Your site
21. desember, 2024 14:09

Þrautsegja fullorðinna nemenda

Understanding persistence in adult learning

Veronica McGivney

https://adultlearning.wikispaces.com/file/view/Understanding+persistence+in+adult+Learning.pdf

 

Dr. Veronica McGivney er verkefnastjóri (e. project manager) hjá National Institute of Adult Continuing Education í Bretlandi, en það eru alþjóðleg samtök sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins á aðild að. Hún hefur gefið út, ein eða með öðrum, að minnsta kosti14 bækur sem tengjast menntun fullorðinna og skrifað fjölda greina – fyrir utan það sem hún hefur skrifað um menntun almennt. Greinin sem sagt verður frá hér, Understanding persistence in adult learning, kom út árið 2004 og í hana hefur verið vitnað 183 sinnum.

Greinin er samantektargrein þar sem höfundur tekur saman niðurstöður nýlegra rannsókna, bæði á helstu ástæðum fyrir brotfalli fullorðinna námsmanna og því hvað það er sem stuðlar að því að þeir hafi þá þrautsegju sem þarf til að ljúka námi.

 

Greinin hefst á því að McGivney ber námsferla þeirra sem fullorðnir eru saman við námsferla yngra fólks. Hún segir frá eigin rannsóknum á þessu sviði og greinir frá niðurstöðum þeirra, en þær hafa leitt í ljós að á meðan námsferill yngri námsmanna sé yfirleitt línulegur, er ekki hægt að segja það sama um námsferil fullorðinna. Hann inniheldur oft námshlé og er yfirleitt fjölbreyttari. Námsferðalag fullorðinna getur nefnilega farið í ýmsar áttir, eins og til dæmis

  • upp á við, þannig að nemendur öðlist hærra menntunarstig og meiri hæfni,
  • til hliðar, þannig að nemendur halda áfram að læra á sama stigi og þeir eru nú þegar á, til þess að dýpka og staðfesta ( consolidate) þekkingu eða til að læra eitthvað nýtt án þess að upplifa þá pressu sem fylgir námsmati, eða
  • niður á við þegar þeir fara að læra á lægra menntunarstigi en þeir hafa, til að sinna áhugamálum eða auka þekkingu og hæfni
  • eða í „sikksakk“ hreyfingu, þar sem nemendur flakka á milli lægra stigs og hærra stigs námskeiða.

Greinarhöfundur tekur þó fram að vissulega fylgi þó margir fullorðnir línulegum námsferli, en raunin er sú að það eru fleiri þættir sem hafa áhrif á getu þeirra til þess heldur en hjá ungu fólki. Þar ber helst að nefna ytri þætti eins og aðstæður sem tengjast atvinnu, heimilislífi og fjármálum. Af þessu leiðir að fullorðnir eru oft lengur að ná markmiðum sínum í námi en ungt fólk, þeir eru líklegri til að sækja nám nálægt heimili sínu eða vinnustað þó svo að þær stofnanir henti etv ekki nógu vel og í þriðja lagi getur grunnnám þeirra verið orðið úrelt og sjálfstraust þeirra til sjálfs sín námslega gæti verið lágt ef langt er síðan þeir voru í námi síðast.

 

Í rannsóknum á fjölda eldri nemenda sem hætta í námi er oft óljóst hvað það þýðir að vera „eldri“ nemandi og tölfræðin segir heldur ekki alla söguna. Ekki kemur fram hvort nemendur hafi til dæmis skipt um skóla og lokið námskeiðinu annars staðar, hvort nemandi hafi aðeins verið í námskeiðinu vegna eigin áhuga og hafi því enga þörf fyrir að mæta í lokapróf og fleira.

 

Ástæður þess að fullorðnir námsmenn ljúka ekki námi

Ástæður þess að fullorðnir námsmenn ljúki ekki því námi/námskeiðum sem þeir skrá sig í eru margar og fjölþættar. Yfirleitt eru það samt ýmsir þættir sem hafa þau samverkandi áhrif að fólk dregur sig úr því námi sem það hafði annars ætlað sér að klára. Margar ástæður eru þær sömu og yngri námsmenn segja frá, en nokkrar eiga aðeins við um nemendur sem eru eldri en 25 ára.

Samkvæmt fyrri rannsókn McGivney er mikill munur er á ástæðum þess að fólk hætti í námi á meðal fullorðinna á styttri námskeiðum (minna en 20 vikur) og þeirra sem eru á lengri námskeiðum. Mæting þeirra sem eru á styttri námskeiðum ræðst að miklu leiti af tímabundnum aðstæðum eins og til dæmis veðrinu, fjölskylduvanda, veikindum eða vandræðum með samgöngur. Ef þessir þættir hafa áhrif á mætingu í nokkrar vikur finnst sumum nemendum að það sé ekki þess virði að halda áfram í náminu þar sem þeir séu búnir að missa svo mikið úr, svo þeir hætta. Ef námskeiðin eru lengri eru aðrir hlutir sem hafa áhrif á þrautsegju nemenda. Það eru til dæmis vandræði tengd veikindum (barna, maka eða sjálf), auknu álagi í vinnu og að fólk upplifir að það hafi ekki tíma. Þá telur höfundur greinarinnar að líklegt sé að það séu sterk tengsl á milli þess hve miklar flækjur fólk sé að glíma við í einkalífinu og í vinnunni hjá fullorðnum námsmönnum og því hversu líklegir þeir séu til að ljúka námi. Þá er einnig ólíklegra að nemendur í fjarnámi ljúki námi heldur en þeir sem í staðnámi eru. Þá eru einnig tengsl á milli þess hversu langt nám er og hversu líklegt er að fullorðnir námsmenn ljúki því, en því lengra sem námið er þeim mun ólíklegra er að þeir útskrifist.

McGivney vísar til eigin rannsóknar og segir frá því að karlmenn séu líklegri til að hætta í námi út af vanda tengdum námskeiðinu sjálfu, peningum eða vinnu en konur eru líklegri til að hætta vegna fjölskylduaðstæðna. Þá hafa nokkrar aðrar rannsóknir einnig leitt í ljós að konur eiga oft erfitt með að samræma kröfur í námi við þær kröfur sem gerðar eru á þær varðandi börn og heimilishald.

Þegar fullorðnir fara í nám skiptir stuðningur fjölskyldunnar og nánasta umhverfis þeirra miklu máli. Rannsóknir hafa leitt í ljós að karlmenn fá meiri stuðning og hvatningu frá mökum sínum en konur, þrátt fyrir að mikill meirihluti kvenna bíði með að fara aftur nám þangað til börnin voru orðin nógu gömul til að geta bjargað sér nokkurn veginn sjálf.

Eldri nemendur eru líklegri til að eiga erfitt fjárhagslega en þeir ungu á meðan á námi stendur og vita minna um þá fjárhagsaðstoð sem er í boði fyrir nemendur.

Greinarhöfundur leggur áherslu á að þrátt fyrir allar ofangreindar ástæður megi lesandinn þó ekki draga þá ályktun að menntastofnanir geti ekkert gert til að draga úr brottfalli fullorðinna námsmanna, heldur sé einmitt ýmislegt sem þær geti endurskoðað hjá sér. Hún minnir á að óánægja með námskeið og/eða námsstofnun sé einnig algeng ástæða þess að fullorðnir námsmenn hætta í námi, og að ef fólk sé ekki nógu ánægt og sé einnig að eiga við einhvern af ofangreindum vandkvæðum sé það nánast uppáskrift upp á að viðkomandi muni hætta í námi. Í þessu samhengi bendir McGivney því á mikilvægi þess að námskeiðislýsingar séu ítarlegar – og að eftir þeim sé farið. Hún vitnar í tvær rannsóknir sem benda til þess að fullorðnir námsmenn eigi erfitt með að fá upplýsingar um hvað kennt verði á námskeiðum, tímaáætlanir og hversu mikið vinnuálag sé áður en þeir skrái sig. Margir eru því óundirbúnir fyrir það álag sem á námskeiðinu er, og eru jafnvel skráðir í námskeið sem henta þeim ekki því þeir hafa ekki nægilegar upplýsingar.

Höfundur talar einnig um að menntastofnanir séu ekki nógu hjálplegar þegar kemur að því að aðstoða nemendur við að velja sér námskeið. Hún nefnir til dæmis að stundum sé hætt við ákveðin námskeið og að þá séu nemendur settir í önnur svipuð námskeið án þess að við þá sé rætt, fyrra nám og reynsla nemenda séu ekki metin að verðleikum og þeir því settir í námskeið sem henta ekki getu þeirra eða að litla aðstoð og ráðgjöf sé að fá um námskeiðisval þegar nemendur átti sig á því að þeir eru skráðir í röng námskeið.

Það skiptir líka máli að fólki finnist það eiga heima í skólanum og upplifi sig ekki sem utanaðkomandi. Á meðal nemenda í staðnámi (óháð aldri) er helsta ástæða þess að fólk hættir í námi sú að það er einmana í skólanum og finnst það ekki ná sambandi við samnemendur sína né kennara. Bent er á að fullorðnir nemendur séu enn viðkvæmari fyrir þessu en aðrir, ef það eru fáir fullorðnir í náminu. Einangrun er sérstaklega stórt vandamál hjá fjarnemendum þar sem þeir hitta ekki samnemendur sína, nema sérstaklega sé að því hugað.

Bent er á mikilvægi þess að meta hæfni og reynslu fullorðinna nemenda, sem og að taka tillit til fjölskyldulífs og þeirrar vinnu sem þeir sinna. Einnig kemur fram að fólk sé líklegra til að halda áfram með þau verkefni sem það tekur sé fyrir hendur ef það er hluti af vinsamlegum hóp sem styður það og metur að verðleikum. Í lok þessa kafla segir McGivney að kennarar geti líka auðveldlega dregið úr fullorðnum námsmönnum með því að gefa sér ekki tíma til að kynnast þeim og sýna áhuga á því sem þeir eru að sinna utan skóla.

 

Þættir sem stuðla að þrautseigju

Þó svo að utanaðkomandi þættir, eins og vinna og fjölskylda, hafi stundum þau áhrif á fullorðna nemendur að þeir hætta í námi, á það ekki við um þá alla. McGivney segir að það sem aðgreinir hópana sé yfirleitt munur á drifkrafti þeirra og áhugahvöt. Áhugahvöt (e. motivation) er orð sem oft er notað til að lýsa fullorðnum námsmönnum og margir kennarar tala um að þeir séu áhugasamari heldur en þeir sem yngri eru. Ástæður þess eru til dæmis þær að eldri nemendur hefur lengi langað til að fara í það nám sem þeir eru komnir í, þeir hafa þurft að fórna einhverju til að geta verið í námi, þeir vilja sanna fyrir sjálfum sér og öðrum að þeir geta lært og náð hæfniviðmiðum, eða vegna þess að vinnustaður þeirra gerir kröfu um að ákveðin námskeið séu sótt og þeim lokið. Líklegt er að nemendur í fjarnámi þurfi að búa yfir meiri áhugahvöt en þeir í staðnámi, þar sem aðrir þættir styðja einnig við þá (til dæmis samskipti við samnemendur og kennara).

Samkvæmt McGivney eru þeir námsmenn sem njóta fjárhagslegs stuðnings á meðan þeir eru í námi líklegri til að ljúka námi sínu en aðrir og hefur það enn meiri áhrif hjá fullorðnum námsmönnum en hjá þeim yngri – fullorðnir eru 38% ólíklegri til að hætta í námi ef þeir fá fjárstyrk, en yngri námsmenn aðeins 10% ólíklegri. Þá bendir ýmislegt til að þetta eigi ekki við um fjarnema og að líkurnar á að þeir ljúki námi séu verri en hjá þeim sem ekki fá neina fjárhagsaðstoð.

Hún telur einnig að hægt væri að draga mikið úr brottfalli ef nemendur fengju ítarlegar námskeiðislýsingar og upplýsingar um vinnuálag

ag﷽﷽﷽﷽﷽﷽﷽vinnudu skr RATES ef nemendur fengju þorðna nrir kröfu um að ð taka það náður en þeir skrá sig á námskeið, því ef það er ólíkt því sem nemendur bjuggust við er líklegt að þeir hætti frekar en annars. Þá segir hún að gæði námskeiðis séu líka gríðarlega mikilvæg fyrir námsmenn sem eru í námi sjálfra sín vegna (en ekki til dæmis á vegum vinnu sinnar). Ef innihald námskeiðis er leiðinlegt, lækkar hvatinn til að halda áfram námi, sérstaklega ef nemendur standa utan við félagsnet nemendahópsins.

Vinsamlegir kennarar sem sýna nemendum áhuga og veita þeim einstaklingsmiðaðan stuðning, ásamt uppbyggilegri og skjótri endurgjöf skipta sköpum í námslegri þrautseigju. Persónuleiki og viðhorf kennara skipta eldri nemendur meira máli en þeirra sem yngri eru, og lang mestu máli fyrir fjarnema.

McGivney segir hópsamstaðu vera sérstaklega mikilvæga fyrir þá nemendur sem tilheyra minnihlutahóp í námsumhverfinu og geta ekki stundað félagslífið af jafn miklu kappi og aðrir vegna heimilis og vinnu. Þetta skiptir enn meira máli fyrir fjarnema, myndun lærdómshópa getur hjálpað mikið við að hvetja nemendur áfram, og sérstaklega ef reglulegt samband er milli nemenda og hjálpsams kennara.

Þó menntastofnanir geti lítið gert við þeim utanaðkomandi þáttum sem hafa áhrif á námsframvindu nemenda, geta kennarar þó veitt utanum hald. Höfundur talar um að rannsóknir The National Audit Office sýni að þó yngri nemendur kunni illa við að kennarar fylgist með hvernig þeir mæta, kunni eldri nemendur vel að meta það og taki því sem kennarar séu að sýna þeim áhuga. Að senda tímaglósur og verkefni til nemenda sem mæta illa hjálpar þeim sem annars myndu hætta vegna kvíða yfir því að halda ekki í við samnemendur að halda áfram.

 

Í lokaorðum sínum segir McGivney að það séu ekki bara hagsmunir menntastofnana að nemendur ljúki námi, heldur einnig hagsmunir nemenda. Nemendur beri kostnað af því að ljúka ekki námi og upplifa þá einnig að þeim hafi mistekist og séu ekki nógu góðir (e. inadequate). Þessar afleiðingar segir hún að séu hins vegar enn verri fyrir fullorðna námsmen heldur en þá sem yngri eru, vegna þess að fólk sem komið er yfir þrítugt hefur færri tækifæri til að hefja nám aftur og oft koma aðstæður þeirra í veg fyrir það. Ef þessir eldri nemendur hafa upplifað að þeim hafi mistekist og séu ekki nógu góðir til að vera í námi hafa þeir því ekki færi á að reyna aftur og leiðrétta þær tilfinningar. Því telur McGivney gríðarlega mikilvægt að kennarar reyni að halda utanum eldri nemendur og fylgjast með hvort þeir séu að mæta og skila verkefnum, bjóða fram aðstoð sína og styðja þá sem eiga erfitt í náminu. Það verða þó alltaf einhverjir nemendur sem ljúka ekki námi og það er ekki alltaf vegna þess að eitthvað misfórst hjá nemandanum eða menntastofnuninni, heldur vegna þess að það er hluti af þeim ákvörðunum sem fólk tekur í lífinu og breyttum aðstæðum. Fyrir marga er það rétt ákvörðun að hætta í námi og við megum ekki gleyma að samþykkja og styðja þær ákvarðanir.

 

 

Greinin er ágætlega skýr og vel sett fram en mér fannst hins vegar hálf undarlegt hversu mikið höfundur vitnar í eigin rannsóknir og setur einnig fram ýmsar fullyrðingar án þess að því er virðist styðja við nokkrar rannsóknir. Einnig er nokkuð um að staðhæfingar séu settar fram án nokurra útskýringa þannig lesandinn veit ekki alveg átt er við og þarf að leita sér frekari upplýsinga til að skilja almennilega.

Fyrir kennara eða leiðbeinendur sem skipuleggja námskeið fyrir fullorðna námsmenn, sem og stjórnendur í skólum er greinin mjög fín, þar sem komið er inn á marga punkta sem gott er að hafa í huga við skipulagningu og framkvæmd. Sumt af því sem kemur fram finnst mér samt ef til vill segja sig sjálft, til dæmis það að þeir sem hafa lítinn stuðning séu líklegri til að hætta í námi en þeir sem njóta mikils stuðnings heima fyrir, á meðan annað liggur kannski ekki jafn mikið í augum uppi.

Skildu eftir svar