Your site
15. janúar, 2025 09:29

Lausnaleikir (Project Adventure)

Markmið aðferðarinnar

Markmiðið með lausnaleikjum er að kenna nemendum að vinna saman að sameiginlegu markmiði og draga fram hjá hverjum og einum nemenda hvernig hann kemur fram, bregst við og tekur þátt í samskiptum í hóp.

Aðferðin felst í verkefni sem byggir á leik þar sem nemendur vinna saman í hóp. Leiknum fylgja fyrirfram ákveðnar leiðbeiningar og reglur og með þeim eru nemendur leiddir í gegnum ákveðna reynslu sem þeir geta síðan rætt og yfirfært á daglegt líf.

Lausnaleikir geta verið góð aðferð til að hrista hópinn samann en einnig til að kenna námsefni. Í lausnaleikjum er ekki endilega eitt rétt svar heldur byggja leikirnir á samvinnu hópsins til að leysa verkefnið. Þeir gefa nemendum tækifæri til að skoða sig sjálfa í samskiptum við aðra og í hóp. Þeir þjálfa þannig samvinnu, samábyrgð og liðsheild en einnig leiðtogafærni.

 

Lýsing

1. Kennari kynnir fyrir nemendum hvaða felst í lausnaleikjum.

2. Kennari útskýrir fyrir nemendum hvaða lausnaleik er verið að fara í.

3. Kennari útskýrir reglur lausnaleiksins fyrir nemendum.

4. Nemendur fara í lausnaleiki eftir fyrirmælum kennara, getur tekið mislangan tíma eftir leikjum. Nýjar leiðbeiningar geta bæst við leikinn eftir því sem líður á hann og þá þarf kennarinn að útskýra þær.

5. Kennari og nemendur vinna saman úr og ræða um hvernig leikurinn gekk. Ágætt er að horfa til atriða eins og hvernig vinnan í leiknum gekk, hvernig samskiptin fóru fram og hvort allir nemendurnir hafi lagt sitt að mörkum. Einnig er hægt að horfa til þess hvort nemendur geti yfirfært þá reynslu sem þeir fengu í lausnaleiknum yfir á daglegt líf og starf. Gefa þarf nemendum góðan tíma til þessarar vinnu.

Athugasemdir

Þessi aðferð felst í að hópur vinnur í sameiningu að lausn og lausnin fæst jafnvel ekki nema með góðri samvinnu. Lausnaleikir eru því tilvaldir til að hvetja nemendur til að skoða sig sjálfa og finna sína styrkleika og veikleika í samskiptum auk þess sem þá er hægt að tengja því efni sem verið er að fara í. Auk þess er hægt að nýta lausnaleikjaaðferðina til að sýna nemendum að hægt er að læra á annan hátt en með því t.d. að lesa og skrifa.

Hlutverk kennarans í þessari aðferð er mjög mikilvægt því það skiptir miklu máli hvernig honum tekst að virkja nemendur með sér í hópavinnuna. Í upphafi er gott fyrir kennarann að fræða nemendur um lausnaleikjaaðferðina og gefa þeim kost á að velja hvort þessi aðferð eigi við þá eða ekki. Það veitir nemendum öryggi auk þess sem það gefur nemendum tækifæri til að hafa eitthvað um nám sitt að segja. Gott getur verið fyrir kennarann að vera með ákveðinn inngang að lausnaleikjunum, t.d. með því að byrja með fyrirlestur og umræður og þegar þátttakendur eru orðnir öruggir í námsumhverfinu að nota þá lausnaleikina. Nauðsynlegt er fyrir kennarann að vera búinn að undirbúa fleiri leiki en færri og nota þá sem hann telur að muni nýtast hópnum best eftir að hann hefur kynnst hópnum en mikilvægt er fyrir kennarann að ýta hópnum aðeins lengra en hann treystir sér til. Kennarinn þarf að leggja ríka áherslu á að vinna vel úr verkefninu með hópnum að leik loknum.

Lausnaleikir geta hjálpað nemendum á ýmsan hátt. Aðferðin getur þannig hjálpað nemendum að uppgötva nýjar leiðir til að læra, þekkja sig sjálfa og vinna í hóp en einnig geta þeir þjálfað liðsheild og hópefli.

Heimildir

Helga Björk Pálsdóttir. (2007). Lausnaleikir í námi fullorðinna.

Sigrún Jóhannesdóttir. (e.d.). Þekkingarmiðlun eða starfsundirbúningur.

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar