Howard McClusky
The Theory of Margin – Howard McClusky
Howard McClusky var fæddur í New York árið 1900 og var sálfræðingur að mennt. Hann stundaði nám í háskólanum í Chicago og fékk sína doktorsgráðu þaðan. Hann starfaði lengst af sem háskólakennari/prófessor við háskólann í Michigan og beindi athygli sinni og störfum að fullorðnum námsmönnum og var virtur á því sviði fræðasamfélagsins. Eftir því sem hann var eldri óx áhugi hans á eldri námsmönnum, aldur hans og aldur viðfangsefna hans hélst í hendur ef svo mætti segja. Utan hefðbundinna kennslustarfa hélt hann einnig fyrirlestra víða í Bandaríkjunum og var gestakennari í mörgum háskólum. Hann kom víða við, sat í fjölmörgum nefndum, skrifaði greinar í tímarit, tók að sér ráðgjöf og var einn stofnandi og fyrsti formaður The Adult Education Association. Árið 1963 kynnti hann kenningu sína The Theory of Margin sem getur hjálpað til við að skýra hvers vegna og hvenær fullorðnir stunda nám. Hann fór á eftirlaun 1968 en settist þó ekki í helgan stein, hélt áfram að skrifa á sínu fræðasviði, var vinsæll fyrirlesari, starfaði áfram sem gestakennari í háskólum og fleira. Honum var fátt óviðkomandi er varðar sálfræði og nám og framlag hans er mikils metið á þeim sviðum, frá námi barna til aldraðra og allra þar á milli. Hann lést árið 1982 (Hiemstra, R. 1981, 2002).
The Theory of Margin
McClusky hélt því fram að fólk sem komið væri af „léttasta skeiði“ (65+) væri alveg jafn móttækilegt fyrir nýjungum og yngra fólk, nám væri ekki bara fyrir ungt fólk heldur héldi fólk áfram alla ævi að bæta við sig þekkingu. McClusky byggir kenningu sína á því að fullorðinsárin mótist af þroska, breytingum og aðlögun þar sem sífellt er leitast við að finna jafnvægi á þeim tíma eða orku sem einstaklingur býr yfir og þeim tíma eða orku sem einstaklingur þarfnast til að klára eða stunda eitthvað tiltekið viðfangsefni, t.d. nám. Kenningin ætti að hjálpa til við að skilja hvernig líf fullorðinna væri almennt og sérstaklega þegar árunum fer að fjölga þar sem fullorðnir hafa mörgum skyldum að gegna og aðstæður væru misjafnar.
Þetta ferli setur McClusky (1963) upp í jöfnu þar sem jafnvægið er hlutfall milli þeirra lífsbyrða (load) sem fólk burðast með og þess lífsþreks (power) sem það býr yfir:
Svigrúm = lífsbyrði / lífsþreki
Lífsbyrðar og lífsþrek samanstanda af ytri og innri þáttum (Hiemstra, 1993, 42).
Ytri byrðar er allt sem viðkemur hinu daglega lífi nemandans, til dæmis:
- skyldur gagnvart fjölskyldu
- skyldur gagnvart vinnu
- samfélagslegar skyldur
Innri byrðar eru þær væntingar sem einstaklingur ber í brjósti, til dæmis:
- langanir
- markmið
- metnaður
- hugmyndir um framtíðina
Ytri þættir sem tengjast lífsþreki geta verið:
- stuðningur frá fjölskyldu og vinum
- félagsleg staða
- fjárhagsleg staða
- heilsa
Innri þættir sem tengjast lífsþreki geta þá verið:
- reynsla
- aðlögunarhæfni
- seigla
- persónuleiki
McClusky skýrir kenninguna á þann hátt að svigrúmið megi auka með því að lækka lífsbyrðarnar eða auka lífsþrekið, einnig er hægt að draga úr svigrúminu með því að auka lífsbyrðarnar og minnka lífsþrekið. Hægt að fara í báðar áttir með því að beita þessum aðferðum auka/minnka. Ef lífsbyrðarnar eru til lengri tíma á pari við eða meiri en lífsþrekið þá er hætta á ferðum og meiri líkur á að einstaklingur nái ekki að klára verkefni sín. Með aukinni stjórn á lífsbyrðum og lífsþreki verður hann betur í stakk búinn til að takast á við óvæntar uppákomur og þess háttar og því líklegri til að stunda sitt nám (McClusky, 1970, 83).
Til að geta stundað nám verður einstaklingur að hafa þetta svigrúm sem nær yfir þær uppákomur sem hann kann að lenda í, fullorðnir námsmenn eru að gera svo margt annað en að mæta í skólann og verða að laga sig að aðstæðum sem geta komið upp. Merriam, Caffarela og Baumgartner (2007, 94) setja fram dæmi um tvær konur. Önnur er einstæð móðir í láglaunastarfi sem vill bæta við þekkingu sína með námi svo hún fái jafnvel betri stöðu og hærri laun en hún fær fyrir núverandi starf. Hún vinnur vaktavinnu og þarf að stunda skólann en til þess verður hún að fá barnapössun fyrir yngra barnið og einhvern til að fylgja því eldra í skólann og heim aftur. Ef börnin eða hún sjálf verður veik verður hún að sleppa vinnunni eða skólanum eða hvoru tveggja. Svigrúm hennar er ekki mikið til að takast á við svona óvæntar uppákomur auk hins daglega amsturs. Hin starfar sem er aðstoðarforstjóri í fyrirtæki, hún er gift og er með barnfóstru sem kemur heim til hennar og hugsar um börnin tvö þegar hún er í vinnunni. Hana langar til að læra meira um garðyrkju og fer á námskeið. Hennar hæfileikar, menntun, fjárhagur og félagslega netið sem hún hefur í kringum sig stuðlar að því að auka hennar lífsþrek sem auðveldar henni að glíma við byrðarnar þannig að svigrúm hennar er talsvert meira en fyrri konunnar í dæminu.
Margir hafa stuðst við kenningu McCluskys til að fá betri sýn á hinn fullorðna námsmann, hans þarfir, frammistöðu og þátttöku í frekara framhaldsnámi. Margar mismunandi niðurstöður hafa komið út úr þessum rannsóknum þannig að erfitt reynist að alhæfa um gildi kenningarinnar til að spá fyrir um frekari þátttöku fullorðinna í framhaldsnámi. Hún getur aftur á móti nýst vel þegar segja þarf til um það hvenær hentugasti tíminn fyrir nám einstaklings sé almennt, burtséð frá náminu sjálfu.
Kenningin hefur einnig verið gagnrýnd fyrir ofuráherslu á að svigrúmið sé nægilegt því það væri einnig hægt að líta á þetta frá öðru sjónarhorni – nám getur allt eins átt sér stað þrátt fyrir tímaskort og mikið álag og þess háttar, eða þegar lífsbyrðarnar vega þyngra en lífsþrekið.
Rannsókn Wolfins (1999) sýndi fram á það að þeir einstaklingar sem væru vel klyfjaðir af lífsins amstri væru jafn líklegir til að stunda nám eins og hinir sem byggju við meira lífsþrek og því meira svigrúm til athafna. Það væri ekki endilega skilyrði að lífsþrek væri meira en lífsbyrðar til að nám ætti sér stað, aðrir þættir spiluðu auðvitað inn í líka og þeir einstaklingar legðu ýmislegt á sig ef viðfangsefnið væri spennandi og þess virði að standa í því. Einnig mætti velta upp þeirri spurningu hvort námið sjálft gæti ekki haft þau áhrif á nemandann að lífsþrekið aukist. Að öllu jöfnu ætti nám að auka lífsgæðin sem síðan eykur manni lífsþróttinn. McClusky fjallaði ekki um það en maður spyr sig hvort slíkt gæti gengið til lengri tíma, einstaklingur getur lagt ýmislegt á sig ef hann sér fyrir endann á verkefninu. Ýmsu getur maður ráðið sjálfur, einnig eru bæði lífsbyrðar og lífsþrek síbreytilegir þættir en aðstæður eru auðvitað mjög mismunandi og það verður að taka tillit til allra þátta og þess hversu vel maður getur tekist á við óvæntar uppákomur. Kennari getur einnig haft mikil áhrif á lífsbyrðar nemanda og Hiemstra (á.á.) nefnir í því samhengi atriði eins og framkomu og viðhorf kennara til nemanda, verkefnin sem hann leggur fyrir hann og umhverfið sem hann býr nemendanum. Verkefnin eru alltaf á sínum stað og nemandi búinn að gera ráð fyrir þeim í sínum lífsbyrðum en framkoma, viðhorf og hegðun kennara geta verið aukaáhrifaþættir og skiptir það miklu máli fyrir nemendur að þeir verði ekki íþyngjandi.
Heimildir
Hiemstra, (á.á.). The Theory of Margin. Sótt 2. nóvember 2015 af http://roghiemstra.com/margin.html
Hiemstra, R. (1981, 2002). „Howard McClusky and educational gerontology“ The encyclopedia of informal education. Sótt 2. nóvember 2015 af http://infed.org/mobi/howard-mcclusky-and-educational-gerontology/
Hiemstra, R. (1993). Three underdeveloped models for adult learning. Í Merriam, S. B. (Ritstj.). An update on adult learning theory, bls. 37-46. New Directions for Adult and Continuing Education, nr. 57. San Fransisco: Jossey-Bass.
McClusky, H. Y. (1963). The course of the adult life span. Í Hallenbeck, W. C. (Ritstj.), Psychology of adults. Chicago: Adult Education Association of USA.
McClusky, H. Y. (1970). An approach to a differential psychology of the adult potential. Í Grabowski, S. M. (Ritstj.). Adult learning and instruction, bls. 80-95. Syracuse, NY: ERIC Clearinghouse on Adult Education. (ERIC Document Reproduction Service No. ED 045 867).
Merriam, S. B., Caffarella, R. S og Baumgartner, L. M. (2007). Learning in Adulthood: A Comprehensive Guide (3. útg.). San Francisco: Jossey-Bass.
Wolfin, R. (1999). Understanding overloaded adults’ readiness level for learning: McClusky’s theory of margin refuted. Í Austin, A., Hynes, G. og Miller R. (Ritstj.), Proceedings of the 18th Annual Midwest Research-to-Practice Conference in Adult, Continuing, and Community Education (280-285). St. Louis: University of Missouri.