Your site
26. apríl, 2024 23:58

Skipulagning og framkvæmd fræðslu með fullorðnum – Námskeiðslysing

Handrit

(Verður til umræðu á veffundi 13. jan og i staðlotu 21. janúar 2015)

Námskeiðið “Skipulagning og framkvæmd fræðslu með fullorðnum” er skemmtilegt og markvisst námskeið þar sem þátttakendur auka færni sína í að sinna helstu þáttum þess að undirbúa, skipuleggja, og útfæra hvers kyns námstilboð fyrir fullorðna: Námskeið, fyrirlestra, ráðstefnur, fundi, jafningjafræðslu og sjálfsnámsferli svo eitthvað sé nefnt.

Photobucket

1.     Yfirmarkmið námskeiðsins

…er að þátttakendur kynni sér og tileinki gagnlegar hugmyndir, kenningar og aðferðir til að skipuleggja nám fyrir fullorðna námsmenn og kenna þeim með góðum árangri.

Stefnt er að því að þátttakendur geti við lok námskeiðs:

  • lýst nokkrum algengum nálgunum um hvernig námsferlar eru skipulagðir fyrir fullorðna ásamt því að greina frá kenningum og viðhorfum sem liggja þeim að baki,
  • notað mismunandi aðferðir til að skipuleggja nám fyrir fullorðna,
  • rökstutt skipulag kennslu og framkvæmd hennar með vísun í rannsóknir, kenningar og viðurkennd viðhorf til fræðslustarfs með fullorðnum,
  • lýst kennsluaðferðum og flokkað eftir viðurkenndum flokkunarkerfum, kunni skil á fræðilegri flokkun kennsluaðferða,
  • skipulagt, undirbúið og framkvæmt kennslu, og önnur námsferli fyrir fullorðna og
  • geti bæði gagnrýnt eigin kennslu og annarra og rökstutt gagnrýnina.

2.     Inntak / viðfangsefni

  • Þátttakendur kynna sér fræðilega umræðu um skipulagningu fræðslu fyrir fullorðna, kynna sér rannsóknir um afmarkaða þætti kennsluhegðunar og bera saman við innihald bókanna sem lesnar eru á námskeiðinu og við þeirra eigin vinnu.
  • Þátttakendur skoða nálganir við skipulagningu námsferla fyrir fullorðna, rýna í viðkomandi nálganir og gagnrýna þær.
  • Á námskeiðinu læra þátttakendur að útbúa námsferli, í gegnum það að útbúa sjálfir námskeiðsmöppu sem inniheldur öll gögn sem þeir þurfa til að kenna tiltekið námskeið eða leiða tiltekið ferli. Að námskeiði loknu munu þeir hafa undir höndum slíka möppu og vera tilbúin að halda námskeið með þeim gögnum sem eru í möppunni.
  • Þátttakendur kynna sér gagnlegar kennsluaðferðir, prófa þær og þjálfa sig í notkun þeirra. Þátttakendur þjálfast einnig í því að nota kennslutæki og nýta þjálfunina þegar þeir æfa sig í kennslu og í því að meta kennslu hver annars.

3.     Vinnulag:

Námskeiðið er skipulagt í staðbundnum lotum og fjarnámi:

Photobucket

Þrjár staðbundnar lotur þar sem verður lögð áhersla á hagnýta þætti námskeiðsins og þátttakendur hittast til að vinna saman að markmiðum námskeiðsins. Markmið staðlotanna er að þátttakendur kynnist innbyrðis og öðlist dýpri þekkingu og þjálfun í því að framkvæma sum þeirra hagnýtu atriða sem falla undir markmið námskeiðsins:

  1. 22. janúar: Að skipuleggja nám fyrir aðra: A) Viðfangsefni fyrstu staðlotunnar er nám, nám fullorðinna  og hlutverk leiðbeinenda við að hjálpa fullorðnum að læra. B) Aukin hæfni, færni og leikni fólks er eitt af því sem starf „fullorðinsfræðara“ (e. Adult Educator) snýst um og þetta námskeið snýst um að takast á við rannsóknir, kenningar og hugmyndir um nám og kennslu og temja sér aðferðir sem gagnast við að skipuleggja ferli sem hafa þann tilgang að hjálpa fullorðnum að þroskast og að auka þekkingu, hæfni, færni og/eða leikni sína. Þess vegna er næsta viðfangsefni námskeiðsins hugtökin: Hæfni, færni og leikni og hvernig þau tengjast námi. C) Þriðja málið sem er þess virði að skoða  – eiginlega í kjölfar staðlotunnar er hæfni fólks sem vinnur við það að hjálpa fulorðnum að læra. Hugmyndin er að gefa þátttakendum tækifæri til að velta fyrir sér hlutverki sínu og hvert þeir vilja sjálfir þroskast þær hugmyndir ættu að geta myndað grunn að vangaveltum um það hvernig þeir vilja nota námskeiðið á þeirri vegferð.
  2. 11-12., mars: Tveggja daga staðlota um nokkrar gagnlegar leiðir til að skipuleggja nam fyrir aðra. Virkjun þátttakenda: Vinna læra þátttakendur þrjár ólíkar aðferðir til að skipuleggja nám og fræðslu fyrir fullorðna, velja eina og vinna í hópum að því að skipulega sín eigin námskeið / námsferli með þeim aðferðum.
  3. 7-8. apríl Miðlunaraðferðin: Þátttakendur læra aðferð sem er mikið notuð við ýmsar aðstæður þar sem fullorðnir vinna saman í hópum, til að læra, skipuleggja og/eða breyta. Markmið aðferðarinnar er að „láta þá sem málið snertir láta sig það varða”. Þá fá þátttakendur tækifæri til að skoða lokaverkefni hvers annars sem eru í vinnslu, fá viðbrögð frá kennara og samnemendum.

Þrjár fjarnámslotur þar sem áhersla verður lögð á að öðlast fræðilega þekkingu á viðfangsefninu, kynnast rannsóknum um skipulagningu náms fyrir fullorðna, skoða skipulagningu og kennslu í ljósi kenninga um nám fullorðinna og íhuga og ræða hagnýta hluti sem snerta viðfangsefni námskeiðsins.

Helstu viðfangefni:

  1. Hvernig skipuleggur maður námsferla fyrir fullorðna? (Þátttakendur byrja að kynna sér viðhorf og aðferðir til að hanna og skipuleggja námsferla fyrir fullorðna)
  2. Hvað þurfum við að kunna (þátttakendur skoða hvað maður þarf að kunna þegar maður ætlar að skipuleggja fræðslu fyrir fullorðna)
  3. Hvað þurfa þau að kunna (Þátttakendur kynna sér hugmyndir um námsþarfir fullorðinna og aðferðir til að finna út hvað afmarkaðir hópar fullorðinna gætu þurft  að kunna, geta og vita – „Þarfagreining“)
  4. Um hæfni fullorðinna (Þátttakendur kynna sér umræður í Evrópu og víðar um nauðsynlega hæfni og færni fullorðinna til þess að geta tekist á við líf á 21. öldinni.

 

  • Samvinnan fer fram í gegnum umræður á umræðuþráðum, í gegnum reglulega veffundi og öðrum stuttum verkefnum sem birtast á vefnum.
  • Á vef námskeiðsins verður og svæði þar sem nemendur geta skipst á skoðunum og stutt hver við annan í tengslum við lestur námsefnisins.
  • Þar að auki verða nýta nemendur ýmis verkfæri og tól á vefnum til að styðja við samvinnu sína og nám.

4.     Verkefni námskeiðsins sem verða metin til einkunnar

Þessi atriði verða til umræðu á fyrstu staðlotu.  Þátttakendur velja sér nokkur þessara verkefna

Eftirtalin verkefni bjóðast nemendum til að vinna með og þjálfa það sem þeir læra við lestur, samtöl og umræður á námskeiðinu. Verkefni þessi verða síðan nýtt til að meta að hve miklu leiti þátttakendur námskeiðsins hafa náð markmiðum þess . Á fyrstu staðlotu fara fram umræður um það hvernig endanlegt fyrirkomulag verkefna verður

Verkefni námskeiðsins og mögulegt vægi í lokaeinkunn:

  1. Þátttaka (10-20%)
  2. Stutt skrifleg verkefni
    1. Skrifa markmið fyrir námskeið 5%
    2. Aðferðalýsing 5%
    3. Seminar kynning á veffundi 10%
    4. Bókadómur 10%
    5. Greining og endursögn rannsóknargreinar 10%
    6. Kennsluæfing (10%)
    7. Hópverkefni: Kynning á einni nálgun við skipulagningu 15%
    8. Skipulagning Námsframboðs / Námskeiðs (Hver nemandi gerir námskeiðsmöppu) 45%)
    9. Sjálfsmat (5%)

Ætlast er til þess að þátttakendur noti öll verkefni námskeiðsins til þess að prófa hugmyndir, kenningar og aðferðir sem koma fyrir í námsefni námskeiðsins.

Þátttaka (10-20%)

Ástæðan fyrir því að fólk fer á námskeið, með öðru fólki til, að læra eitthvað ákveðið, er að við lærum sérlega vel með því að fylgjast með öðrum læra, við lærum af umræðum, samskiptum og því að taka eftir því hvað og hvernig aðrir læra það sama og við höfum áhuga á að læra. Þess vegna er námskeiðið þannig skipulagt að vinnum saman alls konar verkefni sem gefa okkur tækifæri til að læra hvert af öðru, bæði á staðlotum og fjarlotum. Í fjarlotum eru verkefnin fólgin í því að fólk skrifist á, á vef námskeiðsins. Fyrir mörg okkar er það nokkuð nýtt að vinna á þann hátt, en reynslan er að sú vinna gefur þeim sem taka þátt mjög mikið. Þá er það vel þekkt að við gerum helst það sem er mælt, þess vegna verður hluti námsmatsins fólginn í þátttöku nemenda í umræddum verkefnum á vefnum og við það að gera námskeiðið áhugavert, líflegt og lærdómsríkt. Sumt byggist á verkefnum sem kennarinn leggur fyrir nemendur annað á gjafmildi, sjálfsábyrgð og hjálpsemi þátttakenda. Ástæða er til að leggja það á sig að fara út fyrir þægindarammann og prófa sig áfram með notkun vefsins við nám 😉

Hér fyrir neðan er listi yfir nokkra hluti sem munu geta flokkast undir „þátttöku“ í námsmati. Í lok námskeiðsins gerir þú grein fyrir því hvaða verkefni þú hefur unnið og hvaða vægi þátttakan á að fá og nefnir sjálf/ur helstu þætti sem ætti að taka tillit til varðandi þátttökuna.

a) Þitt eigið blog (5%)

Þú gætir valið að halda opinbera námsdagbók, og „Blogga“ reglulega um námið skrifa pistla um þínar pælingar í tengslum við námið og reyna að fá þátttakendur námskeiðsins til að svara þér.

Ástæða fyrir því að vinna svona verkefni væri að þjálfa þig í að skrifa reglulega, að þjálfa þig í að hugsa um námsefnið á þann hátt að það nýtist öðrum (við lærum oft mest þegar við kennum öðrum) OG þú gætir þannig þjálfað færni sem gæti nýst þér sem kennara. Það er ekki vitlaust að nota blogg sem vettvang / eða verkfæri til að koma námsefni á framfæri við nemendur sína. Og ekki er úr vegi að fleiri njóti góðs af kennslu þinni en bara þeir sem sjá sér fært að koma á námskeið. Svo getur blogg virkað sem upprifjun fyrir nemendur þína…

Sendu Hróbjarti póst og hann getur opnað fyrir þig möguleika á að búa til blogg á námskeiðsvenum, bloggið þitt yrði undirvefur aðalvefsins: https://namfullordinna.is/bloggið-þitt

b) Taktu þátt í umræðum

Á námsbrautarvefnum er sérstakt lokað svæði fyrir námskeiðið  þar eru m.a. svo kallaðir umræðuþræðir/Forum  fyrir sérstök umræðuefni, þar geta þátttakendur líka meldað sig, látið vita af sér með n.k. „status“ eins og sumir þekkja af Facebook.  Við gætum líka fundið uppá því að hafa umræður í lokuðum hóp á Facebook í stað þess að hafa þær á námskeiðsvefnum. Þá koma reglulega póstar frá kennara á námskeiðsvefinn og geta nemendur brugðist, með athugasemdum, við þeim. Allt þetta gerir námskeiðið líflegra og áhugaverðara fyrir alla þátttakendur.

c) Taktu þátt í bókaklúbb/ umræðum um bækurnar

Tilgangur

Til þess að styðja við lestur bókanna verða settir upp sérstakir umræðuþræðir þar sem nemendur geta skipst á skoðunum á innihaldi bókanna.

Hér er um að ræða óformlegar umræður um aðalbókina eftir Robert GAGNÉ.

d) Settu tilvísanir í áhugavert efni á vefinn (5%)

Tilgangur

Samvinna og samhjálp þátttakenda á námskeiðinu. Að sú vinna sem nemendur leggja á sig við heimildaöflun nýtist hinum, að við finnum að við tilheyrum hóp sem er að hjálpast að við að læra. Og að þátttakendur þjálfist í að umgangast heimildir á vefnum á gagnrýninn og sjálfstæðan hátt. OG læri aðferðir til að vista gagnlegar vefsíður sem þeir rekast á og geti notað þær á fjölbreyttan hátt við nám sitt og kennslu síðar.

Lýsing

Ef þú rekst á góðar greinar á vefnum, í Proquest eða annarstaðar.  Láttu okkur hin vita af því.  Skráðu vefslóðir í þar til gerðan lista á Diigo, flokkaðu hann með tögum og skrifaðu stutta lýsingu og skrifaðu gulan miða þar sem stendur hvers vegna þér finnst þetta rit áhugavert, reyndu að koma af stað umræðu á gula miðanum 😉  è Lestu meira um Diigo hér

Ef þú last eitthvað áhugavert á prentmiðli: í bók eða tímari eða dagblaði, reyndu þá að setja slóð í ritið þar sem það er að finna á vefnum: Bækur hjá http://books.google.com  eða www.amazon.com  eða www.gegnir.is  íslenskar tímaritsgreinar einnig hjá Gegni. Dagblaðagreinar hjá www.mbl.is  eða http://vefmidlar.visir.is  ===>  Fræðigreinar: Gegni eða gagnagrunn sem við höfum aðgang að í gegnum www.hvar.is

Já en þú segir þá „þetta tekur svo langan tíma“  en kennarinn þinn segir þá á móti: Hvenær ætlar þú að læra að finna og koma á framfæri námsefni og ítarefni sem gæti gagnast nemendum þínum í framtíðinni verður nokkurn tíma til betri tími en einmitt núna?

Stutt skrifleg verkefni

a) Skrifaðu markmið fyrir námskeið (hluti af Námskeiðsmöppu) 5%

Tilgangur

Æfing í því að skrifa og meta námsmarkmið

Lýsing

Skrifaðu amk. þrjú markmið fyrir námskeiðið þitt og settu þau inn á umræðuþræðina á námskeiðsvefnum.  Að minnsta kosti þrír samnemendur þínir eiga síðan að bregðast við markmiðum þínum og benda þér á góðu hliðarnar við þau og það sem má bæta. Eins átt þú að bregðast við markmiðum amk. þriggja samnemenda þinna. Ég horfi vitaskuld yfir axlirnar á ykkur og bæti mínum athugasemdum líka inn.  Þú skalt styðjast við bók Robert F. Mager, en einnig vefina sem vísað er til á vefnum um markmið og kafla 3 og 7 í bók Gagné.

Viðbrögð

Þú átt að bregðast við markmiðum þriggja samnemenda þinna, og segja þeim hvernig þú ætlar að laga markmiðin.

Skil:

Þegar þú hefur fengið viðbrögð frá samnemendum skalt þú laga markmiðin þín ogvista í Word skjali og hlaða því upp í skjalasvæði námsskeiðsins. è Mundu að gefa skjalinu skiljanlegt nafn og sérstakt svo það ruglist ekki saman við skjöl hinna: láttu það heita: „Markmið-nafnið þitt.docx“ eða „Markmið-Nafnið Þitt.pdf“

Námsmat:

Við námsmat mun kennari skoða hvort þú skrifaðir þrjú markmið, og hvort hvert þeirra inniheldur greinilega ATHÖFN, SKILYRÐI og MÆLIKVARÐA? Einnig kemur inn í einkunn hvort þú hjápaðir amk. þremur samnemendum og hvernig þú rökstyður athugasemdir þínar við samstúdenta þína.

  • Skiladagur: 12. febrúar

b) Skrifaðu bókardóm (10%)

Tilgangur

Þátttakendur þjálfist í því að lesa fræðibækur á gagnrýninn hátt og gera grein fyrir efni þeirra og framlagi til fræðanna á stuttan og skilmerkilegan hátt.

Lýsing

Skrifaðu bókadóm um bók um námsskrárfræði.  Bókadómurinn er hugsaður sem hjálp fyrir aðra nemendur á brautinni og almenning sem vafrar in á vef námsbrautarinnar og vill fræðast um kennslufræði fullorðinna….  Þú ert sem sagt að skrifa fyrir aðra, fólk sem hefur áhuga á fullorðinsfræðslu til að hjálpa því að átta sig á bók sem þú hefur lesið.

Málið er að aðalbók námskeiðsins kemur úr ákveðnu horni kennslufræðanna, og mér finnst nauðsynlegt að þið kynnið ykkur önnur sjónarmið. Þið gætuð kynnt ykkur klassísk námsskrárfræði, eða aðrar bækur um skipulagningu námskeiða, en reynið að velja fræðilega bók frekar en mjög hagnýta, bara til að styðja enn betur við fræðilegu undirstöðurnar.

Námsmat: Skýr framsetning, skilningur á bókinni, greining á innihaldi og gagni bókarinnar, rökstuðningur.

Lesið leiðbeiningar um ritun bókadóma á vefnum og hjá fræðilegum tímaritum og farið eftir einum þeirra.
Þessu mætti bæta við það:

Lýsing

Það sem ég er að leita að er að þú segir stutt og skýrt frá innihaldi bókarinnar:

Hvers konar bók er þetta, um hvað er hún, hver skrifaði hana – örlítið um höfundinn, hvað hann/hún hefur skrifað og jafnvel ef þú getur staðsett hann í fræðasamfélaginu – hvernig er bókin uppbyggð, hvað segir uppbygging um tilgang og markmið höfundar.

d) Skrifaðu bókadóm 10%

Getur þú staðsett bókina hugmyndafræðilega. Hversu vel nær bókin tilgangi sínum. Til hvers er hún gagnleg, Hversu gagnleg er hún, hverjum gagnast hún, vekur hún áhuga, hverjir ættu að lesa hana.

Hvert sýnist þér vera framlag hennar til fræðanna.  Hvað fékkst þú út úr því að lesa hana.

Ekki gleyma að líta á aðra ritdóma (t.d. að prófa að setja nafn bókar og orðið „review“ eða „Bookreview“  í leitarglugga hjá google scholar, eða hvar .is

Vissulega þarf ekki að svara öllum spurningum, en mörgum…

Lengd, c.a. þrjár til fjórar A4 síður.

  • Skiladagur: 24. apríl

e) Skrifaðu Aðferðalýsingu (5%)

Tilgangur

Þátttakendur þjálfist í því að meta og greina aðferðir. Markmiðið er að þjálfast í því að hugsa skýrt og gagnrýnið um kennsluaðferðir og útfærslu þeirra.

Lýsing

Finndu þrjár aðferðir sem henta við kennslu fullorðinna – úr bók, úr eigin aðferðasafni, af vefnum…

  • Lýstu aðferðinni í þar til gert form á námsbrautarvefnum. (Vonandi tekst mér að koma forminu upp)
  • Flokkaðu aðferðina, þannig að það sé hægt að sjá undir hvaða kringumstæðum eða við hvaða hluta námskeiðs er gagnlegt að nota aðferðina (upphaf, endi, upprifjun, leggja á minnið, umræður, hópvinnu, námskeiðsmat, heimfærsla o.s.frv.) og
  • Rökstyddu hvers vegna aðferðin nýtist til að ná tilætluðum árangri. Útskýrðu hvaða mannskilningur liggur að baki aðferðinni og hvaða áhrif má reikna með að hún hafi fyrir einstakling og hóp.

Aðferðalýsingin birtist á opnum hluta námsbrautarvefsins, enda er hugmyndin að þið setjið ykkur í þær stellingar að vera að skrifa fyrir aðra sem kenna fullorðnum

Lýsingin þarf að innihalda lýsingu á markmiðum aðferðarinnar, hvaða tilgang hún hefur og undir hvaða kringumstæðum passar að nota hana. Þá þarf að lýsa henni þannig að annar kennari geti framkvæmt hana. Ef þátttakendur þurfa einhverjar leiðbeiningar á pappír til að framkvæma það sem er verið að bjóða þeim uppá, þarf viðkomandi blað að fylgja með sem Word skjal.

  • Kjörið er að lesa grein Müller um val á aðferðum í tengslum við þetta verkefni
  • Þá er umfjöllun Ingvars Sigurgeirssonar í „Litróf kennsluaðferðanna“ ómissandi hvað þetta snertir.

Námsmat: Val á aðferð, lýsing, kennslufræðilegur rökstuðningur, vel læsilegur texti.

  • Skiladagur: 11. mars

f) Taktu þáttt í að útbúa kynningu og kynna á veffundi (15%)

Tilgangur

Þátttakendur kynna sér ýmsa þætti þess að skipuleggja nám fyrir fullorðna.

Lýsing

Þeir velja sér eina nálgun og vinna með hópi samnemenda sinna við að skipuleggja námskeið fyrir tiltekinn markhóp – ímyndaðan eða raunverulegan.  Um er að ræða þrjár ólíkar nálganir

  • Hefðbundin nálgun byggð á kennslufræði fullorðinna
  • Business Model Generation – Námskeiðshönnunin fær á sig mynd hönnunar  viðskptalíkans, enda á námskeiðið að mæta ákveðinni þörf markhóps leiða til tekna fyrir þann sem býður námskeiðið
  • Design Thinking: Við notum aðferðir hönnunar til að hanna námskeið

Niðurstaða

Þátttakendur skrifa saman stutta skýrslu um það sem þeir lærðu við það að skipuleggja námskeiðið, útbúa kynningu sem þeir vista á Slideshare eða Prezi og kynna niðurstöðuna á veffundi fyrir samnemendum sínum.

Reiknað er með að nemendur noti svo þessa vinnu til að útbúa sjálfir sína eigin námskeiðsmöppu.

Photobucket

Kennsluæfing (10%)

Tilgangur

Þátttakendur æfist í kennslu en aðallega að þeir geti lýst eigin kennslu og rökstutt hana.

Lýsing

A) Áhorf: Heimsæktu námskeið þar sem kennsla fullorðinna fer fram, hjá símenntunarmið, endurmenntunarstofnun, vinnumálastofnun, fyrirtæki… Fylgstu með amk. þremur ólíkum kennslustundum. Skráðu það sem þú sérð á þar til gert eyðublað. Berðu það sem þú sást saman við reynslu 3-4 annarra þátttakenda á námskeiðinu og skrifaðu síðan stutta skýrslu um það sem þú sást. Skilaðu bæði áhorfsblöðunum og skýrslunni saman.  Nemendur hafa sjálfir samband við fræðslustofnun til að heimsækja, en kennari kemur gjarnan til hjálpar með hugmyndir og sambönd ef óskað er eftir því.

B) Skipulegðu og kenndu a.m.k. tvisvar sinnum eina til tvær kennslustundir, annað hvort í námskeiði sem þú ert að halda, eða fáðu að koma inn í kennslustund hjá einhverjum kollega þínum eða einhverjum kennara sem þú þekkir.  Í þessari kennslustund skalt þú prófa einhverja aðferð/ir sem þú hefur lært á námskeiðinu.  Það er nauðsynlegt að þú sért að gera eitthvað nýtt, að prófa aðferð eða nálgun sem er ekki hluti af rútínu þinni.  Fáðu einn eða tvo þátttakendur af námskeiðinu, (eða í neyðartilfellum einhvern annan sem getur gefið gagnleg viðbrögð) til að fylgjast með og gefa þér viðbrögð eftir á – aðeins jákvæð.

C) Skrifaðu skýrslu: Niðurstaðan verður þriggja til fjögurra síðna skýrsla þar sem þú lýsir a) því sem þú ætlaðir að gera, b) hvernig kennslan varð í raun og veru og c) hvað kom út úr samtali þínu við kollega þína eftir á, hvað sögðu þau, og hvað lærðir þú á samtalinu d) niðurstaða: hvað lærðir þú á verkefninu.  Markmiðið hér er fyrst og fremst íhugunin um eigin praxís.  Hvernig hugsar þú um, greinir frá og rökstyður það sem þú gerir í kennslu.

e) í skýrslunni um kennslu þarf í lokin að koma smá athugasemd frá þér um það hvað þú hafðir til hliðsjónar þegar þú veittir kollega viðbrögð: Kynnið ykkur hvernig maður gefur kollegum viðbrögð við kennslu ç þetta er dæmi um leit sem gæti komið að gagni. Getið í skýrslunni heimilda OG hvers vegna þær sem þú notar þóttu við hæfi – hér er verið m.a. að spá í gæði og áreiðanleika efnis sem þú finnur á vefnum.

Námsmat: Skýr framsetning á skýrslunni, rökstuðningur byggður á reynslu og studdur hugmyndum og kenningum sem þú hefur kynnst í náminu.

  • Skiladagur: 17. apríl

Skipulagning Námsframboðs / Námskeiðs (45%)

Tilgangur

Þátttakendur fara í gegnum það ferli að skipuleggja námskeið frá upphafi til enda og eiga að þessu námskeiði loknu tilbúið námskeið sem þeir geta haldið við tækifæri. Með þessu móti ættu þeir að ná öllum helstu markmiðum námskeiðsins í einu verkefni.

Lýsing

Skipulegðu námskeið.  Útbúðu námskeiðsmöppu skv. leiðbeiningum Reischmann og nýttu þér hugmyndir úr lesefni námskeiðsins og öðru sem þú nærð í.  Námskeiðið þarf að vera svo til tilbúið að halda það, nema þú þarft ekki endilega að hafa útfært alla innihaldslegu þættina, frekar en þú vilt.  Á viðeigandi stöðum þarf að vera blað með einkennandi lit (t.d. gult), þar sem þú skrifar kennslufræðilegan rökstuðning fyrir því sem þú ert að gera: Hvers vegna velur þú tiltekna uppröðun í stofu, röð atburða, dagskrá, aðferð… hverju viltu ná fram, hvers vegna er þessi aðferð til þess fallin, hvaða mannskilning felur hún í sér o.s.frv.

(Ef þú sérð alls ekki fram á að þú munir nokkurntíma kenna námskeið, skalt þú skipuleggja heilt misseri hjá fræðslustofnun sem þú vinnur hjá.  Þá þarftu að velja námskeið, kennara, áherslur og annað sem þú ætlast til af kennurum og rökstyðja það með rökum frá Gagné og öðrum bókum sem taka fyrir skipulagningu á þessu stigi. Sbr. þýska hugtakið: „Megadidaktik“ eða Strategic planning en verkefnið þarf að innihalda samskonar kennslufræðilegan rökstuðning, nú verður þú að sækja hann í námskrárfræðina, mannskilninginn, kennslufræðina o.s.frv.)

Verkefninu skal skilað rétt fyrir eða í síðasta lagi á síðustu staðlotunni að lokinni staðlotu hafa þátttakendur um 14 daga til að ganga endanlega frá námskeiðsmöppunni.

Námsmat: Útfærsla, sjálfstæði í hugsun og skipulagi og rökstuðningur.

  • Skiladagar:
    A) Sýna samnemendum og kennara möppuna komna vel á veg á staðlotu 7-8. apríl eða á veffundi 23. apríl
    B) lokaskil 10 mai.

1) Skrifaðu markmið (Sjá verkefni hér fyrir ofan)

 

2) Útbúðu kynningu á námskeiðinu þínu

Tilgangur

Þjálfast í því að kynna námskeiðið og einnig að fá viðbrögð við aðalverkefninu frá samstúdentum

Lýsing

Skrifaðu námskeiðslýsingu sem gæti verið sett í auglýsingu um námskeiðið þitt. Finndu út hvað menn mæla með að standi í námskeiðslýsingum (finndu a.m.k. 2-4 leiðbeiningar, greinar, bókakafla) og nýttu hugmyndirnar til að skrifa námskeiðslýsingu. Settu lýsinguna snyrtilega fram og vistaðu á námskeiðsvefnum. Láttu tilvísun í þá sem þú studdist við fylgja með auglýsingunni OG vistaðu slóðir í heimildir þínar á Diigo með taginu: Auglýsingatexti.

  • Skiladagur á staðlotu: 11. mars. Nemendur mæta með útprentaða útgáfu og sýna samnemendum sínum.

Sjálfsmat (5%)

Skrifaðu 1-2 síðna skýrslu um hvað þú lærðir á námskeiðinu, og hverju þér finnst þú vera nær eftir það. Skoðaðu markmið námskeiðsins, og þín eigin markmið með því að sækja námskeiðið. Og berðu saman við árangur þinn í lokin. Að hve miklu leiti hefur þú náð markmiðunum og hvað sýnist þér vanta uppá. Lærðir þú eitthvað sem þú áttir ekki von á að læra. Kom þér eitthvað á óvart? Hvað, af því sem þú lærðir, sérðu fram á að geta nýtt í nánustu framtíð.

  • Skiladagur: 11. Mai 2012

Skilist: sent til kennarans á netfangið: hrobjartur@hi.is

5.     Leslisti:

Þrjár aðalbækur:

1) Robert M. Gagne, Walter W. Wager, Katharine Golas, John M. Keller: Principles of Instructional (5. útgáfa 2005) (Verður til í bóksölu nema) og er núna að hluta til aðgengilegt í UGLU.

Sjá Hjá Amazon|Í Gegni (eldri útgáfur)

2) Eitt þriggja rita um skipulagningu náms

a)      Planning Programs for Adult Learners: A Practical Guide for Educators, Trainers, and Staff Developers, 2nd Edition (Verður til í Bóksölu nema)

b)      Business Model Generation (er til í Bóksölu stúdenta)

c)       Design Thinking (Bókatillaga á leiðinni) (Nemendur þurfa að panta sjálfir)

3) Robert Mager, Preparing Instructional Objectives, 3. útg. Atlanta, 1997 (eldri er líka í lagi).

Yfirlit|Í Gegni|Einnig í fleiri útgáfum|Hjá Amazon. Þessa bók er gagnlegt að eiga. ATH sumir vilja e.t.v. eignast sex bækur í pakkaeftir Mager þær taka á því helsta sem við tökum fyrir á þessu námskeiði. Ein þeirra gæti jafnvel bæst við leslistann…

Það er reiknað með að nemendur panti sér þessa bók sjálfir: Til dæmis annað hvort gegnum bóksölu stúdenta (það tekur ekki langan tíma) eða í gegnum Amazon.

Hliðsjónarbækur:

Sjá bokalista

Ingvar Sigurgeirsson. Að mörgu er að hyggja. Handbók um undirbúning kennslu. Reykjavík, 1999.

Þessi bók gefur gott yfirlit yfir mörg viðfangsefni námskeiðsins þrátt fyrir að sumt sé stundum miðað við grunnskóla miðar höfundur við kennara á öllum námsstigum. Hún er gagnleg sem uppflettibók. Vel þess virði að eignast hana. Tilvalið er að lesa þessa bók hratt yfir í upphafi.
Í Gegni|Yfirlit

Thomas Armstrong: Multiple Intelligences in the Classroom, Alexandria, Virginia 2000.
Hjá Amazon| Á íslensku | Í Gegni | Bókadómur Ingu Karsldóttur

Einnig í listanum: Fræðsluhönnun  (“Listmania” listi á Amazon)
Margar þessara bóka eru til á bókasöfnum hér

Rannsóknargreinar og gagnlegar greinar á vefnum

Sjá lista minn um Greinar aðgengilegar á netinu,

Fleirri greinar koma síðar í þennan lista.