Sköpun og tækninýjungar í fullorðinsfræðslu
Hróbjartur Árnason
Fyrsta málstofan á Menntakviku 2020 sem kjörsviðið stendur fyrir er þessi málstofa þar sem nýútskrifaður meistaranemi kynnir meistaraverkefnið sitt sem er tilviksrannsókn á notkun Moicrosoft Teams við kennslu við kjörsviðið. Í tvö ár gerðum við tilraunir með að nota Teams sem heimili námskeiða við kjörsviðið, með það fyrir augum að sjá hvernig gengi að skapa námssamfélag með þessari þjónustu.
Þá gerir annar meistaranemi, sem er í miðjum kliðum grein fyrir sínum rannsóknum á hugtakinu sköpun og hvernig það tengist námi og kennslu og hvernig áhrif miðlæg staða sköpunar í nútíma námskrám getur haft áhrif á starfsþróun kennara.
Þá gerir Hróbjartur Árnason sem leiðir kjörsviðið grein fyrir sínum rannsóknum á kenningum um nám og sköpun hvernig þessi tvö svið mannlegrar tilveru tengjast og hvað það gæti þýtt fyrir orðræðuna um nám fullorðinna og framkvæmdina sem sprettur upp úr þeirri orðræðu.
Smelltu hér til að taka þátt á málstofunni
fimmtudaginn 1. október kl. 9:00-10:30
Hanna Guðríður Daníelsdóttir
Nýtt námsumsjónarkerfi: Microsoft Teams með OneNote
Rannsóknin fjallar um nýjan hugbúnað sem hafði trúlega ekki verið notaður við kennslu hér á landi áður en þetta verkefni fór af stað. Í rannsókninni er verið að skoða hvernig Teams með OneNote heldur utan um nemendahóp sem námsumsjónarkerfi. Kennsluhættir eru að breytast almennt og námskeiðum sem fara alfarið fram á Internetinu fer stöðugt fjölgandi. Það á við ekki síst í ljósi þeirra viðburða sem hafa átt sér stað síðastliðna mánuði þ.e. þeim sjúkdómi sem kórónuveiran COVID-19 veldur og hefur haft áhrif í samfélaginu. Nám og kennsla framhaldsskóla og háskóla landsins hafa flust á Internetið í tengslum við samkomubann. Og hafa margir gripið til þess að nota Teams í því samhengi. Meðal kennara velta menn því fyrir sér hvaða áhrif sá lærdómur sem kennarar hafa dregið af reynslunni muni hafa á kennslu til framtíðar.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að Teams með OneNote haldi vel utan um nemendahópinn og hugbúnaðurinn sé aðgengilegur hvar sem er svo framarlega að aðgengi sé að tækjum og neti. Þátttaka var misjöfn á námskeiðunum en greining á gögnum sem urðu til sýnir að það skiptir sköpum að kennari hafi þekkingu og færni til þess að halda nemendum við efnið. Huga þarf vel að innleiðingu hugbúnaðar til kennslu því það virtist of mikill tími fara hjá nemendum í að tileinka sér námsumsjónarkerfið þrátt fyrir aðgengi þeirra að leiðbeiningum.
Geir Hólmarsson
Ekki láta skynsemina bera hugmyndina ofurliði.
Sköpun er ekki vísindalegt heildarhugtak heldur er merking þess sprottin af menningarlegum og sögulegum forsendum. Ekki er til nein algild skilgreining á fyrirbærinu og það eitt fer gegn þeim skilyrðum sem allt vísindastarf grundvallast á; afmörkun og hrekjanleiki. Samt höfum við rannsakað sköpun með vísindalegum hætti í um 70 ár og niðurstaðan er töluvert undir væntingum. Afleiðingin er afskaplega flókin sviðsmynd.
Ég hef rannsakað hugtakið sköpun frá árinu 2006 og hef orðið nokkuð skýra mynd af fyrirbærinu sem ég mun fjalla um í erindi mínu. Rannsóknir á sköpun hafa fyrst og fremst farið fram innan sálfræðinnar en ég byggi mitt sjónarhorn á mun fjölbreyttari forsendum, allt frá rannsóknum á samfélagssögu mannsins til nýjustu rannsókna á lífeðlisfræðilegri virkni heilans. Ég hef myndað með mér sjónarhorn sem byggir á tveimur þáttum. Annars vegar að sköpun er hugtak yfir eðlislægt hugrænt fyrirbæri mannlegrar hugsunar sem byggir á virku ímyndunarafli og ræður því hvernig við skiljum veröldina og hvaða merkingu við leggjum í þann skilning. Hins vegar, það hvernig sköpunin birtist okkur er háð þeirri samfélagsgerð og samfélagsmenningu sem við reisum utan um sameiginlega tilveru okkar.
Vestræn samfélagsgerð hefur t.d. síðustu 500 árin jaðarsett ímyndunaraflið og ofgert röklegri skynsemishyggju sem m.a. birtist í því hvernig við hugsum sem samfélag en sá þankagangur er mjög ólíkur skapandi eðlishugsun mannsins. Ég mun í erindi mínu útleggja þessar niðurstöður og leggja fram hugmynd að öðrum valkosti en þeim sem blasir við okkur í umræðunni um sköpun.
Hróbjartur Árnason
Nám og sköpun, tvö nátengd hugtök – afleiðingar þess fyrir kennslu fullorðinna.
Lengi hefur fólk rætt um nám sem eitthvað sem gerist þegar fólk aflar upplýsinga og hæfni, á virkan hátt og óbeint. Þannig að þegar einhver vildi styðja skipulega við nám annarra væri aðal verkefni hans eða hennar að miðla upplýsingum, á áhrifaríkan, áhugaverðan og skiljanlegan hátt. En í ljósi þess sem við vitum í dag um nám og kennslu hlýtur þetta að teljast ákaflega einfaldur skilningur á fyrirbæri sem er margþættur og flókinn þáttur mannlegrar tilveru. Á svipaðan hátt hefur frumleg sköpunargáfa verið álitin hæfileiki sem fólk hefur eða ekki. Þó hafa þeir sem rannsakað hafa sköpun löngu sýnt fram á það að frumleg sköpunargáfa sé hæfni sem allir hafa og sé hægt að læra, þjálfa og kenna.
Rannsókn á kenningum um miðlæga ferla í námi fullorðinna annars vegar og í sköpun hins vegar leiðir í ljós að þessi tvö ferli eru náskyld og virðast stundum vera sitt hvor hliðin á sama peningnum.
Í þessari kynningu mun ég gera grein fyrir greiningu minni á rannsóknum og kenningum um nám annars vegar og sköpun hins vegar. Greiningin bendir til þess að þessi tvö ferli séu náskyld og skarist. Það leiðir til spurninga um merkingu þess fyrir skipulagt nám fyrir fullorðna, hvort sem það fer fram á ráðstefnum, símenntunarnámskeiðum eða þjálfun á vinnustöðum. Ef nám og sköpun eru náskyld ferli, gæti verið að umhverfi, nálganir, aðferðir sem við þekkjum úr heimi sköpunar ættu að fá meira vægi í umhverfi og ferlum sem eru skipulögð með nám fullorðinna að markmiði?
Hvernig tekur þú þátt?
Smelltu á slóðinni til að taka þátt í tölvu eða snjalltæki. Ef þú notar snjallsíma eða spjaldtölvu þarftu að setja fyrst upp Zoom appið í app store eða Play store. Hægt er að taka þátt með virkum hætti í textaspjalli og einnig með hljóð/myndspjalli – við reiknum með líflegum umræðum. Best er að koma inn á fund (í upphafi) með slökkt á hljóði og myndavél. Neðst í glugga fundarherbergisins eru myndtákn fyrir myndavél og hljóðnema. Vinsamlega kveikið þar á myndavél og hlóðnema þegar við á. Góð regla að endurræsa tölvu fyrir þátttöku.
Smelltu hér til að taka þátt á málstofunni
fimmtudaginn 1. október kl. 9:00-10:30
Þetta er ein af þremur málstofum sem Kjörsviðið Nám fullorðinna kemur að á Menntakviku 2020:
Málstofurnar sem kjörsviðið Nám fullorðinna kemur að eru:
- Raunfærnmat á háskólastigi
- Sköpun og tækninýjungar í fullorðinsfræðslu
- Fjarmenntabúðir stuðningur háskóla við skólastarfið
Skildu eftir svar
Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.