Your site
21. janúar, 2025 12:25

Adult Learning, health and well-being – changing lives

Field, J. (2011). Adult learning, health and well-being – changing lives. Adult Learner: The Irish Journal of Adult and Community Education, 13-25. Sótt af http://eric.ed.gov/?q=Adult+learning%2c+health+and+wellbeing+-+changing+lives&id=EJ954303

 

Inngangur   

Greinin sem ég valdi að rýna í og skrifa um ber nafnið Adult learning, health and well-being – changing lives eftir John Field Hún birtist í tímaritinu Adult Learner: The Irish Journal of Adult and Community Education árið 2011 en tímaritið er gefið út einu sinni á ári. Um er að ræða virt írskt tímarit sem leggur áherslu á útgáfu greina um nám fullorðinna og samfélagsmenntun. Það miðar fyrst og fremst að því að þjóna þörfum fullorðinsfræðslu með því að veita vettvang fyrir gagnrýna ígrundun um starfshætti, kennslu og nám (Aontas – The National Adult Learning Organisation, 2016). Greinin er tekin úr Eric gagnagrunninum og er ritrýnd. Samkvæmt leit á Google Scholar hafa fimm aðilar vitnað í hana.
Hér á eftir mun ég segja frá ástæðu þess að ofangreind grein varð fyrir valinu sem viðgangsefni þessa verkefnis. Því næst fjalla ég stuttlega um höfund hennar og tel upp helstu verk sem hann hefur komið að. Þá fjalla ég efnislega um innihald greinarinnar, dreg fram rannsóknarspurningar og ræði aðferðafræðina. Að því loknu segi ég frá helstu niðurstöðum. Að lokum tengi ég hana fræðunum og set fram mitt álit á framlagi greinarinnar til fræðanna.

Hvers vegna þessi rannsóknargrein?

Ofangreind grein vakti áhuga minn vegna þess að ég hef oft á tíðum velt því fyrir mér hver sé ástæða þess að fólk velur að fara í nám á fullorðinsárum. Þá kveikti heiti hennar áhuga hjá mér og löngun til að lesa meira en fyrirsögnin er í senn lýsandi og grípandi.

Ég hef oft verið spurð að því hvers vegna ég sé í krefjandi námi með fullri vinnu. Í framhaldinu fylgir svo gjarnan að launahækkun sé ekki umtalsverð fyrir þá vinnu og álag sem fylgir náminu en ég starfa sem grunnskólakennari. Mín skoðun er sú að nám á fullorðinsárum snúist ekki eingöngu um aukna menntun og launahækkun í kjölfarið, heldur sé hamingja fólks einnig undir og löngunin til að fræðast og auka þar með við þekkingu sína. Slíkt hlýtur oft a veita ákveðna lífsfyllingu. Það að kljást við krefjandi verkefni, eiga samræður um þau og kryfja mál til mergjar er almennt afar spennandi og hlýtur oftar en ekki að skila jákvæðum og gefandi þegnum út í samfélagið.
Um höfundinn og yfirlit yfir helstu verk hans

John Field er prófessor í fullorðinsfræðslu og starfar sem forstöðumaður rannsókna við háskólann í Stirling í Bretlandi. Hann á að baki langan feril sem fræðimaður á sviði fullorðinsfræðslu og hefur gert fjölda rannsókna á því sviði einn og sér eða með öðrum. Einkum hefur hann skoðað félagslegt og efnahagslegt samhengi fullorðinsfræðslu, sögu hennar og kennslu. Hann er annar framkvæmdastjóra rannsóknarmiðstöðvar símenntunar (e. Centre for Research in Lifelong Learning) í Skotlandi (University of Stirling, e.d.). Nánari upplýsingar um hana má finna á slóðinni http://www.crll.org.uk/ Einnig heldur Field úti lifandi bloggsíðu á slóðinni https://thelearningprofessor.wordpress.com/

þar sem hann bloggar reglulega um hugðarefni sín.
Neðangreind rit eftir John Field, einan og og sér eða með öðrum höfundum, birtust við leit á Google Scholar. Þau eru talin upp með tilliti til fjölda tilvitnana í þau og eiga það öll sameiginlegt að fjalla um fullorðinsfræðslu á einn eða annan hátt.

Field, J. (2000). Lifelong learning and the new educational order. London: Trentham Books.Tilvitnanir: 1036

 Schuller, T., Baron, S., Field J. (2000). Social capital: a review and critique. Social capital: Critical perspectives,1-38. Oxforfd: Oxford University Press. Tilvitnanir: 885

 Field, J. (2008). Social Capital and Lifelong learning. London: Routledge. Tilvitnanir: 404

Field, J. (2001). Lifelong Education. International Journal of Lifelong Education. 20(1-2), 3-15. Tilvitnanir: 190

Crossan, B., Field, J., Gallacher, J., Merrill, B. (2003). Understanding participation in learning for non-traditional adult learners: learning careers and the construction of learning identities. British Journal of Sociology of Education. 24(1), 55-67. Tilvitnanir: 18

Þá er hægt að skoða fleiri rit hans á http://rms.stir.ac.uk/converis-stirling/person/11573

Umfjöllunarefni greinarinnar

Í úrdrætti greinar Field kemur fram að sífellt mikilvægara sé fyrir þá sem standa að fullorðinsfræðslu að móta betur skilning sinn á ávinningi og afrakstri fræðslunnar. Greinin fer yfir gögn um áhrif þess að taka þátt í fullorðinsnámi og skoðar sérstaklega þýðingu nýlegra rannsókna á því hvernig nám hefur haft áhrif á heilsu og velferð þeirra sem það stunda. Í heildina benda gögnin til þess að nám hafi skýr og greinanleg jákvæð áhrif á bæði velferð og heilsu nemenda. Tekið er fram að þeir sem standa að fullorðinsfræðslu eigi samt að taka þessum niðurstöðum með fyrirvara. Tengslin séu byggð á líkum og feli ekki í sér að allir einstaklingar muni hafa sama ávinning af námi og í flestum tilvikum eru áhrifin hlutfallslega lítil. Engu að síður telur Field þessar niðurstöður vera mikilvægar, í ljósi þeirra vel þekktu vandkvæða sem eru við að sannfæra fullorðna um að bæta heilsu og velferð sína með öðrum hætti, og staðfesta þá reynslu kennara að lærdómur geti stuðlað að umbreytingu í lífi fólks.
Í inngangi veltir Field síðan upp þremur rannsóknarspurningum:

  • Hvað gerir fullorðinsfræðsla? (e. What does adult education do?)
  • Hvernig hefur hún áhrif á líf nemenda? (e. How does it affect learner´s lives?)

Síðan kemur innskot um að kennarar segi oft magnaðar sögur af fólki sem vex og dafnar í námi og samfélögum sem bera höfuðið hátt. Í kjölfarið á innskotinu setur Field fram þriðju spurninguna:

  • Eru þessar sögur eitthvað meira en einangruð tilvik? (e. Are these more than individual anecdotes?)

Hann segir svör við þessum spurningum vera mikilvæg. Þrátt fyrir að fólk líti á fullorðinsnám sem af hinu góða þá nægi það ekki til að sannfæra þá sem móta stefnuna um að það sé í þágu almannaheilla og verðskuldi því fjárframlög frá hinu opinbera. Margar opinberar stofnanir, sem ekki eru með menntun á sínu verksvið, líta alltof auðveldlega framhjá fullorðinsfræðslu. Spurningin um hvaða áhrifa fólk getur vænst þegar það tekur námskeið í fullorðinsfræðslu er mikilvæg fyrir mótun stefnu og framkvæmd hennar. Jafnframt er hún mikilvæg fyrir nemendur og þá sem bjóða nám, sem og rannsakendur sem hafa áhuga á því hvernig fullorðinsnám getur breytt lífi fólks.
Field setur síðan rannsókn sína í víðara samhengi við niðurstöður þess að mennta sig. Hann segir að fyrir flesta evrópska stefnumótendur þá séu fyrstu markmið menntunar tvíþætt. Annarsvegar markmið um efnahagslegan ávinning og hinsvegar um félagslega samheldni. Eins og nýlega komi fram hjá Evrópuráðinu, þá styðji menntun og þjálfun markmið stefnunnar á breiðum grunni með því að veita íbúum þá kunnáttu og hæfni sem evrópskt hagkerfi og samfélag þarfnast til að halda samkeppnis- og nýsköpunarhæfni sinni en einnig með því að ýta undir samfélagslega samheldni og þátttöku.

Hann segir þetta marka mikilvæga breytingu yfir tíma þar sem samkeppnishæfni og þátttaka komist efst á blað á meðan persónulegar og lýðræðislegar aðgerðir/virkni menntunar færast í víkjandi stöðu eða hverfa alveg af sjónarsviðinu.

Margir fullorðinsfræðarar sjá þessa þróun sem mikið og jafnvel afdrifaríkt tap sem felur í sér breytingu frá fyrri skilgreiningum sem voru víðtækari og miðuðust við ævilanga menntun eins og þá sem sett var fram af Evrópuráðinu og UNESCO á fyrrihluta ársins 1970. Jafnvel þó stefnumótendur sjái enn fyrir sér áframhaldandi opinbert hlutverk fullorðinsfræðslu í samhengi efnahagslegs afraksturs og félagslegrar þátttöku þá er það hlutverk að verða þrengra og afmarkaðra.

Field segir rannsakendur hafa haft frá litlu að segja um víðtækari áhrif fullorðinsnáms þar til nýlega. Hinsvegar sé vitað töluvert um efnahagsleg áhrif fullorðinsnáms. Hann nefnir nýlega breska rannsókn þar sem fram kemur að þátttaka í fullorðinsnámi sé líkleg til að bæta efnahagslega stöðu. Þrátt fyrir að sá ávinningur sé hlutfallslega lítill að meðaltali þá er hann meiri fyrir konur en karla og enn meiri hjá þeim sem bæta grunnhæfni sína. Þessar rannsóknir byggjast á greiningum á stórum gagnasettum sem taka yfir lengri tíma (e. longitudinal data sets) svo sem British Cohort Studies og British Household Survey.

Field heldur áfram og segir töluverðan fjölda nýlegra rannsókna hafa kannað tengslin á milli fullorðinsfræðslu og vellíðunar. Þó niðurstöður þeirra flestra þeirra sýni jákvæð tengsl, svo sem bætta líkamlega hreysti, þá þá geti þátttaka í fullorðinsnámi einnig aukið streitu og kvíða. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á náin tengsl milli þátttöku í fullorðinsnámi

og þátttöku í félagslegri starfsemi. Þátttaka í námi hefur tilhneigingu til að auka félagsauð, þróa félagslega færni, efla tengslanet og auka umburðarlyndi gagnvart öðrum.
Aðferðafræði

Ég get ekki séð að Field gefi rannsóknaraðferðinni sinni eitthvert eitt nafn en ég tel hana eigindlega og rannsóknarsniðið vera tilviksrannsókn þar sem höfundur greinir fyrirliggjandi gögn. Í greininni metur og byggir Field á nýlegum rannsóknum sem nota þróaða tölfræðilega tækni til að kanna gögn sem ná yfir lengri tíma (e. longitudinal data). Þar er fylgst með hegðun fólks í ákveðinn tíma og reynt að sýna fram á hvaða áhrif fullorðinsnám virðast hafa á lífshlaup einstaklings. Field rýnir því í rannsóknir annarra fræðimanna á efninu og skoðar sönnunargögn, ef svo má að orði komast, fyrir þeim fullyrðingum að ævilöng menntun hafi mælanleg áhrif á velferð fólks. Sérstaklega skoðar hann rannsóknir á áhrifum fullorðinsnáms á velferð og heilsu einstaklinga og á félagslegan auð (e. social capital) sem hann skilgreinir hér sem virka þátttöku í siðmenntuðu samfélagi.

Helstu niðurstöður og fyrirvarar við þær

Field segir að gögnin sem hann skoðar í rannsóknargrein sinni í heildina vera sannfærandi. Fullorðinsnám hafi áhrif á tekjur og atvinnuhæfi fólks sem og það viðhorf og hegðun sem hefur áhrif á andlega velferð þess. Fræðilega séð væri hægt að setja hagrænt virði á þennan ávinning og mæla hann síðan á móti kostnaðinum við að fjárfesta í námi fullorðinna.
Þrátt fyrir það þá eru miklir veikleikar í gögnunum. Tengslin virðast ekki línuleg og lífshlaup fullorðinna er flókið og niðurstöðurnar mjög háðar samhengi þannig að það er afar ólíklegt að raunhæf kostnaðar – ávinningsgreining sé eftirsóknarverð eða fyrirhafnarinnar virði. Hann segir að jafnvel þó að ekki sé settur einn efnahagslegur mælikvarði á þá velferð sem fólk uppsker með því að stunda nám þá bendi gögnin almennt til þess að það séu skýr jákvæð tengsl þar á milli. Þessi áhrif er hægt að finna fyrir sumt almennt fullorðinsnám sem og starfsnám og þau eru sérstaklega merkjanleg fyrir grunnlæsi og stærðfræði.
Field ræðir um að gera þurfi nokkra fyrirvara við niðurstöðurnar.

  • Í fyrsta lagi þá séu tengslin byggð á líkum (e. probabilistic relationships); tilvera þeirra þýði ekki að að allir sem taka námskeið muni verða hamingjusamari. Eins sé það í eðli gagna, sem taka yfir lengri tímabil, að niðurstöður þeirra tengjast atburðum og reynslu sem eiga sér stað í fortíðinni. Að spá fyrir um framtíðina á grunni gagna sem eru byggð á líkum sé óáreiðanlegt.
  • Í öðru lagi segir Field að í öllum rannsóknunum sem hann rýndi í þá séu áhrifin sem greind eru hlutfallslega lítil. Þrátt fyrir það eru niðurstöðurnar þokkalega stöðugar (e. consistent).
  • Í þriðja lagi þá sé ekki hægt að vera öruggur um orsakasamhengi þar sem það sé mögulegt að þættir sem ekki eru þekktir/mældir geti útskýrt báðar niðurstöðurnar. Þetta er eingöngu hægt að skýra betur með frekari rannsóknum.
  • Í fjórða lagi þá tekur mikið af megindlegum rannsóknum nám sem gefna stærð og ber ekki kennsl á þá þætti og tegundir náms sem eru sérstaklega líklegir til að framkalla velferð.
  • Í fimmta lagi þá eru nánast engar rannsóknir á ávinningi náms sem bera kennsl á kostnaðinn við námið. Þetta dregur úr gildi þeirra fyrir stefnumótendur sem þurfa að bera saman ýmsar mögulegar aðgerðir við aðrar leiðir til að ná svipuðum niðurstöðum.

Field segir svo að þrátt fyrir óhjákvæmilega takmörkun á hverskonar rannsóknum og að reikna þurfi með götum í þeim þá hafi hann trú á því að tímaháðar (e. longitudional) rannsóknir kynni til sögunnar meiriháttar framþróun á þekkingu fólks á efnahagslegum, einstaklingsbundnum og félagslegum áhrifum náms. Þær myndi grunn sem hægt verði að þróa með frekari vinnu.

Að lokum kemur hann aftur að upphafspunkti greinar sinnar og segir nám fullorðinna breyta lífi fólks. Eða með nákvæmari hætti þá gefi það fólki kost á tækjum (e. resources) sem það getur notað til að gera breytingar á sínu eigin lífi. Þessar breytingar geta verið einstaklega mikilvægar fyrir þá sem hafa minnstu upphaflegu menntunina. Það sem sé ekki vitað fullkomlega ennþá er hvaða tæki hjálpa fólki að gera hvaða breytingar. Það sem er vitað, er að mjög hagnýt hæfni, stundum nefnd grunnhæfni eða jafnvel tæknileg eða verkleg hæfni getur haft mestu áhrifin á líf fólks.

 

Tengsl við fræðin

Rannsóknin tengist á ýmsan hátt mörgu því sem við höfum skoðað í námskeiðinu í vetur. Tengsl eru við Malcolm Knowles og kenningar hans um að fullorðnir hafi sterka tilfinningu um sjálfsforræði og því sé mikilvægt að bera virðingu fyrir sjálfsákvörðun þeirra og ábyrgð. Í öðru lagi að lífsreynsla fullorðinna hefur margvísleg áhrif á nám og fullorðnir námsmenn hafa ýmsa lífsreynslu í fórum sínum (Merriam, Caffarella og Baumgartner, 2007). Fullorðnir eiga sér sem sagt líf utan kennslustofunnar og til þess þarf að horfa. Rannsókn Field byggir síðan á grunni ýmissa fyrri rannsókna á svipuðu sviði. Þar er nærtækast að nefna þær rannsóknir sem hann nýtir sér í þessari grein en alls vitnar hann til þrjátíu og fimm greina sem margar fjalla um fullorðinsnám og áhrif þess á þá sem það stunda.
Hverju bætir greinin við umræðu um viðfangsefnið

Field segir greininni ætlað að skoða með hvaða hætti fullorðinsnám hafi áhrif á heilsu og velferð þátttakenda. Hann segir það jafnframt vera tiltölulega nýtt svæði fyrir rannsakendur sem nýlega hafa farið að veita félagslegum áhrifum fullorðinsfræðslu meiri athygli. Þrátt fyrir að þeir hafi haft heilmikið að segja um einstaklingsbundnar niðurstöður fullorðinsnáms þá hefur mest af þeim byggst á tiltölulega þröngum rannsóknargrunni. Í ljósi þessa má segja að Field sé að bæta við í fræðasamfélagið með grein sinni. Í greininni er að finna öðruvísi nálgun á viðfangsefninu nám fullorðinna en ég er upplifa í í námskeiðinu Skipulag og framkvæmd fræðslu með fullorðnum en engu að síður tengist það þemum námskeiðsins á einn eða annan hátt. Segja má að Field fari inn á þætti sem eru pólitískir. Hann heldur því fram að fullorðinsfræðsla auki í raun lífsgæði fólks og horfa þurfi betur til þess hjá yfirvöldum að skoða mikilvægi þessa þáttar á móti kostnað. Það er að segja hvort hægt sé að minnka kostnað á öðrum sviðum þjóðfélagsins með því að gera fullorðinsfræðslu hærra undir höfði og veita til hennar meira fjármagni.

Álit mitt á greininni og framlagi hennar til fræðanna

Ég tel framlag greinarinnar til fræðanna vera umtalsvert því eins og Field segir sjálfur þá skortir rannsóknir á þessu sviði. Þó finnst mér umhugsunarvert að einungis fimm aðilar skuli hafa vitnað til hennar á þeim rúmlega fimm árum sem liðin eru frá því hún var skrifuð. Eins verð ég að segja að á köflum eru niðurstöður Field stundum svolítið loðnar. Hann gerir yfirleitt nokkra fyrirvara á þeim og virðist næstum því vera efins um það sem hann setur fram. Upplifun mín af lestrinum var stundum sú að hann líkt og vissi ekki alveg hvað hann vildi segja, hann ýmist bætir í eða dregur úr.

Ef ég vík síðan aðeins að gæðum greinarinnar þá er hún vönduð að gerð og nokkuð auðlesin. Rætt er um viðfangsefnið á faglegan hátt og vísað til fjölda fræðimanna við skrifin. Greinin er rituð af virtum fræðimanni John Field sem hefur skrifað margar greinar á sviði fullorðinsfræðslu. Hún birtist í The Irish Journal of Adult and Community Education sem er virt ritrýnt tímarit. Ítarleg heimildaskrá fylgir greininni þar sem skráðar eru fjölbreyttrar heimildir svo sem ýmis fræðirit og rannsóknir. Síðan hljóta það að vera meðmæli með henni að kennarar í háskólum leggja blessun sína yfir hana með því að leyfa nemendum að vinna verkefni í tengslum við hana.

.

Heimildir

Aontas – The National Adult Learning Organisation. (2016). The Adult Learner Journal. Sótt af http://www.aontas.com/pubsandlinks/theadultlearner.html

Field, J. (2011). Adult learning, health and well-being – changing lives. Adult Learner: The Irish Journal of Adult and Community Education, 13-25. Sótt af http://eric.ed.gov/?q=Adult+learning%2c+health+and+wellbeing+-+changing+lives&id=EJ954303

Merriam, S. B., Caffarella, R. S. og Baumgartner. (2007). Learning in Adulthood: A Comprehensive Guide (3 útg.). San Francisco: Jossey-Bass.

University of Stirling. (e.d.). Research – Prof John Field. Sótt af http://rms.stir.ac.uk/converis-stirling/person/11573

Skildu eftir svar