Your site
19. apríl, 2024 14:56

Hvað eru gæði?

Aukin áhersla hefur verið lögð á gæðastarf í fullorðinsfræðslu síðustu ár. Það tengist einna helst þörfinni fyrir að sýna fram á að því fé sem varið sé til fulloroðinsfræðslu skili tilætluðum árangri. Ýmis gæðakerfi hafa veirð tekin upp meðal fullorðinsfræðslualila svo sem ISO-9001, EQM og LQW svo dæmi séu tekin. Þegar vinna við gæðamat fer fram er nauðsynlegt að spyrja sig þeirrar grundvallarspurningar; Hvað eru gæði? Þetta hljómar í grunnin einfalt en það getur reynst erfitt að skilgreina hugtakið gæði þegar meta á skólastarf.

education_change

Hvað skiptir mestu máli þegar hugtakið gæði er skoðað í tengslum við skólarstarf, menntun og fullorðinsfræðslu? Er það: Upplifun námsmanna? Umgjörð, aðstaða og utanumhald? Eða árangur? Í leit minni að því í hverju gæði eru fólgin í skólastarfi almennt og í framhaldsskólum og fullorðinsfræðslu sérstaklega náði eftirfarandi tilvitnun athygli minni;

Quality of any type and form of education is an elusive concept, which in fact, is difficult to define. It requires different meanings in various contexts and the word itself implies different things to different people.
(Papastamatis, A.S et. Al, 2009, bls. 7).

Þetta getur skapað ákveðin vandamál þar sem hugtakið gæði er mjög opið. Það sem telst til gæða hjá einum er ekki endilega það sama og myndi teljast til gæða hjá öðrum. Það er því áhugavert að skoða hvað teljast gæði? Fyrir hverjum? Og að lokum hvað teljast gæði hjá mér?

Papastamatis og félagar (2009) fundu tvær megin ástæður fyrir mati á gæðum í fullorðinsfræðslu. Bent hefur verið á að gæði í fullorðinsfræðslu hafa fyrst og fremst verið metin út frá tveimur ólíkum forsendum: Í fyrsta lagi er menntun / fræðsla fullorðinna metin sem þjónusta í almannaþágu og í öðru lagi er fullorðinsfræðsla metin út frá því að mæta þörfum viðskiptalífsins fyrir hæft vinnuafl. Papastamatis og félagar (2009) benda einnig á að hægt sé að skoða gæði út frá ýmsum öðrum sjónarhornum. Sem dæmi nefna þeir gæði þeirra stofnana sem veita fræðslu, gæði skilgreind út frá námsmanninum sjálfum og gæði skv. stefumörkun hins opinbera. Nýleg könnun á íslenskum símenntunarmiðstöðvum byggð á viðtölum við kennara og verkefnastjóra í fullorðinsfræðslu leiddi í ljós þrjú megin þemu sem töldust til gæða í símenntun. Í fyrsta lagi er ánægja þátttakenda vísbending um gæði. Í öðru lagi að nemandi hafi tileinkað sér ákveðna færni og leikni eftir námið. Í þriðja lagi töldust góð tengsl við kennara vera ávísun á gæði (Hróbjartur Árnason et. al, 2014, bls 40-41) .

Þegar við tölum um gæði er mikilvægt að hugsa um nokkur grundvallaratriði. Fyrir hverja erum við að meta gæði? Eru það fræðslustofnanir, atvinnulífið, þeir sem greiða fyrir námskeiðin eða námsmennirnir sjálfir? Þessi vitneskja hefur sannarlega áhrif á hvernig hugtakið gæði er skilgreint. Einnig er áhugavert að íslenskir aðilar sem starfa í símenntunargeiranum virðast hafa nemendamiðað viðhorf til gæða, þ.e fyrir þeim skiptir mestu máli að nemandinn sé ánægður, hann hafi lært eitthvað og sé í góðum tengslum við kennarann sinn. Áhugavert er að velta fyrir sér hvernig þessi sýn samræmist opinberri stefnumótun og þeim gæðakerfum sem tekin hafa veirð upp hér á landi.

Donald Kirkpatrik hefur verið leiðandi í umfjöllun um gæði í símenntun um áratugaskeið. Hann leggjur áherslu á ánægju nemenda þegar gæði námskeiða í fullorðinsfræðslu hafa verið skoðuð. Samkvæmt módeli Kirkpatriks er árangur námskeiða metinn í fjórum skrefum. Í fyrsta lagi þarf að kanna viðbrögðin við sjálfu námskeiðinu. Í öðru lagi þarf að meta þá þekkingu sem þátttakandi aflaði sér. Í þriðja lagi þarf að meta hvort námskeiðið breytti atferli eða hegðun þátttakenda á e-h hátt. Í fjórða lagi þarf að meta áhrif á áraangur og afkomu þess fyrirtækis sem þátttakandi starfar hjá. Kirkpatrik lítur á þetta verklag sem eina órjúfanlega heild þar sem einn þáttur er forsenda þess næsta (Kirkpatrik, 2006).

Nálgun Kirkpatriks sé mjög yfirgripsmikil og snúi jafnvel að meira heldur en því sem oft telst til mats á gæðum í námi. Kirkpatrik bendir á að við þurfum að ákveða hvað við ætlum að telja til gæða s.s aðstöðu, dagskrá, veitingar, leiðbeinendur, innihald námskeiðs osfr. Hann bendir á nauðsyn þess að hver stofnun ákveði sjálf í hverju gæðin skulu fólgin hjá þeim. Hversu hátt hlutfall þátttakenda þarf að vera ánægður t.d? Hann leggur auk þess mikla áherslu á að niðurstöður af slíku mati séu notaðar til að bæta námskeiðið í framtíðinni, annars sé slíkt mat tilgangslaust. (Kirkpatrik, 2006)

Torhild Slåtto (2008, bls. 41) bendir á að algeng skilgreining á hugtakinu gæði sé “það sem hæfir tilganginum”. Þannig að ef við skoðum hugtakið gæði út frá kennslu og hlutverki leiðbeinandans má segja að gæði snúist um að nám eigi sér stað og að námsmenn nái settum markmiðum. Ég er sammála Thorhild í því að í skólastarfi snúist gæði ekki síst um námsmannin, nemendanan eða þátttakendanum í námskeiðinu og ávinning hans af þátttöku sinni. Við getum haft góða umgjörð, ítarlegar námskeiðslýsingar og góða kennslu en við förum á mis við gæði náms ef nemendur leggja ekkert af mörkum sjálfi til þess að læra, og læra því lítið sem ekkert. Framlag námsmannsins sjálfs, það sem hann leggur til námsins er þar af leiðandi stór hluti af því sem telst til gæða í skólastarfi.

Nú hef ég starfað lengi í fullorðinsfræðslu en hef nýlega hafið störf sem framhaldsskólakennari. Þessi nýja reynsla mín fær mig til að vilja spyrja hvað teljist til gæða innan framhaldsskólans. Er einblínt of mikið á árangur nemenda á kostnað annarra gæða í skólastarfi? Er ásættanlegt að þriðjungur framhaldsskólanema hverfi frá námi? Hvernig metum við ánægju og framfarir nemenda á sanngjarnan hátt? Þetta eru hlutir sem vekja áhuga minn varðandi gæðastarf í framhaldsskólum og hef ég hug á að kanna þessa fleti nánar á þeirri vegferð sem framundan er gegnum viðfangsefnið gæðastarf í skólum.

Heimildir;
Hróbjartur Árnason, Áslaug Bára Loftsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Særún Rósa Ástþórsdóttir (2004) , Gæðanám í GÁTT Ársrit Fræðslumiðstöðvar Atvinnulífsins, bls. 37-46.

Kirkpatrik, D. (2006). Evaluating Training Programs, Berret-Koehler Publishers Inc, San Fransisco.

Papastamatis, Ad., Valkanos, Ef., Zafiris, G.K. & Panitsidou, Eug. (2009), Educating the adult educator, ESREA Conference Proceedings, University of Macedonia, Thessaloniki, bls. 435-442.

Skildu eftir svar