Your site
21. janúar, 2025 08:39

Lestur – ritun og fræðileg vinnubrögð

Leonid_Pasternak_-_The_Passion_of_creation

Akademískt nám gengur að miklu leiti út á það að læra með því að skrifa og að læra að skrifa svo kallaða „fræðilega texta“ og þjálfast í vinnubrögðum sem hæfa vísindalegri vinnu. Samfélag sem ætlast til þess að stór hluti þátttakenda þess hafi háskólamenntun, reiknar með því að þeir sem hafi lokið námi á háskólastigi vinni á annan hátt en þeir sem hafa það ekki, það reiknar með ákveðinni hæfni sem fæst í gegnum akademísk vinnubrögð. Stór hluti þeirrar hæfni sem háskólamenntað fólk ætti að hafa aflað sér í gegnum námið felst í að hafa þekkingu á tilteknu fræðasviði á valdi sínu. Nægilega mikla þekkingu til að geta sjálf aflað sér áreiðanlegrar þekkingar til viðbótar um afmörkuð viðfangsefni þess og nýtt sér rannsóknarniðurstöður, kenningar tengdar þeim og fræðilega túlkun þeirra við störf sín. Sömuleiðist að geta gert grein fyrir þessari þekkingu á skilmerkilegan, gagnsæan og rekjanlegan hátt. Þegar maður þjálfar slika hæfni þjálfast maður einnig í því að taka þátt í akademískri umræðu. Niðurstaðan er oftast nær sýnileg í einhverjum skrifum, verkefnum, bókadómum, misserisritgerðum, lokaritgerðum og jafnvel fræðilegum greinum eða skýrslum. Segja má að ein augljósasta afleiðing þess að kunna til verka er að geta skrifað umsóknir alls konar og skýrslur í tengslum við verkefni. Slíkum skýrslum svipar oft til meistaraverkefna enda reikna vinnuveitendur fólks með meistaragráðu með því að það geti unnið slík verk sómasamlega. Oft hvílir fjármögnun stórra verkefni á því að vel til takist.

Verkefni í háskólum snúast þess vegna um að læra skrifa ákveðna tegund texta – fræðilega texta og að læra með því að skrifa. Þess vegna er ekki úr vegi að líta á skrifin á svipaðan hátt og við lítum á æfingu í líkamsræktarstöð.

Af þessu má því leiða að mikilvægt verkefni námsmanns í háskóla sé að ná valdi á amk. þremur verkefnum:

  1. Að afla sér upplýsinga (að finna gagnlegt efni, frá áreiðanlegum heimildum, lesa það, skilja og greina aðalatriði upplýsinganna.)
  2. Að miðla þekkingunni sem verður til við öflun upplýsinga – t.d. að skrifa texta (bæði til þess að læra efnið (skrifað til að læra) og til þess að sýna fram á námsárangur – rituð verkefni er ein helsta leið háskóla til að meta hvort nemendur hafi náð markmiðum tiltekinna námskeiða)
  3. Að beita fræðilegum vinnubrögðum
    • það er ákveðið „handverk“ sem tengist rannsóknum og skrifum sem kallar á ákveðin vinnubrögð við öflun og meðhöndlun upplýsinga og gagna.
    • þegar maður skrifar, skrifar maður alltaf inn í ákveðið samhengi. Maður skrifar fyrir ákveðinn lesendahóp og sá lesendahópur hefur komið sér upp ákveðnum hefðum um form textans. Þannig hefur misserisritgerð ákveðið form, meistararitgerð annað og fræðileg grein enn annað og þessi form geta verið ólík eftir skólum, fögum og tímaritum svo eitthvað sé nefnt. Eitt verkefni námsmannsins er að læra amk. að skrifa inn í eitt slíkt samhengi.
  4. Sjá nánar leiðbeiningar frá Háskólanum um ritun og fræðileg vinnubrögð
    1. Leiðbeiningavefur um ritun á háskólastigi (hi.is)
    2. Ritver | Ritver – Háskóli Íslands (hi.is)
    3. Youtube rás Kennslunefndar Félagsvísindasviðs um vinnubrögð í háskólanámi

Öflun upplýsinga

Akademískt nám og rannsóknir hljóta að byrja með því að afla upplýsinga hjá þeim sem hafa rannsakað áhugamál okkar á undan okkur. Ein afurð háskólanáms hlýtur því að vera færni og þjálfun í því að afla gagnlegra og áreiðanlegra upplýsinga og að kunna að vega þær og meta.

Lestur

Lestur eða læsi gæti verið heiti yfir alla þá hæfni sem snýr að því að að afla upplýsinga og ná valdi á þeim: Þar skiptir sköpum að:

  • vita hvar gagnlegt (les)efni er að finna,
  • að hafa þjálfun í því að finna heimildir, (t.d. slá inn gagnlegum leitarhugtökum í leitarvélar)
  • meta  gæði þeirra (Smelltu hér til að kalla fram gátlista til að þekkja vafasöm tímarit)
  • lesa þær til gagns og
  • endursegja innihald þeirra
  • skrá þær í sinn eigin gagnagrunn um lesið efni (hvernig getur maður fundið heimildina aftur?) til að geta notað þær síðar t.d. við fræðilegu skrif, upprifjun eða til að rökstyðja starf sitt.

Verkefni sem nemendum er boðið að vinna í náminu hafa í öllum tilfellum það að markmiði að bjóða þátttakendum upp á tækifæri til að þjálfa þessa mikilvægu hæfni.

Ritun

Ein leið til þess að ná valdi á upplýsingum er að skrifa um þær. Þess vegna bjóða kennarar Háskólans nemendum sínum gjarnan upp á verkefni sem fela í sér ritun. Til eru mörg textaform, sem hvert fyrir sig hefur ákveðinn tilgang og tilgangurinn leiðir gjarnan til ákveðinnar formlegrar uppbyggingu og stíl textans. Sendibréf hefur annað form en ljóð, frétt hefur annað form og tilgang en áróðursrit og bloggfærsla hefur annað form en ritrýnd fræðigrein. Til að teljast læs á fræðin þarf maður að þjálfa með sér hæfni í að greina á milli þessara forma og að hafa a.m.k. sum þeirra á valdi sínu. Í Akademísku námi er lokaafurðin iðulega fræðileg ritgerð eins og meistararitgerð. Hún hefur ákveðinn tilgang og ákveðið form. Tilvalið er að nota sem flest þau verkefni sem þér eru boðin í náminu til að þjálfa þig í því formi og nota því þau verkefni sem hægt er til að ná valdi á því sem krafist er í meistararitgerð.

Helstu þættir svo til allra fræðilegra skrifa, þar á meðal námsritgerða og meistararitgerða er að minnsta kosti að:

  1. Setja fram áhugaverða spurningu sem textinn á að svara (rannsóknarspurningu)
  2. Endursegja skýrt, nákvæmlega og heiðarlega rannsóknarniðurstöður fyrri rannsakenda
  3. Tengja þær við aðrar rannsóknir, vega þær og meta
  4. Skipuleggja og framkvæma eigin rannsókn
  5. Að setja fram eigin rannsóknarniðurstöður á skýran og trúverðugan hátt
  6. Bera eigin rannsóknarniðurstöður saman við annarra og setja þær í samhengi
  7. tjá eigin greiningu, eigið mat og túlkun á niðurstöðum í samtali við niðurstöður, kenningar og viðhorf annarra og rökstyðja það.

Því er tilvalið að nýta þau tækifæri sem maður hefur í náminu til að þjalfa einhverja þessara hæfniþátta. Þegar þú ert komin í nám á meistarastigi, er þetta verkefni sem þú þarft að axla ábyrgð á sjálf/ur. Kennarar búa vissulega til verkefni til að gefa þér tækifæri til að þjálfa ákveðna þætti námsins. En þú þarft að búa þér til þitt eigið plan, og vinna markvisst að því að auka hæfni þína á þessu sviði.

Því er full ástæða til að lesa sig reglulega til um ritun, rannsóknir og fræðileg vinnubrögð:

  • Eitt það sem vefst fyrir flestum sem eru að glíma við fræðileg skrif er það hvernig maður notar heimildir og vitnar til þeirra. Aðal málið er að hafa í huga er að oftast er maður að endursegja a) rannsóknarniðurstöður annarra, b) fræðilega umfjöllun eða b) kenningar um tiltekið þema, setja það efni fram sjálfur, með eigin orðum, í röklegt samhengi á heiðarlegan, nákvæman og skiljanlegan hátt og síðan að staðsetja, túlka, tengja, vega og meta á gagnrýninn, gagnsæjan og heiðarlegan hátt þannig að lesandinn geti auveldlega fylgt röksemdafærslunni eftir, áttað sig á hver sagði hvað og hvað það er sem þú leggur til umræðunnar. Þetta er það atriði sem skiptir einna mestu máli að ná valdi á í háskólanámi. Þess vegna er nauðsynlegt að lesa um það, bækur, greinar og blogg, prófa sig áfram og nýta sér viðbrögð leiðbeinenda til að bæta sig. ATH þetta er hæfni sem tekur flesta nokkurn tíma að ná valdi á.
  • Þeir sem stefna á ritun meistararitgerðar ættu ekki að draga það að lesa bækur um ritun meistaraverkefna.
  • Það er vel þess virði að mæla með bók sem er nýkomin út í enskri þýðingu en Umberto Eco skrifaði bók um það að skrifa rannsóknarritgerð árið 1976 sem er enn í fullu gildi. Hana má kaupa á mörgum formum, bæði í prenti, sem rafbók og hljóðbók. Sjá hjá Google 
  • Ein skemmtilegasta umfjöllun um akademísk skrif og það hvernig maður lærir þau er sett fram í bókinni „They Say… I Say“ eftir Gerald Graff og Cathy Birkenstein.
  • Fræðileg skrif á íslensku snúast um að nota skýrt mál, að skrifa inn í viðkomandi málhefð og að nota hugtök nákvæmlega. Þess vegna er nauðsynlegt að vera viss um merkingu hugtaka og að passa uppá að mótast ekki um of af almennri umræðu sem hefur frekar talmálsstíl.

==> Lestu meira um fræðileg skrif

Fræðileg vinnubrögð… eða form

Margt getum við flokkað undir fræðileg vinnubrögð, hér ætla ég aðeins að gera form fræðilegra skrifa að umræðuefni. Eins og fyrr segir skiptir form miklu máli við öll skrif, hvert bókmenntaform hefur sitt form og því er það hluti af því að læra tiltekið bókmenntaform að læra að skrifa og ganga frá textanum í samræmi við það form. Hvað akademísk skrif snertir trónir hæst form tilvitnana, vísana í heimildir og skráning heimilda. Í sumum tilfellum ræður þessi hluti skrifanna um 1/3 hluta einkunnar.

Við Menntavísindasvið Háskóla Íslands eru kennarar sammála um að ætlast til þess af nemendum sínum að þeir noti svo kallað APA kerfi til að stýra formi rita sinna.

Ritver Háskólans býður upp á kennslu og leiðsögn hvað öll skrif varðar og eru nemendur hvattir til að nota þá þjónustu til hins ítrasta:

Notkun ritvinnsluforrita

Flestir nota Microsoft Word eða svipaðan hugbunað til að skrifa skýrslur og ritgerðir. Það heyrir til fagmennsku manneskju með meistaragráðu frá háskóla að hafa fullkomið vald á slíkum hugbúnaði. Margar leiðir eru til að þjálfast á slíkan hátt. Fyrst ber að nefna alls konara leiðbeiningar og hjálp sem forritin sjálf bjóða upp á – full ástæða er til að verða henni handgenginn. Þá er til alls konar leiðbeinigaefni á vefnum (oft dugar að slá inn í leitarvél á ensku það sem maður vill gera með forritinu til að finna góðar leiðbeiningar). Skipulega framsetningu má finna víða og svo má ekki gleyma námskeiðum á vefnum eða í tölvuskólum.

Hugbúnaður sem styður við lestur og skrif

Þegar maður les fjöldan allan af fræðilegum greinum og bókum og vill síðar nota þessar heimildir við nám, prófalestur og ritgerðasmíð er full ástæða til að koma sér upp verkfærum til að vista bókfræði upplýsingar um það sem maður hefur lesið, halda utan um glósur og tilvitnanir í ritin OG ekki síst til að stuðla að því að form tilvísana og skráning heimilda sé í samræmi við valinn staðal. Sé slíkur hugbúnaður rétt notaður við skrif getur hann tryggt að ekki sé vísað í heimild sem ekki finnst í heimildaskrá né rit finnist í heimildaskrá sem ekki er vísað í í texta.

Efnisyfirlit

Lestur – ritun og fræðileg vinnubrögð

Hvar finn ég lesefni

… og hvernig finn ég það aftur?

Hugbúnaður til að halda utan um heimildir