Your site
21. desember, 2024 12:24

Jack Mezirow

Wikis > Fræðimenn > Jack Mezirow

mezirow

Jack Mezirow

Þegar fræðimenn voru aðallega að einblína á færniaukningu fullorðinna námsmanna kom Jack Mezirow fram á fræðasviðið með kenningu sem fjallaði um breytingu á sjálfsmynd nemenda. Kenning hans um breytingarnám hafði töluverð áhrif á umræðu og þróun á sviði fullorðinsfræðslu, kennslufræði og mannauðsþróunar.  Jack Mezirow var fæddur árið 1923 í Fargo, í Norður Dakota í Bandaríkjunum. Hann er félagsfræðingur að mennt en hann lauk bæði B.A. og MA. prófi í félagsfræði frá Háskólanum í Minnesota. Hann hlaut svo doktorsgráðu í fullorðinfsfræðslu frá Háskólanum í Kaliforníu. Að loknu námi starfaði hann sem ráðgjafi í málefnum er snerta læsi fullorðinna og þróunarverkefna fyrir sameinuðu þjóðirnar í Asíu, Afríku og Suður-ameríku. Árið 1968 hóf hann störf við Kennaraháskólann í Columbiu. Þar gengdi hann stöðu prófessors í fullorðinsfræðslu og stofnaði Adult Education Guided Intensive Study (AEGIS) doktorsnám við sama skóla. Hann lést árið 2014.

Breytingarnám (Transformative learning)

Mezirow framkvæmdi rannsókn á sjöunda áratugi síðustu aldar þar sem hann tók viðtöl við konur sem voru að fara aftur í nám eftir námshlé. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að greina þá þætti sem auðvelduðu eða gætu verið hindrandi í lærdómsferlinu. Rannsóknin leiddi í ljós að flestar konurnar hefðu gengið í gegnum persónulega breytingu sem hægt var að greina í nokkra áfanga. Á grundvelli þessa rannsóknar setti Mezirow fyrst fram kenningu sína árið 1978 (Merriam, Caffarella,  Baumgartner, 2007).

Kenning Mezirow fjallar um það hvernig fullorðnir einstaklingar vinna úr lífreynslu sinni og gera hana merkingarbæra. Hann skilgreinir nám sem ferli sem felur í sér að að nota fyrri túlkun til að skapa nýja eða breytta túlkun af reynslu til að styðjast við við úrlausn þeirra verkefna sem viðkomandi kemur til með að standa frammi fyrir. Breytingarnám á sér stað þegar það verður breyting á skoðunum og viðhorfi okkar eða þegar við sjáum hlutina frá öðru sjónarhorni. Allt nám er þó ekki breytingarnám en við getum lært með því að auka þekkingu okkar en í því felst ekki endilega breytingarnám (Merriam, Caffarella,  Baumgartner, 2007).

Mezirow (1990) aðgreinir það hvernig námsmenn læra eftir því hvort við erum að læra að framkvæma eitthvað eða hvort um er að ræða nám sem felur í sér skilning á viðfangsefni sem er miðlað til okkar. Fullorðnir námsmenn taka á móti og vinna reynsluna með viðtökuramma (frame of reference) en með því felst að vinna reynslu eftir merkingarkerfi sem við nú þegar höfum búið okkur til. Um er að ræða skemu (mening schemes) en með því er átt við væntingar og hugsanir sem byggja á reynslu okkar. Við vitum t.d að við sefjum hungur með því að borða og að við komumst fljótar á áfangastað með því að hlaupa frekar en að ganga. Skemu eru einskonar reglur sem byggja á túlkun útfrá vana. Skoðanir (meaning perspectives) eru hinsvegar flóknari skemu sem mætti líkja við net rökfærslna (networks of arguments) svo sem kenningar, viðhorf, trú. Þegar reynsla er túlkuð og gerð merkingabær skipta þessar skoðanir miklu máli. Skemun og skoðanir auðvelda okkur að lifa lífi sem er merkingabært en erfitt væri að ígrunda alla reynslu stöðugt og því beitum við skemum og skoðunum til að gera reynslu merkingarbæra. Þegar reynsla passar ekki inn í þessi skemu og skoðanir, þá á sér stað það sem Mezirow kallar breytingarnám.

Kenningu Mezirow um breytingarnám er skipt í tíu þrep en breytingarnámsferlið samanstendur af fjórum megin liðum/flokkum: reynsla (experience), gagnrýnin hugsun (critical reflection), ígrunduð samræða (reflective discourse) og aðgerð (action).

         Reynsla

  • Reynsla. Ferlið hefst með reynslu viðkomandi (disorienting dilemma), en samkvæmt kenningunni er það eitt og sér ekki nægilegt. Námsmaðurinn þarf að ígrunda ályktanir og skoðanir sem hafa haft áhrif á það hvernig hann túlkar reynsluna. Það að verða fyrir lífreynslu sem passar ekki við þær ályktanir sem þú hefur áður dregið setur af stað endurskoðun á þeim ályktunum sem þú hefur nú þegar dregið um þig og aðra í kringum þig. þetta leiðir til þess að þú breytir uppbyggingu ályktanna.

          Gagnrýnin hugsun

  • Sjálfsrýni. Einstaklingur rýnir sjálfan sig og þær ályktanir sem hann hefur nú þegar dregið en þessu stigi geta fylgt tilfinningar á borð við hræðslu, reiði, sektarkennd eða skömm.
  • . Einstaklingurinn gagnrýnir og metur viðhorf sín og spyr sig hvað hægt sé að gera í stöðunni.

          Ígrunduð samræða

  • Sér að aðrir hafa farið í gegnum svipað ferli og komist að svipaðri niðurstöðu.
  • Einstaklingurinn skoðar ný hlutverk, sambönd eða aðgerðir.
  • Aðgerðir
  • Einstaklingurinn gerir áætlun um aðgerðir sem þarf að hrinda í framkvæmd.
  • Einstaklingurinn öðlast þekkingu og færni til að framkvæma áætlunina.
  • Prófar tímabundið ný hlutverk.
  • Byggir upp færni og sjálfstraust í nýjum hlutverkum og samböndum
  • Einstaklingur endurskipuleggur líf sitt Endurskipulagning í lífi einstaklingsins, byggt á nýjum ályktunum.

Samkvæmt Mezirow þurfa þeir sem kenna fullorðnum að hjálpa námsmönnum að verða meðvitaðir um og gagnrýnir á ályktanir sínar og annarra. Þjálfa þarf námsmenn í að greina það hvernig þeir meðtaka reynslu (frame of reference). Einnig þarf að þjálfa námsmenn í að styðjast við ímyndunaraflið til að endurskilgreina vandamál frá öðru sjónarhorni. Þá þarf einnig að aðstoða námsmenn við að taka þátt í umræðunni en umræðan er mikilvæg í því ferli að meta hvað og hvernig við skiljum og ályktum (Merriam, Caffarella,  Baumgartner, 2007).

Mezirow (1997) færir fyrir því rök að í þessum skilningi sé námsferlið einnig félagslegt ferli þar sem umræður skipta sköpum. Gæði umræðna fara eftir því hversu vel kennara tekst að skapa aðstæður þar sem þátttakendur geta átt þátt í umræðum á jafningagrundvelli, rýnt til gagns, útskýrt, varið. Einnig skiptir máli hvernig þátttakendur geta metið gögn, hvort þeir eru opnir fyrir öðrum sjónarhornum, geta hlustað og útfrá ofangreindu tekið ákvörðun um um hvernig best er að framkvæma. Samkvæmt Mezirow eru þessar umræður einnig kjöraðstæður fyrir nám fullorðinna sem hann segir gjörólíkt námi þar sem börn eiga í hlut. Ef fullorðnir námsmenn eiga að geta gert nýjar upplýsingar merkingabærar þarf að aðlaga þær að nú þegar mjög svo þróuðum viðtökuramma (frame of reference) þar sem tilfinningar, hugsanir og skoðanir viðkomandi skipta máli. Námsmaðurinn gæti þurft aðstoð við að breyta viðtökuramma sínum til að skilja reynsluna að fullu.

Kennarar fullorðinna námsmanna þurfa að setja markmið sem hvetja til sjálfstæðar hugsunar og gera sér grein fyrir því að þetta felur í sér reynslu sem eykur gagnrýna hugsun og þátttöku í umræðum. Kennarar sem styðjast við breytingarnám taka tillit til reynslu námsmanna. Námið gerist gegnum uppgötvun og við það að leysa og endurskilgreina vandamál. Dæmi um viðfangsefni sem hægt er að styðjast við eru: hópaverkefni, hlutverkaleikir og dæmisögur. Gundvallaratriði í kennslunni er að hvetja námsmenn til að setja nýja reynslu í samhengi við sína eigin reynslu og meta (Mezirow, 1997).

Ég kaus að fjalla um fræðimanninn Jack Mezirow þar sem ég tel hann tengjast svo margvíslega inn í þemu námskeiðsins. Kenning Mezirow um breytingarnám fjallar um hvernig reynsla fullorðinna námsmanna hefur áhrif á nám og hvernig fullorðnir námsmenn vinna að því að gera reynslu sína merkingabæra. Þá finnst mér kenningin einnig hafa praktíska skírskotun og auðvelt að nýta sér kenninguna við kennslu þegar velja á aðferðir í fullorðinsfræðslu. Kenningin er aðgengileg og auðskiljanleg á sama tíma og hún veitir manni fræðilega sýn á úrvinnslu reynslu námsmanna.

Heimildir

Merriam, S. B., Caffarella, R. S og Baumgartner, L. M. (2007). Learning in Adulthood: A Comprehensive Guide(3. útg.). San Francisco: Jossey-Bass.

Mezirow, J. (1990). How critical reflection triggers transformative learning.Fostering critical reflection in adulthood, 1-20.

Mezirow, J. (1997). Transformative learning: Theory to practice. New directions for adult and continuing education1997(74), 5-12.

Ítarefni

Yfirlit yfir verk Mezirow á á Scholar.google.com 

Category: Tags:

Comments are closed.