjálfun; Flestir þurftu að þjálfa persónulega hæfni á borð við samskipti, sveiganleika, samvnnufærni og eflingu sjálfstrausts (Illeris, 2005). Þeir einstaklingar sem hafa stutta skólagöngu að baki hafa oft tvíbenta afstöðu til símenntunar. Þeir hafa tíu ára reynslu af því að vera ekki nógu hæfir í grunnskóla en þeir átta sig líka á því að þeir verða að afla sér símenntunar til að halda sér samkeppnishæfum á vinnumarkaði.

Ég hef mikinn áhuga á því hvernig þeir sem sinna fullorðinsfræðslu ná til þessa hóps námsmanna. Illeris taldi upp fimm þætti sem gætu haft áhrif á þetta (Illeris, 2005).

  1. Komið á persónulegu sambandi.

Reynslan sýnir að samstarfsmenn, samherjar og aðrir sem vinna með símenntun “á gólfinu” hafa mesta möguleika til þess að mynda tengsl, skapa traust og koma fram við fullorðna námsmenn á jafningjagrundvelli.

  1. Gefið ykkur tíma.

Námsmaðurinn þarf að hafa tíma til þess að velta námstilboðinu fyrir sér og ræða í kjölfarið við einhvern sem hann treystir. Hver og einn þarf að samþykkja að taka þátt í náminu á eigin forendum.

  1. Kringumstæður skipta máli.

Við skipulagningu námstilboðsins er mikilvægt að námið fari fram við aðstæður sem eru eins líkar raunverulegum aðstæðum og hægt er. Það stuðlar líka að öryggiskennd ef námið fer fram með vinnufélögum sem viðkomandi þekkir og treystir.

  1. Takið mið af reynslu þátttakendanna.

Námsmenn verða að fá tækifæri til að vinna með viðfangsefni og vandamál sem tengjast daglegum verkefnum þeirra. Námsmenn verða að finna að þeirra upplifun og reynsla sé nothæf við kennslu og ákvarðanir þeirra og framlag skipti máli.

  1. Bjóðið upp á fjölbreytt úrval námsmats.

Nota fjölbreyttar aðferðir við námsmat, það er víðtekin skoðun að sá kennari sem umgengst þátttakendur daglega eigi að sjá um námsmatið.

Illeris (2004, 2007) heldur því fram fullorðnir námsmenn hafi oft komið sér upp venjum og hegðunarmynstrum, bæði góðum og slæmum sem erfitt getur reynst að breyta. Hann hefur einnig fjallað mikið um þær hindranir sem standa í vegi fyrir námi fullorðinna. Slíkar hindranir geta að mati Illeris komið upp í öllum af hinum þremur víddum náms.

“In adult education we often come across participants with this negative kind of attitude towards education, which developed during their years in school. and which has to be overcome if there is to be a meaningful educational process” (Illeris, 2004, bls. 102).

Hindranir í námi fullorðinna

Mislearning, eða misfella í námi, á sér stað þegar námsferillinn skilar ekki þeim árangri sem ætlunin var. Ástæður geta verið ýmsar t.d. misskilningur, of lítil einbeiting ofl. Þessar aðstæður leiða síðan til þess að námsmaðurinn skilur ekki alveg hvað er í gangi í námsaðstæðum og hvað hann á að vera að læra. Illeris (2004, 2007, 2015) telur mikilvægt að fullorðinsfræðarar skapi andrúmsloft þar sem tekið er tillit til einstaklingsbundinna þarfa námsmanna, þar sem nemendur hræðast ekki að spyrja og viðurkenna skilningsleysi sitt. Illeris skiptir þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir námi fullorðinna í þrjá megin þætti;

  1. Varnir gegn námi (e. Defence against learning )

Illeris heldur því fram að við setjum upp sálrænar varnir eða byggjum upp veggi til að verja okkur frá áföllum. Fullorðnir námsmenn geta þurft mikla hvatningu, öryggi og sjálfsstyrkingu áður en nám getur átt sér stað. Á sama tíma getur það reynst fullorðinum námsmönnum erfitt að yfirstíga þá varnarveggi sem þeir hafa byggt upp í kring um sig – þetta á bæði við námslega og í einkalífinu. Einstaklingshyggja er ráðandi í kapítalísku samfélagi nútímans og því er hætt við að námsmenn taki ábyrgð á hlutum sem gerast í einkalífi þeirra þó svo að aðstæður þeirra ráðist oft að miklu leyti af ytri þáttum. Hér takast á þau sjónarmið að verða leiksoppur örlaganna eða sinn eigin gæfu smiður:

“For example, if one has a certain job for years and has experienced oneself as well functioning and well qualified in this context, and one then suddenly becomes unemployed, not because one is not good enough but because the company is downsizing, production is being moved to another country, the work is being automated etc. one finds oneself in a situation where against one’s will one has to both demolish the existing identity and build up a new one, i.e. one is faced a demand concerning learning process of a transformative nature. Something similar can be the case in connection with, for instance, a divorce, the death of somebody close to one, or other sudden channges in the foundation of life.” (Illeris, 2007, bls. 165).

Mjög margir þátttakendur í símenntun og fullorðinsfræðslu hafa að mati Illeris þennan bakgrunn. Slík reynsla getur háð fullorðnum námsmönnum og verið ein helsta hindrunin í námi þeirra. Þetta rímar við reynslu mína af vinnu með fullorðnum námsmönnum. Margir sem misstu vinnuna, t.d. í kjölfar niðurskurðar vegna hrunsins, einstaklingsgerðu vandann og fundu eitthvað í sínu fasi, vinnu eða reynslu sem varð til þess að þeir misstu vinnuna.

  1. Tvöföld afstaða til náms (e. Ambivalence)

Stundum viljum við bæði taka þátt og ekki taka þátt í námi á sama tíma. Það að upplifa að maður sé ekki við stjórnina í eigin lífi á sama tíma og maður upplifir mikinn ytri þrýsting til að taka þátt í námi getur sett fullorðna námsmenn í erfiða stöðu. Að mati Illeris á þetta sérstaklega við um konur, innflytjendur og einstaklinga með stutta skólagöngu að baki.

On the labour market, it is primarily the weakest, the low skilled and the unemployed who fell the ambivalence between the massive requirements for qualification and an uncertain and merciless labour market. The pressure to engage oneself in “life long learning” is constantly balanced against the risk of being ”left behind”, with resultant social and economic marginalization and doubt as to wether one can manage it and if it leads to anything. To a growing extent, adult education is populated by people who have poor self-esteem and inadequate or obsolete qualifications and so feel they have been “placed” there. They often find it difficult to see how they are going to “pull themselves together” (Illeris, 2007, bls. 169).

Það getur reynst erfitt að virkja fullorðna námsmenn ef þeir finna ekki að þeir séu við stjórnvölinn í eigin lífi. Það er því ekki bara sá hópur sem beinlínis er skikkaður í nám, t.d í gegnum vinnumálastofnun sem upplifir valdleysi sitt gagnvart aðstæðum. Slíkt getur átt við stærri hóp sem „velur“ sjálft að fara í nám en er undir miklum ytri þrýstingi frá samfélaginu til að afla sér frekari menntunar.

  1. Andstaða við nám (e. Resistance)

Illeris kveðst hafa komið auga á andstöðu við nám í fjölmörgum gögnum og rannsóknum sínum í gegnum tíðina. Hann furðar sig á því hversu lítið þessi hlið náms hafi verið rannsókuð og veltir fyrir sér hvort skólasamfélagið sé í afneitun varðandi málið. Flest sem við vitum um andstöðu hefur verið rannsakað á sviði sálgreiningar. Einnig eru til nokkrar menntunarfræðilegar rannsóknir á andstöðu á samfélagslegum grunni, td. í kenningum Paulo Friere um kennslufræði hinna kúguðu.

In adult education we often come across participants with this negative kind of attitude towards education, which developed during their years in school, and wich has to be overcome if there is to be a meaningful educational process (Illeris, 2007, bls. 172).

Illeris telur að andstaða eða andóf einstaklinga gegn ríkjandi ástandi, þ.m.t. menntakerfinu, sé einn grundvöllur lýðræðislegs samfélags þar sem það sé hlutverk almennings að veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald. Ekki er alltaf hægt að leysa andstöðu námsmanna á kennslufræðulegum grunni, stundum þarf til breytingu á vettvangi stofnana og skipulagi náms almennt til að ná megi fram slíkum breytingum.

Umfjöllun Illeris um samfélagsleg áhrif á sjálfsmynd ungs fólks

Í bók sinni How we learn fjallar Illeris um að í nútíma lýðræðissamfélögum er mikil áhersla lögð á einstaklinginn og hæfni hans til að skapa sér framtíð og tækifæri. Samhliða því setur nútímasamfélagið miklar kröfur á ungt fólk með tilliti til menntunar og sveiganleika á vinnumarkaði. Illeris skrifaði einnig grein um málið – Learning, identity and self-orientation in youth (2003) – þar sem Illeris setur kenningar sínar um hinar þrjár víddir náms og hindranir í námi í samhengi við kenningar um sjálfsmynd ungs fólks.

All this is different from the perspective of the school the parents and society. While it certainly is very crucial that young people make the right choices, what is right can only be decided by the individual to the same extent as the sum of the choices fits in with the needs of the society (Illeris, 2003, bls. 365).

Hann telur miklar kröfur gerðar til ungs fólks í nútímasamfélagi sem geta valdið þeim miklu stressi og álagi. Hann telur hið „frjálsa val“ ekki alltaf jafn frjálst og margir vilja meina. Vali einstaklinga eru ávallt settar samfélagslegar skorður, t.d. út frá búsetu, efnahag og uppruna. Ekki sé hægt að líta fram hjá slíku þegar við skipuleggjum nám fyrir fullorðna.

Framlag Illeris til kenninga um nám fullorðinna

Það er ljóst að skrif Illeris og rannsóknir hans á kenningum um nám fullorðinna og aðstæður fullorðinna námsmanna eru mikilvægt innlegg. Bæði gerir hann tilraun með kenningu sinni um hinar þrár víddir náms að ná heildstætt utan um hið flókna, hugræna, sálræna og samfélagslega fyrirbæri sem við köllum nám. Einnig hefur hann mikla reynslu og þekkingu á þeim hindrunum sem geta staðið í vegi fyrir námi fullorðinna. Fyrir mér sem fullorðinsfræðara með reynslu af kennslu jaðarsettra hópa hafa kenningar hans veitt mér nýja sýn á þær hindranir sem margir fullorðnir námsmenn geta staðið frammi fyrir. Nú má ekki skilja mig þannig að ég sé neikvæð í eðli mínu með því að einblína á hindranir. Ég tel frekar að með því að nýta okkur kenningar og rannsóknir Illeris geta fullorðinsfræðarar tekið tillit til ólíkra þarfa og reynslu fullorðinna námsmanna. Með því að þekkja kenningar Illeris er hægt að leggja áherslu á að skapa öruggt og gott námsumhverfi sem stuðlað getur að námi fullorðinna.

Heimildir;
Illeris K. (2003) Learning, identity and self- orientation in youth, Young – Nordic Journal of Youth Research, 11(4), bls. 357-376.

Illeris, K (2004) The Three Dimensions of Learning, Roskilde, Roskilde University Press.

Illeris, K (2005) Brjótum Ísinn, þýðandi Sigrún Kr. Magnúsdóttir í Gátt Tímariti Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FRÆ) –Bls. 27-28.

Illeris, K (2007) How we learn, Learning an non-learning in school and beyond. London, Routledge.

Illeris, K (2015) The Development of a Comprehensive and Coherent Theory of Learning, European Journal of Education, 50 (1), bls. 30-40.

Ítarefni og áhugaverðir tenglar;

Glærur frá mér um Knud Illeris

Umfjöllun Heiðrúnar Tryggvadóttur um Knud Illeris

Fyrirlestur Eyjólfs Guðmudnssonar um Knud Illeris

Diigo listi Hróbjarts Árnasonar um Knud Illeris

 

Category: Tags:

Comments are closed.