Your site
20. febrúar, 2024 22:25

Námskeiðsmappa

mappa

Ímyndaðu þér að eiga á einum stað – uppi í hillu – möppu með öllu sem þú þarft til að halda námskeið sem þú hefur einhverntíman haldið, ásamt öllu því sem þú hefur lært á því að halda námskeiðið. Skipulagið, þátttakendalista, allt kennsluefnið, glærur og annað efni sem þú ljósritar og dreifir til þátttakenda, námskeiðsmat, viðbrögð nemenda og pælingar þínar… allt á einum stað, þannig að þegar kallið kemur ertu með efnið tilbúið og getur með stuttum fyrirvara stokkið af stað og haldið námskeiðið.

Eða sjáðu fyrir þér skjal sem þú hefur á tölvunni þinni sem inniheldur gátlista og spurningar sem hjálpa þér í gegnum ferlið að skipuleggja nýtt námskeið, þannig að þú gleymir engu. Þú getur safnað saman efni í skjalið og þegar það er tilbúið prentar þú skjalið út, setur í möppu, með öðrum skjölum sem skipta máli. Þannig safnar þú saman á einn stað, öllu sem þú þarft til að skipuleggja námskeiðið, allar spurningar, pælingar, minnisatriði og efni er allt á einum stað.

Þetta er námskeiðsmappan sem þú munt læra að útbúa þegar þú lest þessa færslu.

smelltu á myndinni til að sækja pdf útgáfu af hugarkortinu

Með námskeiðsmöppu sem þessari getur þú á skilvirkan og áþreifanlegan hátt safnað saman efni á einn stað þangað til þú ert tilbúin/n með námskeið sem þú vilt halda fyrir tiltekinn hóp þátttakenda.

Hvað er námskeiðsmappa?

Námskeiðsmappa er áþreifanleg mappa – bréfabindi – sem inniheldur allt sem þú þarft til að undirbúa og halda námskeið. Þar finnur þú gátlista fyrir undirbúning og framkvæmd námskeiðsins, nákvæma dagskrá hverrar kennslustundar, námsgögn og nýsigögn (glærur og annað) frumrit að öllum dreifildum, þátttakendalista frá fyrri námskeiðum og fyrir það næsta, glósur, mat þátttakenda, þig eigið mat hugmyndir og viðbótarefni. Sem sagt allt sem þú þarft til að geta haldið námskeiðið.

Hvað græðir þú á því að útbúa svona möppu?

Með því að útbúa áþreifanlega námskeiðsmöppu eftir þessu sniðmáti færð þú markþjálfa í pakka 😉 sem leiðir þig áfram  við ferlið að skipuleggja nýtt námskeið. Þegar námskeiðsmappan er komin hefur þú allt sem þú þarft á einum stað. Það þýðir aukið öryggi fyrir þig þegar þú ert að skipuleggja nám fyrir aðra og enn meira öryggi þegar þú kennir. Þú gleymir síður smáatriðum sem skipta máli og því er minna stress í tengslum við skipulagningu námskeiðsins.

Námskeiðsmappan er því skiljanlega leið til þess að auka gæði namskeiðs sem þú heldur. Hvort sem þú ert að skipuleggja nýtt námskeið, eða gamalt sem þú vilt festa niður – eða endurvinna – til að auka gæði þess þá gagnast námskeiðsmappan vel. Þar að auki er hún kjörin sem stuðningur þegar þú vilt breyta einhverju í kennslunni. Við þekkjum það öll að ætla okkur að gera öðru vísi næst, en uppgötva svo að við gerum alveg eins og alltaf áður… erum föst í sporinu. Námskeiðsmappan og eyðublöðin sem fylgja henni geta hjálpað þér að hugsa um námskeiðið upp á nýtt OG hún getur verið stuðningur við nýja kennsluhætti.

Á þennan hátt getur þú stuðlað að aukinni ánægju þátttakenda, því þeir smitast af öryggi þínu við kennsluna og geta slappað af og notið þess að taka þátt í námskeiðinu. Það hefur sýnt sig að þátttakendur á námskeiðum taka vel eftir því hvort leiðbeinandi hafi undirbúið sig vel og er öruggur, það virðist auka trú þeirra á því að þeir læri eitthvað og þeir verða tilbúnari að taka þátt og læra nýja hluti.

Undirbúningur fyrir næstu skipti sem þú heldur námskeiðið tekur mun styttri tíma, því allt er á einum stað og þú ert fljót/ur að setja þig aftur inn í efnið og getur án mikillar fyrirhafnar haldið velheppnað námskeið á ný. Sömuleiðis er lítið mál að breyta hlutum námskeiðsins og smeigja breyttu efni inn á réttan stað í möppuna.

Með þessu móti hefur þú allt efni sem tengist námskeiðinu á einum stað: Gátlista, gögn, dagskrár, hugmyndir, þátttakandalista og samskipti í tengslum við námskeiðið.

Sem sagt; faglegri vinna, meira öryggi og aukin gæði og minni fyrirhöfn til framtíðar.

Innihald námskeiðsmöppunnar

Hvað þarftu?

Þú þarft að kaupa eða finna bréfabindi, millispjöld og ef til vill nokkra plastvasa.

Þá þarftu að hala niður sniðmáti . (Sniðmát er skjal sem býr til afrit af sjálfu sér þegar þú opnar það í tölvunni þinni, þannig að þú opnar alltaf afrit af skjalinu og breytir aldrei frumeintakinu. Sniðmát innihalda gjarnan stillingar eins og spássíu, grunnleturgerð og stærð en svo má líka hafa innihald, gátlista og fleira til að flýta fyrir. Þannig er þetta sniðmát.

Ég hef notað þetta sniðmát oft við skipulagning námskeiða. Sniðmátið fékk ég hjá kennara mínum próf. Jost Reischmann sem kenndi kennslufræði fullorðinna við háskólann í Bamberg Þýskalandi. Siðan þá hef ég þróað sniðmátið aðeins og lagað að íslenskum aðstæðum.

Innihaldið

Hér á eftir kemur lýsing á sniðmátinu og þáttum þess og þar með möppunnar

Forsíða

Það er um að gera að búa til sérstaka forsíðu fyrir námskeiðsmöppuna, merkja hana með nafni námskeiðins, nafni þínu ásamt heimilisfangi og „kontakt“-upplýsingum um þig. Þannig gefur þú möppunni fagmannlegt yfirbragð – það styrkir þig í vinnunni – og ef þú skyldir gleyma möppunni er ljóst hvert á að skila henni.

Efnisyfirlit

Þú getur bæði skrifað á efnisyfirlitið sem fylgir stundum nýju bréfabindi eða notað sniðmátið sem fylgir og prentað það.

Skipulagning

Bak við fyrstu flipa/milliblöð möppunnar setur þú alls konar skjöl sem tengjast skipulagningu námskeiðsins: Í fyrsta lagi námskeiðslýsinguna. Hún er lýsing á námskeiðinu sem þú skrifar fyrir væntanlega þátttakendur og getur notað í auglýsingaskyni fyrir námskeiðið.

Á bak við fyrstu getur þú líka sett annað efni sem tengist skipulagningu námskeiðsins eins og dagskrá, kynningarbréf, samskipti við námskeiðshaldara/viðskiptavin o.s.frv. og hagnýta hluti eins og akstursleiðbeiningar, kort o.fl….

Gátlistar

Sniðmátið inniheldur nokkra gátlista. Með því að svara spurningum þeirra getur þér gengið betur að skipuleggja námskeiðið. Gátlistarnir gefa þér tækifæri til að hugsa um námskeiðið í heild, gagnsemi þess og það sem nemendur fá út úr því. Það hjálpar þér að skipuleggja einstaka þætti námskeiðsins.

Þá eru gátlistar yfir hagnýta hluti bæði sem snúa að skipulagningu námskeiðsins, undirbúningi þess að halda það ásamt hatnýtum atriðum sem þú vilt muna fyrir hvern dag.

Aðgerðir fyrir námskeiðið

Gátlistar og milliblöð leiða þig einnig í gegnum ferli við að skipuleggja upphaf námskeiðsins, endi þess, skipulag námsumhverfisins (eins og t.d. uppröðun í stofu), áætlun fyrir samskipti þín við nemendur fyrir og eftir námskeiðið og önnur hagnýt atriði.

Námsgögn

Í möppunni er sérstakur kafli fyrir efni sem er í vinnslu og annar fyrir frumrit sem þú ljósritar eða prentar fyrir þátttakenedur

Nákvæm dagskrá og öll gögn fyrir hvern dag/skipti

Sniðmátið inniheldur töflu til að skipuleggja hvern dag eða hvert skipti námskeiðsins. Þar fyllir þú nákvæmlega út hvað þú ætlar að gera mínútu fyrir mínútu og útlistar hvers vegna þú ætlar að gera það og hvað þú þarft að passa upp á að hafa við hendina til að geta útfært allt á viðeigandi hátt. Taflan hjálpar þér við skipulagninguna, því hún fær þig til að setja í orð rökstuðning fyrir hverri aðferð, hverju skrefi og hverju innihaldi og verkefni á námskeiðinu. Hún hjálpar þér líka til fylgjast með hvort þú munir svæfa þátttakendur með of mikilli einstefnu í kennslunni 😉

Í sama hluta möppunnar setur þú útprentun á glærum og annað sem þú þarft að hafa við hendina viðkomandi skipti. Það er eitt milliblað fyrir hvern dag/skipti, á bak við það setur þú allt sem þú þarft að hafa við hendina þann daginn.

Áætlun fyrir heimfærslu

Það er lítið gagn í því fyrir fólk að taka þátt í námskeiði ef það eykur ekki við þekkingu og færni sína með þátttökunni. Þess vegna er nauðsynlegt að huga að því hvernig þú ætlar að hjálpa þátttakendum til að nýta það sem þeir hafa lært þegar heim er komið. Hvaða aðgerðir, verkefni eða kennsluaðferðir notar þú til að auka líkurnar á því að þátttakendur nýti það sem þeir lærðu í lífi og starfi. Hér skráir þú áætlun um slíkt.

Mat

Síðasta skrefið við undirbúning og framkvæmd námskeiðs er að meta hvernig til tókst. Þannig að þú setur í möppuna allt efni sem tengist námsmati og námskeiðsmati. Áætlun um námsmat snýr að því hvernig þú ætlar að meta eða hjálpa þátttakendum til að meta að hve miklu leiti þeir hafa náð markmiðum námskeiðsins? Áætlun um námskeiðsmat; lýsir því hvernig þú ætlar að finna út hversu vel námskeiðið / námsferlið virkaði fyrir þátttakendur til að ná markmiðum sínum. Að lokum er ástæða fyrir þig að spá i hvernig þú metur þú námskeiðið sjálf/ur í hvert sinn sinn sem þú heldur það: Hvað gekk vel þetta skiptir, hvað viltu passa uppá að gera næst og hvað ætlar þú að gera öðru vísi næst?

Kennslufræðilegur rökstuðningur

Ekki er úr vegi að skrá hjá sér hér og þar í möppunni rökstuðning fyrir því hvers vegna þú velur tilteknar aðferðir, uppröðun, námsefni. Slík ígrundun hjálpar þér að vega og meta árangurinn og gefur þér viðmið þegar þú vilt breyta skipulagi námskeiðsins síðar.

Öll nauðsynleg gögn

Námskeiðsmappan inniheldur sem sagt eintök af öllum glærum, dreifildum og öðrum gögnum sem þú dreifir eða notar við kennsluna. Með því að búa til áþreifanlega möppu sem inniheldur allt sem þú þarft þegar þú ætlar að halda námskeið útbýrð þú þér verkfæri sem auðveldar alla útfærslu námskeiðsins. Þú eykur öryggi þitt og tryggir að þú gleymir engu.

Hér fyrir neðan eru slóðir í skjöl sem þú getur halað niður og notað til að styðja við skipulagningu námskeiða þinna. Svo getur þú prentað niðurstöðuna og raðað blöðunum í bréfabindi ásamt öðrum gögnum. Þetta er sérlega gagnleg og áhrifarík leið til að skipuleggja námskeið bæði þegar þú ert ný/r í kennslu, námskeiðið er nýtt, eða þú ætlar að breyta einhverju í kennslunni þinni.

Sæktu skjölin hér:

Skildu eftir svar