Your site
22. janúar, 2025 00:39

Einn, tveir og allir (Think, Pair, Share)

Markmið aðferðarinnar

Markmið þessarar aðferðar er að auka virkni og þátttöku nemenda, þjálfa þá í samvinnu og auka sjálfstraust þeirra.

Nemendur þurfa oft tíma til að melta hluti til að þeir festist í minni. Með aðferðinni fá nemendur tíma til að hugsa vel sín eigin svör áður en spurningunni er svarað af öðrum. Nemendur fá líka tækifæri til að hugsa svör sín upphátt með öðrum nemanda áður en þeir deila svörum sínum fyrir allan hópinn. Aðferðin er samvinnunám, hún gefur öllum nemendum tækifæri til að deila hugsunum sínum við a.m.k. annan nemanda og eykur þannig samvinnu nemenda sem og þátttöku þeirra í náminu.

Lýsing

1. Kennari ákveður hvernig hann ætlar að skipta nemendum í tveggja manna hópa.

2. Kennari leggur fram efni eða spurningu.

2. Nemendur velta fyrir sér efni (s.s. spurningu, vandamáli eða dæmi). Hver nemandi vinnur fyrir sig og hugsar viðbragð eða svar, einnig er mögulegt að skrifa það niður eða teikna. Þessi umhugsunartími getur tekið allt frá 10 sekúndum upp í nokkrar mínútur, allt eftir því hvað kennarinn ákveður.

3. Nemendur vinna saman tveir og tveir og bera saman niðurstöður sínar í nokkrar mínútur.

4. Nemendur kynna niðurstöður fyrir öllum hópnum. Hægt er að byrja á einum hóp og spyrja síðan hvort aðrir hópar hafi einhverju við að bæta eða séu með önnur sjónarhorn á efnið en einnig er hægt að leita til nokkurra hópa og biðja þá um að deila niðurstöðum sínum.

Athugasemdir

Þessi aðferð er hönnuð til þess að gefa nemendum eitthvað til að hugsa um sem varðar ákveðið umfjöllunarefni og gefur þeim þannig möguleika til að mynda sér sínar eigin skoðanir og deila þeim síðan með öðrum nemendum. Aðferðina má nota við ýmiss konar verkefni og í mörgum ólíkum greinum. Hún hentar vel þar sem unnið er með opnar spurningar, tillögugerð, þrautlausnir, hugmyndasöfnun, flokkun eða greiningu. Auðvelt er að koma aðferðinni í framkvæmd í kennslu og hún hentar vel í hópum, jafnvel stórum hópum.

Með aðferðinni er ýtt undir gagnrýna hugsun. Þegar nemendur fá umhugsunartíma til að hugsa um svör sín þá verða svörin oft ígrundaðri og þegar nemendur fá að ræða og bregðast við efni í kennslustund verður gagnrýnin hugsun þeirra á efnið oft meiri. Með því að ræða svörin við einhvern annan verður hugsunin einbeittari og nemendur öðlast nýjan skilning á efninu og á samræðustiginu milli nemenda getur misskilningur nemenda á efninu komið í ljós og hann er þá hægt að leiðrétta. Auk þess er mikilvægt fyrir nemendur að læra að byggja á hugmyndum annarra.

Aðferðin eykur samvinnu innan hópsins. Mörgum nemendum finnst auðveldara að eiga í samræðum við samnemanda frekar en í stórum hóp og þeir eru líka oft viljugri til að svara í stærri hópum eftir að hafa fengið að deila svörum sínum í minni hóp. Aðferðin hentar því mjög vel til að auka sjálfstraust nemenda í því að tala fyrir framan aðra og getur hentað mjög vel þegar hópurinn er að kynnast, en ekki síður hjá hópi sem þekkist vel. Aðferðin veitir nemendum líka þjálfun í tjáningu, í að útskýra fyrir öðrum og rökræða. Samvinnan stuðlar að jákvæðum viðhorfum til annarra nemenda og styrkir félagsleg tengsl innan hópsins.

Heimildir

Ingvar Sigurgeirsson. (1999). Litróf kennsluaðferðanna. Reykjavík: Æskan ehf.

Instructional Strategies Online. (e.d.). What is Think, Pair, Share?

Workshop.on.ca. (e.d.). Think-Pair-Share.

Skildu eftir svar