Your site
15. janúar, 2025 05:47

Greinandi mat

Kennsluaðferð – Greinandi mat

Markmið

Markmiðið með greinandi mati er að kanna stöðu þátttakenda. Að kennari geti gert sér einhverja grein fyrir því hvort þátttakendur kunna eitthvað af því sem hann ætlar að fara að kenna þeim og hvað þá helst.  Greinandi mat hjálpar kennaranum að skipuleggja framhald kennslunnar út frá því hvað þátttakendur kunna og/eða kunna ekki. Með þessu móti fer verðmætur tími ekki í það að kenna eitthvað sem allir kunna. Þetta mat gefur kennurum tækifæri á meta styrk-og veikleika hvers og eins og leiðbeina hverjum og einum samkvæmt því. Að nota greinandi mat sem tæki til að safna upplýsingum um þátttakendur og varpa ljósi á framfarir þeirra en einnig á sama tíma sýna það hvað þarf að gera til að þátttakendur bæti sig.

Lýsing

Eftir að kennari hefur hitt þátttakendur í fyrsta sinn, brotið ísinn með einhverjum hætti og allir hafa kynnt sig fer greinandi mat fram.

  1. Kennari segir þátttakendum að hann ætli að leggja fyrir þá stutta könnun, nokkur einföld dæmi eða spurningar. Lætur vita að þetta sé ekki metið til einkunna, einungis til að gera kennsluna markvissari.
  2. Þátttakendur fá 10-12 mínútur til að svara könnuninni.
  3. Kennarinn tekur svo könnunina til yfirferðar eftir kennslu.
  4. Kennarinn heldur svo áfram með kennsluna samkvæmt skipulagi.
  5. Mikilvægt er að greina gögnin vel og þegar niðurstöður liggja fyrir þá er hægt að skipuleggja framhald kennslunnar með þær til hliðsjónar. Þarf að fara betur í eitthvað, þarf að kenna eitthvað áður en farið er í það efni sem áætlað var eða er hægt að sleppa einhverju sem var á áætluninni.

Athugasemdir

Í bók sinni Cognitive Diagnostic Assessment for Education fjalla þau Leighton og Gierl um greinandi mat. Þar kemur fram að slíkt mat er hugsað til að meta afmarkaða þekkingu þátttakenda á ákveðnu efni, hvernig þekking og færni á efninu byggist upp ásamt því að afla upplýsinga um vitsmunalega styrkleika og veikleika þeirra. Greinandi mati er ætlað  að staðsetja þátttakandann á ákveðnu þekkingarsviði, mæla hversu stórt hlutfall af efninu hann kann. Þessi tegund námsmats (e. cognitive diagnostic assessment)  er tiltölulega ný af nálinni en hún á rætur sínar að rekja, og tengist þar af leiðandi kenningum í vitsmunalegri sálfræði (e. cognitive pshycology).  Black og Wiliam velta fyrir sér kostum og göllum á þessari tegund mats, meðal annars því að það er ekki búið að tengja kenningar í vitsmunalegri sálfræði beint við námsmat með þar til gerðum matskvörðum eða kerfum (educational psycohmetric measurment models) (EPM models). Greinandi mat hjálpar kennurum að gera sér grein fyrir hvaða atriði þarf að fara betur í til að þátttakendur öðlist þá þekkingu og leikni sem þarf til að uppfylla hæfniviðmiðin í viðkomandi áfanga. Greinandi mat gerir ekki endilega kröfu um lokaniðurstöðu/einkunn, heldur á að vera leiðbeinandi til að auðvelda þátttakendum það að uppfylla markmið áfanga, það getur því verið leiðbeinandi um leið. Greinandi mat er hægt að nota í flestum tegundum námsgreina.

Heimildir

Black, P. og Wiliam, D. (1998) „Inside the black box: Raising standards Through Classroom Assessment“. Phi Delta Kappan International, 80(2),139-148. http://www.education.nt.gov.au/parents-community/assessment-reporting/diagnostic- assessments/diagnostic-assessments  [Sótt 22. apríl 2014] Leighton, J.P.,  Gierl, M.J. (2007). Diagnostic Assessment for Education. Camebridge University Press.

Skildu eftir svar