Your site
22. desember, 2024 13:15

Heimildarmenn- viðtöl

Flokkun: Leitaraðferðir(Ingvar Sigurgeirsson. 1999. bls.124-130)

Tilgangur við kennslu: 

  • Tenging við raunveruleg viðfangsefni
  • Virkja þátttakendur og vekja þá til umhugsunar um viðfangsefni námskeiðsins
  • Þjálfa fræðileg vinnubrögð

Markmið aðferðarinnar

Að virkja þátttakendur og fá þá til þess að hugsa um viðfangsefni námskeiðsins í praxis, þannig að þeir þjálfist í að undirbúa, taka og vinna úr viðtali við einstakling/a sem tengjast á einhvern hátt við viðfangsefni námskeiðsins. 

  • Markmiðið er að þátttakendur þjálfist í fræðilegum vinnubrögðum eigindlegra rannsókna með því að undirbúa og taka viðtal og vinna úr því.
  • Markmiðið er að þátttakendur kynnist viðfangsefni námskeiðsins í raunverulegu verkefni, með því að taka viðtal við einstakling sem getur gefið innsýn í viðfangsefnið út frá eigin reynslu.
  • Markmiðið er að virkja þátttakendur og vekja þá til umhugsunar um viðfangsefnið með því að þeir taki sjálfir þátt í að afla sér upplýsinga um viðfangsefnið í praxis. 

Lýsing

Kennari þarf að vera búinn að ákveða hvort verkefnið er einstaklingsvinna eða hópvinna.

Undirbúningur:

  • Þátttakendur búa til opnar eða hálfopnar spurningar sem tengjast viðfangsefninu. Þeir búa til bakgrunnsspurningar. Huga þarf vel að spurningunum og kennari þarf að vera til taks fyrir þátttakendur ef þeir þurfa leiðsögn með val á spurningum. Einnig er mikilvægt að bók/uppflettirit/ glósur séu til staðar til þess að hafa til hliðsjónar þegar spurningarnar eru samdar.
  • Þátttakendur þurfa að hugsa um val á viðmælendum. Á að hafa einn eða fleiri viðmælendur, skiptir máli að viðmælandi/endur sé/u t.d.með sömu/mismunandi menntun, starfsreynslu og kyn. Þarf/þurfa viðmælandi/endur að vera frá mismunandi starfsvettvangi, landsbyggð vs. höfuborgarsvæðið eða ekki o.s.frv.

 

Þessi vinna ætti að mestu leyti að fara fram í kennslustund.

Viðtalið:

  • Hafa samband við viðmælanda/endur og finna tíma til þess að taka viðtalið.
  • Fá leyfi til þess að taka viðtalið upp (ef það fæst ekki, þá þarf að setjast niður strax eftir viðtalið og punkta hjá sér/taka upp það sem fram kom).
  • Segja frá tilgangi með viðtalinu, að þetta sé verkefni í námskeiðinu XXX og þakka fyrir þátttökuna.
  • Taka viðtalið.

 

Þessi vinna ætti að fara fram utan hefðbundinnar kennslustundar.

Úrvinnsla:

Þátttakendur þurfa að:

  • Rita þarf viðtalið upp orðrétt (ef leyfi fékkst fyrir upptöku)
  • Lesa þarf yfir og vinna úr viðtalinu.
  • Það fer eftir eðli verkefnisins hvort það þurfi fræðilega gagnagreiningu eins og að greina þemu eða hvort það sé nóg að taka saman það helsta sem fram kom í viðtalinu.

 

Þessi vinna ætti að fara fram utan hefðbundinnar kennslustundar en vel er hægt að bjóða upp að endanleg úrvinnsla (fara yfir atriði sem þátttakendur eru ekki vissir með varðandi úrvinnslu) fari fram í kennslustund eða vef námskeiðsins, * sjá athugasemdir.

 

Athugasemdir

*Hér er hægt að hafa aðra útfærlsu. Í stað þess að bjóða upp á 40 -60 mín. kennslustund til þess að fara yfir vafaatriði varðandi úrvinnslu er hægt að bjóða upp á að hver og einn setji vafaatriðin á blogg/heimasíðu námskeiðsins og fá viðbrögð annarra þátttakenda á námskeiðinu.

Að taka viðtöl og nota heimildarmenn er aðferð sem tengir viðfangsefni námskeiðsins út fyrir ,,skólastofuna´´og gefur þátttakendum tækifæri til þess að heyra frá þeim sem tengjast viðfangsefni námskeiðsins í praxis. Samkvæmt Gagné (2005, bls. 265) þá er hægt að meta hvort nám hafi átt sér stað á marga vegu og nefnir hann m.a. þætti eins og æðri hugsun (higher- level thinking) sem felur m.a. í sér að greina, meta og nota upplýsingar og þá fjallar hann einnig um  frammistöðu eins og að geta gert tilraunir og rannsóknir og segja frá niðurstöðum og að taka viðtöl við einstaklinga eða hópa.

 

Heimildir:

Gagné, R., Wager, W., Golas, K. og Keller, J. (2005). Principles of Instructional Design. Belmont: Stratford Publishing Services Inc.

Ingvar Sigurgeirsson. (1999). Litróf kennsluaðferðanna. Reykjavík: Æskan.

Skildu eftir svar